Tengt Siglufirði
mbl.is 10. júní 2016 | Minningargreinar
Jón Skaftason fæddist á Akureyri 25. nóvember 1926. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð 3. júní 2016.
Sonur hjónanna Skafta Stefánssonar, útgerðarmanns og síldarsaltanda frá Nöf, f. 6. mars 1894, d. 27. júlí 1979, og Helgu Jónsdóttur húsfreyju, f. 16. október 1895, d. 11. júní 1988.
Systkini:
Jón kvæntist Hólmfríður Gestsdóttir, f. á Seyðisfirði 3. apríl 1929, þann 6. apríl 1950. Hólmfríður er dóttir hjónanna Gests Jóhannssonar, verslunarfulltrúa á Seyðisfirði, f. 12. janúar 1889, d. 12. mars 1970, og Hólmfríðar Jónsdóttur húsfreyju, f. 25. júní 1890, d. 4. apríl 1970.
Börn þeirra hjóna eru:
Jón var alinn upp á síldarplani foreldra sinna, Nöf, á Siglufirði. Stúdent frá MA 1947, en í MA kynntist hann eftirlifandi eiginkonu sinni. Próf í lögfræði frá HÍ 1951. Héraðsdómslögmaður 1955 og hæstaréttarlögmaður 1961. Fulltrúi hjá ríkisskattanefnd og í fjármálaráðuneytinu. Í bæjarstjórn Kópavogs 1958-1962.
Þingmaður fyrir Framsóknarflokkinn í Reykjaneskjördæmi 1959-1978. Yfirborgarfógeti í Reykjavík frá 1979 og síðar fyrsti sýslumaður Reykjavíkur til loka árs 1993. Var formaður Síldarútvegsnefndar, formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, formaður Íslandsdeildar alþjóðaþingmannasambandsins, formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands og formaður Dómarafélags Íslands. Sat allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna 1971.
Útför Jóns fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 10. júní 2016, klukkan 13.
----------------------------------------------------------
Mamma kenndi okkur ungum að menn skrifuðu ekki minningargreinar um foreldra sína. Það síaðist líka inn í okkur að eitthvað væri til í fimmta boðorðinu, um að heiðra skyldi föður sinn og móður.
Fyrir vikið finnst okkur ekki rétt að víkja að því mörgum orðum að við höfum öll talið pabba jafngóðan mann og verið getur og að við eigum ekki annað en afskaplega fallegar minningar um hann. Hve vinsæll hann var hjá börnum í nágrenninu, sem iðulega bönkuðu upp á og spurðu hvort Jón Skaftason gæti komið út að leika sér. Því síður viljum við vekja máls á því að hann hafi verið barnabörnum sínum frábær afi og þau dáð hann og dýrkað.
En við viljum, fyrir hans hönd, fá að þakka frábæru fólki á Sunnuhlíð. Vistin þar var honum örugglega ekki alveg auðveld, frekar en síðustu nokkur árin. Það átti ekki við hann að vera upp á aðra kominn, sem hann því miður varð við ævilok. En fólkið á Sunnuhlíð lét hann ekki finna fyrir því. Það umvafði hann ást og umhyggju og gerði honum síðustu metrana á lífsleiðinni svo góða sem verið gat.
Segja má að í því felist starf þeirra sem á Sunnuhlíð vinna. En við erum sannfærð um að þetta risti dýpra en svo. Atlætið og ástúðin sem pabbi naut var ekki eitthvað sem fæst aðeins fyrir laun. Raunveruleg væntumþykja og virðing bjó að baki. Fyrir það fæst ekki nógsamlega þakkað en fyrir það erum við óendanlega þakklát, okkar vegna og fyrir hönd pabba og mömmu.
Gestur, Helga, Skafti og Gunnar.
------------------------------------------------------
Jón Skaftason, tengdafaðir minn, er látinn á nítugasta aldursári. Mér er enn í fersku minni þegar Gestur minn kynnti mig fyrir foreldrum sínum á þessum tíma árs fyrir 48 árum. Jón var þá þingmaður Framsóknar í Reykjaneskjördæmi, afskaplega myndarlegur og hlýlegur maður.
Í áranna rás fékk ég að reyna hvílíkum mannkostum Jón var gæddur. Öllu mótlæti tók hann af æðruleysi en þegar vel gekk voru viðbrögðin hófstillt.
Jón var mikill fjölskyldumaður. Elskur að börnum sínum, barnabörnum og systkinum. Í þeim hópi voru hans bestu vinir. Hann var mikið snyrtimenni. Jafnan óaðfinnanlega klæddur og allt í kringum hann í röð og reglu.
Jón hafði mikinn áhuga á þjóðmálum og pólitík almennt og fylgdist vel með heimsmálunum. Minnisstæðar eru stundirnar þegar fjölskyldan kom saman í hádeginu á sunnudögum. Málin voru rædd og barist um orðið. Allir höfðu eitthvað til málanna að leggja. Í öndvegi sat Jón og stýrði umræðunni af hlýju og þeirri list sem hann kunni svo vel. Engar skoðanir voru öðrum rétthærri.
Jón gladdist þegar hans fólki gekk vel. Hann gerði kröfur til annarra en þó fyrst og fremst til sjálfs sín. Hann gekk til allra verka af þvílíkum dugnaði og elju að maður óttaðist stundum að hann gengi fram af sér. Skipti þá ekki máli hvort hann var að vinna í garðinum, að mála húsið eða ryksuga heimilið á sunnudagsmorgni. Á þessum árum kunnu börnin ekkert sérstaklega vel að meta sunnudagsþrif pabba síns. Það fyndna er að á fullorðinsaldri hafa a.m.k. sum þeirra tekið upp sömu siði.
Jón og Hólmfríður kynntust í Menntaskólanum á Akureyri. Elsta barn þeirra, Gestur, fæddist þegar Jón var í námi við Háskóla Íslands. Hann lagði hart að sér við laganámið og lauk því á fjórum árum. Jafnframt hafði hann úti allar klær við tekjuöflun og rak m.a. fiskbúð um skeið. Þrátt fyrir þetta var oft þröngt í búi hjá ungu hjónunum. Með tímanum urðu efnin meiri og þegar Jóni leið þannig að hann ætti nóg fyrir sig var hann ætíð tilbúinn að rétta börnum sínum og síðar barnabörnum hjálparhönd. Hann var ákaflega örlátur á allt sitt.
Síðustu árin voru tengdaföður mínum erfið. Hann var ósáttur við þverrandi þrek og honum féll illa þegar minnið brást honum. En aldrei brást elskulegum tengdaföður mínum samræðulistin. Betri hlustandi var vandfundinn.
Að leiðarlokum vil ég þakka Jóni samfylgdina, hlýjuna og skilninginn sem hann sýndi mér. Ekki er hægt að hugsa sér betri tengdaföður.
Margrét Geirsdóttir.
---------------------------------------------------------
Tengdafaðir minn, Jón Skaftason, er látinn nær níræður. Ég vil í nokkrum orðum minnast hans.
Ég var unglingur, aðeins 17 ára, er ég kom inn í tengdafjölskylduna. Ég hef því verið svo heppin að fylgja Jóni tengdaföður í hátt í 40 ár.
Jón var séntilmenni, prúður og mikill snyrtipinni. Sérlega myndarlegur og glæsilegur. Það var þó umfram allt ástríki hans og umhyggja fyrir velferð fjölskyldunnar sem mestu skipti. Hann var vakinn og sofinn yfir börnum og barnabörnum. Hann passaði upp á að barnabörnin væru vatnsgreidd og með vel klipptar neglur.
Ef við fjölskyldan skruppum í utanlandsferð voru fastir liðir að tengdó komu við í Hólahjallanum og kvöddu okkur með kossi. Vart vorum við svo lent aftur á heimleið er afi Jón var búinn að hringja og athuga með fjölskylduna. Oftast vorum við enn í flugstöðinni en a.m.k. náðum við aldrei til Straumsvíkur áður en síminn hringdi. Þetta þótti okkur afskaplega vænt um.
Jón var, eins og fyrr sagði, fyrirmyndar snyrtimenni. Alltaf að snurfusa og hreinsa til og duglegur að láta hluti frá sér. Hann var svo iðinn við að mála Sunnubrautina að innan sem utan að málningin þornaði vart áður en hafist var handa við næstu umferð. Eftir að fór að hægjast um í vinnu skellti hann sér í garðyrkjuna af fullum krafti og á skömmum tíma varð garðurinn á Sunnubrautinni einn mesti skrúðgarður bæjarins. Jón nostraði við garðinn og gafst ekki upp í baráttunni við mosann. Hann vorkenndi þó alltaf greyið mosanum þegar hann eitraði fyrir honum.
Minningarnar streyma fram. Ég man er ég var tiltölulega ný í fjölskyldunni er tengdapabbi hafði skroppið til útlanda. Heim kom hann færandi hendi og hafði keypt handa mér rauðan kjól. Þetta var stórkostlegt er maður hugsar til baka. Kjarkaður var hann!
Jón var ræðuskörungur enda þingmaður til margra ára. Hann flutti iðulega tækifærisræður. Á stórafmæli mínu fyrir nokkrum árum kvað hann sér hljóðs og hélt eina góða ræðu. Þarna var hann 85 ára. Þetta var líklega síðasta tækifærisræða hans og mikill heiður fyrir mig.
Að lokum vil ég þakka yndislegum tengdaföður og afa barnanna minna samfylgdina.
Hvíl í friði. Þín tengdadóttir, Kristín Þórisdóttir.
------------------------------------------------------------
Þegar afa Jóns er minnst er okkur þakklæti efst í huga. Hann var einstaklega ljúfur maður og góður við okkur barnabörnin sín eins og afar eiga að vera. Minnisstætt er þegar hann talaði einu sinni sem oftar úr ræðupúlti Alþingis í útsendingu sjónvarpsins. Stoltið var mikið yfir því að afi okkar væri í sjónvarpinu og öllum sem vildu hlusta var tilkynnt um þennan stórviðburð. Því eins og öll börn vita er bara merkilegt fólk í sjónvarpinu. Eitthvað reyndist erfiðara að átta sig á því um hvað var rætt hverju sinni, en afi sýndist rökfastur og ákveðinn á þessum vettvangi þótt barnshugurinn sé sjálfsagt ekki besti dómarinn í því efni.
Það var samt ekki þessi maður sem mætti okkur barnabörnunum þegar komið var í heimsókn á Sunnubrautina. Þar var hann ljúfmennskan og gjafmildin uppmáluð og tók alltaf vel á móti okkur. Mörgum stundum eyddum við saman við alls kyns dútl þar sem hann var ýmist þátttakandi eða viðfang. Upp í hugann koma atvik þar sem honum var vatnsgreitt þar til skyrtan rennblotnaði, hann látinn leysa alls kyns þrautir og sýna töfrabrögð á borð við brotna puttann sem vakti ávallt lukku.
Oft sátum við hjá honum og hlustuðum á sögur af lífinu á Siglufirði og þótti mikið til koma. (Hvern langar ekki að geta að minnsta kosti sagst hafa stokkið niður af húsþaki ofan í hyldjúpan snjóskafl?) Þá hlógum við saman að stríðnisögum afa okkar þar sem Gulli, yngri bróðir hans, var einatt fórnarlambið. Aldrei stríddi hann þó okkur, barnabörnunum.
Einnig hefur rifjast upp tilraun sem gerð var til að athuga hve mikið þyrfti til að gera afa reiðan. Skemmst var frá því að segja að það mistókst herfilega þrátt fyrir alls kyns óknytti en samviskubitið yfir því að hafa komið svona illa fram við hann að ósekju logaði lengi á eftir. Enda sannaðist þar endanlega að afi varð aldrei reiður – að minnsta kosti ekki við okkur barnabörnin sín.
Það var líka gott að spjalla við hann um ýmislegt og hann hafði mikinn áhuga á að heyra hvaða skoðanir við barnabörnin höfðum á ýmsum þjóðþrifamálum, sérstaklega þegar við eltumst. Erfiðara reyndist að fá hann til að lýsa sínum skoðunum, en það var ekki síður skemmtilegt að hlýða á það. Afi hafði einstaklega góða og fallega nærveru og studdi okkur með ráðum og dáð í hverju því sem við tókum okkur fyrir hendur. Það er ekki lítilsvert.
Að leiðarlokum langar okkur að færa starfsfólki Sunnuhlíðar alúðarþakkir fyrir hlýlega framkomu og hjartagæsku sem mun seint gleymast okkur aðstandendum.
Hólmfríður, Geir, Jón Skafti
og Árni.
------------------------------------------------------
Við systkinin eigum ótal minningar af afa okkar, Jóni Skaftasyni, og þær eru allar fallegar. Hann kunni betur en flestir fullorðnir að umgangast börn, kannski vegna þess að hann mundi svo vel eftir eigin æsku á Siglufirði. Þegar stórfjölskyldan kom saman skiptist hún gjarnan í tvær fylkingar: Á meðan fullorðna fólkið ræddi menn og málefni sátum við börnin í hring í kringum afa, eins og agnarsmá hirð, og veltumst um af hlátri af sögum af því þegar hann var lítill. Í sögunum voru systkinin á Nöf eins og börnin á Ólátagarði, samheldnir prakkarar í hringiðu skrautlegs mannlífs á síldarárunum.
Afi var líka snargöldróttur. Með honum fylltust eyrun af tíköllum, brenni og bláum ópal og bílskúrshurðir gengu fyrir hugarorku. Hann gat stolið af manni nefinu og höggvið af sér fingur, en allt greri jafnóðum. Svo var bíllinn hans með fluggír, þótt venjulega kæmi grænt ljós rétt í þann mund sem við vorum að takast á loft.
Á Sunnubrautinni opnuðum við systkinin hárgreiðslustofu þar sem afi var aðal-, og raunar eini, viðskiptavinurinn. Með vatnsglas og greiðu að vopni prófuðum við okkur áfram með allt frá klassískum herragreiðslum yfir í framúrstefnulegt pönk. Afi var fyrirmyndarkúnni, jafn ánægður með allt saman – og blessunarlega ekki hársár.
En afi var ekki bara fyndinn og uppátækjasamur, hann var líka
hlýr og umhyggjusamur. Þegar pabbi og mamma voru í útlöndum og söknuðurinn yfirþyrmandi var ekkert betra en að kúra í fanginu á afa. Þá strauk hann á manni vangann
og raulaði lag þar til manni leið betur. Hann gerði líka heiðarlega tilraun til að kenna okkur að meta klassíska tónlist.
Á meðan hann vann í garðinum eða dyttaði að
húsinu spilaði hann sinfóníur og óperur. Við skottuðumst í kring og hann reyndi að opna fyrir okkur huliðsheim tónlistarinnar: „Heyriði, núna er veisla! Það er að
vora! Hetjan okkar er að kveðja og grætur!“
Á gagnfræðaskólaárunum í Þinghólsskóla gengum við oft til afa og ömmu í hádegismat. Ekki brást það að þau báru á borð matinn sem þau töldu mest höfða til okkar í bland við sterku ostana og hræringinn sem þau voru sjálf hrifnari af. Svo hlustuðum við á hádegisfréttir á RÚV og ræddum daginn og veginn.
Á aðfangadag fór afi með okkur í messu í Kópavogskirkju. Rétt fyrir sex vorum við fjölskyldan undantekningarlaust á harðaspani að klára jólaundirbúning. Svo renndi afi í hlaðið að sækja okkur, óaðfinnanlega fínn og pollrólegur. Þá voru jólin komin. Afi dottaði oft á meðan presturinn predikaði en það lifnaði yfir honum þegar kom að söngnum. Hann var svo söngglaður að oft heyrðist betur til hans en kórsins.
Þegar við urðum eldri lærðum við betur að meta forvitni og fróðleik afa. Hann var víðlesinn og vel að sér, einkum í sögu og heimsmálum. Okkur fannst sérstaklega gaman að heyra af upplifun hans af alþjóðastjórnmálum síðustu aldar, sem hann var svo heppinn að kynnast í gegnum störf sín. En fyrst og fremst var afi okkur fyrirmynd að því hvernig á að lifa lífinu fallega, rækta garðinn sinn og hugsa um fólkið sitt.
Takk fyrir allt, elsku afi.Oddný, Sólveig og Gunnlaugur Helgabörn.
---------------------------------------------------------------------------------
Þegar ég hugsa til afa míns og alnafna sé ég hann fyrir mér sitjandi í rólegheitum í stólnum sínum – að lesa Economist. Eða beran að ofan að mála Sunnubrautina í þriðja skiptið það sumarið. Þannig var afi, alltaf að. Hann fór í meistaranám í Ameríku að verða sjötugur og hætti aldrei að lesa, sækja fyrirlestra og afla sér þekkingar.
Bókasafnið á skrifstofunni hans bar þess líka merki. Heilu hillustæðurnar um allt frá Róm hinni fornu til Síldarævintýrisins á Siglufirði. Ég held þó raunar að afa hafi þótt meira koma til þess síðarnefnda.
Skrifstofan hans afa varð mér sem annað heimili þegar ég var í menntaskóla og síðar í háskólanum. Þangað kom ég og lærði, borðaði með afa og ömmu, við spjölluðum og ég fræddist. Stundum horfðum við á fótbolta.
Við afi nutum félagsskapar hvors annars. Það fékk ég staðfest einhverju sinni þegar ég hringdi á undan mér og boðaði komu mína í hádegismat. Þegar ég mætti kom á daginn að hann hafði ekki sagt mér að amma hafði brugðið sér af bæ. Við þyrftum því að bjarga okkur sjálfir. Félagsskapurinn var betri en maturinn það hádegið.
Afi var líka alltaf ímynd heilsuhreysti í mínum huga. Hann vaknaði við fyrsta hanagal og synti, gekk mikið og var góður skíðamaður. Ég minnist þess meira að segja að hann hafi synt yfir Kópavoginn og komið á land í Arnarnesinu. Amma gerði nú lítið úr því og sagði hann hafa verið að ganga í augun á einhverjum flugfreyjum. Húmoristi hún amma.
Glæsimennið hann afi minn var góður í öllu að mér fannst, nema að aka bíl. Hann játaði því heldur aldrei né neitaði að hafa fengið ökuskírteinið að gjöf frá Stebba bróður sínum þegar Stebbi var sumarlögga á Siglufirði.
Ég hef notið þess á ýmsa vegu í lífinu að vera sonarsonur og nafni hans afa. Einhverju sinni fór ég í munnlegt próf í háskólanum og dró spurningu sem mér hugnaðist ekki. Heppnin var þó með mér því að prófdómarinn, virðulegur hæstaréttarlögmaður, fór að spyrja hvernig afi hefði það. Fræddi mig síðan um þeirra góðu kynni næstu mínútur. Ég fékk ágætiseinkunn á því prófi án þess að svara nokkurn tíma spurningunni sem fyrir mig var lögð.
Afi minn var glæsilegur maður og einstaklega góðhjartaður. Það er sárt að kveðja hann en ég mun ávallt brosa út í annað þegar ég sé hann fyrir mér, sólbrúnan og sællegan. Alltaf að.
Takk fyrir samfylgdina, elsku afi. Vonandi stend ég undir þínu góða nafni þegar fram í sækir.
Jón Skaftason yngri.
------------------------------------------------
Afi okkar Jón var svo góður karl að halda mætti að hann hefði verið persóna úr einni af fjölmörgum ýkjusögum hans. Góðmennska og gæska skein úr himinbláum augum hans og gleði blasti við í stóru og glettnu brosi. Enginn töframaður hefur sýnt aðra eins hæfileika í að draga heilu fjársjóðina úr eyrum barna eða grætt eins mörg nef á sem voru nýslitin af.
Afi Jón var einstakur snyrtipinni. Bæði klæddi hann sig óaðfinnanlega og gætti vel að því að halda Sunnubrautinni fallegri. Hann gekk um með greiðu og tannstöngul og stutt var í naglaklippur. Jón, nafni afa og langyngsta barnabarn, varð ósjaldan fyrir barðinu á klippunum þegar afa þótti lengd nagla vera komin út fyrir velsæmismörk.
Minnisstæð er heimsókn á Sunnubrautina þar sem við Þórir og Gestur göbbuðum Ingunni á leikskólaaldri með æðislegum gylliboðum til að fá stórt fiðrildatyggjótattú yfir ennið. Prakkaraskapur eldri bræðranna, erfður frá afa, gekk þá fram af snyrtimennsku hans og við tók heljarinnar skrúbbun við að þrífa óskapnaðinn af enni barnsins. Afi var alls ekki tilbúinn að gefast upp þótt afar erfiðlega gengi að ná fiðrildinu af.
Afi hafði ofboðslega gaman af því að fá okkur barnabörnin til að hlæja og komst fljótt að því að góð aðferð til þess var að stríða ömmu örlítið. Þegar fjölskyldan sat fyrir framan sjónvarpið og horfði á fréttir, einkum veðurfréttir, hvíslaði afi oft að manni að hann væri svolítið skotinn í fréttaþulunni. „Alls ekki segja ömmu þinni þetta,“ hvíslaði hann svo. Hann passaði upp á að hvísla nógu hátt til að allir í herberginu heyrðu. Amma tók svo þátt í gríninu, þóttist vera voðalega afbrýðisöm og við systkinin roðnuðum niður í tær.
Þegar aldurinn færðist yfir þurftu afi og amma stundum á örlítilli aðstoð að halda, til dæmis við að slá garðinn eða finna út úr því hvernig öll þessi flóknu tæki virkuðu. Þessa aðstoð vorum við að sjálfsögðu tilbúin að veita enda höfðu afi og amma margfalt unnið sér inn fyrir henni. Hins vegar mislukkuðust tilraunir til að gera afa greiða nánast alltaf. Allir greiðar fóru á þann veg að hann launaði fyrir þá með því að lauma, jafnvel þvinga, launum að barnabarni sínu sem voru úr öllu samhengi við hvert erfiðið var. Það er ofsalega sárt að kveðja þig, elsku afi okkar. Við verðum þó ævinlega þakklát fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum með þér og fyrir allar dýrmætu lífsreglurnar sem þú kenndir okkur.
Hvíl í friði, elsku afi. Þórir, Gestur, Ingunn og Jón Gunnarsbörn.
--------------------------------------------------------------
Afi minn, Jón Skaftason, er látinn. Margs er að minnast að leiðarlokum og margt að þakka. Afi var í senn skemmtilegur, góður afi og bráðgreindur. Hann ferðaðist víða, átti gott og kært samband við fjölskyldu sína. Samband hans og ömmu er með því fallegra sem ég hef þekkt. Ég hef ekki tölu á því hversu oft afi sagði mér frá örlagastundinni. Hann stóð á bryggjunni en hún við lunninguna um borð í Esjunni, sem lagðist í höfn á Akureyri. Hann sagði við félaga sinn: „Ég ætla að ná í hana.“ Það stóð heima. 71 ári síðar kveður amma eiginmann sinn og besta vin.
Afi hvatti mig til að ferðast sem lengst og mest. Við fjölskyldan og síðar ég sjálf ferðuðumst talsvert og bjuggum í útlöndum um lengri og skemmri hríð. Skemmtilegast af öllu fannst honum að hlusta á ferðasögur á Sunnubraut, yfir kleinum. Þær stundir eru kærustu minningarnar sem ég á um afa.
Hann uppgötvaði snemma að ég hafði áhuga á þjóðmálum, sem honum fannst ekki leiðinlegt enda hafði hann verið í pólitík og setið lengi á þingi. Ég var kannski tíu ára þegar ég sat með honum á Sunnubraut og spurði hver ætti eiginlega allan fiskinn. Hann gerði heiðarlega tilraun til að útskýra fyrir mér kvótakerfið. Ég hlustaði af eftirtekt. Það var raunar ein af náðargáfum afa. Hann gat látið kvótakerfið hljóma skemmtilega fyrir tíu ára barn.
Þegar ég sagði afa að ég ætlaði ekki í lögfræði eftir menntaskóla, sem er eins konar fjölskyldusport, hló hann og sagði: Gott hjá þér, Ólöf mín. Þú ert líka svo frumleg og þessir lögmenn eru svo leiðinlegir. Þessu hlógum við að lengi á eftir, enda sinnti hann störfum tengdum lögmennsku lengi og um það bil níutíu og fimm prósent fjölskyldunnar fylgdu í fótspor hans. Honum fannst lögmenn ekkert leiðinlegir. Hann bara studdi mann alltaf, í öllu.
Afi var líka alltaf svo reffilegur og hélt úti fallegasta garði í Kópavogi og þótt víðar væri leitað. Raunar margverðlaunuðum garði. Þegar hann var ekki klæddur eins og klipptur út úr herratískutímariti, eins og hann var svo gjarnan, var hann ber að ofan með derhúfu aftur á bak að huga að garðinum. Alltaf eins og nýkominn úr sólarlandaferð, hraustlegur, sólbrúnn og síungur, langt fram eftir aldri.
Á Sunnubraut var alltaf gestkvæmt og gaman að koma. Undir það síðasta dvaldi hann á Sunnuhlíð, við hlið ömmu, þar sem hlúð var að honum af nærgætni og umhyggju, eins og hann átti skilið. Það skal engan undra að afi hafi verið uppáhald allra í Sunnuhlíð. Hann var uppáhald allra, alls staðar sem hann kom.
En nú skilja leiðir. Ég mun ylja mér við minningarnar um hann um ókomna tíð. Ég mun alltaf sakna hlýja faðmsins hans afa. Þín,
Ólöf.
-----------------------------------------------------
Elsku Jón.
Það voru forréttindi að kynnast ykkur Hólmfríði í gegnum eiginkonu mína, Sólveigu Helgadóttur, barnabarn ykkar hjóna. Það eru liðin nokkur ár síðan ég kom inn í fjölskylduna og við höfum oft átt dásamlegar stundir á þeim tíma. Eftirminnilegast er líklega ferðalag okkar til Bandaríkjanna, þegar við lögðum land undir fót og flugum saman til Washington DC. Þar fórum við saman í langar gönguferðir og áttum áhugaverðar samræður um allt á milli himins og jarðar. Þú fórst á flug í frásögnum, sagðir okkur frá þingsetu þinni og ferðalögum um víða veröld, uppvaxtarárunum á Siglufirði og þeim tíma er þið hjónin dvölduð í Bandaríkjunum hjá Helgu og fjölskyldu.
Þú varst mikill orðsins maður en á sama tíma svo jarðbundinn og hógvær og það var einmitt það sem gerði frásagnirnar svo dásamlegar. Dramb var ekki til í þér og má það eiginlega merkilegt teljast; maður sem átt hefur ævi eins og þú gæti hæglega haft tilhneigingu til þess að gera mikið úr sínu. Þess í stað varstu auðmjúkur og þakklátur fyrir það sem þú áttir og það sem þú hafðir fengið að upplifa á lífsskeiði þínu.
Þegar við Sólveig bjuggum í Kópavogi komum við oft við hjá ykkur Hólmfríði, yfirleitt án þess að gera boð á undan okkur. Alltaf tókuð þið svo dásamlega vel á móti okkur og voruð þakklát fyrir heimsóknina. Í raun varstu almennt þakklátur fyrir tilveru þína – fyrir útsýnið út á Kópavoginn, fyrir fallegt veðurfar og fyrir það að eiga góða fjölskyldu.
Þú varst þakklátur fyrir eiginkonu þína, fyrir uppvaxtarárin, fyrir námsárin og fyrir starfsævina. Þú varst þakklátur fyrir Sundlaugina í Kópavogi og fyrir það að við kjöftuðum ekki frá minniháttar umferðaróhöppum þínum, til dæmis þegar þú renndir frambrettinu á bílnum meðfram hleðslunni í hlaðinu. Ég dáðist að þessu í fari þínu, þakklætinu sem var svo einkennandi fyrir þig.
Aldrei heyrði ég þig heldur hallmæla nokkrum manni. Ég trúi því tæpast að allt samferðafólk þitt hafi öllum stundum verið þér að skapi, en þú kunnir að leita frekar eftir því sem var jákvætt og líta framhjá hinu. Það er eiginlega hægt að segja að þú hafir, eftir því sem ég kemst næst, lifað lífi þínu eftir hinu skilyrðislausa skylduboði Kants sem sagði: Breyttu einungis eftir þeirri lífsreglu sem þú getur viljað að verði að almennu lögmáli.
Elsku Jón, ég á eftir að sakna þess að sitja þér við hlið, ræða við þig og horfa með þér út yfir Kópavoginn. Megir þú hvíla í friði og ég trúi því innilega að vel hafi verið á móti þér tekið þegar þú kvaddir okkur og þetta jarðneska líf. Takk fyrir samverustundirnar, kæri vinur.
Bóas Hallgrímsson.
--------------------------------------------------------
Fáeinum vikum eftir að Jón Skaftason varð yfirborgarfógeti í Reykjavík birtist inni á gólfi hjá honum ungur maður sem ekki hafði gert boð á undan sér og Jón vissi engin deili á. Sá var trúlega haldinn meira sjálfsáliti en efni stóðu til og falaðist eftir ábyrgðarstarfi sem þar var að losna. Viðbrögð Jóns einkenndust af eðlislægri háttvísi hans – hann gaf sér tíma til að ræða málið og niðurstaðan var einföld – þetta yrði skoðað.
Þetta er forsagan að starfi mínu undir stjórn Jóns sem hófst skömmu eftir þennan fund og stóð næstu 12-13 árin. Á þau samskipti bar aldrei minnsta skugga frá mínum bæjardyrum séð. Samstarfinu lauk í tengslum við víðtækar breytingar á réttarkerfi landsins og undirritaður ákvað þá að breyta til. Vináttan við Jón hefur þó haldist óbreytt síðan þótt auðvitað hafi samskiptin orðið minni.
Jón var einhver notalegasti maður sem ég hef kynnst og mikill karakter. Starfsemi borgarfógetaembættisins var geysilega fjölbreytt og verkefnin mörg lögfræðilega flókin. Jón hafði lengst af áður verið stjórnmálamaður. Í hinu nýja hlutverki nálgaðist hann starfið fyrst og fremst sem stjórnandi sem hefði það hlutverk að tryggja að verkefnin væru leyst þótt hann gengi ekki í öll verk sjálfur.
Þannig taldi hann menntun sína og reynslu nýtast stofnuninni best. Hann fylgdist vel með því hvernig hlutir voru gerðir og hvernig verkefnum miðaði, og lagði sig í framkróka við að búa mönnum sem best starfsskilyrði, hvort sem var í launum eða öðrum kjörum. Enginn vafi er á því að þetta vinnulag leiddi til algerra umskipta í starfsemi embættisins. Jón hafði létta lund og samskipti hans við starfsmenn voru mjög jákvæð og hvetjandi.
Þótt vitaskuld væri Jón yfirmaður embættisins fann maður aldrei annað en að öll samskipti við hann væru fullkomlega á jafnréttisgrundvelli. Aldrei varð ég þess var að Jón hefði minnstu tilburði til að hafa áhrif á meðferð eða niðurstöður mála sem ég eða aðrir hjá embættinu höfðu til úrlausnar.
Í góðra vina hópi var Jón hrókur alls fagnaðar, og þá ekki síst er þau hjónin stóðu sjálf fyrir fagnaðinum. Þau Jón og Hólmfríður, kona hans, efndu sjálf árlega til veglegrar veislu fyrir allt starfsfólk borgarfógetaembættisins ásamt mökum. Með þessu sýndu þau í verki hug sinn til starfsmanna.
Jón var mikill fjölskyldumaður og þau hjónin létu sig mjög varða hag afkomenda sinna. Hann var söngmaður góður og mikill tónlistarunnandi. Ekki má gleyma því að hann æfði og lék knattspyrnu með KR á háskólaárunum þegar svo stóð á að hann gat ekki leikið með Knattspyrnufélagi Siglufjarðar.
Þessum fátæklegu kveðjuorðum verður ekki lokið án þess að getið sé eiginkonu Jóns, Hólmfríðar Gestsdóttur, sem nú sér á bak eiginmanni sínum eftir 66 ára hjúskap. Hvort um sig hafa þau alla tíð verið glæsilegar manneskjur, ekki aðeins hið ytra heldur einnig hið innra. Við Gurrí sendum Hólmfríði, afkomendum og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur og trúum því að minningin um mætan mann muni lifa með þeim alla tíð.
Ragnar Halldór Hall.
----------------------------------------------------------------
Við andlát Jóns Skaftasonar leita á mig fleiri minningar en svo að þeim verði gerð skil í stuttu máli. Við Jón vorum jafnaldrar, fæddir árið 1926, ólumst upp við lík skilyrði, hvað atvinnuhætti snerti, kynntumst störfum til sjós og lands, markaðir af upprunanum alla tíð. Við staðnæmdumst þó ekki við störf feðra okkar, en lögðum á langskólabrautina. Við Jón vorum bekkjarbræður í Menntaskólanum á Akureyri, samstúdentar 1947. Þá hlutum við þau forlög að ílengjast í stjórnmálum, sem vissulega er hin minnisstæðasta saga. — Ég hafði því mikil og góð kynni af Jóni frá unglingsaldri til elli.
Það einkenndi Jón að hann var eins og fæddur lánsmaður. Allt lék í höndum hans, vitanlega svo að hann vissi hvað hann var að gera, en hamingjan var honum hliðholl. Þetta kom fram í námsferli hans, þar sem undansláttur kom ekki til greina. Jón varð snemma áhugasamur um þjóðmál hvers konar, býsna róttækur framan af, en fann þegar á reyndi að hann var einfaldlega hófsamur miðjumaður og einlægur lýðræðissinni. Hann tók því áskorun framsóknarmanna í nýju Reykjaneskjördæmi 1959 að bjóða sig fram á þeirra vegum. Jón dugði vel í þessum kosningum, vann reyndar stórsigur sem lengi verður minnst í sögu Framsóknarflokksins. Á eftir fór farsæl þingmennska hans nærri tvo áratugi.
Jón var lögfræðingur að mennt og reyndur hæstaréttarlögmaður. Hann var því vel að sýslumannsembætti kominn í Reykjavík þegar setu hans á Alþingi lauk. Sem sýslumaður kunni hann vel til verka sem fagmaður og góður stjórnandi þessa mikilvæga og umfangsmikla embættis.
Í einkalífi brást Jón ekki lánið. Hann fékk þeirrar konu sem hann vildi eiga og enga aðra. Þau átti miklu barnaláni að fagna. Og vinsældir Jóns náðu víða. Þar minnist ég vitaskuld þess sem mér stendur næst, hve vinartengsl okkar MA-stúdenta 1947 voru náin. Þar átti Jón stóran hlut. — Jón var umfram allt vel á sig kominn andlega og líkamlega, þrekmenni og íþróttamaður. Að lokum brást honum heilsan. Ellin hafði sitt fram. En minningin lifir þótt maðurinn falli.
Ingvar Gíslason.
-----------------------------------------------------
Mágur minn og kær vinur, Jón Skaftason, fyrrverandi alþingismaður, er látinn. Margar ánægjulegar stundir koma í hugann sem við Stefán áttum með Jóni og Hólmfríði frá því ég kom inn í fjölskylduna upp úr 1963. Samskiptin voru mikil og gefandi alla tíð og við ferðuðumst saman innan lands og utan.
Jón var elstur systkinanna á Nöf og þeir Stefán, sem var næstelstur, voru samferða í mörgu sem ungir, sprækir menn og eldri öðlingar. Eftirminnileg var ferð mín til Íslands 1963 þegar ekið var um holótta íslenska malarvegi til að skoða helstu perlur landsins; Þingvelli, Borgarfjörð, Akureyri, Mývatn, Dettifoss, að ógleymdum Siglufirðinum fagra þar sem systkinin, Jón, Stefán, Gunnlaugur og Jóhanna, ólust upp með foreldrum sínum, Helgu og Skafta á Nöf. Þessi ferð okkar um íslenskar byggðir er mér næsta ógleymanleg enda upphaf að farsælum kynnum mínum af ykkur í fjölskyldu Stefáns og langtímadvöl minni á Íslandi.
Alltaf gátum við Stefán treyst vináttu og hjálpsemi Jóns og Hólmfríðar, bæði á meðan við bjuggum erlendis og eins eftir að við fluttum alkomin til Íslands. Samverustundir urðu margar og gefandi á meðan fjölskyldan stækkaði og börnin uxu úr grasi.
Jóns verður sárt saknað. Langar mig að þakka samfylgdina með honum og óska Hólmfríði, vinkonu minni, börnum hennar og fjölskyldu huggunar á erfiðum tíma.
Maj Skaftason og fjölskylda.
----------------------------------------------------
Jón Skaftason var Siglfirðingur. Foreldrar hans voru orðlagt atorku- og kjarnafólk. Móðirin, Helga Jónsdóttir, var frá Akureyri en faðirinn, Skafti Stefánsson, frá Nöf á Hofsósi.
Síðar stundaði hann útgerð og umfangsmikla síldarsöltun á Siglufirði á söltunarstöð sinni er hann kallaði Nöf. Jón nam lögfræði og varð hæstaréttarlögmaður 1961.
Framsóknarflokkurinn vann ötullega að því á árunum í kringum 1960 að efla stöðu sína í þéttbýlinu hér sunnanlands. Eysteinn Jónsson, sem þá var helstur ráðamaður í Framsóknarflokknum, beitti sér fyrir mikilli endurnýjun í þingliði flokksins. Stuðlaði hann að því að hópur ungra lögfræðinga sóttist eftir því að taka sæti á Alþingi á vegum flokksins.
Í þeim hópi voru Ingvar Gíslason, Tómas Árnason, Einar Ágústsson og Jón Skaftason. Allir voru þetta glæsilegir menn sem létu mikið að sér kveða og voru þeir af andstæðingum í upphafi kallaðir „ puntudrengirnir hans Eysteins“. Ingvar Gíslason lifir þá einn, níræður að aldri. Jón var bæjarfulltrúi í Kópavogi en 1959 náði hann kjöri sem einn af alþingismönnum Reykjaneskjördæmis. Þótti það markverður og óvæntur kosningasigur því framsóknarmenn höfðu verið fáliðaðir á þeim slóðum. Jón hlaut góða kosningu þá og varð forvígismaður flokksins í kjördæminu í tvo áratugi.
Jón var háttvís og aðlaðandi í framkomu, ágætur ræðumaður, glöggskyggn, rökfastur og bar sig með reisn. Hann hafði einbeittar skoðanir og fylgdi þeim fast fram og var óhræddur þótt hann lenti stundum í minnihluta i þingflokknum. Honum var falinn mikill fjöldi trúnaðarstarfa, sem hann leysti vel af hendi. Þátt fyrir gott starf Jóns sem alþingismaður Reykjaneskjördæmis náði hann ekki endurkjöri vorið 1978 og hvarf af þingi.
Jón Skaftason varð deildarstjóri í viðskiptaráðuneytinu 1978 til 1979 en þá var hann skipaður Yfirborgarfógeti í Reykjavík og gegndi því starfi til 1992 og síðan var hann um tveggja ára skeið sýslumaður í Reykjavík. Lögmannsstörf stundaði Jón með öðrum verkum um langt árabil. Kona Jóns var Hólmfríður Gestsdóttir, hin mætasta kona. Þau eignuðust eina dóttur og þrjá syni. Nú er Jón Skaftason kvaddur í hárri elli. Honum eru færðar hugheilar þakkir fyrir góð störf í þágu Framsóknarflokksins og þjóðarinnar allrar.
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra.
-------------------------------------------------------------
mbl. 21. júní 2016 | Minningargrein
Jón Skaftason fæddist
25. nóvember 1926. Hann lést 3. júní 2016. Útför Jóns fór fram 10. júní 2016.
Foreldrar hanns voru Skafti Stefánsson frá
Nöf og Helga Jónsdóttir frá Akureyri.
------------------------
Jón frændi er horfinn á braut og eftir sitja ótalmargar minningar sem renna fyrir hugskotssjónum hver á fætur annarri. Ein minningagrein er ekki nógu löng til að koma að öllum þeim góðu stundum sem okkur auðnaðist að eiga með þessum mikla höfðingja og uppáhalds frænda, sem alltaf tók á móti manni með bros á vör.
Ein fyrsta og sterkasta minningin er af honum að galdra smámynt eða sælgæti úr eyranu á frændsystkinum okkar og höggva svo af sér þumalfingurinn með tilheyrandi tilþrifum einungis til að festa hann svo aftur á meðan við horfðum stóreyg og gapandi á þessi töfrabrögð. Og mörgum árum seinna horfðum við á hann uppskera nákvæmlega sömu viðbrögð og aðdáun hjá næstu kynslóð.
Hæfileikum Jóns frænda var mörgum til að dreifa. Hann átti auðvelt með samskipti við alla, háa sem lága, unga sem aldna og hlustaði með áhuga á þá sem til hans leituðu.
Hann var bóngóður með afbrigðum og hjá honum fengum við alltaf góð ráð, fulla athygli ef leita þurfti til hans, stuðning ef svo bar undir og gamansögur í bland. Oftar en ekki var hann skotspónn eigin gamansagna og hann var ávallt hrókur alls fagnaðar á mannamótum. Við slík tækifæri var hann líklegur til að bresta í söng af litlu tilefni ekki hvað síst ef systkini hans voru til staðar.
Við systkinin áttum alltaf innhlaup hjá honum og Hófi ef svo bar undir að foreldrar okkar brugðu sér af bæ og hvergi var betra að vera en hjá þeim á Sunnubrautinni. Það var á móti okkur tekið með vinsemd og hlýju sem einkenndi þau hjónin, Jón og Hófi.
Við systkinin þökkum fyrir allar þær stundir sem okkur lánaðist að eiga með Jóni og fjölskyldunni og vottum fjölskyldunni samúð okkar nú þegar ljúfur maður er genginn á vit forfeðranna sem munu taka vel á móti honum.
(Friðrik Steingrímsson)
Sigurveig
og Steingrímur.
------------------------------------------------
Mig langar að minnast vinar míns Jóns Skaftasonar með nokkrum orðum. Við og konan hans, hún Hólmfríður frænka mín Gestsdóttir, vorum sundfélagar í Laugardalslaug áratugum saman. Við hittumst stundum fyrir utan þær stundir á heimili Jóns þar sem fljótar voru að birtast nýbakaðar vöfflur og jarðarber sem húsfreyjan ræktaði í miklum mæli við bílskúrsvegginn.
Jón var einn af þessum vönduðu og yfirveguðu mönnum. Þá hæfileika sem mann sjálfan skortir verður maður að sækja til annarra og því sóttist ég ávallt eftir samræðum við Jón ef færi gafst. Hann sagði að sundlaugarferðirnar væru sér mikils virði og hjálpuðu sér að fást við þrasmálin á þinginu meðan hann var þar en Jón sat á þingi fyrir Framsóknarflokkinn í 19 vetur frá 1959 til 1978 og bæjarfulltrúi í Kópavogi 1958 til 1962. Opinberum ferli sínum lauk hann svo sem sýslumaður í Reykjavík 1994. Á seinni árum fluttu þau hjónin sig um set yfir í Kópavogslaug og strjáluðust okkar kynni nokkuð við það.
En sambandið var ávallt gott okkar á milli og vel fylgdist Jón með mönnum og málefnum og voru hans skoðanir ávallt mér mikilvægar í pólitík. Til voru þeir sem sögðu að Jón Skaftason væri eiginlega ekki framsóknarmaður. Það var eitthvað til í slíku því Jón var fyrst og fremst víðsýnn andi sem hóf sig yfir dægurþras og beitti rökhyggju á viðfangsefnin en fráleitt einhverri flokkspólitík sem aðrir höfðu samið. Hann var einstaklega ljúfur í allri framgöngu sinni og mér fannst ávallt birta yfir þeim samkundum þar sem við hittumst.
Hann var djúpvitur og eiginlega forvitri í pólitík. Ég man að á þeim árum sem ég var nálægt Gunnari Inga Birgissyni hér í bæjarpólitíkinni í Kópavogi á árunum frá 1990, að við veltum ýmsum álitamálum fyrir okkur. Þá sagði Gunnar stundum: „Hvað heldurðu að sagnarandinn segi um þetta? “ En ég kom stundum með heilræði í frá Jóni Skaftasyni sem Gunnari þóttu stundum betri en öngin eins og hann orðaði það. Og víst er að okkur þótti ómaksins vert að vita hug Jóns og sjónarhorn þegar úr vöndu var að ráða. Kosningaspár hans voru oft með ólíkindum réttar þó ekki værum við alltaf mikið hrifnir fyrir kjördaginn.
Jón var glæsimenni að vallarsýn og hlýr í viðmóti. Ég man hann best með bros á vör. Hann var í betra meðallagi að vexti, fríður sýnum, réttholda og ljós yfirlitum. Hverjum manni kátari á góðum stundum og hafði næmt auga fyrir umhverfinu. Áttræðisafmæli hans sátum við sundlaugasystkini hans ógleymanlegt þar sem öll fjölskyldan hans stóð með honum. Þar sýndi Jón nýja hlið á sér vegna sérstakrar áskorunar. Hann söng kraftmikinn einsöng með undirleik og kom okkur á óvart, því ekki hafði ég fyrr heyrt hann syngja svo.
Það er bjart yfir minningunni um hann Jón Skaftason, fremstan meðal framsóknarmanna í pottunum og sagnaranda í stjórnmálum, frá gengnum gleðidögum í glampandi öldunum í Laugardalslaugunum ljúfu.
Halldór Jónsson.