Tengt Siglufirði
mbl.is 24. júlí 2020 | Minningargreinar
Jón Sigurðsson fæddist á Sleitu-Bjarnarstöðum í Kolbeinsdal, Hólahreppi í Skagafirði 24. apríl 1929. Hann lést á Sauðárkróki 13. júlí 2020.
Foreldrar hans voru Guðrún Sigurðardóttir húsmóðir, frá Víðivöllum í Skagafirði, f. 29.6. 1886, d. 4.7. 1969, og Sigurður Þorvaldsson bóndi og kennari, frá Álftártungukoti á Mýrum í Borgarfirði, f. 23.1. 1884, d. 21.12. 1989.
Börn þeirra auk Jóns voru:
Jón
kvæntist 6.5. 1961 Laufey Alda Guðbrandsdóttur frá Siglufirði, f. 6.5. 1938, d. 12.9. 2005. Þau bjuggu á Sleitustöðum alla sína tíð.
Börn þeirra eru:
Jón ólst upp á Sleitustöðum og hóf nám við barnaskólann í Hlíðarhúsi í Óslandshlíð. Hann var við nám í Héraðsskólanum á Laugarvatni. Hann starfaði lengst við akstur langferðabifreiða, á árunum 1952-66 í samvinnu við Gísla bróður sinn og síðar með syni sínum Gísla Rúnari. Hann var sérleyfishafi milli Siglufjarðar og Reykjavíkur 1987 til 2002.
Hann sinnti póst- og farþegaflutningum milli Siglufjarðar og Sauðárkróks. Hann sá um skólaakstur í Hólahreppi á árunum 1966-78. Þá var hann umboðsmaður Skeljungs og rak söluskála á Sleitustöðum ásamt eiginkonu sinni.
Jón var áhugamaður um bridds og sat löngum stundum við spilaborðið. Hann var ágætur söngmaður og stundaði kórsöng á yngri árum. Ættarlundurinn á Sleitustöðum átti hug hans allan seinustu árin.
Jón Sigurðsson verður jarðsunginn frá Hóladómkirkju í dag, 24. júlí 2020, klukkan 14.
---------------------------------------------------------
Í Hnjúkum, ofan við bæinn Sleitustaði, er útsýni gott yfir allan Skagafjörð, fjallahringinn, dalina og eyjarnar. Náttúrufegurð af besta tagi, loftið tært og lækirnir spriklandi niður hlíðina. Sumarsólin að verma fjalldrapann og berjalyngið. Þar fann hann sér væna þúfu til að setjast á, horfa á átthagana og bernskuslóðirnar. Kasta mæðinni. Hanga á bláþræði lífs síns aðeins lengur. Dvelja við minningarnar.
Þarna var lindin tæra sem svalaði þorsta heimilisfólksins á Sleitustöðum í gegnum áranna rás. Þarna var Byrgishóllinn þar sem smalarnir ungu leituðu skjóls í veðursudda, byrgið á hólnum var gamalt, hrunið og niðurgróið. Hann hafði sagt strákunum að það þyrfti að endurhlaða byrgið. Þarna var gamla rafstöðin sem pabbi hans kom á laggirnar. Rönning hafði sjálfur komið til að gangsetja og bærinn ljómaði.
Þarna var lundurinn fagri sem pabbi hans bar frækassana sína til forðum og byrjaði að gróðursetja fyrir hartnær heilli öld. Þarna beljaði Kolbeinsdalsáin framhjá á leið sinni til sjávar. Mikið sjónarspil oft og vafalítið uppspretta frjórrar kímnigáfu og frásagnarlistar. Jón á Sleitustöðum var enda gamansamur að eðlisfari, léttur í lund og góður sagnaþulur. Gaman var að hlusta á þær sögur. Þær voru sagðar með innlifun og nákvæmni. Þunginn í sögunni jókst eftir því sem á leið og svo endaði sagan á því að allar flóðgáttir opnuðust.
Hlustandinn fékk botn í söguna og hláturgusa braust fram. Þannig náði Jón
á Sleitustöðum ítrekað að kitla hláturtaugar margra. Þannig minnist lítill drengur föður síns sitjandi við eldhúsborðið að segja sögur. Stundum tók hláturinn
öll völd og menn urðu votir um hvarma og þrútnir um vanga. Grétu í einlægri gleði. Einnig eru margar stundir eftirminnilegar við spilaborðið þar sem léttleikinn gaf undirtóninn
og skotið var á alla kanta.
Á slíkri stund varð þetta vísukorn til og því beint að Jóni briddsmeistara, sem kominn var nokkuð á aldur.
Jafnframt var Jón mikill og hollur mannvinur. Ráðinn til þjónustu og einlægrar hagsmunagæslu. Vildi allt fyrir alla gera. Hann var huggari og græddi sár manna. Hann var alþýðlegur og átti jafnan greiða leið að öðrum. Studdi börn sín og afkomendur í öllu sem þau tóku sér fyrir hendur og fylgdist með afkomu þeirra.
Hann leiddi mig heim brautina á Sleitustöðum í minni frumbernsku eða setti mig á háhest ef litlu fæturnir urðu lúnir. Man það vel þegar ég lagði hendur á enni hans eins og til að detta ekki af baki. Þannig braust ég áfram í lífinu með dyggum stuðningi og nærgætni hans. Fyrir það verð ég ævinlega þakklátur og kveð ástkæran föður með sorg í hjarta. Hvíl í friði elsku pabbi minn.
Fyrir mína hönd og minna nánustu,
Reynir.
-------------------------------------------------------
Klukkan tifar, tíminn líður, árin þjóta. Kallið er komið. Lífsbók míns ástkæra föður er lokið. Fjársjóðskista minninganna er full af dýrmætum myndum. Ég vann í foreldralottóinu, ferðalagið með pabba og mömmu var skemmtilegt.
Pabbi var farsæll rútubílstjóri, hann keyrði af öryggi og festu, hann fékk aldrei sektir eða jú þá fyrstu þegar hann var 90 ára. Gleymdi víst að spenna beltið áður en setti í gang, hann var nappaður. Fór rakleitt á lögreglustöðina og borgaði sína skömm, rammaði svo inn sektina og hengdi upp á vegg. Hann hafði húmor fyrir sjálfum sér, þannig maður var hann.
Foreldrahlutverkið fór honum vel, hann var duglegur að miðla til okkar barnanna, hafði okkur gjarnan með í alls konar rútuferðir, þá æfði hann okkur í söng, hafði unun af að láta okkur syngja fyrir sig enda mikill söngunnandi. Hann var enn betri afi, stoltasti afinn sem þreyttist aldrei á að hampa og hvetja unga fólkið sitt áfram, þau voru öll sem eitt augasteinarnir hans. Þau áttu besta afann í öllum heiminum.
Hann hafði áhuga á öllu sem tengdist íþróttum, ungur æfði hann frjálsar, spilaði knattspyrnu og briddsspilamennsku neitaði hann aldrei. Þrjú grönd voru hans aðal, þar var hann á heimavelli.
Eftir að hann hætti að keyra rúturnar, þá 86 ára að aldri, nýtti hann allan sinn tíma í að hlúa að fjölskylduauðlindunum á Sleitustöðum, vatnsfallsvirkjuninni og skógræktinni í unaðsreitnum Fagralundi. Hugur hans stóð til stórra verka. Þar var hann að bjástra alveg fram á síðasta dag.
Pabbi var víðförull vegna rútuútgerðarinnar, hann sankaði að sér vinum og kunningjum um allt land. Náði að tengjast fólki þannig að eftir var tekið, hann hafði einhvern sjarma. Snerti strengi sem náðu alla leið að innstu hjartarótum.
Í dag kveð ég með söknuði pabbann, afann og vininn sem allir vildu eiga. Hann var kletturinn okkar.
Þín dóttir, Íris Hulda.
-----------------------------------------------------------
Elsku pabbi, það er komið að kveðjustund, lífsgöngu þinni er lokið.
Símtalið sem ég fékk frá Skúla að morgni mánudagsins 13. júlí hverfur mér seint úr minni. Mér sem fannst þú eiginlega vera ódauðlegur, hvernig mátti þetta vera? Okkur gafst ekki einu sinni tími til að kveðja, það er sárt en samt svo ljúft að hugsa til þess að þú fékkst að fara „í fullu fjöri“.
Þú
varst óstöðvandi og starfsorka þín var hvergi nærri búin, þú ætlaðir þér að gera svo margt en síðustu vikur varstu búinn að vera á fullu í
Fagralundi, skóginum sem pabbi þinn sá um að rækta og þér þótti svo vænt um. Að fegra þar umhverfið og sjá til þess að allt væri nú klárt fyrir
gesti sumarsins.
Það verður allavega margt um helgina, þú hefur nú sannarlega séð til þess.
Það eru forréttindi að fá að eiga svona heilsuhraustan föður fram á síðasta dag. Þú leist ekki út fyrir að vera deginum eldri en 75, þótt værir 91+. Það var alveg sama hvað þú tókst þér fyrir hendur; þú áttir ekki í neinum erfiðleikum með að leysa það, sama hversu erfið verkefnin voru.
Ég hafði stundum áhyggjur af því að þú værir að ofgera þér og bað þig oft á tíðum að fara þér hægar. Það stóð nú ekki á svari hjá þér: „Ég hef nú nægan tíma til þess, þegar ég verð kominn undir græna torfu,“ var svar þitt, og þar við sat.
Ég þakka þér, elsku pabbi, fyrir allar stundirnar sem við áttum saman, gæðastundirnar sem við áttum í covidinu í sveitinni og púsluðum og spiluðum saman í fjórar vikur.
Það verða erfiðir tímar fram undan og ég skal halda utan um börnin mín fyrir þig, sem voru þér svo kær. Takk fyrir allan stuðninginn sem þú hefur veitt þeim í gegnum lífið.
Þín Lilja Magnea.
------------------------------------------------
Þegar ég lét nokkra erlenda félaga vita af andláti tengdaföður míns varð ég hissa hvað þeir vissu mikið um hann. Maður talar greinilega meira um bestu vini sína en maður áttar sig á. Ég kom fyrst á Sleitustaði sumarið 1986 og leið strax eins og ég hefði alltaf þekkt Jón og Öldu. Maður var umvafinn hlýju og umhyggju og þau áttu í manni hvert bein, þetta var aðalsmerki þeirra. Þau áttu, að manni fannst, óendanlegan fjölda af vinum og þekktu nánast alla.
Í einni af rútuferðum mínum með Nonna til Reykjavíkur var stoppað við Laugarbakka til að taka upp í farþega og, þá sjötugur, stekkur Nonni út úr rútunni eins og unglamb, kastar töskunum inn í bíl, heilsar farþeganum kumpánlega eins og þeir hafi alltaf þekkst. Það kemur svipur á farþegann eins og þegar manni er heilsað af ókunnugum. Ég var viss um að nú væri Jón að ruglast. „Þekkjumst við?“ spyr farþeginn. „Já, heldur betur,“ svarar Jón, „við vorum saman á Laugarvatni,“ sem var auðvitað hárrétt.
Sumarið var annatími hjá Nonna og Öldu en á sama tíma þurfti að sinna viðhaldi og rækta garðinn á Sleitustöðum. Það kom því oft í hlut þeirra sem komu í heimsókn að sinna þeim verkum, slá garðinn, reyta arfa, mála og dytta að ýmsu. Þetta var frábær tími og ekki skorti á þakklætið fyrir vel unnið dagsverk.
Þegar Alda var á lífi voru ófá kvöldin sem við eyddum í spilamennsku á Sleitustöðum en þegar vantaði fjórða mann var oftast hringt í Halla í Enni. Ég vissi hvað beið okkar. Fjórir tímar í spilamennsku og svo tveggja tíma ómetanlegt uppistand hjá Halla.
Nonni var duglegur að spila á mótum og skipti engu hver makkerinn var, Kristján Snorra, Gísli Rúnar eða einhver annar, alltaf var Nonni með efstu mönnum. Hann styrkti barnabörnin í briddsskólann hjá Guðmundi Páli en eftir það var alltaf gripið í spil þegar barnabörnin voru á svæðinu.
Virkjunaráhugann erfði Nonni frá Sigurði pabba sínum, en Sigurður virkjaði bæjarlækinn á Sleitustöðum árið 1948. Í kringum 1985 stóð Nonni að virkjun Kolbeinsdalsár með systkinum sínum og Þorvaldi frænda sínum.
Eftir að Alda lést var Nonni mikið hjá Lilju á Króknum. Hann tók virkan þátt í uppeldi barnanna og hafði góð áhrif á þau. Íslenskan þeirra er því dýpri og þroskaðri en hjá mörgum jafnöldrum þeirra. Í Víðihlíðinni hafa Lilja og Skúli geymt Nonna í formalíni því útlit hans og lipurð virtist standa í stað. Við erum ykkur eilíflega þakklát fyrir að hugsa svona vel um hann.
Nonni lést á heimili sínu, en þrátt fyrir háan aldur kom það á óvart því kvöldið áður var hann á fullu að baksa í skógræktinni á Sleitustöðum. Hann dó því í skónum sínum, eins og sagt er, með veikt hjarta en annars við hestaheilsu. Þegar við Skúli fórum á sýsluskrifstofuna á Króknum með dánarvottorðið var kallað til okkar af starfsmanni embættisins. Nonni hafði þá verið á skrifstofunni viku áður. „Hann kom hér skokkandi upp stigann og blés ekki úr nös, las og skrifaði undir án þess að nota gleraugu.“ Hann hafði verið að endurnýja ökuskírteinið sitt.
Kæri vinur, hvíldu í friði. Þinn tengdasonur, Björn
Gunnar.
---------------------------------------------------------------------------
Afi var yngstur tólf barna og oft var þröngt í búi. Afa var minnisstætt að þegar gesti bar að garði þurfti barnahópurinn að bíða þar til gestirnir höfðu borðað, svo máttu börnin skipta því sem eftir var sín á milli.
Fatnaður var líka af skornum skammti og átti afi aðeins eitt sett af fötum til daglegs brúks svo og spariföt. Hann átti ekki föt til skiptanna við upphaf árlegs þvottadags þegar hann datt á bólakaf í bæjarlækinn. Sparifötin komu ekki til greina og þurfti hann að láta sér lynda að vera háttaður niður í rúm og dúsa þar það sem eftir var. „Að hugsa sér það að eiga ekki önnur föt, hver myndi trúa þessu í dag?“ sagði afi mér.
Afi þurfti að ganga sex kílómetra fram og til baka á hverjum degi til kennslu. „Oft lagðist ég í rekkju þegar heim var komið og þá notaði ég heimilisköttinn sem kodda,“ sagði afi og hló við.
Afi þótti nokkuð efnilegur íþróttamaður. Hann fór til náms á Laugarvatni einn vetur. Á Laugarvatni kynntist afi Ólafi Ketilssyni bílstjóra sem fékk hann til að keyra vörubíla, aðeins sextán ára gamlan og ekki með bílpróf.
Leiðin lá aftur á heimaslóð og árið 1950 tók afi að keyra rútur. Afi keyrði rúturnar sínar í rúm sextíu og fimm ár og var ætíð farsæll í starfi. „Í þá daga var litið upp til rútubílstjóra. Það var svo gaman að vera í hringiðu mannlífsins og kynnast óhemju fjölda fólks.“
Af mörgum ferðasögum afa var honum þó ein sérstaklega minnisstæð. Þá var hann á heimleið frá Siglufirði, en ferðin heim sóttist honum seint vegna óveðurs. Það sá ekki út úr augum. „Allt í einu datt mér það ráð í hug að nota vasaljós og keðjubút, ganga nokkra metra frá bílnum með ljósið eftir veginum, skorða það af með keðjunni og keyra síðan í átt að ljósinu. Það tók mig fjóra til fimm klukkutíma að þumlungast svona áfram en heim komst ég að lokum óhultur en örþreyttur.“
Afi hafði ávallt gefið sér tíma til að sinna áhugamálum sínum. Hann hafði í gegnum árin sungið mikið í karlakórum: „Söngurinn nærir hugann og léttir lund.“
Afi var mikill briddsunnandi ásamt Öldu ömmu og unnu þau til margra spilaverðlauna. Félagsskapur sem þessi var afa mikilvægur og spilaði hann mörgum sinnum í viku. Hann miðlaði einnig kunnáttunni til barna og barnabarna.
Afi hafði reynt margt á lífsleiðinni og finnst mér persóna hans hafa mótast mikið af breytingum lífsgæðanna. Hann var nægjusamur, hæglátur og lét ekkert fyrir sér hafa. Hann vann hörðum höndum að því sem hann stóð fyrir.
Á rúmum níutíu árum hafði lífið kennt afa eitt og annað. „Lífið gefur og lífið tekur, maður kann ekki að meta það meðan allt er í lagi. Svo þegar áföllin verða, þá finnur maður hvað góðu stundirnar eru mikils virði. Hamingjustundir og áföll eru þeir atburðir sem hugurinn staldrar við og leita oft á hugann. Maður ætti að njóta á meðan maður hefur,“ sagði hann. Já, að vera sáttur við það sem maður hefur er gott lífsmottó.
Það má með sanni segja að lífið hjá afa hafi verið langt ferðalag. „Sá sem ferðast með góðum félögum í góðum félagsskap er aldrei einn á ferð.“
Þín
afastelpa, Rakel Sara.
--------------------------------------------------------
Ein fyrsta minningin sem ég á af afa er úr sveitinni okkar, Sleitustöðum. Hann var að þrífa rútuna sína fyrir utan sjoppuna hjá ömmu og notaði til þess kúst sem sprautaði vatni. Ég var örugglega ekki mikið eldri en fjögurra ára á þessum tíma, svo auðvitað fannst mér þetta agalega spennandi, að þrífa stóra rútu með tóli sem ég hafði aldrei séð áður.
Ég grátbað afa um að fá að prófa að bursta rútuna með kústinum, en hann neitaði mér um það, eflaust svo ég færi mér ekki að voða. Ég lét það ekki stöðva mig. „Ef ég fæ að prófa ertu besti afi í heimi.“ Við þessi orð hætti afi að þrífa og hugsaði sig um örskamma stund. „Jú, vill maður ekki vera besti afi í heimi,“ sagði hann þá og rétti mér kústinn.
Ég man ekki hvort hann hjálpaði mér að halda á kústinum eða hvort ég fékk að vinna verkið alveg sjálfur. Það skiptir eflaust ekki máli. Ég stend við mitt loforð. Þú ert, hefur alltaf verið, og munt alltaf vera besti afi í heimi.
Róbert Smári.
----------------------------------------------------------
Afi kom alltaf brosandi til manns, gaf manni koss og stórt faðmlag. Afi á Sleitó kallaði ég hann, afi minn sem keyrði rúturnar, átti allar rúturnar.
Oft var ég með honum á BSÍ þegar ég átti að vera hjá ömmu og afa á Sleitó, þá fór ég alltaf með afa á rútunni. Meðan við biðum eftir að leggja af stað fékk maður að fara inn á skrifstofurnar með öllum köllunum og „þetta er hún Drífa, afastelpan mín, dóttir Reynis“ sagði hann montinn.
Svo var komið að því að leggja í hann, þá komu ferðalangarnir sér fyrir og hann afi tók brosandi á móti öllu fólkinu, margir heilsuðu honum eins og kærum vini, sátu og kjöftuðu við hann alla leiðina meðan ég fylgdist með afa keyra norður.
Í minningunni er bangsaapi hangandi niður úr speglinum sem dinglaði með hreyfingum bílsins og marglita fléttubandið sem ég fléttaði hangandi á lyklunum hans.
Aðalsportið var að fara með afa inn í sjoppuna í Borgarnesi, setjast inn á kaffistofu og fá ís eða eitthvert góðgæti, þá var dekrað við mann.
Hann spjallaði við starfsfólkið og aðra bílstjóra þar um hitt og þetta, reytti af sér brandara og sögur. Ég sagði ekki mikið, fylgdist bara feimin með honum afa.
Svo kom maður heim að Sleitustöðum, með afa á stóru rútunni, yfir kindahliðið og upp að skemmunni eða sjoppunni að knúsa hana ömmu líka, þá var maður sko kominn í sveitina til ömmu og afa. Bláa síðbrókin, greiðan, útvarpið og blaðið.
Góða ferð elsku afi minn, ég hugsa að nú sé hann kominn á rútuna og búinn að finna hana ömmu loksins aftur.
Þín Drífa Þöll.
--------------------------------------------------
Nú kveðjum við Jón á Sleitó, Jón eldingu, Nonna eða afa eins og ég er svo lánsöm að hafa fengið að kalla hann. Afi var alltaf glaður, jákvæður, brosmildur og sýndi áhuga á öllu sem við tókum okkur fyrir hendur.
Árið 2005 flutti afi heim til okkar í Víðihlíðina eftir að Alda amma lést. Við erum mjög þakklát fyrir að hafa fengið þessi 15 ár með afa og notið hlýrrar nærveru hans. Við systkinin þekkjum því ekkert annað en að koma heim og þar taki afi á móti okkur brosandi og spyrji okkur hvernig dagurinn okkar hafi verið.
Afi studdi alltaf við bakið á okkur í skóla og þeim íþróttum sem við iðkuðum og var hann duglegur að mæta á æfingar til að fylgjast með og leiðbeina manni þegar æfingunni var lokið. Þær eru margar minningarnar sem við yljum okkur við og erum við þakklát fyrir þau ár sem við fengum með afa, þau eru dýrmæt.
Afi var fullur af fjöri, hljóp upp og niður stigann, keyrði tvisvar til þrisvar sinnum á dag út í sveit til að brasa eitthvað þar og hafði hann alltaf eitthvað að gera. Það er ekki svo langt síðan ég hugsaði að mikið yrði hún langafastelpan þín, dóttir mín og Sæþórs sem er væntanleg í nóvember, heppin að kynnast Nonna langafa sínum og veit ég að þú hefðir veitt henni alla þá ást og umhyggju sem þú veittir okkur. Við verðum dugleg að segja henni sögur af afa sínum.
Í október 2018 tók ég stutt viðtal við afa þar sem ég spurði hann um rútubílstjóraferil hans og margt tengt honum. Það er dýrmætt að eiga röddina hans og hláturinn á upptöku sem ég get alltaf hlustað á þegar söknuðurinn er óbærilegur. Í þessu viðtali kom margt skemmtilegt fram, meðal annars skýringin á viðurnefninu hans, Jón elding.
Í viðtalinu spyr ég afa hver sé skýringin á bak við viðurnefnið,
en það fór eflaust ekki fram hjá neinum að hann afi keyrði ósköp hægt um götur bæjarins og hélt ég að nafnið væri þaðan komið, sem nokkurs konar grín.
En þá svarar afi: „Það er eðlileg skýring á því, hún er sú að ég átti bíl, 26 manna rútu, sem komst ekki yfir 60 km hraða og ég skírði
hana Eldingu.
Vegna þess að bíllinn komst ekki hraðar vildi ég láta hann njóta þess að hann væri snöggur sko. Elding er svona hraðfleygt tæki.“
Í viðtalinu
sagði afi okkur frá fyrstu sektinni sinni en það var ekki fyrr en 13. október 2018 sem hann afi fékk sína fyrstu umferðarsekt, 89 ára að aldri.
Það atvikaðist þannig að
afi var ekki búinn að spenna beltið þegar hann ók af stað og hafði lögreglan veitt því eftirtekt. Hann var stoppaður og sektaður um tuttugu þúsund krónur.
„Það tók þá níutíu ár að koma mér á sakaskrá,“ sagði afi og hló. Afi vildi meina að einhvern tímann væri allt fyrst og hafði hann gaman af þessu. Það leið ekki langur tími þar til afi hafði rammað sektina inn og hengt hana upp á vegg.
Það er svo margt sem þú kenndir mér elsku afi minn, svo margt sem ég á þér að þakka. En fyrst og fremst takk fyrir allar minningarnar og stundirnar sem við áttum saman, þær eru dýrmætar og munu ylja um ókomna tíð.
Þín afastelpa, Karen Lind Skúladóttir.
-----------------------------------------------------------
Elsku besti afi minn, ég kveð þig með miklum söknuði en með þakklæti í huga fyrir að hafa fengið að njóta þeirra forréttinda að þú skyldir búa hjá okkur í Víðihlíðinni síðastliðin 15 ár, svona hress og kátur alla daga. Styðja okkur systkinin og styrkja í öllu því sem við höfum tekið okkur fyrir hendur og staðið þétt við bakið á okkur.
Þessir síðustu dagar hafa verið mjög þungir og erfiðir enda þekki ég ekki neitt annað en að hafa þig mér við hlið. Það verður skrítið að þurfa að sætta sig við það, að þú, sem hefur verið partur af lífi mínu frá fæðingu, skulir ekki koma og bjóða mér góða nótt, munir ekki sitja við matarborðið með okkur, munir ekki horfa með mér á enska boltann, munir ekki vera á hliðarlínunni og hvetja mig í fótboltanum, munir ekki hringja og spyrja hvernig útileikirnir fóru og munir ekki skutla mér á æfingar.
Núna er enginn afi til að mæla hæðina mína, þú sem varst svo spenntur í hvert skipti sem þú baðst mig að koma til að mæla hæðina. „Hvað heldurðu að þú hafir stækkað síðan síðast?“ varstu vanur að spyrja. Mælingarnar skráðir þú samviskusamlega innan í fataskápshurðina þína, og þar koma þær til með að standa.
Samband okkar var einstakt, og gerðir þú allt fyrir mig sem ég bað þig að gera, hvort sem það var að sækja mig fyrr í Árvist, áður en vistunartímanum var lokið, fara með okkur í búðina og kaupa handa okkur salatbar eða ís, nú eða bjóða okkur út að borða.
Ég er stoltur af því að hafa átt afa með svona mikla ást og hlýju eins og þú hafðir.
Ég veit að þú munt halda áfram að fylgjast með okkur en það verður öðruvísi að finna ekki hlýju hendurnar þínar umvefja sig. Núna er lífsgöngu þinni lokið elsku afi, það er komið að kveðjustund, minning þín mun lifa í hjarta mínu alla tíð.
Guð geymi þig, þinn Bragi.
---------------------------------------------------------
Takk, elsku Nonni afi, fyrir allt sem þú kenndir mér. Það sem þú skilur eftir þig í hjarta mínu eru góðar minningar sem ég er þakklátur fyrir að eiga.
Eftir að amma dó fluttir þú til okkar í Víðihlíðina og er ég þakklátur fyrir að hafa búið í herberginu við hliðina á þér síðustu 13-14 árin, og fyrir öll skiptin sem þú komst til mín og spjallaðir við mig um allt og ekkert.
Þrátt fyrir að ég væri fluttur að heiman varst þú duglegur að koma til okkar Tótu og í eitt skipti þegar ég og Tóta vorum sofandi í stofunni eftir langan dag æddir þú inn og heilsaðir upp á okkur því þú varst svo stoltur af „höllinni“ – eins og þú kallaði parhúsið sem við feðgar höfðum nýlokið við að byggja.
Þú varst rosalega stoltur af barnabörnum þínum og þið Alda amma voruð dugleg að standa við bakið á okkur þegar við vorum að keppa í fótbolta um allt landið, og á ég margar góðar minningar frá þeim tíma, þó sérstaklega eina sem er mér mjög kær. Það var á Króksmóti þegar ég var ásamt liðsfélögum mínum að spila á móti KA og þú að sjálfsögðu mættur til að horfa.
Við eigum hornspyrnu í því horni sem þú stóðst í og horfðir á leikinn, ég fer til að taka spyrnuna, þegar ég legg boltann niður segir þú við mig: „Sjáðu hvar markmaðurinn stendur, passaðu þig að hann nái ekki boltanum ...“ Svo tek ég spyrnuna og boltinn flýgur yfir markmanninn, í stöngina hinum megin og inn, áður en ég fagna með félögum mínum lít ég til baka til þín og þar stendur þú og brosir til mín.
Fyrir tæplega sex árum lagðist þú inn á Landspítalann, vegna hjartaþræðingar, þar sem kom í ljós að þú varst með mjög skerta hjartastarfsemi. Rúmlega viku eftir dvöl þína á spítalanum komst þú yfir í herbergi til mín eins og þú gerðir svo oft, spurðir mig hvort ég væri til í að koma með þér yfir í Sleitustaði að laga bæjarlækinn því takmarkað vatnsmagn væri farið að renna niður í litlu virkjunina. Ég sá að þetta skipti þig miklu máli. Í þetta verkefni fórum við saman hvor með sína skófluna; annar á níræðisaldri og hinn á tvítugsaldri.
Þegar okkur hafði tekist að auka vatnrennslið í læknum niður að virkjun ljómaðir þú allur. Þá vissi ég að þér hefði tekist að halda í gangi því sem faðir þinn hafði byggt og var honum svo kært.
Þegar haldið var heim á leið tókst okkur að festa okkur í miðju túninu, því ekki var Jón elding þekktur fyrir að fara hratt yfir á hvíta Toyota hiace sem hann var svo oft á. Ég sagði við þig áður en ég fór út að ýta að nú þyrftir þú að gefa heldur betur í, og það gerðir þú svo sannarlega því upp fór bíllinn og ég lá flatur eftir í drullunni, svartur upp fyrir haus. Þér var heldur betur skemmt þegar ég kom aftur inn í bíl.
Takk fyrir allt elsku Nonni afi, þú munt alltaf eiga stað í hjarta mínu.
Þinn Hólmar Daði Skúlason.
----------------------------------------------------
Fyrstu kynni okkar Jóns á Sleitustöðum hófust á haustdögum 1980. Ég var þá nýlega fluttur í Hjaltadal og var vegna eigin klaufaskapar á nærri bensínlausum bíl seint um kvöld. Staddur eigi allfjarri Sleitustöðum, þar sem hjónin Jón og Alda ráku söluskála og bensínafgreiðslu var mér bent á að mér væri alveg óhætt að banka upp á þótt seint væri, því þau væru svo greiðvikin. Sem ég og gerði og fékk afgreiðslu mála minna – þjónusta sem veitt var af ljúfmennsku. Slík ljúfmennska einkenndi öll samskipti okkar Jóns, sem nú hefur lagt í sína hinstu för til konu sinnar Öldu, sem kvaddi fyrir nokkrum árum.
Jón á Sleitó, eins og hann var oftast kallaður, var hægur og ljúfur í allri framkomu. Hann var alltaf glaðlegur og brosandi og greiðvikinn svo af bar. Ég held að allir sem leituðu til hans hafi haft erindi sem erfiði og að hann hafi haft ástríðu fyrir því að gera fólki greiða. Á þessum árum keyrði hann áætlunarrútu á milli Sauðárkróks og Siglufjarðar í framhaldi af áralangri sögu rútuútgerðar frá Sleitustöðum. Fékk hann orð fyrir að vera traustur og varkár ökumaður á þessari leið sem oft var varasöm í misjöfnum veðrum.
Prívat hafði Jón mikinn áhuga á íþróttum – einkum frjálsum íþróttum - og það var honum ástríða að spila bridge. Í bridgespili kom blíðmennska hans vel í ljós. Það kom fyrir þegar makker hans í spilum forfallaðist að hann leitaði til mín að skipa það sæti. Fyrir utan að hafa aldrei verið góður spilamaður snerti ég lítið á því spili um margra ára skeið.
Það kom því oftar en skyldi fyrir að ég gerði mig sekan um klaufaskap af verstu tegund og stuðlaði þannig að verri útkomu okkar en hann var vanur. Þeir sem þekkja til bridgespilamennskunnar vita að stór og mikilvægur hluti spilsins er að rífast um spilamennskuna eftir hvert spil ef einhverjum verður á. Ég þurfti hins vegar aldrei að þola skammir af hendi Jóns. Hann benti mér góðfúslega á hvað betur hefði mátt fara og þar með var málið búið.
Jón Sigurðsson á Sleitustöðum var lágur maður vexti en samsvaraði sér vel. Hann var að ég held alla tíð heilsuhraustur og því var vart hægt að trúa, að hann væri kominn á tíræðisaldur þegar hann lést. Svo vel bar hann aldurinn. Með Jóni er genginn góður maður, sannur vinur og velgjörðarmaður. Við Herdís eigum eftir að sakna hans og hugur okkar dvelur hjá ástvinum hans. Megi góður Guð vera þeim styrkur í sorginni.
Pétur Bjarnason.
----------------------------------------------------
Við andlát öðlingsins og heiðursmannsins Jóns á Sleitustöðum koma margar góðar minningar upp í hugann, flestar tengdar íþróttum á æskuárum mínum á Hofsósi. Það er á engan hallað þegar ég fullyrði að Jón var alltaf helsti stuðningsmaður okkar, sem stunduðum íþróttir við frekar bágbornar aðstæður. Hann var alltaf jákvæður og uppörvandi, hrósaði og hvatti og stappaði í okkur stálinu þegar þurfti, þess fullviss að næst gengi okkur betur.
Oft keyrði hann okkur á æfingar eða á mót hingað og þangað og tók ábyggilega aldrei krónu fyrir það frekar en þegar þau Alda hýstu þjálfarana sem komu stundum á sumrin og dvöldu þá nokkrar vikur hjá þeim í húsnæði og fæði. Íþróttaáhuginn fylgdi honum alla tíð. Eftir að ég fór að vinna á Króknum kom hann stundum á skrifstofuna til mín og þurfti að spjalla um þetta mikla áhugamál.
Stundum hafði hann séð mjög efnilega krakka í fótbolta, sem hann vildi að yrði haldið vel utan um, eða honum fannst landsliðsfólk, sem var skagfirskra ætta, standa sig vel í sínum greinum. Þegar við hittumst síðast, stuttu fyrir andlát hans, gáfum við veirunni langt nef, föðmuðumst eins og venjulega og ræddum um að nú væri íþróttalífið að komast á skrið aftur.
Ég þakka þessum vini mínum fyrir langa og góða vináttu og alla tryggðina og leyfi mér, fyrir hönd „gömlu“ handboltastelpnanna á Hofsósi, að þakka allan stuðninginn og áhugann sem hann sýndi okkur.
Ég votta fjölskyldu Jóns samúð mína.
Þórdís Friðbjörnsdóttir.
----------------------------------------------------------------
HISNTA KVEÐJA
Það er erfitt að kveðja afa minn í síðasta sinn. Þú hefur verið í lífi mínu frá
því ég fæddist og leitt mína litlu hendi. Mig langar að þakka þér fyrir alla ástina og umhyggjuna sem þú hefur veitt mér.
Það verður skrítið
að enginn afi komi inn í herbergið mitt og kitli mig undir ilina og setjist á rúmið mitt og spjalli við mig.
Það verður líka skrítið að þú sitjir ekki í stólnum
þínum í stofunni og lesir Moggann.
Núna er enginn afi til að gefa Snata eitthvað undir borðið sem hann má ekki fá.
Snati er líka leiður og skilur ekki af hverju þú
kemur ekki inn um dyrnar.
Elsku afi, það er komið að kveðjustund og ég veit að nú eruð þið amma saman á ný.
Þín Laufey Alda.
------------------------------------------------------------------
mbl.is 29. júlí 2020
Jón Sigurðsson fæddist 24. apríl 1929. Hann lést 13. júlí 2020.
Jón Sigurðsson var jarðsunginn 24. júlí 2020.
Þeir falla í valinn hver af öðrum höfðingjarnir í Hjaltadalnum sem settu svip sinn á samfélagið þar nyrðra 1981 þegar við Ingibjörg
fluttum að Hólum í Hjaltadal til að taka þar við skólastjórn.
Þeir Trausti á Laufskálum, Þorvaldur á Sleitustöðum, Sigurður á Skúfstöðum
og Pálmi í Garðakoti hafa nú fallið frá á stuttu tímabili – svo nokkrir valinkunnir menn séu nefndir. Og nú verður borinn til grafar Jón Sigurðsson á Sleitustöðum.
Þau hjónin, Jón og Alda Laufey, voru tryggir vinir okkar Ingibjargar og áttu reyndar líka börn á svipuðu reki.
Þannig að leiðir lágu víðar saman. Jóni kynntist ég fyrst um 1970 þegar hann þeyttist um landið með ýtuna sína og kílplóginn. Á búskaparárum okkar í Bjarnarhöfn kom hann og kílræsti nánast allar mýrar í Bjarnarhöfn. Þeim var síðan breytt í grösug tún. Mér er minnisstætt hve kvikur Jón var, hlýr og glaðbeittur.
Á Hólum held ég að hann hafi hafi verið einn sá fyrsti sem kom sérstaklega og bauð okkur og fjölskylduna velkomna í Dalinn. „Þú veist það nafni að ég verð alltaf reiðubúinn ef þú þarft akstur eða flutning á fólki fyrir skólann. Og reyndar hvað annað – sem ég og mín fjölskylda getum orðið þér og Hólum að liði.“ Jón á Sleitustöðum stóð við orð sín. Það er mikill sjónarsviptir að honum í Hjaltadal.
Jón var frumkvöðull í fólksflutningum í héraðinu. Siglufjörður hraðferð var rútan sem gekk milli Siglufjarðar og Reykjavíkur öll síldarárin og margir muna eftir með hlýhug. Síðar stofnaði hann rútufyrirtækið Suðurleiðir sem fjölskyldan á og rekur enn. Hvert sem héraðsmenn þurftu að fara var Jón til staðar til að flytja þá heiman og heim.
Jón var kvikur og bóngóður maður. „Ekkert mál, ég kem eins og skot“ var viðkvæði hans þegar hann var beðinn um greiða eða að flytja fólk eða hópa. Á Sleitustöðum byggðist upp lítið þéttbýli með bensínafgreiðslu og sjoppu, með öflugu bílaverkstæði og ýtum og rútubílaþjónustu. Vatnsaflsvirkjun þeirra frænda í Kolbeinsá við túnfótinn á Sleitustöðum var afrek á sínum tíma.
Við fráfall Jóns verða ákveðin kaflaskil í atvinnu- og menningarsögu þjóðarinnar. Jón á Sleitustöðum var ágætur fulltrúi þeirrar kynslóðar sem ruddi þjóðinni braut frá fátækt til bjargálna með frumkvæði og áræði – og leiddi land sitt og þjóð áfram til einnar mestu velmegunar sem þekkist í heiminum. Slíkt hefði ekki gerst nema fyrir viljastyrk, hugsjónir og baráttu manna eins og Jóns Sigurðssonar á Sleitustöðum.
Jón átti því láni að fagna að hafa góða heilsu fram á síðasta dag.
Vinátta og tryggð Jóns og fjölskyldu hans var okkur ómetanlegur styrkur og fyrir starfið allt á Hólum, skólann og samfélagið í héraðinu á þeim tíma. Fyrir hönd Hólastaðar eru Jóni og Öldu færðar alúðarþakkir fyrir tryggð og góðan stuðning í gegnum árin.
Við Ingibjörg þökkum Jóni á Sleitustöðum samfylgdina: Guð gefi landi voru marga slíka.
Við sendum fjölskyldu Jóns einlægar samúðarkveðjur.
Ingibjörg Kolka og Jón Bjarnason.
--------------------------------------------------------
Kveðja frá Bridgefélagi Sauðárkróks
Í dag kveðjum við Jón Sigurðsson, heiðursfélaga Bridgefélags Sauðárkróks. Jóns verður sérstaklega minnst fyrir að vera hvatamaður og skipuleggjandi tveggja hópferða bridgespilara af Norður- og Vesturlandi til Færeyja. Var hann þegar byrjaður að leggja drög að þriðju ferðinni til Færeyja, en hana sá Jón fyrir sér að farin yrði næsta vor. Þeir sem fóru ferðirnar með honum til Færeyja verða ævarandi þakklátir fyrir frumkvæðið.
Jón var mikill keppnismaður og áhugamaður um bridge. Hann hafði einstaklega gaman af spilinu. Hann hafði sérstakt yndi af að spila á kjördæmamótum Bridgesambandsins og tók þátt í mörgum þeirra. Minnisstætt er þegar honum og liðsfélögum hans var stillt upp á móti þáverandi heimsmeisturum í bridge á fyrsta borði. Ekki voru margir á því að feitum hesti yrði riðið frá þeirri viðureign en sigurinn var aldrei í hættu og stóðu Jón og liðsfélagar hans sigurreifir upp frá þeirri setu.
Jón setti það ekki fyrir sig að spila við og liðsinna byrjendum eða spila við lengra komna í íþróttinni. Hann hafði unun af bridge og spilaði gjarnan oft í viku. Hann var einkar duglegur að taka með sér nýja makkera á spilakvöld til að kynna þeim keppnisbridge og félagsskapinn. Ófá skipti lagði hann til farartæki til að fara í lengri og skemmri ferðir, innan héraðs og utan, til að spila.
Með Jóni er genginn góður félagi og velunnari bridge í Skagafirði og á Sauðárkróki. Hans verður sárlega saknað við spilaborðið en minningarnar lifa um góðan félaga.
Bridgefélag Sauðárkróks sendir fjölskyldu og aðstandendum Jóns hugheilar samúðarkveðjur.
F.h. Bridgefélags Sauðárkróks,
Ásgrímur S. Sigurbjörnsson, Guðni Kristjánsson.