Jóna Vilborg Pétursdóttir

mbl.is 4. október 2005 | Minningargreinar

Jóna Pétursdóttir fæddist á Eskifirði hinn 21. nóvember 1927. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi hinn 25. september síðastliðinn.

Foreldrar hennar voru, Pétur Björgvin Jónsson, f. 27.11. 1889, d. 1966, og Sigurbjörg Pétursdóttir, f. 14.2. 1902, d. 1996.

Systkini Jónu eru:

 • Bogi, f. 3.2. 1925, maki Margrét Magnúsdóttir;
 • Guðlaug, f. 6.6. 1930, maki Karl Hjaltason (látinn);
 • Stefán Guðmundur, f. 8.5. 1931, maki Kristbjörg Magnúsdóttir;
 • Jón Pétur, f. 5.3. 1934, maki Guðrún Lárusdóttir (skildu);
 • Sigurlína, f. 4.4. 1936, maki Eyvindur Pétursson;
 • Halldór, f. 2.10. 1941, maki Bryndís Björnsdóttir;
 • Ingi Kristján, f. 22.7. 1943, maki Helga Jónsdóttir (látin); og
 • Þorsteinn Sigurjón, f. 27.5. 1945, maki Snjólaug Ósk Aðalsteinsdóttir.
  Systkini látin:
 • Elísabet, f. 20.3. 1922;
 • Jóhanna Fanney, f. 26.2. 1923, maki Lesley Ashton (látinn);
 • María, f. 22.2. 1924;
 • Stefanía Una, f. 29.3. 1926;
 • Hjálmar, f. 20.5. 1931, sambýliskona Hjördís Einarsdóttir, fyrri eiginkona Ólöf Kristjánsdóttir, (skildu); og
 • Algerður, f. 6.7. 1937.

Jóna Vilborg giftist Matthías Jóhannsson sjómanni, f. 20.5. 1923, d. 8.9. 1995, og síðar verslunarmanni á Siglufirði. Bjuggu þau allan sinn búskap á Siglufirði en Jóna Vilborg flutti í Kópavog eftir að Matthías lést.

Börn þeirra eru:

 • Jóhann Örn Matthíasson, maki Hulda Sigurðardóttir;
 • Elísabet Kristjana Matthíasdóttir, maki Jón Valgeirsson;
 • Hjördís Matthíasdóttir, maki Einar Þór Sigurjónsson:
 • Pétur Björgvin Matthíasson, maki Ólafía Einarsdóttir;
 • Halldóra Matthíasdóttir, maki Snævar Vagnsson;
 • Matthildur Matthíasdóttir, maki Gunnar Jónsson;
 • Stella María Matthíasdóttir, maki Ásgeir Þórðarson;
 • Kristján Matthíasson, maki Sigríður H. Ragnarsdóttir; og
 • Braghildur Sif Matthíasdóttir, maki Ásgrímur A. Jósepsson.

Útför Jónu verður gerð frá Grafarvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Fyrir nokkrum dögum stóð ég við rúm systur minnar Jónu Vilborgar þar sem hún lá á Fossvogssjúkrahúsi. Hún svaf vært og ég vildi ekki vekja hana. Það var yfir henni svo mikil værð og friður. Þótt svefninn væri vær gerði ég mér grein fyrir því að þarna var mikið veik kona. Á undanförnum árum hafði hún barist hetjulega við að halda reisn sinni en smátt og smátt hafði hinn slitni líkami verið að láta undan. Ég strauk vanga hennar og í gegn um hugann flugu margar kærar minningar. Ég vissi að ég væri kominn til að kveðja systur mína í hinsta sinn. Ég hafði fyrir svo margt að þakka því ætíð hafði hún gefið mér af kærleika sínum. Það komu fleiri í heimsókn og nú vaknaði systir mín og ávarpaði mig eins og hún hafði ætíð gert: "ertu kominn í heimsókn, litli bróðir?" Ég hef notið þeirra forréttinda að vera yngstur í stórum hópi systkina. Stundum hefur það verið nefnt að vegna þess hafi ég verið dekraður. Auðvitað get ég ekki neitað því að sem litli bróðir hefi ég notið forréttinda. Þetta var þó allt óumbeðið, af minni hálfu, ég naut ástar og umhyggju eldri systkina og ástríkra foreldra. Í stóra systkinahópinn hafa verið höggvin skörð og fyrir rúmu ári kvöddum við Stefaníu Unu systur okkar. Þarna við rúm systur minnar gafst tækifæri sem á eftir að verða mér dýrmætt, ég gat kvatt systur mína og þakkað henni allan kærleik í minn garð.

Jóna Vilborg leit á hlutina á raunsæjan og einfaldan hátt, var sátt við sitt og sína. Í stórri fjölskyldu á fyrri hluta síðustu aldar var oftar en ekki mikil fátækt. Svo var einnig um heimili foreldra okkar. Á Eskifirði var fátækt og því ekki óeðlilegt að þegar börn væru mörg að þeim væri komið í sveit til nákominna eða á heimili þar sem börn voru tekin til léttra starfa. Sá sem ekki hefur upplifað þetta á eflaust mjög erfitt með að setja sig í þessi spor. Það hefur ekki verið sársaukalaust fyrir foreldra að upplifa það að geta ekki haldið um hópinn sinn, fætt hann og klætt. Sársauki barnanna hefur örugglega líka verið mikill að þurfa að yfirgefa foreldrahús til að vera hjá ókunnugum um lengri eða skemmri tíma. Jóna fór í vist á sveitabæ og var þar um tíma. Þar átti hún ekki góða vist og þótt hún segði mér frá því, lá henni ekki illt orð til fólksins sem þar var. Jóna fór á mis við frekari menntun, smá kennsla í barnaskóla þess tíma varð að duga henni. Maður skynjaði það þó aldrei að Jóna væri ómenntuð kona því hún gat á skemmtilegan hátt spjallað um flesta hluti.

Jóna giftist Matthíasi Jóhannssyni sjómanni á Siglufirði. Þau þurftu ekki löng kynni til að bindast fyrir lífstíð. Á Siglufirði varð þeirra heimili og börnin urðu níu. Það var því oft þröngt í Túngötu 12 en þó ætíð pláss fyrir gesti. Sem barn var ég óttaleg kveif og gat ekki gist hvar sem var. Hjá Jónu fann ég mig öruggan og átti þar góðar stundir.

Að leiðarlokum kveð ég kæra systur og votta börnum hennar, tengdabörnum, ömmu- og langömmubörnum samúð. Algóður Guð blessi minningu hennar.

Þorsteinn Pétursson.

Ég bjó fyrstu þrjú árin á heimili ömmu en man ekkert eftir því. Kom oft til ömmu og afa næstu árin en mínar elstu minningar um þau eru frá því ég eyddi sumrinu hjá þeim sem pjakkur. Ók með afa út á flugvöll þar sem við biðum eftir vélinni að sunnan, sóttum póstinn og blöðin sem við dreifðum til blaðbera. Ég hjálpaði til í búðinni, þvældist eflaust fyrir.

Ég man eftir eldhúsinu á Aðalgötu, amma standandi við eldavélina á hallandi eldhúsgólfinu og steikti gellur, uppáhaldið mitt. Það hefur enginn leikið þennan leik eftir, amma var sú eina sem gat eldað gellur sem mér fannst góðar, feitar og löðrandi í smjöri sem varð að brúnni sósu með smá matarlit. Afi lokaði búðinni í hádeginu og kom upp, við borðuðum og hlustuðum á fréttir í Gufunni.

Ég man eftir að liggja í sófanum að horfa á sjónvarpið, afi sat í húsbóndastólnum, amma var fyrir aftan okkur á borðstofustól sem hún sneri öfugt, lagði hendurnar á stólbakið og reykti. Ég man eftir ömmu á fullu við þrif, eldamennsku og að dunda sér við hannyrðir. Ég man eftir því að hún drap rottu með skóflu í kompunni. Hún bjargaði sér og sá um allt á heimilinu.

Þegar árin liðu fór ég sjaldnar norður. Sumarið 93 var ég þar og hitti þau reglulega, kíkti í heimsókn og fékk að borða. Endurupplifði æskuna, hádegismatur með Gufuna í bakgrunni en sléttara eldhúsgólf.

Amma bjó í bænum síðustu ár en ég sá hana of sjaldan, varla nema í boðum og fyrir jól. Heilsan var slæm og oft afboðaði hún sig í afmæli en hún mætti stundum. Hún hafði yndi af því að sjá krakkana, það fór ekki framhjá neinum. Ferðin til hennar sem ég lofaði henni var aldrei farin. Sem betur fer heimsótti ég hana á spítalann fyrir stuttu. Þá var dregið af henni en samt var hún ræðin og hress miðað við aðstæður.

Sumir halda í þá hugmynd að amma og afi séu á öðrum stað, ég læt það vera. Þau áttu níu börn, barnabörnin og barnabarnabörnin teljast í tugum. Þar eru þau nú í svipmóti, vaxtarlagi og persónuleika afkomenda sinna. Það sést þegar sá hópur kemur saman.

Matthías Ásgeirsson.