Þormóður Runólfsson

mbl.is 1977

Þormóður Runólfsson  bæjarfulltrúi, Siglufirði. F. 9. október, 1931 D. 30. ágúst, 1977

Mér varð ónotalega hverft við, er ég frétti þau hörmulegu tíðindi, að félagi minn í bæjarstjórn Siglufjarðar, Þormóður Runólfsson, hefði orðið bráðkvaddur við laxveiðar í Fljótá þriðjudaginn 30. ágúst 1977.

Svo válegum tíðindum er erfitt að trúa og örðugt að sætta sig við sem staðreynd.

Þormóður Runólfsson var fæddur á Kornsá í Vatnsdal og voru foreldrar hans hjónin Alma Jóhannsdóttir Möller og Runólfur Björnsson, bóndi á Kornsá. Var Þormóður næstyngstur af 9 systkina hópi.
Þormóður ólst upp á Kornsá hjá foreldrum sínum, en haustið 1945 settist hann í gagnfræðaskólann á Siglufirði og stundaði nám bæði þar og við héraðsskólann á Laugarvatni næstu vetur.

Þormóður Runólfsson

Þormóður Runólfsson

Árið 1949 hóf Þormóður búskap á Kornsá, en það ár kynntist hann eftirlifandi konu sinni, Gerðu Edith, fædd Jáger, sem þá hafði ráðist sem kaupakona að Kornsá.
Þau Gerða og Þormóður gengu í hjónaband hinn 19. sept. 1951 og bjuggu þau á Kornsá fram til 1957, er þau fluttust til Siglufjarðar.

Á Siglufirði starfaði Þormóður fyrst sem vörubifreiðastjóri, en réðist síðan til sjós á Sigluf jarðartogarana Elliða og Hafliða. Einnig starfaði hann sem sjómaður á kaupskipum um skeið. Um 1967 hætti Þormóður sjómennsku og starfaði næstu árin sem netagerðarmaður í landi, en um 1970 hóf hann störf hjá Skattstofu Norðurlandsumdæmis vestra og næstu árin vann hann þar hálft árið en hálft árið við netavinnu, eða þar til í lok síðasta árs að hann var fastráðinn sem bókari og gjaldkeri hjá Rafveitu Siglufjarðar.

Hjónaband þeirra Gerðu og Þormóðs hefir reynst hið farsælasta og hafa þau eignast fjögur börn, sem eru hvert öðru mannvænlegra, en þau eru þessi:

  • 1. Páll Herbert Þormóðsson. f. 1.1. 1951, flugvirki í Luxembourg, kvæntur Ingibjörgu Jónsson.

  • 2. Birgir Jóhann Þormóðsson f. 4.8 1952, rafvirkjanemi á Sauðárkróki, kvæntur Elínu Þorbergsdóttur og eiga þau einn son.

  • 3. Álfhildur Þormóðsdóttir f. 9.5 1955, húsmóðir á Siglufirði, gift Birni Birgissyni, rennismið, og eiga þau tvö börn, son og dóttur.

  • 4. Alma Aðalheiður Þormóðsdóttir. f. 5.3 1961, nemandi í gagnfræðaskóla Siglufjarðar, enn í foreldrahúsum.

Kynni okkar Þormóðs hófust með sameiginlegu starfi að félagsmálum Sjálfstæðisflokksins í Siglufirði. Var hann þar mjög áhugasamur auk þess að vera prýðilega ritfær, enda komst hann fljótt í forystusveit. Skrifaði hann töluvert í málgagn flokksins á Siglufirði, blaðið Siglfirðing, og ennfremur nokkuð reglulega greinar i Morgunblaðið um árabil. Veturinn 1973—74 tók hann svo að sér ritstjórn Siglfirðings og hafði hana á hendi með miklum sóma til dauðadags.

Er það út af fyrir sig afrek, því að fæstir geta gert sér grein fyrir því, hvað erfitt er að standa fyrir reglulegri blaðaútgáfu í litlu bæjarfélagi. Vorið 1974 var Þormóður kosinn í bæjarstjórn Siglufjarðar fyrir Sjálfstæðisflokkinn, en kjörtímabilið þar á undan hafði hann verið fyrsti varafulltrúi flokksins i bæjarstjórn. Síðan hann kom í bæjarstjórn hefir hann m.a. alla tíð átt sæti í bæjarráði, sem er aðalframkvæmdanefnd bæjarins, og látið fjölmörg mál til sín taka af áhuga og dugnaði.

Einkum hafa honum verið hugleikin skipulagsmál og gatnagerðarmál, og hafði hann unnið mikið að undirbúningi framkvæmda á þeim sviðum á síðustu mánuðum. Allar horfur eru á, að þau stórhuga áform verði að veruleika á næstu árum, en óskiljanleg örlög hafa nú valdið því, að Þormóður lifir ekki að sjá þessa drauma sina rætast. Þormóður Runólfsson var dulur maður, sem ekki bar tilfinningar sínar eða einkamál á torg.

Hann mun t.d. fyrir allöngu hafa verið farinn að kenna lasleika, sem varð honum að aldurtitla, þótt hann hefði aldrei orð á því við mig eða aðra félaga sina. Hann var víðlesinn og margfróður, og skoðanir sínar og afstöðu til mála byggði hann á sannfæringu sinni og þekkingu eftir að hafa kynnt sér málin rækilega fyrirfram.

Var hann þá jafnframt fastur á sinni skoðun og lét hvorki pólitíska andstæðinga né heldur samherja breyta henni, ef svo bar undir. Við fráfall Þormóðs Runólfssonar höfum við sjálfstæðismenn í Siglufirði misst traustan og hreinskiptinn forystumann. Mestur er þó missir og söknuður ekkju Þormóðs, Gerðu Pálsdóttur og votta ég henni, börnum hennar, tengdabörnum og barnabörnum dýpstu samúð.

Knútur Jónsson.
-----------------------------------------------------------------------

Siglfirðingur - 5. tölublað (19.10.1977) - Tímarit.is


Þormóður Runólfsson bæjarfulltrúi í Siglufirði. f. 9. október 1931. d. 30. ágúst 1977

Á þeirri vegferð lífs frá vöggu til grafar, sem okkur er öllum búin, mætum við marbreytileika tilverunnar í olíum sínum myndum, allt frá hátindi hamingju niður í lægðir dýpstu sorgar. Þannig er lífsreynslan, sem mótar persónuleka okkar úr meðfæddum eiginleikum, teknum í arf frá forfeðrum og mæðrum, bæði mildur kennari og strangur, sem oft er erfitt að skilja — og á stundum að sætta sig við.

Ekkert er jafnöruggt í lífi okkar og þau endalok, sem hver dagur skilar okkur áleiðis að. Nær alltaf koma þau þó á óvart — og þá mest þegar menn á beta starfsaldri sem miklar framtíðarvonir voru bundnar við, eru snögglega kallaðir. Okkur, vinum og samherjum Þormóðs heitins Runólfssonar, brá því ónotalega við, er við fréttum þau válegu tíðindi, að hann hefði orðið bráðkvaddur við laxveiðar í Fljótaá 30. ágúst síðast liðinn.

Í huga huga okkar var hann tengdur framtíðarstarfi við uppbyggingu í Siglufjarðarkaupstað, sem hann að heilum huga var þátttakandi í. Það var því örðugt að sætta sig við orðinn hlut, eða tilgang í köllun þessa horfna vinar.

Þormóður Runólfsson fæddist að Kornsá í Vatnsdal í Austur-Húnavatnssýslu 9. okt. árið 1931 og var því aðeins 45 ára er hann lést.

Foreldrar hans voru hjónin Alma Jóhannsdóttir Möller og Runólfur Björnsson, þá búandi þar. Þormóður var næstyngstur níu systkina.

Snemma bast lífsþráður Þormóðs heitinn Siglufirði. Hann settist ungur á námsbekk í Gagnfræðaskóla Siglufjarðar, en hann stundaði nám þar og við héraðsskólann á Laugarvatni. Að námi loknu hófst starfsferill Þormóðs heitins, sem varð óvenju fjölþættur, og skóp honum yfirsýn og skilning á flestum þáttum þjóðlífsins, ásamt óslitinni sjálfsmenntun, er hann lagði mikið kapp á alla tíð.

Hann, hóf búskap að Kornsá árið 1949 og var bóndi þar fram til ársins 1957, er hann fluttist ásamt fjölskyldu sinni til Siglufjarðar. Þar vann hann fyrst sem vörubifreiðarstjóri.
Síðan réðst hann til sjós á Siglufjarðartogarana Elliða og Hafliða. Hann starfaði einnig á kaupskipum um skeið. Þá vann hann um árabil að netagerð. Um 1970 hóf hann störf á Skattstofu Norðurlandsumdæmis vestra.

Á sl. ári (1976)réðist hann svo sem bókari og gjaldkeri til Rafveitu Siglufjarðar. Þormóður Runólfsson Sama ár og Þormóður hóf búskap að Kornsá í Vatnsdal kynntist hann eftirlifandi konu sinni, Gerða Edith, fæddri Jager, sem þá hafði ráðist kaupkona þangað.

Þau gengu í hjónaband 19. september 1951. Hjónaband þeirra varð farsælt og þeim fjögurra barna auðið:

  • 1. Páll Herbert, flugvirki í Luxembourg, kvæntur Ingibjörgu Jónsson.
  • 2. Birgir Jóhann, rafvirkjanemi á Sauðárkróki, kvæntur Elínu Þorbergsdóttur.
  • 3. Álfhildur, húsfreyja í Siglufirði, gift Birni Birgissyni.
  • 4. Alma Aðalheiður, nemi í Gagnfræðaskóla Siglufjarðar og enn í heimahúsum.

Þormóður Runólfsson á að baki langt og farsælt starf innan Sjálfstæðisflokksins í Siglufirði. Hann skipaði snemma sess í forustuliði flokksins þar á staðnum. Um langan aldur hefur hann verið drjúgur liðsmaður blaðsins Siglfirðings, sem Sjálfstæðisfélögin í Siglufirði gefa út — og ritstjóri þess frá því síðla árs 1973 til hinstu stundar. Þá skrifað Þormóður um árabil greinar í Morgunblaðið.

Hann var prýðilega ritfær, stílhagur og rökviss og lagði mikla alúð við ritstörf sín. Vorið 1974 var hann kjörinn í bæjarstjórn Siglufjarðar fyrir Sjálfstæðisflokkinn, en hafði kjörtímabilið þar á undan verið fyrsti varabæjarfulltrúi flokksins — og þá þegar sinnt bæjarmálum allnokkuð. Frá því Þormóður heitinn var kjörinn bæjarfulltrúi hefur hann jafnframt setið í bæjarráði, sem er aðalframkvæmdanefnd bæjarfélagsins. I bæjarmálum var Þormóður bæði framsýnn og hagsýnn — og lagði á sig mikla vinnu til að setja sig inn í mál og brjóta þau til mergjar.

Ég minnist margra stunda með Þormóði Runólfssyni er við unnum saman að hugðarefnum innan vébanda Sjálfstæðisflokksins. Með honum var gott að vera og vinna. Þekking hans og greind speglaðist í hollráðum. Hann var alla jafna alvörugefinn en gat verið skemmtinn og léttur í lund í vinahópi. Síðast er við ræddum saman í einlægni og vináttu var 20. maí — á afmælisdegi kaupstaðarins — er við hjónin snæddum kvöldverð á heimili Þormóðs og Gerðu. Þá var sól í augum hans og léttleiki í orðum.

Ekki hvarflaði þá að mér að þar færi maður sem ekki gengi heill til skógar og vissi af því, svo sem mér hefur síðar verið sagt. En það var ekki eitt af einkennum Þormóðs að bera ekki tilfinningar sínar og einkamál á torg. Hann var bæði karlmenni og drengur góður, í þeirri orða bestu merkingu. Ég þakka Þormóði Runólfssyni gegnum margra ára vináttu og samstarf.

Ég færi honum þakklæti siglfirskra flokks systkina, heima og heiman. Megi hann hafa góða ferð og heimkomu. Gerðu og börnunum sendi ég kveðju mínar og minna. Þau hafa mikið misst — vegna þess að þau áttu mikið, þar sem hann var, sem við nú kveðjum og syrgjum. Megi sorg þeirra miklast í skjóli minninga og trúar.

Stefán Friðbjarnarson 
-------------------------------------------------

Það fór fyrir mér eins og flestum, ég gat vart trúað því að Þormóður Runólfsson væri látinn, er mér barst fregn af andláti hans. Þessi andlátsfregn snart mig mjög, ekki síður en ættingja hans, en samvinna okkar síðustu árin vegna starfa við blaðið Siglfirðings ásamt störfum innan Sjálfstæðisflokksins, var orðin all náin því áhugamál okkar og pólitískar skoðanir voru að mörgu líkar.

Hann vildi snúa sér að staðreyndum mála en ekki að aukaatriðum, hann vildi ræða málin málefnalega og koma beint að efninu og síðan að niðurstöðu en ekki að ráfa í kringum málið án tilgangs. Hann hélt á lofti rétti einstaklingsins til að hafa eigin skoðanir á málinu, Hann vildi ræða skoðanir annarra og komast að samkomulagi ef þær skoðanir voru ekki í samræmi við hans eigin. Hann var eindreginn kommúnistahatari, — ekki mannhatari þó.

Heldur vissi hann um skaðvald kommúnískrar stefnu, hann hafði kynnt sér sögu og starf kommúnismans betur en flestir og vissi því um hættuna. Þekkingu sinni hefur hann miðlað víða með árangri. Ég gæti haldið áfram upptalningu minni á kostum Þormóðs heitins, en ég tel það óþarft, því að allir Siglfirðingar þekktu hann.

Raunar kom í ljós við fráfall hans að hann átti fleiri aðdáendur en vitað var um, því heyrt hefi ég raddir frá ólíklegustu mönnum úr öllum flokkum, að Siglfirðingar hafi misst góðan baráttumann um málefni bæjarins. Það hafi ekki aðeins verið höggvið skarð í fjölskyldu Þormóðs og Sjálfstæðisflokkinn, heldur í framtíð bæjarins. Ég votta fjölskyldu hans innilega samúð.

Steingrímur Kristinsson
-----------------------------------------------

KVEÐJA frá barnabörnum
Afi minn, ég var að hugsa um dálítið um daginn, sem ég veit að fáir skilja nema þú. Ég ætla að trúa þér fyrir einu og það er það, að þegar ég er orðinn stór, þá ætla ég kannski að verða flugstjóri á svo voðalega stórri flugvél, að ég get kannski flogið alveg upp í himininn til þín. Þá verður sko gaman, afi. Veistu þá getum við steypt okkur kollhnís saman á fína stofugólfinu hjá guði, eins og við gerðum oft á stofugólfinu hjá þér, þegar þú varst hér á jörðinni.

Heyrðu, afi, ég veit að þú ert nú hjá guði, því að mamma og pabbi hafa sagt mér það. En afi, hún litla systir veit ekki hvað guð er, en það er allt í lagi, ég skal reyna að segja henni hver hann er. Afi minn, af hverju tók guð þig svona snemma og fljótt frá okkur, við höfðum ekki tíma til að kveðja þig. En mamma og pabbi hafa sagt mér, að vegir guðs séu órannsakanlegir. Við ætlum nú að kveðja þig í hinsta sinn og að biðja guð að varðveita þig um alla eilífð. Við litla systir biðjum þig að skila kveðjum til allra, sem við eigum að þarna í himnunum.

Bless afi. Þinn Eiríkur, og þín Gerða.