Jóhanna Vernharðsdóttir

mbl.is 18. desember 2020 | Minningargreinar

Jóhanna Vernharðsdóttir fæddist 29. mars 1934, Hún lést 8. desember 2020.

Jóhanna var fædd á Siglufirði og bjó þar alla sína tíð. Foreldrar hennar voru Anna Konráðsdóttir, f. 1903 á Tjörnum í Sléttuhlíð, d. 1964, og Vernharður Karlsson, f. 1900 á Hesteyri í Jökulfjörðum, d. 1985.

Jóhanna giftist Hafliði Sigurðsson 18. nóvember 1955 en hann lést árið2000. Lengst af bjuggu þau að Laugarvegi 1 á Siglufirði.

Síðustu 10 árin bjó Jóhanna á Skálarhlíð á Siglufirði og síðasta árið að hjúkrunarheimilinu Hornbrekku á Ólafsfirði.

Systur Jóhönnu voru: Margrét, f. 1926, d. 1990; Fanney, f. 1929, d. 2012; Anna Hjörtína, f. 1931, d. 2017.

Jóhanna Vernharðsdóttir

Jóhanna Vernharðsdóttir

Börn Jóhönnu og Hafliða eru:

1) Fanney Ásgerður Hafliðadóttir, f. 1953, búsett á Siglufirði, gift Sturlaugi Kristjánssyni.
Börn þeirra:
a) Jóhanna gift Jóni Ásmundssyni búsett í Keflavík.
Þeirra börn:
 • Arnar Freyr og
 • Sandra Ósk.
Áður átti Jóhanna
a) Sturlaug Fannar Þorsteinsson.
b) Kristján, giftur Hugborgu Harðardóttur, búsett á Siglufirði.
Þeirra börn:
Haukur Orri Kristjánsson, giftur Helgu Guðrúnu Sigurgeirsdóttur,
börn þeirra er
 • Kristján Svavar.
 • Hörður Ingi og
 • Sigurlaug Sara.
c) Þrúður Elísabet sambýlismaður Övind Andersen.
Þeirra synir eru:
 • Geir Fredrik og
 • Roy Magnus.
  Áður var Þrúður gift Sigurði Þorleifssyni.
  Þeirra synir:
 • Brynjar Þór og
 • Þorleifur Gestur.

Þau búa öll í Kristiansand í Noregi.

2) Vernharður Hafliðason, f. 1956, giftur Huldu Kobbelt búsett í Garðabæ.
Börn þeirra:
a) Víðir, í sambúð með Brittany Tassano. Þau eru búsett í Poulbo/Seattle U.S.A.Fyrrverandi maki Máney Sveinsdóttir
börn þeirra:
 • Steinunn Vala og
 • Jóhann Fannar.

b) Fannar giftur Sigrúnu Ingvarsdóttur
börn þeirra eru:
 • Kristján Víðir,
 • Anna Sigrún og
 • Aron Fannar. Þau búa í Hafnarfirði.

3) Hafliði Jóhann, f.1957, giftur Helgu Magneu Harðardóttur búsett í Kópavogi.
Börn þeirra:
 • a) Hafliði Hörður, maki Ingibjörg Jónsdóttir, búsett á Egilstöðum.
 • Þeirra börn eru:
 • Rakel Birta,
 • Tinna Sóley og
 • Magnea Margrét.

b) Sigríður Sóley, maki Óli Már Ólason.
Þeirra börn:
 • Brynjar Ingi,
 • Patrekur Már og
 • Elmar Andri.
c) Þórður, maki Helena Dögg Snorradóttir
Þeirra börn:
 • Bríet Lovísa og
 • Birnir Snorri.

d) Harpa Rut maki Ragnar Hjörvar Hermannsson
Þeirra börn:
 • Hafdís Edda og
 • Katla Sóley.

Útför Jóhönnu fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag, 18. desember 2020, klukkan 11. Streymt verður frá athöfninni á: https://youtu.be/rau4_pqoURQ/
-
--------------------------------------------

Ég hitti Jóhönnu fyrst árið 2001 en þá var ég farin að vera með Hafliða Herði Hafliðasyni, barnabarni Jóhönnu. Hún kom fyrir sjónir sem einstaklega glæsileg kona. Varalitur, naglalakk, uppsett hár og margir skartgripir. Ég sjálf átti tvær ömmur sem voru báðar um 20 árum eldri en Jóhanna en þarna hitti ég aðra gerð af ömmu en ég átti að venjast og ég man að fyrst um sinn var ég hálffeimin.

Jóhanna var hrókur alls fagnaðar, greinilega sjálfstæð og mjög skoðanasterk, hafði prakkaralegan húmor og var ekkert að skafa af hlutunum. Ég gleymi ekki undrunar- og vanþóknunarsvipnum sem kom á hana þegar ég áræddi að segja upphátt að ég væri ekkert mikið fyrir að spila, eftir margítrekað boð í manna. „Halli minn, hvað gengur þér til með þessa?!“ spurði hún hátt og hvellt yfir fjölskylduhópinn svo ég roðnaði niður í tær.

Hún var þó fljót að taka mig í sátt og við urðum strax hinir mestu mátar þótt við næðum ekki saman í spilum. Ég verð Jóhönnu ævinlega þakklát fyrir skemmtilegar samverustundir þar sem mikið var af hlátri og gleði. Líka fyrir hlýju og gjafmildi, hreinskilnar athugasemdir og sterkan karakter sem skilur svo mikið eftir sig. Ég sendi fjölskyldu og vinum hennar Jóhönnu mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Ingibjörg Jónsdóttir.
------------------------------------------

Elsku besta amma Jókka er nú farin frá okkur. Það er óhætt að segja að hún hafi haft áhrif á mann á uppvaxtarárunum á Siglufirði. Ótrúlega margar gleðistundir á Laugarvegi 1, í hinum ýmsu veislum og mögnuðum spilakvöldum. Veislur í yfirfullu húsinu, þar sem alls kyns kræsingar voru á borðum og spilakvöldin í eldhúsinu með henni og afa, sem eru mér ógleymanleg, þar sem hún hafði sérstakt lag á því að koma sér vel fyrir og láta okkur nafnana stjana við sig.

Fyrir utan spilakvöldin á Laugarveginum var líka spilað í Alþýðuhúsinu og svo fékk maður stundum að fara með henni í bingó. Maður hafði það á tilfinningunni að hún hefði nú ekkert sérstakan áhuga á bingóvinningunum sem hún fékk, því að flestir þeirra voru gefnir áfram og einhverjir þeirra enduðu á háaloftinu. Háaloftið hjá henni var algjörlega sér heimur, þar sem allt virtist vera til en enginn fékk að fara þangað, nema kannski afi til að sækja eitthvað.

Amma var sterk og flott persóna, sem þoldi ekkert kjaftæði. Hún hafði lag á því að koma sér að kjarna málsins í þeim samtölum sem hún átti. Þetta var einn af mörgum hæfileikum sem hún hafði og hefur alveg örugglega skilað sér áfram til hennar nánustu.

Allar heimsóknirnar á Laugarveginn og síðan í Skálarhlíðina, góða viðmótið sem maður fékk frá henni og alltaf eitthvað gott að borða. Minning öflugrar konu mun lifa vel og lengi hjá okkur sem umgengumst hana. Ég á eftir að sakna ömmu Jókku mikið.

Hafliði Hörður Hafliðason.
----------------------------------------------

Sérstakt er að hugsa til þess að amma sé farin. Kona sem ævinlega fór mikið fyrir, hélt öllum á tánum en hlúði á sama tíma vel að sínum nánustu. Amma hafði einstakt lag á matseld enda matráður við sjúkrahúsið á Siglufirði í um 42 ár. Rabarbaragrauturinn ljúfi, svo ekki sé minnst á kramarhúsin með rjóma og sultu. Allt sem meðhöndlað var innan veggja þar sem eldavél og ísskápur voru lék í höndunum á henni.

Ég gæti líklega skrifað endalaust um matseldina og þau ófáu kvöld sem við snæddum kjúkling úr Ólafsfirði en ætla ekki að fara nánar út í það. Ljúft er að minnast stundanna sem við áttum saman á Laugarvegi 1 þar sem nóg var til af öllu og eiginlega rúmlega það.
Maður lifandi þegar þú varst að snúa Venna-Vagninum (gamla Subaru) á Laugarveginum eitt skiptið. Það má eiginlega segja að þá hafi ekki farið saman hljóð og tal þegar rauður átti að vera í bakkgír en raunin að honum hafði verið komið fyrir í fjórða.

Kúplingunni var sleppt „af einstakri lagni“ og Rauður tókst á loft fram á við og stóðu framhjólin á brúninni á steinveggnum við garðinn á Laugarvegi 1.
4-5 ára ég rak upp óp af hræðslu en var svarað með glotti: „Það er nú ekki eins og þetta sé í fyrsta skipti.“

Önnur saga af okkar samskiptum var þegar ég fékk bílinn hjá þér og minnir mig að það hafi verið á degi tvö sem fyrsta sektin náðist á mynd.
Ég ákvað að segja ekki orð því ég vissi að stundum kæmi blikk en engin mynd væri tekin. Hálfum mánuði seinna var hringt. „Gjörðu svo vel að koma hingað og finna mig.“ Ég undirbý mig andlega fyrir heimsóknina því ég vissi hvert erindið væri. Það var sektin og bíllinn á þínu nafni.

Amma situr í eldhúsinu í íbúðinni á Skálarhlíð með umslag og segir við mig: „Hvað er þetta?“ Svarið var einfalt: þetta er sekt. Sektin var 3.250 kr. ef hún yrði greidd fyrir einhverja ákveðna dagsetningu. Amma réttir mér umslagið og ég opna það. Í umslaginu var sektin og 5.000 kr. seðill. „Farðu á sýsluskrifstofuna og borgaðu þetta fyrir mig.“
Ég bendi henni góðfúslega á það að eðlilegast sé að ég borgi þar sem ég ók bílnum. „Borgaðu þetta með peningunum, þú mátt svo eiga afganginn en fleiri svona miða vil ég ekki fá.“

 • Ég fel í forsjá þína,
 • Guð faðir sálu mína,
 • því nú er komin nótt.
 • Um ljósið lát mig dreyma
 • og ljúfa engla geyma
 • öll börnin þín, svo blundi rótt.

(Matthías Jochumsson)

Farðu í friði kæra amma.

Fyrir hönd fjölskyldunnar á Fossvegi 31,

Haukur Orri Kristjánsson.
------------------------------------------------------------------

Elsku fallega amma Jókka, við kveðjum þig með miklum söknuði en erum full þakklætis fyrir þann tíma sem við fengum með þér, en sá tími einkenndist af yndislegum og góðum stundum. Það yljar okkur um hjartarætur að rifja upp minningar um þig. Það var alltaf gaman og gott að vera hjá þér. Við spiluðum mikið ólsen-ólsen, oft var pöntuð pítsa á Pizza 67 og við dunduðum okkur í garðinum á Laugarvegi 1.

Þessar yndislegu minningar munu lifa í hjörtum okkar og við munum minnast þín og halda minningu þinni á lofti. Þú kenndir okkur systkinum margt og við minnumst þess bæði frá ungum aldri að þú kenndir okkur að hugsa um aðra, sýna öllum virðingu og vera þakklát fyrir það sem við hefðum. Það sýnir hversu yndislega góð og hugulsöm þú varst.

Þú varst svo einstök, hjartahlý og góð. Þú varst okkar helsti stuðningsmaður í einu og öllu, það var alltaf hægt að treysta á þig, sama hvað. Þú varst og verður áfram fyrirmynd okkar í lífinu, enda litum við bæði mjög mikið upp til þín.

Þú hefur nú fengið hvílu með elsku fallega afa Didda, og veitir það okkur hjartaró að vita af ykkur saman aftur í sumarlandinu. Elsku amma, þú átt stóran part í hjarta okkar systkina og við erum óendanlega heppin að hafa átt þig að. Þín verður sárt saknað og minning þín lifir hjartkær í hjörtum okkar.

Sandra Ósk Jónsdóttir og Arnar Freyr Jónsson, langömmubörn.
-----------------------------------------------------------

Ég sit með myndabunka frá frænku sem mér var færður á dögunum og rifja upp ljúfar samverustundir: í sól á Siglufirði (alltaf sól þar), sumar í Munaðarnesi, fermingar, afmæli og ættarmót svo fátt eitt sé talið. Þessar myndir voru síðasta jólakveðja Jóhönnu uppáhaldsfrænku minnar. Að sjálfsögðu fylgdi ein Grand Marnier með í pokanum.

Í bernskuhuga mínum sá ég þessa siglfirsku frænku mína í ævintýraljóma. Hún var bara flottust. Átti alveg magnaða svarta háhælaða skó með opinni tá og það sem meira var; ég fékk að skakklappast á þeim að vild. Svo var hún svo flott máluð, með blátt á augunum að ógleymdum löngu fagurlega lökkuðu nöglunum, sem voru í raun einkennismerki hennar alla tíð. Hún var alger skvísa, löngu áður en það orð komst inn í íslenska tungu.

Mikill samgangur var milli fjölskyldna okkar og það var einkar kært með Jóhönnu og móður minni. Við mæðgur fórum norður flest sumur þegar ég var barn og seinna kom hún mörg haust til okkar til að reyna að fá bót á gigtarskömminni. Þótt tilefnið væri ekki endilega gleðilegt var koma hennar alltaf tilhlökkunarefni. Hún var skrafhreifin og skemmtileg, lá ekki á skoðunum sínum um menn og málefni. Jóhanna var litrík persóna sem lífgaði sannarlega upp á tilveruna.

Hjálpsemi og greiðvikni eru orð sem koma í hugann. Jóhanna var alltaf boðin og búin að leggja fólki lið. Þegar mamma handleggsbrotnaði illa sóttu þau Diddi hana til Reykjavíkur og önnuðust hana af einstakri natni meðan þess þurfti.

Þegar ég var við nám í London endur fyrir löngu langaði mömmu að heimsækja mig en treysti sér illa til að ferðast ein. Jóhanna bauðst strax til að fylgja henni. Þær mættu á Heathrow og dýrðardagar fóru í hönd eins og sést best á myndunum fyrrnefndu. Við sáum og upplifðum margt. Sáum söngleikinn Evitu, fórum á æskuslóðir Shakespears í undurfallegu Cotswold að ónefndum glæsilegu verslunarhúsunum – þar var nú frænka í essinu sínu.

Í móðurætt minni eru annálaðar hannyrðakonur og Jóhanna var þar engin undantekning. Eftir hana liggur mikið af fallegum hannyrðum sem hún var óspör á að gefa vinum og ættingjum enda sérlega gjafmild. En frænka var ekki síður annálaður kokkur. Hún gat fyrirvaralítið slegið upp stórveislu í litla húsinu sínu og allt bragðaðist jafnvel. Jóhanna starfaði um langt árabil sem matráðskona við sjúkrahúsið á Siglufirði og þar nutu hæfileikar hennar sín vel.

Þótt Jóhanna fengi yfir sig sína brimskafla var hún gæfumanneskja. Hún giftist ung góðum dreng og þau eignuðust þrjú börn sem öllum hefur farnast vel. Frænka fylgdist vel með afkomendum sínum og bar hag þeirra fyrir brjósti. Hún setti ekki fyrir sig að leggjast í löng ferðalög til að heimsækja þau sem voru búsett erlendis. Það eru því margir sem sakna hennar. Sjálf mun ég sakna sárlega símtalanna og heimsóknanna. Blessuð sé minning Jóhönnu Vernharðsdóttur.

Hafdís Ingvarsdóttir