Nanna Þuríður Þórðardóttir

Morgunblaðið - 01. desember 2005  Minningargreinar

Nanna Þórðardóttir fæddist á Siglufirði 30. apríl 1923. Hún andaðist á líknardeildinni á Landakoti 23. nóvember síðastliðinn.

Foreldrar hennar voru Þórunn Ólafsóttir, f. 14. apríl 1884, d. 18. nóvember 1972, og Þórður Guðni Jóhannesson, f. 13. júlí 1890, d. 15. mars 1978.

Systkini Nönnu eru:

 • Björn, f. 19. september 1913,
 • Davíð, f. 29. september 1915,
 • Sigríður Ólöf, f. 2. janúar 1917, d. 20. apríl 2002,
 • Jóhannes, f. 29. september 1919, og
 • Guðbjörg Auður, f. 14. júlí 1921, d. 20. nóvember 1928.
  Auk þessara alsystkina eru hálfsystur Nönnu,
  sammæðra:
 • Jóhanna Soffía Pétursdóttir, f. 3. nóvember 1904, d. 13. júní 1970,
  og samfeðra:
 • Anna Pálína, f. 8. apríl 1935.
Nanna Þórðardóttir - ókunnur ljósmyndari

Nanna Þórðardóttir - ókunnur ljósmyndari

Nanna giftist 8. júni 1963 Gunnari Möller, f. 27. júlí 1922, d. 3. nóvember 1996.

Foreldrar Gunnars voru Jóna Sigurbjörg Rögnvaldsdóttir, f. 18. mars 1885, d. 6. febrúar 1972, og Christian Ludwig Möller, f. 5. apríl 1987, d. 11 ágúst 1946.

Synir Nönnu og Gunnars eru: 

 • 1) Þórður, f. 6. október 1960. Eiginkona Þórðar er Ingibjörg S. Helgadóttir, f. 26. júní 1957.
  Börn þeirra eru
 • Helgi, f. 31. ágúst 1985,
 • Nanna, f. 13. júlí 1988, og
 • Gunnar, f. 19. mars 1990.

 • 2) Rögnvaldur, f. 10. mars 1965. Kona Rögnvalds er Þóra Kristinsdóttir, f. 21. september 1960,
  sonur þeirra er
 • Kristinn, f. 25. september 2002.
 • Dóttir Þóru
  og fósturdóttir Rögnvalds er
 • Dóra Minata, f. 21. nóvember 1996.

Nanna og Gunnar bjuggu á Siglufirði fram til ársins 1977 en þá flytur fjölskyldan til Reykjavíkur.

Útför Nönnu verður gerð frá Grafarvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

 • Að minnast góðrar móður
 • er mannsins æðsta dyggð
 • og andans kærsti óður
 • um ást og móðurtryggð.

 • Hjá hennar blíðum barmi
 • er barnsins hvíld og fró.
 • Þar hverfa tár af hvarmi
 • og hjartað fyllist ró.

(Freysteinn Gunn.)

Lífið er eins og flugferð. Klifur og síðan tekur við mótvindur, meðbyr, hristingur og hugsanlega einstaka dýfur. Aðflugið getur verið langt og strangt en lendingin síðan mjúk eða kannski öfugt. Maðurinn ræður ekki sinni ferð. Flest fáum við að upplifa flugferð sem er nokkuð fjölbreytt. Mamma fékk að reyna ýmislegt, á yngri árum, sem markaði líf hennar. En einhvern veginn var það svo að við héldum alltaf að hún hefði stöðugan meðbyr.

Jafnaðargeð og sáttfýsi við allt og alla. Aldrei sagði hún styggðaryrði um nokkurn mann. Það sem þurfti að gera var gert. Alltaf jákvæð. Hún þerraði mörg tárin. Mamma og pabbi þekktust frá barnæsku, áttu heima hlið við hlið heima á Siglufirði. Þegar þau nálgast fertugt stofna þau heimili og fjölskylda verður til. Fyrst á Siglufirði og síðan í Reykjavík. Maður sér eftir á að þau hafa oft haft vindinn í fangið en þau létu alltaf sem væri fljúgandi lens. Þegar ferð pabba endar 1996 þá er heilsu mömmu farið að hraka. Hún stóð meðan stætt var og, að mati margra, lengur en það.

Söknuðurinn er mikill.

Þórður.
-----------------------------------------------------

Elsku amma. Nú er komið að kveðjustund. Þú ert farin í ferðina sem bíður okkar allra. Alla okkar ævi hefur þú verið stór hluti af lífi okkar svo það er skrítið að hugsa til þess að þú sért ekki lengur til staðar. Á hverjum sunnudegi í mörg ár komum við í sunnudagskaffi til ykkar afa og á hverju aðfangadagskvöldi áttum við notalega stund saman. Þessara heimsókna munum við alltaf minnast. Framvegis verðum við að láta okkur nægja að kveikja á kerti og hugsa til ykkar beggja. Við þökkum fyrir blíðu þína og elskulegheit sem þú alltaf sýndir okkur og biðjum guð að blessa minningu þína.

 • Margs er að minnast,
 • margt er hér að þakka.
 • Guði sé lof fyrir liðna tíð.
 • Margs er að minnast,
 • margs er að sakna.
 • Guð þerri tregatárin stríð.

(V. Briem.)

Hvíl í friði, elsku amma.

Helgi, Nanna og Gunnar.
----------------------------------------------------------

Margs er að minnast þegar ég kveð Nönnu föðursystur mina en hún lést 23. nóvember sl. Hún var fastur punktur í tilveru minni frá því að ég man fyrst eftir mér. Hún bjó á neðri hæðinni á Hafnargötu 6 á Siglufirði með Þórunni móður sinni og voru miklir kærleikar með þeim alla tíð.

Fjölskylda mín bjó á efri hæðinni og urðum við þeirrar gæfu aðnjótandi að umgangast þær mæðgur daglega. Alla tíð var Nanna með einhverja handavinnu, að hekla, flosa, orkera eða sauma út og var hún snillingur, það lék allt í höndum hennar á því sviði.

Margar stundir sat ég með mína skólahandavinnu og fékk leiðbeiningar hjá Nönnu og bý ég að því enn í dag og er mér efst í huga þakklæti fyrir hjálpina og umhyggjuna sem hún sýndi mér. Maður heldur alltaf að það sé nægur tími til að þakka og kveðja og segja ósögðu orðin, en það er nú ekki svo.

Nú þegar dregur að jólum er ekki annað hægt en að minnast jólanna á Hafnargötunni þegar fjölskyldan hittist í kaffiboði ömmu, gómsætu kökurnar hennar Nönnu sem ég á enn uppskriftir að og að ógleymdum kleinunum sem þið amma gerðuð saman, þær voru meiri háttar.

Nanna giftist Gunnari Möller Kristjánssyni og eignuðust þau tvo syni þá Þórð og Rögnvald. Bjuggu þau á Siglufirði í nokkur ár en fluttu svo til Reykjavíkur.

Við það minnkuðu samskipti okkar en ég reyndi að hafa samband við hana eins og ég gat, en hefði þó kosið að það hefði verið meira.

Það er með söknuði sem ég kveð frænku mina í dag og lýk þessum fáu orðum með erindi úr sálmi sem Þórunn amma mín hafði svo miklar mætur á.

 • Ég fell í auðmýkt flatur niður
 • á fótskör þína, Drottinn minn,
 • mitt hjarta bljúgt og heitt þig biður
 • um hjálp og náð og kraftinn þinn,
 • að sigra hverja synd og neyð,
 • er særir mig um æviskeið.

(Þ. Þorkelsson.)

Elsku Þórður, Rögnvaldur, makar og börn, innilegar samúðarkveðjur.

Auður Björnsdóttir.