Alvilda María Friðrikka Möller

Morgunblaðið - 06. janúar 2001

Alvilda Möller fæddist á Siglufirði 10. desember 1919.
Hún bjó í Hrísey öll sín fullorðinsár en lést á Dalbæ, dvalarheimili aldraðra á Dalvík, á nýársnótt.

Foreldrar hennar voru hjónin Christian Ludvig Möller, lögregluþjónn á Siglufirði, f. 5. apríl 1887 á Blönduósi, d. 11. ágúst 1946 á Siglufirði og Jóna Sigurbjörg Rögnvaldsdóttir, húsmóðir, f. 18. mars 1885 á Þrastarstöðum á Höfðaströnd, d. 6. febrúar 1972 á Siglufirði.

Systkini Alvildu voru þessi:

 • Alfreð, f. 1909, látinn;
 • William Thomas, f. 1914, látinn;
 • Rögnvaldur Sverrir, f. 1915, látinn;
 • Jóhann Georg, f. 1918, látinn;
 • Unnur Helga, tvíburasystir Alvildu,
 • Kristinn Tómasson, f. 1921 og
 • Jón Gunnar, f. 1922, látinn.
Alvilda Möller - ókunnur ljósmyndari

Alvilda Möller - ókunnur ljósmyndari

Alvilda ólst upp á Siglufirði og tók sem ung kona virkan þátt í blómlegu atvinnulífi bæjarins. Hún stundaði nám í Húsmæðraskólanum Ósk á Ísafirði árið 1941

Árið 1944 giftist hún Birni Kristinssyni, f. 23. ágúst 1911, sjómanni frá Árskógsströnd.
Foreldrar hans voru Kristinn Pálsson (1875–1962) og Sigríður Aðalbjörg Jóhannsdóttir (1883– 1953)

Frá 11 ára aldri ólst Björn upp hjá hjónunum Friðbirni Björnssyni og Björgu Valdimarsdóttur í Hrísey.

Börn Alvildu og Björns eru:

1) Friðbjörn Berg, sjómaður og útgerðarmaður í Hrísey, f. 1945. Kona hans er Sigurhanna Ester Björgvinsdóttir bankastarfsmaður og
börn þeirra eru
 • Sigmar Jóhannes,
 • Hrannar Björn og
 • Dagný Möller.

2) Jóna Kristjana, starfskona á Dalbæ á Dalvík, f. 1948. Maður hennar er Baldur Árni Friðleifsson vélvirki og
börn þeirra eru
 • Friðbjörn,
 • Steinar Rafn og
 • Thelma Lind.
3) Nanna, starfskona á Víðihlíð, dvalarheimili aldraðra í Grindavík, f. 1949.
Dóttir hennar með Birgi Sigurjónssyni er
 • Birna María en hún ólst að mestu upp hjá Alvildu og Birni.
  Nanna giftist Viðari Sigurðssyni vélamanni, en þau skildu.
  Synir þeirra eru
 • Sigurður Grétar og
 • Viðar Þór.
4) Kristján Vilhelm, framreiðslumaður í Noregi, f. 1952.
Sonur hans með Höllu Grímsdóttur er
 • Gauti Möller. 
5) Sigurður Kristinn, bankastarfsmaður í Auckland, NýjaSjálandi, f. 1954.
Sonur hans með Sigríði Bragadóttur er
 • Kristinn.
  Eiginkona Sigurðar er Shone M. Björnsson, fædd Nicholson, ljósmóðir og
  börn þeirra eru
 • Sara María og
 • Björn James.
6) Almar, sjómaður í Hrísey, f. 1959.
Dóttir hans með Elínu Steingrímsdóttur er
 • Arnheiður Rán.
  Kona hans er Þórunn Björg Arnórsdóttir fisktæknir og
  börn þeirra eru
 • Júlía Mist,
 • Unnar Númi og
 • Alma Björg.

Barnabarnabörn Alvildu og Björns eru orðin 10 að tölu. Björn Kristinsson lést hinn 24. febrúar 1997.

Auk umfangsmikilla húsmóðurstarfa í Hrísey sinnti Alvilda ýmsum störfum utan heimilis á sínum yngri árum og lét sér alla tíð afar annt um velferð samferðamanna í Hrísey og á Siglufirði. Útför Alvildu Möller fer fram frá Hríseyjarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.
-----------------------------------------------

Í dag verður kvödd hinstu kveðju í Hrísey föðursystir okkar Alvilda Möller og er okkur systkinunum ljúft að minnast hennar nokkrum orðum. Alvilda kvaddi þetta líf á nýársnótt, tilbúin fararinnar og sátt eftir langa og gifturíka ævi. Alvilda hét fullu nafni Alvilda María Friðrikka og var nefnd eftir föðurömmu sinni, Alvildu Maríu Thomsen, konu Jóhanns Möller kaupmanns á Blönduósi. Nöfn hennar þóttu okkur ætíð tignarleg og mikil saman en einhvern veginn hæfa vel svo svipmikilli og atorkusamri konu.

Flestir nefndu hana þó Öllu og það var til marks um hve blátt áfram hún var í allri framkomu og við alla samferðamenn. Alvilda ólst upp í stórum systkinahópi á Siglufirði þegar síldin var að breyta lífi bæjarbúa svo að um munaði og ferskir vindar blésu um mannlífið. Systkinin voru átta, fædd á 13 árum, þar af fimm á rúmum fjórum árum og má nærri geta að fyrir húsmóðurina, hana ömmu Jónu, gafst ekki tími til að dunda neitt eða fjargviðrast og þaðan af síður ærðist eða leggja árar á bát. Þessa eiginleika erfði Alla í ríkum mæli, auk léttleikans og hlátursins.

Í litla Möllershúsinu ríkti glaðværð og sennilega var stundum róstu- og hávaðasamt en aldrei leiði eða lognmolla. Möllershúsið var á þessum árum og fram á fullorðinsár krakkanna nokkurs konar félagsmiðstöð okkar tíma. Herskari af börnum og unglingum kom þangað til að tefla og spila og þeir sem ekki komust inn í húsið fylgdust með spilamennskunni inn um gluggana. Í þessum hópi gáfu systurnar tvær, Alla og Nunna, bræðrum sínum sex ekkert eftir í gáska og dugnaði. Alla keppti í handbolta með KS og var meðal afkastamestu síldarstúlknanna í síldarbænum.

Dugnaðurinn átti eftir að fylgja Öllu allt hennar líf, ásamt gustinum, kraftinum og hressileikanum. Það kom sér líka vel því að hennar beið að eignast og annast stóra fjölskyldu og að vera víða og oft til taks þegar þurfti að taka til höndunum, hlúa að samferðamönnum eða einfaldlega bera með sér léttleika í dagsins önn. Þar var jafnræði með þeim hjónum, Öllu og Bjössa. Við systurnar kynntumst Öllu mest á ferðum okkar til Hríseyjar og á menntaskólaárunum í ferðum okkar í afar misjöfnum vetrarveðrum með póstbátnum Drangi milli Akureyrar og Siglufjarðar.

Alltaf var komið við í Hrísey og varla brást að Alla var mætt á bryggjunni til að fylgjast með ferðalöngunum. Ef stoppið var langt lét hún sig ekki muna um að bjóða okkur með félögum okkar í heimsókn og trakteraði á höfðinglegum veitingum um leið og hún spurði frétta og athugaði hverra manna félagarnir voru. Hún hafði það líka frá ömmu Jónu að fylgjast vel með fólki og lét sér fátt óviðkomandi. Bónbetri manneskja var vandfundin.

Öll eigum við minningar um það er hún kom í heimsóknir til Siglufjarðar, færandi hendi til ömmu Jónu með heimatilbúið góðgæti. Hún kom líka með gleði og skemmtun og tilsvör hennar og ýmiss konar orðatiltæki urðu fleyg og eru oft notuð enn í dag okkar á meðal. Hún Alvilda fór ekki oft af bæ, undi sér vel í Hrísey og þurfti ekki miklu meira. Hún setti svip á samfélagið í eyjunni; það var hennar fólk. Við minnumst Öllu frænku með hlýhug og sendum fjölskyldu hennar hugheilar samúðarkveðjur.

Inga, Alda, Jóna, Alma og Kristján Möller.