Jón Ægisson

mbl.is 3. maí 2014 | Minningargreinar

Jón Ægisson fæddist á Siglufirði 19. maí 1953. Hann lést á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Ási í Hveragerði 22. apríl 2014.

Foreldrar hans voru Þóra Frímannsdóttir, húsfreyja og verkakona á Siglufirði, fædd í Neðri-Sandvík í Grímsey, og Kristján Ægir Jónsson, sjómaður og verkamaður á Siglufirði, fæddur að Stóra-Grindli í Fljótum, í Skagafirði.

Jón var þriðji í röð fimm albræðra.
Elstur er

  • Gylfi Ægisson, fæddur 1946, næstelstur
  • Lýður Ægisson, fæddur 1948, fjórði er
  • Sigurður Ægisson, fæddur 1958, og fimmti og yngstur
  • Matthías Ægisson, fæddur 1960.
    Hálfsystkin sammæðra eru
  • Frímann Emil Ingimundarson, fæddur 1941,
  • Ríkey Ingimundardóttir, fædd 1942, og
  • Þorsteinn Ingimundarson, fæddur 1943, dáinn 1963.
    Hálfbróðir samfeðra er
  • Ríkharð Sæmundur Kristjánsson, fæddur 1940, dáinn 2009.
Jón Ægisson - ljósmyndari ókunnur

Jón Ægisson - ljósmyndari ókunnur

Jón ólst upp á Siglufirði og gekk þar í skóla. Að námi loknu var hann á ýmsum bátum og skipum í nokkur ár, sem gerð voru út frá Akureyri, Höfn í Hornafirði, Keflavík, Siglufirði og Vestmannaeyjum. Síðustu 40 árin var hann í skjóli heilbrigðiskerfisins, fyrst í Reykjavík en síðustu rúma tvo áratugina í Ási í Hveragerði, sökum veikinda sem á hann lögðust um og eftir tvítugt. Hann var ókvæntur og barnlaus.

Útför hans verður gerð í dag, 3. maí 2014, frá Hveragerðiskirkju kl. 14.30.

Jón bróðir minn kvaddi þetta líf fyrir rúmri viku, einungis sextugur að aldri, hvarf inn í sumarið eilífa. Í dag er hann borinn til grafar á fallegum stað, í nýjum reit á Kotströnd. Það er við hæfi.

Minningarnar hrannast upp. Hann var einstaklega hlý persóna. Talaði aldrei illa um nokkurn mann. Og var afar barngóður.

Þrátt fyrir lítil efni gaf hann öllu nánasta fólkinu sínu jólagjafir, eyddi gjarnan síðustu krónunni í það verkefni, bara til að gleðja; unni sér ekki hvíldar fyrr en því takmarki var náð. Og allt var þar skipulagt nákvæmlega, langt fram í tímann, og gert klárt.

Hann var gáfumenni og mikill lestrarhestur, unni þjóðlegum fróðleik og ættfræði og var frændrækinn með afbrigðum, heimsótti ættingja og vini meðan hann gat og notaði símann óspart, ef fjarlægðir voru miklar, til að halda tengslum.

Hann var músíkant, sjálflærður, lék á gítar og píanó og þó aðallega á harmonikku og var langfremstur bræðra sinna á þá græju. Kom fram á skemmtunum áður fyrr og lék fyrir dansi.

Hann var mjög svo þakklátur fyrir allt sem gert var fyrir hann og var ekkert að leyna því, sama hversu ómerkilegt og lítið það virtist. Hann hafði oft á orði hvað honum líkaði vel í Hveragerði, jafnt á sambýlinu og við hjúkrunarfólkið, sem hann elskaði út af lífinu og dáði.

Enda vildi hann hvergi annars staðar vera, þótt hann væri ávallt stoltur af því að vera Siglfirðingur.

Síðustu árin hringdi hann hvern morgun norður og spurði tíðinda. Oftast um tíuleytið, og gjarnan nokkrum sinnum í viðbót yfir daginn. Kveðja hans var alltaf: Guð veri með ykkur. Nú er sá tónn hljóðnaður. Það er sárt. Og hér er tómlegt.

Jónsi lést á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Ási í Hveragerði 22. apríl síðastliðinn, eftir að hafa greinst með krabbamein í byrjun þessa árs. En aldrei kvartaði hann eða barmaði sér í þeim veikindum. Það var ekki hans stíll.

Ég veit ekki enn úr hvaða eðalefni þessi drengur var gerður. Það er ekki þessa heims, svo mikið er víst. Betri manneskja er vandfundin. Áhrif hans á samferðafólkið voru líka djúpstæð.

  • Og hans verður saknað.
  • Tár af hvörmum hrynja,
  • harmur gistir byggðir,
  • sérhver drangi' og dalur
  • drunga eru skyggðir.
  • Allt með kenndum kærum
  • kveður svo á foldu,
  • þegar blíðu blómi
  • burtu' er kippt úr moldu.
  • Minning ljúfust lifir,
  • lauguð angan rósa.
  • Uppi' á himni háum
  • hvílir sálin ljósa.
  • Þó er hugur hrærður,
  • húmuð dægrin björtu.
  • Megi Guð minn góður
  • græða brostin hjörtu.
    (S.Æ.)

Fari þessi ljúflingur í friði og hafi bestu þökk fyrir allt. Uns við hittumst á ný.

Sigurður Ægisson.
---------------------------------------------------------

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Jónsi bróðir átti ekki alltaf sjö dagana sæla. Hann veiktist mjög ungur að aldri.

Jónsi hafði mjög gaman af myndum og skoðaði gamlar fjölskyldumyndir fram á síðasta dag. Við Lýður bróðir göntuðumst oft með það við Jón hvað hann hefði gaman af að „taka“ myndir og áttum þá við að það fækkaði stundum í fjölskyldualbúminu eftir heimsóknir Jónsa. Jónsi brosti í kampinn.

Hann hringdi oft í ættingja og vini nokkrum sinnum á dag. Eitt sinn hringdi hann í mig og sagði: „Blessaður Matthías Ægisson, bróðir minn, sonur Kristjáns Ægis Jónssonar á Siglufirði.“ Ég þóttist ekki þekkja hann: „Jón? Hvaða Jón?“ „Nú, Hreggviðsson,“ svaraði Jón að bragði.

Einu sinni hringdi hann og sagði: „Hefurðu eitthvað heyrt í Frímanni bróður?“ „Nei,“ svaraði ég. Átti von á að hann væri að falast eftir fréttum af Frímanni. Þá sagði hann: „Ég var að enda við að tala við hann. Hann biður að heilsa.“

Jón var ákaflega góðhjartaður og barngóður og elskaður af mörgum.

Hann var mikill tónlistarmaður og -unnandi. Hann lék dásamlega á nikku. Síðustu tvo áratugina var hann vistmaður á dvalarheimilinu Ási í Hveragerði. Þar hafði hann það eins gott og mögulegt var. Starfsfólkið þar reyndist honum stórkostlega og í Hveragerði undi hann hag sínum vel.

Við Lýður bróðir heimsóttum Jónsa bróður oft í Hveragerði og var þá fastur liður að fara í dalinn eins og Jónsi nefndi það og síðan í bakarí. Síðasta ferðin í dalinn er sérstaklega eftirminnileg. Lýður fyllti iðulega á tvær sódaflöskur áður en við renndum austur. Ég var kominn niður í tæplega hálfa flösku þegar við sóttum Jón.

Ég er undir stýri, Lýður við hlið mér og Jón sest aftur í. Ég tek flöskuna og spyr Jónsa hvort hann vilji drekka. Hann tekur við flöskunni, drekkur og segir svo þessi fleygu orð: „Góða veislu gjöra skal.“ Það má eiginlega frekar segja að hann hafi sungið þetta. Við Lýður skellihlógum. Jónsi, sem hafði verið nokkuð þungur áður en þetta gerðist, hló innilega og var glaður allan tímann sem við vorum hjá honum. Það þurfti ekki meira til að gleðja hann en volgan súp af sódadrykk og félagsskap bræðra sinna. Þetta var síðasta ferð okkar bræðra í dalinn.

Fram á síðasta dag spurði Jón hvernig við hefðum það og hvort nokkur væri veikur heima. Þegar ég spurði hvort hann væri með verki var svarið alltaf: „Nei.“

Ég sakna Jónsa bróður míns. Lífið verður ekki eins án hans.

Hvíl í friði, elsku bróðir. Elska þig.

Matthías Ægisson.