Ólafur Helgi Guðmundsson

Neisti - 22. apríl 1959

Ólafur Guðmundsson. Fæddur 28. sept. 1906. -- Dáinn 21. mars 1959 MINNINGARORÐ

Hinn 21. mars sl. lést á Sjúkrahúsi Siglufjarðar Ólafur H Guðmundsson afgreiðslumaður, Eyrargötu 17 hér í bæ, eftir stutta legu, 52 ára að aldri.

Ólafur var 'fæddur 28. sept. 1906 að Neðra-Haganesi í Fljótum. Foreldrar hans voru Guðmundur skipstjóri Jónsson og kona hans Guðrún Magnúsdóttir. Bjuggu þau hjón lengi að Syðsta-Mói í Fljótum og þar var æskuheimili Ólafs, í skauti góðra foreldra, og í glöðum systkinalhóp.

Mér, sem þessar línur skrifa, er það vel kunnugt af eigin reynd, að á árunum fyrir, um og eftir 1920, átti æskufólk í sveitum Norðurlands ekki margra kosta völ um framtíðarmöguleika. Þá þekktust lítt opinberir styrkir, Samhjálp eða félagsmálastarfsemi. Þeir einir áttu framtíð í sveitunum, sem höfðu möguleika til að setjast að eldri búum. Aðrir voru dæmdir til að flytja til kaupstaða og þorpa við sjávarsíðuna, sem þá voru í örum vexti.

Ólafur Guðmundsson - Ljósmynd Kristfinnur

Ólafur Guðmundsson - Ljósmynd Kristfinnur

Reynslan hefur flíka sýnt, að margt af því æskufólki, sem á þeim árum kom úr sveitum landsins til strandarinnar, hefur átt sinn mikla þátt í að byggja upp, skipuleggja og þroska sjávarþorpin og kaupstaðina á Norðurlandi. Frá foreldrahúsum hélt Ólafur heitinn í sína gæfuleit 17 ára gamall. Lá leið hans fyrst til Hríseyjar, en árið 1924 fluttist hann til Siglufjarðar og bjó hér síðan. Stundaði hann framan af árum bifreiðaakstur, en 1929 réðist hann afgreiðslumaður og bifreiðarstjóri til Olíufélagsins B.P. og gegndi því starfi til æfiloka.

Árið 1930 kvæntist Ólafur eftirlifandi konu sinni, Jóhanna Þórðardóttir.
Áttu þau hlýtt og mjög myndarlegt heimili að Eyrargötu 17. Þeim hjónum varð ekki barna auðið, en fósturdóttur,

  • Sigurlína Gísladóttir,

Ólu þau hana upp sem sitt eigið barn.

Þegar Ólafur Guðmundsson fluttist til Siglufjarðar, var öll félagsmálastarfsemi og Alþýðuflokkurinn í bernsku. Hann fékk strax mikinn áhuga fyrir opinberum málum. Hann skipaði sér undir merki jafnaðarstefnunnar, og tók stöðu framarlega í röðum jafnaðarmanna. Af góðri kynningu í þeim röðum, hlóðust á hann mörg félagsleg og flokksleg störf. Hann var ábyrgðarmaður flokksblaðs Alþýðuflokksins í röskan aldarfjórðung.

Hann átti sæti í bæjarstjórn Siglufjarðar sem fulltrúi Alþýðuflokksins, í 2 kjörtímabil, og sem varafulltrúi oft og mörgum sinnum. Í fjölmörgum nefndum bæjarstjórnar starfaði hann. Hann var stjórnskipaður formaður Byggingafélags verkamanna frá 1938 til dauðadags, og átti lengi sæti í fulltrúaráði Verkamannafólagsins sem fulltrúi bílstjóradeildarinnar. Í stjórn Sparisjóðs Siglufjarðar var hann lengi og á yfirstandandi Alþingi, var hann kosinn varamaður í stjórn S.R.

Af framanskráðu sést, að Ólafur vann sér tiltrú bæjarbúa, enda sást það glöggt við jarðarför hans, að þar var góður drengur grátinn, því hún var ein sú allra fjölmennasta jarðarför, sem hér hefur farið fram nú lengi. Enda var Ólafur heitinn, í daglegu viðmóti, hress og glaður, skemmtinn í viðræðum, fróður um marga hluti og traustlegur í allri viðkynningu.

Það er einu bæjarfélagi mikið áfall, og þjóðfélaginu í heild, þegar góður borgari með mikla starfskrafta og gott almenningsálit, fellur í valinn fyrir aldur fram, eins og hér hefur átt sér stað, en mest og þyngst er áfallið vitanlega fyrir nánustu ástvini. Ég vii hér með tjá eftirlifandi konu Ólafs heitins, og öðrum ástvinum, mína hjartanlegustu og dýpstu samúð. En til er nokkur huggun harmi gegn.

Þó niðurinn frá elfu sorgarinnar sé sár og þungur, þegar horft er á eftir kærum vin út á móðuna miklu, þá er gróðurinn hlýr og fagur sem grær við lindir minninganna, sé vel að honum hlúð, og hann er hjartfólginn fjársjóður, sem enginn getur tekið frá syrgjandanum án hans vilja. Tilfinningalíf okkar mannanna, er oft fegurst í hljóðri sorg, heitri þrá, og Ijúfum minningum.

Það vildi svo til, að við Ólafur Guðmundsson fluttumst til Siglufjarðar á svipuðum tíma, við vorum á líkum aldri, við komum inn í félagsmálastarfsemina á svipuðum tíma og við sórum sömu hugsjónum eiða á ungra aldri og hopuðum aldrei af þeim hópi á hverju sem gengið hefur í félagsmálasögu þjóðfélagsins.

Þetta varð til þess að við kynntumst all náið, þar sem okkur var falið að starfa saman á ýmsum vettvangi; þó við værum ekki ávallt sammála um meðferð mála, sem eðlilegt er og sjálfsagt í frjálsu félagslífi, þá var hugsjónatakmarkið jafnan hið sama. Af þessari viðkynningu og reynslu held ég að það sé ekkert oflof, þó ég segi það nú um þig dáinn, Ólafur, að þú hafir verið trúr heimili þínu og ástvinum, trúr í daglegum og félagslegum störfum, og trúr hugsjónum þeim, sem þú tileinkaðir þér í æsku.

Slík trúmennska tel ég að sé einhver fegursti og varanlegasti minnisvarði sem einn alþýðumaður getur reist sjálfum sér á fótstall samtíðarinnar. Þess ber að minnast og það ber að þakka. Nú hafa vegir skilist um stund. Enginn veit hvað framtíðin ber í skauti sínu í heild, en eitt er víst, að ég kem á eftir þér fyrr eða síðar, og þegar að því kemur, hefði ég ekki á móti því að

  • þegar ég seinna sigla fer —
  • sú má óskin vaka. —
  • Að í fjöru móti mér
  • megir þú glaður taka.

Vertu blessaður, Ólafur. Bestu þökk fyrir gengnar samstarfsleiðir. Megi framtíðin bera okkar hjartans málefni fram til sigurs, svo það geti orðið sem flestum einstaklingum gott og fagurt, fegurra og tækifæraríkara til þroska og dáða, heldur en æskuár okkar og okkar jafnaldra voru. Ef svo færi, gætum við tekist hjartanlega í hendur við næstu samfund.  
Blessuð sé minning þín.
G.
-----------------------------------------------------

ÖRFÁ KVEÐJUORÐ
Lítið sjáum aftur, en ekkert fram. Framtíðin er ávallt hulin í móðu óvissunnar. Við vitum að vísu, að hinn líkamlegi dauði er lokatakmark hvers einstaklings, en erum þó alltaf óviðbúin, þegar hann ber að dyrum. Ekki síst, þegar sá, sem burt er kallaður er á besta aldri á mannlegan mælikvarða, og býr yfir andlegri og líkamlegri hreysti.

Það kom því öllum að óvörum, að þú skyldir, kæri vinur, svo snögglega burtu kallaður, að við, sem áttum þér svo margt að þakka, fengum ekki tekið í hönd þér að skilnaði. Hitt veit ég, að hlýhugur samtíðarmanna þinna hefir fylgt þér á þinni nýju Vegferð. Slíkt er hverjum gott, bæði lífs og liðnum.  Allt þitt líf mótaðist af að gleðja og hjálpa öðrum, og þeir munu ótaldir, sérstaklaga þeir, sem minna máttu sín í lífinu, sem þú réttir hjálparhönd eða talaðir hughreystingarorð til.

Í foreldrahúsum varst þú ylgeisli heimisins, og á raunastundum foreldra þinna reyndir þú af fremsta megni að bera smyrsl á sárin með blíðlyndi þínu og glaðværð. Ég minnist þess ekki að hafa kynnst meiri hlýhug, ástríki og innileik milli foreldra og sonar, en ríkti meðal ykkar. Ég minnis þessa hér vegna þess að slíkur samhugur er því miður ekki algengur á öld hraða og efnishyggju. En fátt held ég hafi verið fjarstæðukenndara í huga þínum eða systkina þinna, en láta aldraða foreldra eyða síðustu dögunum í einangrun elliheimila.

Sá sem elskar foreldra sína, virðir skoðanir þeirra og veitir þeim af ljúfum hug aðstoð í ellinni, án þess þó að lifa í fortíðinni, hann er góður samferðamaður, því hann tengir saman nútíð og fortíð. Lífsskoðanir þínar áttu sér djúpar rætur í trú og skoðunum feðra þinna en jafnframt skyldir þú vaxtarþörf æskunnar og hvattir hana til dáða og drengskapar. Og þessar skoðanir voru ekki eitt í dag og annað á morgun.

Þær voru byggðar á djörfung og festu og víðtækri þekkingu á lífinu sjálfu, megnri óbeit á allri yfirborðsmennsku og undirlægjuhætti en virðing fyrir sönnu manngildi og heilbrigðri lífsbaráttu. Um heimili þitt þarf og ekki að ræða. Allir, sem til þekktu, vissu, að það voru þér heilög vé, sem þú umvafðir slíku ástríki, að andkuldi heimsins né erfiðar aðstæður náðu þar aldrei inn að koma. Þess vegna verður harmur ástvina þinna, konu, og fósturdóttur, enn sárari. Þær voru svo ríkar af vonum og trú, og nú er þetta a l t horfið.

Drottinn gaf og Drottinn tók. Þær áttu svo mikið, en þær hafa líka misst svo óendanlega mikið. En það er ýmislegt, .sem aldrei verður frá mönnum tekið, og það eru minningarnar um Ijúfa liðna daga í návist ástvinanna, jafnframt voninni um endurfund í landi hinna lifenda. Ég veit, að hinsta hugsun þín var bundin ástvinum þínum og þær ná áreiðanlega út yfir gröf og dauða. Ég þakka þér svo, kæri vinur, persónulega alla þína góðvild og vináttu á umliðnum æfidögum, og bið guð að blessa minningu þína.

Gísli Sigurðsson
-------------------------------------------------------------------

Ólafur H. Guðmundsson andaðist hér í Sjúkrahúsinu hinn 21. mars 1959. eftir mjög stutta legu. Það er alltaf mikill og almennur sorgaratburður í litlu bæjarfélagi, þegar menn andast á besta aldri. Ólafur sálugi var aðeins 52 ára, þegar hann lést svo skyndilega. Með honum missti hið litla bæjarfélag okkar einn af sínum bestu borgurum. Einn af þessum síglöðu og sístarfandi þegnum sínum.

Ólafur sálugi var mikill atorkumaður og naut trausts og álits vinnuveitenda sinna í ríkum mæli. Auk sinna daglegu skyldustarfa sem hann, að allra dómi, sem til þekktu, leysti af frábærri atorku og samviskusemi, var hann ávallt reiðubúinn að lengja dagsverk sitt með því að taka þátt í að leysa ýmis þau almennu framfara- og hagsmunamál sem fyrir lágu á hverjum tíma. Hann var ávallt mjög starfsamur og áhrifamikill flokksmaður í Alþýðuflokknum og gegndi fyrir hann . fjölmörgum trúnaðarstöðum til dauðadags.

Ég, sem þessar línur rita, kynntist Ólafi sáluga fyrir 15 árum, en atvikin höguðu því svo til, að í þessi 15 ár, lágu leiðir okkar oft saman, og tel ég það mikla gæfu fyrir mig að svo skyldi verða. Ég þakka Ólafi hjartanlega allar þær samveru- og samvinnustundir, sem við áttum saman. Um leið sendi ég konu hans, fósturdóttur, systkinum og öðrum vandamönnum, sem nú þjást af sorg og söknuði, mínar og fjölskyldu minnar, innilegustu samúðarkveðjur. Ég veit að fátækleg orð fá litlu áorkað í baráttunni við sorg og söknuð ástvinanna. En fagrar og hugljúfar endurminningar liðinna ára, munu einar þess megnugar að deyfa sárustu sorgina.

Kristján Sturlaugsson
-------------------------------------------------------

Mig langar til þess að kveðja þig, kæri vinur, og þakka þér fyrir hugljúfu og góðu kynnin, og öll störfin á liðnum árum. Ungur að árum tileinkaðir þú þér hugsjónir jafnaðarstefnunnar um frelsi, jafnrétti og bræðralag. Þessi göfuga stefna var leiðarvísir þinn í öllu daglegu starfi þínu. Alltaf varstu reiðubúinn að rétta hjálpandi hönd, og veita lítilmagnanum lið d baráttu hans fyrir betri kjörum og réttlátari þjóðfélagi.

Verkamennirnir í þessum bæ, þakka þér ekki hvað síst, þín fórnfúsu störf í þágu þeirra. Störf þín í stjórn Byggingafélags verkamanna verða þér seint þökkuð sem skyldi. Mig langar til þess að kveðja þig, kæri vinur, og þakka þér fyrir hugljúfu og góðu kynnin, og öll störfin á liðnum árum. Ungur að árum tileinkaðir þú þér hugsjónir jafnaðarstefnunnar um frelsi, jafnrétti og bræðralag. Þessi göfuga stefna var leiðarvísir þinn í öllu daglegu starfi þínu.

Alltaf varstu reiðubúinn að rétta hjálpandi hönd, og veita lítilmagnanum lið d baráttu hans fyrir betri kjörum og réttlátari þjóðfélagi. Verkamennirnir í þessum bæ, þakka þér ekki hvað síst, þín fórnfúsu störf í þágu þeirra. Störf þín í stjórn Byggingafélags verkamanna verða þér seint þökkuð sem skyldi.

Hjálpsemi, fórnfýsi, drenglyndi og trúmennska eru orðin, sem ég hef valið þér á skjöld minninga minna um þig. Nú ertu, kæri vinur, kominn yfir móðuna miklu .— kominn til fyrirheitna landsins: „þar sannleiki ríkir og jöfnuður býr og syngur þar hósanna saman."
Lifðu heill í ljóssins landi.

Jóhann G Möller

Ólafur Guðmundsson og kona hans Jóhanna Þórðardóttir - Ljósmynd Kristfinnur

Ólafur Guðmundsson og kona hans Jóhanna Þórðardóttir - Ljósmynd Kristfinnur