Ólafur Magnússon verkamaður

Alþýðublaðið - 21. janúar 1984

Fæddur 28, des. 1906. Dáinn 3. jan. 1984. Þriðjudaginn 10. janúar var gerð frá Siglufjarðarkirkju útför Ólafs Magnússonar, er lést á Sjúkrahúsi Siglufjarðar 3. janúar eftir stutta legu.

Ólafur Magnússon var fæddur 28. des. 1906 á Ytrakrossnesi í Eyjafirði. Hann var sonur hjónanna Soffíu Árnadóttur og Magnúsar Jónssonar, sjómanns.
Þau Soffía og Magnús eignuðust níu börn sem öll eru látin, nema Helga, sem búsett er í Reykjavík, ekkja Haraldar Jónssonar, smiðs frá Akureyri.

Þegar Ólafur var þriggja ára gamall dvaldi móðir hans með hann hjá hjónunum Ólöfu Elíasdóttur og Jóni Benjamínssyni, sem síðan urðu fósturforeldrar hans, en þau bjuggu á Hóli í Staðarsveit í Eyjafirði. Í þessari fallegu sveit ólst Ólafur upp og kynntist þar fljótlega búmennsku og bústörfum, uns hann yfirgaf þetta góða heimili sitt og fór til náms í búfræði að Hólum í Hjaltadal.

Ólafur Magnússon

Ólafur Magnússon

Á þessum árum þurfti mikið áræði og dugnað til þess að brjótast til náms. Minningarnar frá námsárunum að Hólum voru Olafi kærar og samferðarfólkið þar honum hugstætt alla ævi. Á Hólum stundaði Ólafur íþróttir og var í sýningarhópi, sem ferðaðist allvíða og sýndi fimleika. Hann var alla ævi mikill áhugamaður um íþróttir. Árið 1927 lauk hann búfræðinámi frá Hólum. Það var eftirminnilegur dagur í lífi Ólafs, er hann 1982 sótti Hóla heim á hundrað ára afmæli skólans og hitti þar fyrir skólafélaga, sem hann hafði átt samleið með fyrir rúmlega fimmtíu árum. Sú stund gladdi hann mjög, þá 76 ára gamlan. Eftir námið á Hólum lá leið hans aftur heim í Eyjafjörð þar sem hann starfaði á ýmsum býlum.

Hingað til Siglufjarðar flytur Ólafur 1932. Fyrst í stað starfaði hann hjá Árna Ásbjarnarsyni við bústörf. Seinna vann hann hjá múrarameisturunum Baldri Ólafssyni og Sigurði Magnússyni. Áll mörg ár vann Ólafur hjá Síldarverksmiðjum ríkisins en síðustu árin hjá Þormóði Ramma h.f. meðan heilsan leyfði.

Árið 1936 kvæntist Ólafur eftirlifandi eiginkonu sinni, Júlíönu Sigurðardóttur, mestu myndar- og dugnaðarkonu, dóttur sæmdarhjónanna Guðrúnar Hansdóttur og Sigurðar Ásgrímssonar, sem allir Siglfirðingar þekktu.

Þau hjónin Ólafur og Júlíana eignuðust fjögur börn. Tvö þeirra dóu í frumbernsku, en upp komust tvíburarnir:

  • Arnar Ólafsson, rafvirki og verkstjóri hjá Rafveitu Siglufjarðar, kvæntur Guðrúnu Árnadóttur og
  • Sigrún Ólafsdóttir, gift Sigurði Jónssyni, sjómanni.

Með Ólafi Magnússyni er til moldar genginn mætur og gegn maður úr verkalýðsstétt, sem ekki lét mikið yfir sér í hversdagslegu lífi, en var einn af þeim hundruðum manna og kvenna, lífs og liðnum, sem eru hornsteinar og máttarstólpar þjóðfélagsins með gjörðum sínum og athöfnum. Hversu oft höfum við ekki heyrt það hin síðari ár, sérstaklega úr hópi yngri kynslóðarinnar, þegar spurt er um störf og stöðu manna, „ég er bara verkamaður" „ég er bara sjómaður" „ég er bara bóndi".

Það er starf bóndans að láta tvö strá eða fjögur vaxa, sem áður var eitt. Það er starf sjómannsins að sækja björg í bú og gull um lygnan og úfinn sjó. Það er starf verkamannsins að byggja upp borgir og bæi, vegi og stræti, temja fossa og beisla hita jarðar og orku vindanna, nýta þann afla sjávar, sem okkar fengsælu sjómenn bera að landi og skapa alhliða framkvæmdir með vinnu sinni.

Í þessum störfum bóndans, sjómannsins og verkamannsins hefur verið og verður saga lands og þjóðar. Þetta eru ekki bara verkamenn, bara sjómenn eða bara bændur eins og nú er svo oft talað um, heldur hornsteinar og máttarstólpar íslensks þjóðfélags frá örófi alda og um alla framtíð. Ólafur Magnússon var duglegur og samviskusamur verkamaður — trúr og dyggur í hverju því starfi sem hann gegndi.

Friðsemdarmaður, sem mátti ekki vamm sitt vita í neinu. Aldrei heyrðist hann mæla styggðaryrði í garð nokkurs manns. Drengskaparmaður til manna og málefna. En þetta þýddi ekki það að hann hefði ekki skoðun á mál efnum þjóðfélagsins og bæjarfélagsins. Ólafur var jafnaðarmaður er taldi að jafnaðarstefnan væri eina stjórnmálastefnan sem boðaði öllum þjóðum gróandi þjóðlíf — frelsi jafnrétti og bræðralag. Þessi skoðun breyttist ekki hjá Ólafi, þótt Alþýðuflokkurinn ætti ekki alltaf velgengni að fagna í kosningum.

Eins og svo margir Siglfirðingar, kynntist Ólafur slæmum tímum í atvinnumálum bæjarins en með atorku og dugnaði þeirra hjóna kom það aldrei niður á heimili þeirra enda bæði eftirsótt til vinnu. Ólafur var stéttvís maður og mörg ár í trúnaðarmannaráði verkalýðsfélagsins. Sótti manna best fundi og fylgdist vel með.

Hann var vel látinn vinnufélagi og var gott til vina. Að síðustu kveð ég Ólaf Magnússon með bestu þökk fyrir samferðina. Okkar kunningsskapur var þannig, að hann gleymist mér ei. Frú Júlíönu og börnum þeirra hjóna og öðrum ættingjum og ástvinum flyt ég mínar dýpstu samúðarkveðjur. Nú er. ferð Ólafs yfir móðuna miklu hafin og fyrir stafni er fyrirheitna landið, þar sem bræðralag ríkir og jöfnuður býr og almætti Guðs varir um alla eilífð.

Blessuð sé minning Ólafs Magnússonar. Siglufirði 10. janúar 1984.

Jóhann G. Möller.