Rúdolf Magnús Sæby beykir

Rúdólf Magnús Sæby  - Beykir og verkamaður á Siglufirði. f. á Siglufirði 1. mars 1893 - d. 11 október 1980  

Foreldrar hans:
Andreas Christian Sæby og kona hans; Kristín Stefánsdóttir.

Eiginkonaa Rúdólfs frá 1913 var Jenný Kristjana Júlíusdóttir, f. 8. apríl 1885, d. 15. apríl 1960.
Foreldrar hennar: Einar Júlíus Hallgrímsson, f. 20. júlí 1852, d. 12. okt. 1902, bóndi á Munkaþverá.

Rúdólf og Jenný varð ekki barna auðið en tóku í fóstur bræðurna

Rúdolf Sæby

Rúdolf Sæby

Rudolf sem fetaði í fótspor föður síns og handlék áhöld beykisins díxsíl og dirfholt, en á Siglufirði voru þeir menn oft nefndir “díxilmenn” hann var aðeins unglingur, er hann byrjaði að vinna við síldarsöltunina og gjör kunnugur vinnubrögðum og lífinu á Siglufirði.

Í bókinni Siglufjörður 1818-1918-1988 er kafli sem heitir: Horft um öxl í síldarbænum, eftir Kristinn Halldórsson, þar sem er góð lýsing á tíðaranda Rúdólfs og viðtal við hann og hér birtur  kaflann að mestu leiti:

“Við getum byrjað á því að hugsa okkur Siglufjörð við lok fyrsta tug aldarinnar. Norskir reiðarar og síldveiðimenn hafa flykkst hingað á undangengnum sumrum, og þeir hafa þegar reist nokkur síldaplön og bryggjur og síldahús, og hinar fyrstu bræðslur eru að rísa af grunni.

Almanakið segir, að miðsumarið nálgist og það þýðir, að síldin fer að vaða á miðunum beggja vegna við fjörðinn. Veðrið er fagurt, hið Siglfirska logn er víðfrægt. Fjallahlíðarnar spegla sig iðjagrænar í lygnum firðinum, þar sem fyrstu norsku síldaskipin liggja fyrir festum.

Á þessum degi er von á tunnuskipinu “Glyg” til Bakkavigs. Siglfirsku ungmennin vonast til að fá tunnuvinnu við að afferma skipið, og þeir eru fullir óþreyju, og kynleg eftirvænting og starfslöngun hefur gripið þá. Þeir vita, að ef þeir fá vinnu hjá Bakkevig, þá fá þeir hana greidda í beinhörðum peningum út í hönd.

Þetta er ein af nýjungum “Norðmannatímabilsins” í Siglufirði að greiða vinnuna í peningum út í hönd, því að áður en síldin byrjaði, var Gránuverslunin  því nær eini vinnuveitandinn í firðinum og mestöll vinna á hennar vegum var greidd með “innskrift” í reikning. Peningar sáust valla manna í milli, þar til síldarævintýrið hófst. Og siglfirsku unglingarnir eru fljótir að koma auga á tunnuskipið þar sem það skríður hægt inn fjörðinn með lestar fullar af kolum og stóran, gulan hlaða af tómum síldartunnum á dekki.

Þeir taka til fótanna og hlaupa niður á Bakkevigsbryggju til að hafa þar tal af verkstjóranum, Kristófer Eife, sem er norskur. Þessir ungu piltar eru klæddir vaðmálsbuxum, yrjóttum ullarpeysum og fótabúðaurinn eru tréklossar. Þeir hlaupa hver í kapp við annan, og það glymur hvellt í timburplönkunum Bakkevigsbryggju, þegar tréklossar hinna fótfráu stráka skella á platniagunni. Þeir ætla sér ekki að verða of seinir, og þeir vilja ekki missa af þessu tækifæri, sem þarna kann að bjóðast.

Takmark þeirra er að fá tunnuvinnu og peninga greidda út í hönd! Og einn unglingurinn í þessum röska hópi er “Rúddi”, eins og félagar hans nefndu hann; starfsævi hans og þessara pilta var að hefjast, fullorðinsárinn var að taka við. Eide, hinn ágæti verkstjóri, tók vel í það að láta þá fá tunnuvinnu, en þegar hann var inntur eftir frekari vinnu yfir sumarið, þa var svarið hjá honum og öllum í þá daga: “Det kommer an paa stilla, far!”

Og rétt var það, mikið valt á síldinni. Það sem hér fer á eftir, er ágrip af samtali við Rudolf og var á þessa leið: Við fengum strax vinnu við að velta tómtunnum og Bakkevig varð fyrsti vinnuveitandi minn. Faðir minn átti sjávarlóð þá, er Bakkevig byggði á bræðsluna og síldarplan. Mér er gufuskipið “Glyg” einkar minnistætt. Það lagðist að bryggjuhausinn og gat affermt og fermt þar. Það kom til Bakkevigs ár eftir ár, margar ferðir, og flutti tunnur salt og kol og ýmsar vörur til rekstursins, og út flutti það saltsíld, lýsi og mjöl.

Skipstjórinn á “Glyg” hét Iversen, einarður karl. Sem virtist hafa gaman af að kalla hárri röddu fyrirskipanir sínar. Þegar skipið var að síga að bryggjuendanum og fangalínur voru að koma í land, þá kallaði Iversen dimmri og hásri skipunarrödd:: “Hold springen fast, kast lös agterut!” Svo hófst losunin. Þegar tunnum hafði verið skipað í land, var hafist handa um að uppskipun á kolunum, en þau voru ætluð gufukatli bræðslunnar.

Öllum kolum var í þá daga ekið frá skipshlið í hjólbörum. Þau voru hífuð upp úr lest skipsins í síldartunnum og úr henni hvolft í hjólbörur. Svo var ekið upp bryggjuna og planið og þar næst upp allháan sliska og þar var “sturtað” í bing. Þetta var sérstaklega erfið vinna, og kaupið var lágt 25 aurar á tímann. En það þótti mikið nýjung að fá kaupið borgað út í hönd, því áður en Norðmenn komu, sáust ekki peningar hér meðal manna.

Kristófer Eide var fysti verkstjóri hjá Bakkevig. Hann var indælis maður og ákaflega gott að vinna undir stjórn hans. Ég man vel eftir fyrstu síldarsöltunum hjá Bakkevig. Sú síld var söltuð í síldarhúsinu, er byggt var fram í flæðarmálið, og var bryggjustúfur fram af því. Síldinn var hífuð af skipsdekkinu í síldartunnu, sem í var fest kaðalstroffa. Löndunin var jafnóðum skráð á tunnusviga, rist lítil skor með hnífi í svigan innanverðan, og þegar komnar voru fimm tunnur, þá kallaði teljarinn “full favne” – full mæling, og stundum sagði hann, þegar fimmta skoran var rist, “over”, því þeir ristu hana skáhalt yfir fjórar skorur. Síldinni var ekið í hjólbörum og steypt úr þeim á gólfið í síldarhúsinu, og þar var hún kverkuð.

Og verkunun framkvæmdu bæði stúlkur og karlmenn á þessum fyrstu árum síldasöltunuar. Það var athyglisvert, hve síldin var stór og feit á þessum árum, og fóru oft ekki nema 250 síldar í tunnuna. En þess ber að geta, að hausinn var með. Öll síld var kverkuð á þessum árum. Tilslátturinn var framkvæmd strax að lokuinni söltun. “En pöse lake”, sögðu Norðmennirnir – eina pækilfötu í tunnuna – og síðar var botninn sleginn í og tunnan tilbúinn til útflutnings.Engin merking fór fram á botni tunnunnar. Síldin var oftast flutt til Noregs fyrst í stað og endurútflutt þaðan.

Eftir að bræðslan komst upp, vann ég við að tappa lýsi á föt hjá Bakkevig. Það var þokkalegt starf, sem fram fór í skúr, sem var áfastur verksmiðjuhúsinu, “aftapningsskur”, eins og Norðmennirnir kölluðu hann. Ég losnaði við sóðalegasta starfið, sem var vinnan við dúkapressuna.

Þau störf voru á þessa leið: Síldarmaukið var sem sé tekið út um op á suðukerinu og rann sjóðheitt og rjúkandi í strigadúk, er breiddur var á bekk við opið, pressumaðurinn á pressupallinum hafði þetta starf með höndum. Svo þegar hæfilegt magn af síldamauki hafði runnið í dúkinn, braut pressumaðurinn endana á dúknum saman á fjórar hliðar, því næst hvolfdi hann dúknum við, því hinir samanbrotnu endar urðu að snúa niður, svo sem mest af lýsi pressaðist út úr maukinu.

Að því búnu skellti hann dúknum niður á járnplötu, sem var eins konar vagn á hjólum, og á hornum vagnsins voru járnteinar, er studdu við þessar lausu járnplötur, er voru settar á milli hvers dúks. Þegar fyrsta dúknum hafði verið hvolft á vagnana, var sett járnplata ofan á hann. Því næst annar dúkur, fylltur síldarmauki, settur ofan á plötuna og þannig koll af kolli, dúkur ofan á dúk, og ætið járnplata á milli.

Þegar hæfilegu magni dúka hafði verið staflað á vagninn, í um það bil 1½ metir hæð, var ekið undir pressuna og hún skrúfuð upp og látin þrýstast á dúkhlaðann, og rann þá lýsið úr síldamaukinu ofan í rennu, er var allt í kring um pressuna, og þaðan í lýsisker og látið setjast til, þar til fleytt var ofan af, lýsinu fleytt úr einu kerinu í annað til að losa það við vatn og sora. Þetta var ofboðslega sóðalegt starf og ekki hættulaust, þegar sjóðheitt maukið stíflaðist í opi suðukersins og gat því skyndilega spýtist fram úr kerinu, þegar stjakað var við því með sköfu, og brennt pressumannin á höndum og handleggjum.

Þegar lýsið hafði verið pressað úr dúknum, var pressan skrúfuð laus og hinar pressuðu síldakökur teknar úr stígadúknum. Þessu næst voru kökurnar settar í þurrkklefa. Þessir þurrkofnar voru í þá daga útbúnir með rimlahillum í þar til gerðum ofnum, er voru hitaðir með vatnsrörum frá ketilstöð bræðslunnar. Kökunum var raðað í hillurnar og þær voru reistar á rönd.

Að þurrkun lokinni voru síldarkökurnar fluttar til Noregs, þar sem unnið var úr þeim síldarmjöl. Þannig var þetta hjá Tormod Bakkevig í fyrstu síldarbræðslunni í þessu landi. Gránufélagsverslunin átti lýsisibryggjuna, en hún var suður á tanganum, þar sem nú er nýrri hluti hafnarbryggju Siglufjarðar.

Ég byrjaði tilslátt á síldartunnum á lýsisbryggjunni hjá Sören Goos. Hann hafði hér tvo danska reknetbáta og fékk leifi hjá Gránu til að aka síldinni upp eftir lýsisbryggjunni, og svo var síldin kverkuð og söltuð ofan bryggjunnar við flæðarmálið. Þarna var síldin söltuð í möl og sandi. Ég var unglingur, er þetta byrjaði þarna hjá Goos, og ég man það, að ég þurfti að leggja tunnuna á hliðina til að geta slegið hana upp.

Eftir að Goos byggði bræðsluna, vann ég um tíma í lýsisskúrnum við lýsisfötin, bæði við að tappa á þau lýsi og eins við beykisstörf, girða og lagfæra fötin. Lýsisfötunum, var svo velt upp á eyrina, þar sem þau biðu útskipunar. Í sambandi við síldarverkun hjá Edvin Jackobsen suður á tanganum minnist ég þess, að þegar búið var að kverka og salta í tunnuna, þá var eikarstaf úr lísistunnu smeygt undir tunnuna.

Í stafinn hafði verið borað gat og í það fest kaðalspotta. Verkamaður brá kaðlinum um öxl sér og annar hélt við tunnuna, svo drógu sá fyrrnefndi, en hinn ýtti á eftir og studdi við tunnuna. Þannig var full síldartunna flutt frá verkaranum og á geymslustað, þar sem hún beið tilsláttar. Eftir að síldarplönin stækkuðu, var tómum tunnum raðað upp á planið og saltað í raðirnar og varð verkarinn að færa síldarstampinn sinn að tunnunum og raðar í þær síldunum. Síðar komu síldarbjóðin til sögunar.

Þau voru látin standa á tómri tunnu og mokað í þau síldinni, og svo kverkað úr bjóðunum og lagt niður í tunnuna. Það þótti mikil framför, þegar tunnujárnin komu til sögunar. Tunnujárn þessi eru nokkurskonar gafflar með járn gripum, er smella að botnum tunnunnar. Gripin leika á ási og snúast með tunnunni, þegar togað er í skaft gaffalsins, Með þessu tæki dró verkamaðurinn hina tilsleignu tunnu á eftir sér frá díxilmanninum til geymslustaðar. Tunnutrillur þekktust ekki á þessum árum.

Tunnujárnin voru talin spor í tækniátt, en þau voru leiðinleg og þung og oft erfitt að smeygja þeim á tunnuna. Og þetta var áður en tunnustingir þekktust. Þeir voru miklu mun handhægari og léttara að velta tunnum með þeim. Í þá daga voru engir sendlar á síldaplönum, eða “ræsarar”, eins og þeir eru nú nefndir. Þess í stað var stúlkum í bænum gert viðvart um að síld væri komin á planið, með því að síldaskipin, er oftast voru gufubátar, flautuðu ákveðið “flaut”, t. d. fjögur flaut hjá Wedin, en tvö flaut hjá Ronald.

Stúlkurnar lögðu eyrun við þessum flautum, og þær mættu stundvíslega, þegar þeirra “flaut” kvað við um eyrina. Og skiptin hættu ekki að pípa, fyrr en verkararnir voru mættir. Svo hófst kverkun og söltun af fullum krafti. Stúlkurnar, með marglita skýluklúta á höfðinu, klæddust olíubornum, gulum svuntum sér til hlífðar, en fótbúnaðurinn var tréklossar, og klossarnir voru reyndar fótabúnaður bæði karla og kvenna um þetta leyti, því gúmmístígvél urðu ekki algeng fyrr en síðar.

Eins og gefur að skilja, voru Siglfirðingar með öllu óvanir síldaverkun og störfum í bræðslum, enda hreppurinn fámennur, og því var hér allmargt norskt síldaverkunarfólk á þessum árum bæði konur og karlar, t.d síldastúlkur, beykjar, “stúvarar”, auk verkstjóra og “maskinista”. Þetta var þjálfað og gott starfsfólk frá Noregi, og Siglfirðingar lærðu handtökin hjá þeim. En á norsku reknetaskipunum var oft misjafn sauður í mörgu fé. Reiðurum og skipstjórum norsku skipanna gekk illa að manna síldaskipin til Íslandsveiða og urðu oft að taka á skip sín menn, sem lítill dugur var í.

Og svo þegar skipin komu til Siglufjarðar, Þá stukku þessir menn, sem voru nefndir lassarónar, af skipunum og flæktust hér í landi og seldu af sér yfirhafnir, tréskóstigvél og olíukápur, og sváfu svo undir herpinótabátum, er lágu á hvolfi upp á malarkambinum, eða í fjárhúsum og hlöðum. Þeir voru slarkgefnir og drykkfelldir og létu öllum illum látum. Þeir slógust æði mikið, Norðmennirnir, í þá daga. Lassarónunum var einkar illa við Íslendinga. Best var að segjast vera danskur eða norskur, og ef viðkomandi gat talað lítilsháttar í þessum tungumálum, þá urðu þeir strax friðsamlegri.

Norðmenn fluttu hingað allmikið af norsku heyi, einkum í óþurrkasumrum. Stáin voru afar löng og heyið hart í sér, en það reyndist afar gott sem fóður. Einu sinni man ég það, að ég var að vinna niður á Wedinsbryggju við Uppskipun á heyi úr norsku skipi. Við ókum heyböggunum á handvagni frá skiphlið og upp fyrir planið, þar sem heyinu var staflað. Þegar dálítill stafli var kominn þarna á uppfyllinguna ofan við planið, þá sér verkstjórinn hjá Weden, er hét Andresen, hvar komin er kindahópur að heyinu og farinn að rífa í sig ilmandi töðuna. Þá segir verkstjórinn við Ásgrím frá Kambi, er var aða vinna þarna: “Asgrim, gaa bort og jag sauja”. Ásgrímur, sem ætið var léttur á fæti, brá skjótt við og hljóp upp planið að heyinu og verkstjórinn á eftir honum, og stugguðu þeir rollunum frá böggunum. Þeir gengu rösklega til verks og fengu sér báðir hressingu úr vasapelanum á eftir þessum hlaupum, ópum og handagangi. Það þótti mikil framför þegar farið var að nota síldakassa við söltunina.

Fyrstu árinn var síldinni landað í bing á planið eða á gólfið í síldarhúsinu. Stúlkurnar krupu við binginn og kverkuðu. Edvin Jacobsen mun hafa verið einna fyrstur til að koma upp hjá sér röð af síldakössum sem svo var landað í og verkað úr. Kassarnir voru mjaðmaháir og ekki breiðari en svo, að stúlkan gat seilst yfir hann þveran eftir síldunum. Stúlkurnar röðuðu sér við kassana og kverkuðu í stampinn. Þetta voru hentugri vinnubrögð og til flýtisauka. Og þá komu í góðar þarfir vagnarnir, er runnu eftir járnspori, og lágu teinarnir frá síldakössunum fram á bryggjuenda að skipshlið. Á vögnunum var síldinni ekið í tágkörfum, sem svo var hvolft úr í kassaröðina.

Norski síldarflotinn lág oftast í höfn á sunnudögum, og það var eins þótt logn og gott veiðiveður væri úti fyrir firðinum. Lítið var um dansstaði eða stór samkomuhús í bænum, helst smákrá, t.d. Baldri, Guðnýjarhúsi og Gamla Bíói. Þar var dansað. Norðmennirnir fjölmennu um helgar á Aðalgötunni, sparibúnir, í dökkbláum seviotsfötum með kaskeiti á höfðinu. Síldarplönin, kústuð og spúluð, voru fyrirtaks dansgólf. Og stundum slógu þeir upp síldarballi.

Ekki þurftu þeir að kaupa músíkina. Um borð í Hverju skipi var harmonikkan til taks, hvert og eitt skip átti sinn spilara, og svo hófst síldarball. Og síldarstúlkurnar mættu á planið í dansleikinn. Oft tókust þar kynni, er til frambúðar urðu, og allmargar Íslenskar stúlkur giftust norskum fiskimönnum og fluttust austur yfir hafið. Hljómar harmonikkunnar glumdu í eyrum og seiddu hinar ungu stúlkur, og dansað var af hinu mesta fjöri. Það voru gömlu lögin, norsk og sænsk, er kváðu við, oft byrjað með “Kom í kostervals....” og svo heyrðist kannski “Lördagsvalsinn” o.s.f.v.

Þannig var dansað um mildar ágústnætur, þegar skyggður fjörðurinn speglaði iðjagrænar hlíðar Staðarhólsfjalls. Og piltar og stúlkur skemmtu sér konunglega á slíkum síldarböllum. En stundum lentu Norðmennirnir í “hasar”, sem svo var nefnt. Þeir slógust, og þá var stundum kallað á hreppstjórann, Hafliða Guðmundsson, og hann var einkar laginn að stilla til friðar þeirra á milli. Einu sinni eftir að Hafliði hafði átt strangan og erfiðan dag við að stilla til friðar í milli Norðmanna, komst hann svo að orði:

“Það er stórartað, hvað Norðmennirnir geta slegist”. Hafliði var lipur, gamansamur og vinsæll. Einu sinni mætti Hafliði manni nokkrum á Aðalgötunni, og maður þessi spurði hann hvort hann hefði séð tiltekinn náunga, er hann nefndi. Þá svaraði Hafliði: “Nei, ég hef ekki séð hann, en þú skalt bara standa hér kyrr litla stund, þá kemur þú auga á hann innan tíðar”.

Það kom fyrir, að við fengum æðafugl í rauðmaganetin, og þegar við mætum Hafliða undir slíkum kringumstæðum, sagði hann ofur góðlátlega: “Þú grefur hann þennan”. Og ef menn kinkuðu kolli, þá var laganna bókstaf fullnægt. Mörg heimili áttu rauðmaga- og kolanet, og var af þeim veiðum gott búsílag, því ekki var róið til fiskjar yfir veturinn, og handfæraveiðar hófust ekki , fyrr en komið var fram á vorið.

Netin voru einkum lögð hjá svonefndum Peningabás, vestur undir staðarhólslandi. Það var sagt, að á Staðarhólsbökkunum, norðan bæjarins, væru álagablettir huldufólksins. Út og niður frá Staðarhólsbænum var laut fremst í bökkunum, er nefndist Álagabolli. Hún er nú sigin mjög. Á nokkru svæði þar, í og umhverfis þessa laut, var ekki slegið gras. Þarna út frá er víkin Peningabás, einnig álagastaður.

Ekki mátti taka möl í fjörunni við Peningabás né við klettastapan Álfakirkju. Í Selvíkinni, nyrst í landi Staðarhóls, mátti taka möl. Þar var mikil malartaka, og þar var ágæt sjávarmöl til bygginga. Faðir minn vann hjá Gránufélagsversluninni og hafði bækistöð sína í beykiskúrnum, er stóð norðan við tangann, en á tanganum var uppsátur hákarlaskipanna, þar sem nú er hafnarbryggja Siglufjarðar. Hann smíðaði hin geysistóru lifraker, er sum tóku allt að 100 tn. Af hákarlalifur, og í þau var lifrinni safnað á hákarlavertíðinni.

Þau voru stundum girt sterkum járnböndum, og hann smíðaði þau á veturna inni í beygiskúrnum. Svo voru þau sleginn í stafi og sett saman á ný úti við, þar sem þeim var ætlaður staður, því kerin komust ekki út um dyrnar. Guðmundur Bjarnason í Bakka var lifrabræðslustjóri hjá Gránu. Hann var mjög röggsamur verkstjóri. Mér er minnisstætt, að hjá hinum unnu við bræðslustörfin tvær konur báðar ekkjur. Lifrin var tekin úr stóru kerjunum og látin í fötur og helt í rennu, er lá inn í lifrapottana, og konurnar unnu við þetta. Það var fremur sjaldgæft, að konur fengust við slíka útivinnu.

Guðmundur tappaði hið brædda lýsi á fötin. Lýsisfötunum var svo velt á geymslustað og látinn liggja nokkurn tíma. Þessu næst var hverju lýsisfati velt upp á pall eða trönur, og þar var borað gat á botninn og lýsið látið renna í tómt fat. Lýsið var hreinsað á þennan hátt, látið renna þannig á milli til að losa það við botnsyrju og föst efni. Svo voru úrgagnsefnin tekin úr fötunum og hituð upp og brædd á ný til að ná sem mestu lýsi.

Handfæraveiðar voru talsvert stundaðar á  unglingsárum mínum. Ýmsir bændur og hreppsbúar áttu báta. Þetta voru árabátar, sumir allstórir og höfðu mastur og segl, aðrir minni. Til dæmis átti Hafliði hreppstjóri tvo.
Grönvold faktor í Gránu átti tvo, Þorleifur Þorleifsson á staðarhóli og Jón Jóhannesson skipstjóri í Saurbæ, áttu sinn bátinn hvor. Þeir gerðu út báta þessa og fengu sér sjómenn til að róa þeim. Fiskurinn var lagður upp hjá Gránu í innskrift. Sjómaðurinn fékk t. d. Sinn hlut og báturinn sinn, allt miðað við þorksaflann, er fékkst.

En ef sjómaðurinn fékk ýsu eða nokkrar keilur, þá átti hann þann afla sjálfur og gat lagt hann inn hjá Gránu sem sína eign. Slíkur keilu- og ýsuafli var nefndur “hlutabót”. Þetta voru aukatekjur sjómansins og víst er að “hlutabótin” kom sér vel, þótt verðið væri aðeins 2-3 aurar kílóið, því allt verðlag var afar lágt.

Presturinn á Hvanneyri fékk það, sem kallað var “lóðarfiskur”. Siglufjarðareyri var hluti úr Hvanneyrarlandi, og “lóðsfiskurinn” var skattur til prestsins, og fékk hann einn fisk úr hverri sjóferð. Vinnumaður prestsins kom á kvöldin, þegar bátarnir voru komnir að og tók við “lóðarfisnum”. Var þetta góður fiskur að stærð “málfiskur”, venjulega um tuttugu tommu fiskur. Hér líkur frásögn díxilmannsins.

Þegar þessu samtali var lokið, sátum við hljóðir góða stund og hugleiddum þessa löngu liðnu daga, þetta tímabil miklu breytinga í Siglufirði. Þetta tvennt: uppvaxtarár og þroskaár hans og sköpun síldarbæjarins leið fram í einum og sama farvegi, átti samleið. Og kannski hefur hann verið að hugsa um löngu liðna síldarhrotur, þegar díxilmaðurinn stritaði nótt með degi við pökkun og tilslátt á síldapalninu.

Þegar eimpípur og mótorskellir síldabátanna hljómuðu hvellt gengum díxilhöggin og hróp og köll síldarfólksins á annarmikklu síldasumri, þegar nóttin var mild og eilítið húmuð, og fagurgrænar hlíð fjallahringsins blikuðu á firðinum, merlaðar ljósleitu gliti frá seglum síldarbátana. Allt var þetta samofið daufum skuggum lágnætursins. En líklega höfum við báðir verið að hugsa um, hve mjög lífið í Siglufirði breyttist, þegar síldarævintýrið byrjaði, því að Rudolf sagði loks, er hann rauf þögnina, líkt og upp úr eins manns hljóði: “Já, þetta byrjaði all hérna, þegar blessaðir Norðmennirnir komu”.

Heimildir: Þjóðskrá., Kb.Hvanneyri,Eyj.,Mbl.23.09.1965., Mbl.25.05.1991., Siglufjörður 1818-1819-1988.. og http://faerseth.is/efni/rúdólf_sæby 
--------------------------------------------

Smá viðauki: Fyrripartur minnigargreinar:  (mbl.is https://timarit.is/files/16166878  )

Ólafur Ágústsson t. 29. júní 1909 — d. 17. sept. 1965

  • Nú er foringi fallinn.
  • Því er fylkingin klofin.
  • Því er skarð fyrir skildi.
  • Því er skjaldborgin rofin.   

Þessar ljóðlínur komu mér í hug, þegar mér var sagt lát Ólafs vinar míns. Það er oft stutt á milli landamæra lífs og dauða. Ekki grunaði mig að það yrði í síðasta skipti, sem við ræddum saman, er hann heimsótti mig, fá um dögum áður en hann hlýddi kallinu mikla.  

Ólafur Þórður Þorberg Ágústson, eins og hann hét fullu nafni, var fæddur í Reykjavík 29. júní 1909, sonur hjónanna Halldóru og Ágústar Benediktssonar. Hann var tekinn í fóstur á unga aldri, ásamt Matthíasi bróður sínum, af hjónunum Jenný Júlíusdóttur og Rudolf Sæby á Siglufirði.  

Árið 1927 gekk Ólafur í skátafélagið Smára á Siglufirði. í því félagi starfaði hann af miklum áhuga og dugnaði. Þar öðlaðist hann það mat og skoðun á lífinu, sem hann fylgdi ævinlega eftir, en það var drenglyndi, festa og þor.

Þann 22. desember 1932 kvæntist hann eftirlifandi konu sinni Ingiríði Björnsdóttur. Á Siglufirði bjuggu þau til ársins 1936, en þá fluttu þau til Reykjavíkur.

Þau hjón eignuðust fjóra syni, sem allir hafa reynst foreldrum sínum frábærlega vel. Elsti sonur þeirra Björn Grétar ólst upp hjá fósturforeldrum Ólafs, frá sex óra aldri. Hann er kvæntur Þóru Sigriði Jónsdóttur, og eiga þau tvo syni.
Næstur er Jóhann, kvæntur Jónu Björgu Georgsdóttur. Rudolf Jens og Ásgeir eru yngstir og eru tvíburar.

Ásgeir er kvæntur Helgu Óskarsdóttur, og eiga þau einn son. Rudolf er ókvæntur og býr í foreldrahúsum. Árið 1952 fluttu þau Ólafur og Ingiríður með sonum sínum þrem til Njarðvíkur. Bjuggu þau fyrst í leiguhúsnæði, en réðust fljótlega í að byggja sitt eigið hús, og fluttu í það árið 1956....................................  https://timarit.is/files/16166878