Ragnheiður Magnúsdóttir

20. mars 2009 | Minningargreinar

Ragnheiður Magnúsdóttir sjúkraliði fæddist á Siglufirði 1. september 1932.
Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 13. mars 2009
.

Foreldrar Ragnheiðar voru Magnús Jóhann Þorvarðarson sjómaður, f. 27.8. 1907, d. 28.2. 1940 og Jóhanna Vilmundardóttir húsmóðir, f. 18.10. 1909, d. 30. 9. 1998.

Eiginmaður Jóhönnu var Kristinn Guðjónsson, f. 9.11. 1915, d. 14.12. 2004.

Systir Ragnheiðar samfeðra er Sjöfn Hólm Magnúsdóttir, f. 24. ágúst 1937.

Eiginmaður Ragnheiðar var Haukur Morthens söngvari, f. 17. 5. 1924, d. 13.10. 1992.

Þau giftu sig 24. 12. 1952.
Foreldrar Hauks voru Edvard Morthens, f. 15.5. 1882, d. 12.5. 1963 og Rósa Guðbrandsdóttir, f. 28.10. 1892, d. 10.6. 1980

Ragnheiður Magnúsdóttir - Ransý

Ragnheiður Magnúsdóttir - Ransý

Synir þeirra Ragnheiðar og Hauks eru:

  • 1) Ómar Hauksson þjónn, búsettur í Reykjavík, f. 4.12. 1953. Hann á þrjár dætur og fjögur barnabörn. Sambýliskona Ómars er Kolbrún Björnsdóttir, hún á tvö börn og 2 barnabörn.

  • 2) Heimir Hauksson pípulagningameistari, búsettur í Reykjavík, f. 23. 3. 1956, kvæntur Þóru Kristínu Sigursveinsdóttur, þau eiga þrjá syni og þrjú barnabörn.

  • 3) Gústaf Haukur Hauksson arkitekt, búsettur í Osló í Noregi, f. 23. 7. 1962, sambýliskona Hanne Grethe Torkildsen, þau eiga tvö börn.

Útför Ragnheiðar verður gerð frá Áskirkju í dag, 20. mars, og hefst athöfnin kl. 15.

Í dag kveð ég vinkonu mína Ragnheiði Magnúsdóttur, Ransý. Þá er mér efst í huga tryggð hennar við mig. Glöggt mat hennar á mannlegum samskiptum er ég naut góðs af. Kynni okkar hófust er við vorum 19 ára og hafa haldist þar til nú að leiðir skilur. Ransý hreif alla sem kynntust henni fyrir glaðlega og örugga framkomu.

Ransý var mjög réttsýn, sanngjörn og hjálpleg þegar til hennar var leitað. Þegar börn okkar voru ung að aldri voru vinaböndin hvað tryggust. Áttum við ótaldar ferðir út úr bænum með börnin, okkur mæðrunum og börnum til ómældrar ánægju. Ransý var mjög umhugað um íslenska tungu og menningu. Henni lá hátt rómur og var haft við orð hvað hún talaði fallega íslensku.

Ransý las mikið íslenskar bækur og skiptumst við oft á skoðunum um ágæti þeirra. Við Ransý vorum í bridgespilaklúbbi með vinkonum okkar í nokkur ár og höfðum allar ánægju af. Ransý var fædd á Siglufirði og ólst þar upp. Tryggð hennar við Siglufjörð hélst fram á síðustu ár og var það ósjaldan sem hún keyrði ein í bifreið sinni til æskustöðvanna.

Eiginmaður Ransýjar var Haukur Morthens söngvari, landsþekktur og sívinsæll. Lagið „Ó borg mín borg“ eftir Hauk Morthens er greipst í hjörtu þjóðarinnar.

Við Hermann sendum Ómari, Heimi og Gústafi Hauki, eiginkonum, börnum og barnabörnum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Anna Guðný Ármannsdóttir.
---------------------------------------------------

  • Kallið er komið,
  • komin er nú stundin,
  • vinaskilnaðar viðkvæm stund.
  • Vinirnir kveðja
  • vininn sinn látna,
  • er sefur hér hinn síðasta blund.

(V. Briem)

Látin er vinkona mín Ragnheiður Magnúsdóttir eða Ransý eins og ég kýs að nefna hana, ekkja Hauks Morthens. Mikil vinátta hefur haldist á milli okkar allt frá því að þau Haukur byrjuðu að vera saman. Það var afar gott að vera samvistum við þau hjón.

Ransý mín, það er margs að minnast frá þeim árum. Við fórum nokkrar ferðir með orlofi húsmæðra bæði að Laugum í Dalasýslu og til Akureyrar, þá skemmtum við okkur vel. Núna síðari árin eftir að þú fluttir á Sléttuveginn fórum við oft í Þjóðleikhúsið og höfðum gaman af.

Nú munuð þið Haukur hvíla hlið við hlið í Gufuneskirkjugarði. Ég veit að hann tekur vel á móti þér Ransý mín og þú mátt bera honum kveðju frá mér.

Öllum ástvinum Ransýjar sendi ég einlægar samúðarkveðjur frá mér og fjölskyldu minni og einnig frá systkinum mínum þeim Braga og Jonnu í Santa Barbara.

Nú þegar ég kveð þig í hinsta sinn Ransý mín, þá segi ég:

  • Far þú í friði,
  • friður Guðs þig blessi,
  • hafðu þökk fyrir allt og allt.

Fríða.
--------------------------------------------------

Mig langar að minnast Ragnheiðar með fáeinum orðum.

Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast Ragnheiði í gegnum sameiginlega vinkonu okkar, Ingveldi. Þær stöllur voru duglegar að ferðast bæði innanlands og utan, og komst ég með þeim í nokkrar góðar ferðir. Þessi ferðalög voru ávallt vel skipulögð þegar kom að viðkomustöðum og ríkulegur bókakostur hafður meðferðis sem geymdi fróðleik um hvern stað.

Ein slík ferð leiddi okkur á heimaslóðir Ragnheiðar, sem er Siglufjörður, en þar sleit hún barnsskónum og kynntist mannsefni sínu. Ragnheiður fylgdi okkur um fallegar æskuslóðir sínar og rakti sögu bæjarins. Sérhvert hús og sérhver gata átti sér nafn og minningar í hennar huga, og var unun að upplifa þær með henni á ný. Þá var einnig gaman að standa álengdar og fylgjast með Ragnheiði heilsa gömlum vinum og kunningjum á förnum vegi, því þá var eins og Reykjavíkurmærin hefði aldrei farið úr sveitinni sinni.

Ragnheiður fylgdist stolt með afkomendum sínum og ljómaði gleði og eftirvænting úr andliti hennar þegar hún talaði um þau yngstu í fjölskyldunni. Þegar fjölgunar var von sá maður litlar flíkur verða til á prjónum, og hún var þakklát fyrir hve fjölskyldan var henni góð.

Ég veit að ég er ein svo ótal margra sem telja sig ríkari fyrir að hafa fengið að ganga spölkorn með Ragnheiði um lífsins veg.

  • Nú legg ég augun aftur,
  • ó, Guð, þinn náðarkraftur
  • mín veri vörn í nótt.
  • Æ, virst mig að þér taka,
  • mér yfir láttu vaka
  • þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson.)

Ég bið Guð að blessa minningu hennar og veita ástvinum hennar huggun.

Hulda Gunnarsdóttir á Sauðárkróki.
-------------------------------------------------------------

Þegar ég lít til baka og minnist Rögnu frænku minnar koma þrjú orð upp í hugann; kjarkur, æðruleysi og gamansemi. Við vorum systradætur og að miklu leyti aldar upp í sama húsi á Siglufirði. Systir mín Baldvinna, sem lést fyrir 20 árum, var besta vinkona Ransýjar og á erfiðum tíma í lífi hennar reyndust Ransý og Haukur henni frábærlega vel.

Þegar Ransý var búin að koma upp sonum sínum dreif hún síg í sjúkraliðanám og stóð sig með ágætum og vann upp frá því á Borgarspítalanum og hafði ánægju af. Við vorum árum saman hjá Endurmenntunarstofnun HÍ í Íslendingasögum og fórum nokkrar söguferðir til útlanda. Ógleymanleg er ferðin til Rússlands. Þegar við vorum komin til St. Pétursborgar var Ransý í essinu sínu. Hún var svo vel lesin í ævisögum Katrínar miklu og Péturs mikla.

Hún sagði mjög skemmtilega frá og fann alltaf spaugilegu hliðarnar á öllum hlutum. Þetta erfði hún frá móður sinni, Jóhönnu Vilmundardóttur, sem hafði einstaka frásagnarhæfileika. Síðustu árin hafa verið henni erfið. Hún var komin með súrefnisvél og kallaði hana kærustuna sína.

Hún sagði við mig fyrir skömmu: „Ég hef ekki yfir neinu að kvarta meðan ég hef kærustuna, mat að borða og nóg af bókum í kringum mig.“ Hún kom stundum til okkar í mat, þá helst kjötsúpu, og sagði í gamni að hún væri í áskrift í kjötsúpu. Hún hringdi fyrir nokkrum dögum og sagði á sinn sérstaka hátt:

„Hvernig er það, á ekki að fara að verða kjötsúpa?“ Hún kom en var svo líkamlega aðframkomin  að ég hélt að hún mundi ekki hafa það af. En þegar hún var búin að jafna sig og ná andanum komst hún á flug og sagði okkur svo skemmtilega frá mönnum og málefnum að við veltumst um af hlátri.

Undir niðri vissi ég að þetta væri í síðasta skipti sem ég sæi hana. Það reyndist rétt. Tveimur dögum síðar lagðist hún inn á sjúkrahús og háði sína baráttu í viku og andaðist.

Hennar er sárt saknað af öllum og við hjónin sendum aðstandendum samúðarkveðjur.

Þorgerður Brynjólfsdóttir.
-----------------------------------------------

Hinsta kveðja

Mig langar að minnast vinkonu minnar, Ragnheiðar Magnúsdóttur. Ég þakka henni samfylgdina á lífsgöngunni og alla hvatningu er hún veitti mér á tónlistarsviðinu. Kveð hana með orðum skáldsins Jónasar Hallgrímssonar:

  • ....og vinir berast burt á tímans straumi,
  • og blómin fölna á einni hélunótt. –

Jón Kr. Ólafsson.