Kristín Andrea Sæby Friðriksdóttir

mbl.is  14. apríl 2005 | Minningargreinar

Andrea Sæby Friðriksdóttir fæddist á Siglufirði 29. desember 1906.
Hún lést á hjúkrunarheimilinu Hrafnistu 7. apríl 2005.

Foreldrar hennar voru Friðrik Hermannsson frá Reykjarhóli í Fljótum og Björg Sigríður Sæby frá Læk í Siglufirði, þau bjuggu á Siglufirði alla tíð.

Systkini Kristínar eru:

  • 1) Friðrik Steinn, f. 1908, d. 1963,
  • 2) Oktavía Lovísa, f. 1910, d. 1988,
  • 3) Þorleif Valgerður, f. 1911, d. 1917,
  • 4) Ágústa Amelía, f. 1914, d. 1999,
  • 5) Þorleif Valgerður, f. 1916, d. 1994,
  • 6) Stefanía Margrét, f. 1918.
  • 7) Vilhelm Marselíus, f. 1921,
  • 8) Kristinn Tómas, f. 1923, d. 1977,
  • 9) Hermann, f. 1925, og
  • 10) Kjartan, f. 1927.
Andrea Sæby - ókunnur ljósmyndari

Andrea Sæby - ókunnur ljósmyndari

Kristín giftist hinn 19. nóvember 1927 Helga Einarssyni vélagæslumanni, f. 16. júlí 1903, d. 13. janúar 1995. Dætur þeirra eru 1) Björg Sigríður, f. 1929, d. 1998, gift Árna Jóhannssyni, d. 1984, 2) Oddný, f. 1932, gift Kristjáni Sigurðssyni, og 3) Erla, f. 1935, gift Haraldi Helga Eyjólfssyni.

Kristín stundaði almenn húsmóðurstörf, vann í síld á Siglufirði nokkur sumur auk fiskvinnslu í Kirkjusandi í Reykjavík.

Útför Kristínar fer fram frá Fossvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Að loknum veikindum síðustu mánaða hefur hún amma mín, Kristín Friðriksdóttir, nú kvatt þennan heim. Hún amma var alla tíð heilsuhraust og átti góðan vin og félaga í eiginmanni sínum, honum afa. Bæði höfðu þau unun af allri útivist og ferðalögum.

Í bernskuminningu minni leitar hugurinn á Rauðarárstíg 21a en þar bjuggu amma og afi á vordögum mínum í virðulegu húsi á stórri lóð. Þar var nokkurs konar umferðarmiðstöð fyrir þá sem þurftu á Laugaveginn, alltaf heitt á könnunni nú eða þá nóg pláss í gistingu. Þau fluttust síðar inn á Rauðalæk 45 og þar bjó amma þar til hún var á 92. aldursári að hún fór á Hrafnistu og segir það vel til um heilsu hennar að geta séð um sig sjálfa komin á þennan aldur.

Amma var mikil handverkskona og saumaði föt nánast á alla í fjölskyldunni lengi framan af auk þess að vera síprjónandi eða að sauma út hin ýmsu listaverk. Jafnframt var hún listaútskurðarkona í tré.

Sælar eru minningar um ömmu þegar hún var að salta síld á Siglufirði og maður fékk að setja neðstu lögin í tunnurnar hjá henni til að hjálpa, hún var vinnuforkur. Siglufjörður var ömmu alltaf mjög kær og kom hún þar oft á yngri árum og hvergi var eins fallegt og sólin eins björt og í firðinum fyrir norðan.

Ömmu minni var fjölskyldan heilagt vé í besta og fegursta skilningi þess orðs og allt fram undir það síðasta fylgdist hún með athöfnum fjölskyldumeðlima sinna. Það má segja að gæfa ömmu minnar og afa hafi verið góð heilsa og heilbrigð börn ásamt því að fylgjast með komu og þroska allra afkomenda sinna svo vel. Eins og fleiri sé ég eftir yndislegri ömmu, en áhrif hennar verða áfram hjá okkur hinum og í okkur til styrktar fram veginn.

Megi Guð blessa minningu þína.

Óskar Smári.
---------------------------------------------------

Elskuleg föðursystir okkar Kristín er látin. Við viljum minnast hennar með þakklæti í huga fyrir hlýju og hugulsemi í garð okkar systkina, þegar við þurftum á stuðningi að halda á erfiðu tímabili í lífi okkar.

Stína var stórfrænkan í fjölskyldunni, var elst í stórum systkinahópi, Hún var stórglæsileg kona og alltaf fallega klædd og vel til höfð, svo að eftir því var tekið. Hún var ákaflega ættrækin, gestrisin og mikil félagsvera, sem fylgdist vel með öllum ættingjum sínum og fjölskyldu. Heimili þeirra hjóna, Stínu og Helga, var við Rauðarárstíg, í alfaraleið og margir höfðu þar viðkomu, því þótt að húsrými væri ekki stórt, vantaði ekki hjartarými á þeim bæ, allir alltaf velkomnir. Stína frænka var sannur Siglfirðingur, kom til Siglufjarðar á hverju sumri, fyrst til að salta síld og eftir það til að heimsækja æskustöðvar sínar, alltaf þótti henni gaman að heimsækja fjörðinn sinn.

Árið 2000 kom hún í sína síðustu heimsókn til Siglufjarðar, þá tæplega 95 ára, til að taka þátt í ættarmóti Sæby ættar. Það var mjög fjölmennt og voru fagnaðarfundir á Hóli, þar sem mótið fór fram.

Elsku frænka, hvíl þú í friði, minning þín lifir. Með þakklæti fyrir langa og ánægjulega samveru viljum við kveðja þig með eftirfarandi ljóðlínum, sem eru svo lýsandi fyrir þig.

  • Hver minning dýrmæt perla að liðnum
  • lífsins degi, hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.
  • Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem
  • gleymist eigi, og gæfa var það öllum, er fengu að
  • kynnast þér.(Ingibjörg Sigurðardóttir.)

Innilegar samúðarkveðjur til Diddu, Lólóar, barna Bjargar og fjölskyldna þeirra.

Björg og Friðrik Jóhannes Friðriksbörn og fjölskyldur.