Kristinn Jón Þorkelsson - Kiddjón vélsmiður

mbl.is 24. júní 2017 | Minningargreinar

Kristinn Þorkelsson fæddist á Siglufirði 2. júní 1941. Hann lést 1. júní 2017.

Kristinn Jón var sonur hjónanna Þorkels Benónýssonar, f. 15.9. 1920, d. 6.1. 1993, og Margrétar Brands Viktorsdóttur, f. 28.9. 1922, d. 29.12. 2009.

Systkini Kristins Jóns eru:

 1. Sóley Anna, f. 1943,
 2. Benóný Sigurður, f. 1944,
 3. Viktor Þór, f. 1946, d. 2008,
 4. Sólveig, f. 1950,
 5. Þórdís, f. 1952 og
 6. Sigurveig, f. 1954, d. 2012.
Kristinn Þorkelsson

Kristinn Þorkelsson

Kristinn Jón kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni Önnu M. Magnúsdóttur 7. júní 1964.
Synir þeirra:

1) Magnús, f. 15.2. 1965, maki Erla D. Vilbergsdóttir.
Börn þeirra eru:
 • Kristófer Arnar,
 • Vilberg Andri,
 • Sara Birgitta og
 • Viktoría Erla.
2) Þorkell Brands, f. 6.9. 1970, maki Sóley Jónsdóttir.
Dætur þeirra:
 • Karen Rut og
 • Jóhanna Margrét.

Kristinn Jón ólst upp á Siglufirði þar sem hann lauk hefðbundinni skólagöngu, eftir nám í vélvirkjun fór hann til Reykjavíkur og lauk vélstjóranámi frá Vélskóla Íslands. Eftir nám í Reykjavík starfaði hann sem vélstjóri hjá SR og Þormóði ramma á Siglufirði. Árið 1997 fluttu þau hjón til Reykjavíkur og hóf Kristinn Jón störf hjá Búrfellsvirkjun, þar starfaði hann uns hann lét af störfum vegna aldurs.

Útför Kristins Jóns fór fram í kyrrþey 14. júní 2017.

Það var óvænt símtal sem flutti mér þær fréttir að Kiddjón bróðir og kær vinur væri látinn. Nokkrum dögum áður hafði hann hringt í mig og var hann þá að tala um sumarið, hann langaði að skreppa norður, heimsækja vini og kunningja í Skagafirði og á Siglufirði. Kiddjón hafði flesta þá kosti sem prýða máttu einn mann og hafði ég minnt Önnu eiginkonu hans á að með honum hefði hún fengið stærsta lottóvinning sögunnar.

Hestar og hestamennska voru hans stóra áhugamál og átti hann jafnan ágætis hesta. Margar heimsóknir kom hann til Skagafjarðar í sambandi við Laufskálarétt, hestamót eða bara að hitta kunningja í hestamennskunni og gaman hafði hann af því í fyrra að vera viku á Landsmóti hestamanna á Hólum, haft var á orði við hann hvort hann hefði leyfi til útivistar svona langt fram á kvöld þegar hann var að koma seint heim.

Kiddjóns verður sárt saknað af öllum þeim sem þekktu hann. Missirinn er samt mestur hjá Önnu, Magga, Kela og þeirra fjölskyldum. Megi ljúfar minningar um Kiddjón ylja okkur á komandi tímum.

Þórdís Þorkelsdóttir.
----------------------------------------------

Hver trúir því að einn besti vinur okkar, hann Kiddjón, til margra áratuga sé fallinn frá svo skyndilega sem raun ber vitni, þegar hann var að sinna vinum sínum í hesthúsinu? Kiddjóni kynntist ég á Sigló í kringum 1965 og síðar mun betur, ég vissi að hann hafði áhuga á meiri fjölbreytni í starfi þegar hann var kominn aftur á Vélaverkstæði S.R. á Siglufirði eftir erfiðan tíma á síldarflutningaskipinu Haferninum.

Um vorið 1972 til 1974 fékk ég Kiddjón til að koma í afleysingar í Búrfellsvirkjun sem og hann gerði. Hann var frábær vélstjóri, samviskusamur í meira lagi og góður félagi.

Árið 1994 losnaði staða sem ég bauð Kiddjóni og hann þáði, en þá voru hann og Anna farin að hugsa sér til hreyfings frá Siglufirði.

Þegar ég sagði stöðvarstjóranum frá því að ég hefði talað við vélstjóra sem væri tilbúinn að koma strax, þá orðaði ég það svo að strákurinn kæmi til viðtals við hann í næstu viku, þegar Kiddjón kom, þá sá stöðvarstjórinn drenginn sem var eldri en við sem fyrir vorum, hann var ráðinn og ávallt kallaður „strákurinn“ því hann stóðst allar væntingar hinna starfsfélaganna, hann varð aldrei annað en strákurinn því hann var síungur, reglusamur, vinnusamur, samviskusamur, lipur og feikna duglegur allt til starfsloka 30. júní 2011 er hann var nýorðinn 70 ára.

Hafðu þökk fyrir allt og allt, kæri vinur og samstarfsfélagi.

Önnu, Magnúsi og Þorkeli og fjölskyldum þeirra vottum við okkar dýpstu samúð við fráfall góðs og trausts drengs.

Benedikt og Áslaug.