Kristinn Guðmundsson málarameistari

mbl.is 13. júní 2013 | Minningargreinar 

Kristinn Guðmundsson fæddist á Siglufirði 14. febrúar 1953. Hann lést að heimili sínu í Hafnarfirði 1. júní 2013.

Foreldrar hans voru Guðmundur Björgvin Guðmundsson málarameistari, f. 31.3. 1920, d. 23.8. 1997 og Kristólína P. S. Kristinsdóttir, f. 29.11. 1920, d. 25.2. 1993.

Systkini Kristins eru:

 • Ásta Guðmundsson, f. 28.4. 1940,
 • Ingvar Ágúst Guðmundsson, f. 17.2. 1945,
 • Margrét Guðmundsdóttir, f. 19.11. 1948,
 • Þóra Bjarney Guðmundsdóttir, f. 16.4. 1950,
 • Hulda Guðmundsdóttir, f. 24.11. 1956 og
 • Björg Guðmundsson, f. 13.11. 1960, d. 7.6. 2011.

Kristinn Guðmundsson eignaðist fimm börn:

Kristinn Guðmundsson málari - ljósmyndari ókunnur

Kristinn Guðmundsson málari - ljósmyndari ókunnur

1) Inga Birna, móðir hennar er Elín Pálsdóttir, eiginmaður Ingu Birnu er Víðir Ingimarsson,
börn þeirra eru
 • Sigurður Sören,
 • Elín Margrét og
 • Jóhann Guðni.

2) Jón Kjartan, móðir hans var Guðrún Lára Kjartansdóttir, eiginkona Jóns Kjartans er Elsa Guðrún Jóhannesdóttir,
börn þeirra eru
 • Arnar, Karítas og
 • Lára Kristín. 
3) Írisi,
4) Örvar og
5) Magnús, móðir þeirra er Margrét Magnúsdóttir. Sambýlismaður Írisar er Lars Åberg, sambýliskona Örvars er Erika Ek,
dóttir þeirra er
 • Alma Íris Jóhanna.
  Dóttir Magnúsar er
 • Nathalie.
  Fóstursynir Kristins eru
 • Hjalti og
 • Hjörtur Brynjarssynir, móðir þeirra er Ragnhildur Ragnarsdóttir. 

Kristinn Guðmundsson starfaði lengst af sem málaraverktaki í Hafnarfirði og var virkur meðlimur Lionsklúbbsins Ásbjarnar frá árinu 1997.

Útför Kristins fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 13. júní 2013, og hefst athöfnin klukkan 13.

Elsku Kiddi.

Nú er komið að kveðjustund. Við munum ávallt vera þakklát fyrir stundir okkar saman og kveðjum þig nú með sorg í hjarta. En við vitum að nú ert þú á betri stað og lýsir upp himininn með þinni einstöku kímnigáfu. Það var yndislegt að sjá þig með Sóley og erum við svo þakklát fyrir þær stundir sem við áttum saman í vor. Í hjarta okkar geymum við allar góðu minningarnar um stundir okkar saman.

 • Brosið breitt og augun skær,
 • bið guð þig að geyma,
 • bestu þakkir, þú varst mér svo kær.
 • Þér mun ég aldrei gleyma.

(Guðný Sigríður Sigurðardóttir)

Með saknaðarkveðju, Hjalti og Íris.
------------------------------------------------------------

Hress, fyndinn og kjaftfor töffari, með mikinn ljósan lubba. Þannig man maður fyrst eftir Kristni þrettán eða fjórtán ára. Við urðum félagar. Þá var hann kallaður Gúndi í okkar hópi, aðrir kölluðu hann Kidda; honum var slétt sama. Kobbi bættist í hópinn litlu síðar og svo Gulli. Við áttum sameiginleg áhugamál: skemmtanir, músík og stelpur.

Kvisturinn var eftirminnilegur; Tjarnargata 10a, efsta hæð þar sem leigð voru út herbergi. Kristinn og Jón Hrólfur bjuggu þar um tíma rúmlega tvítugir ásamt þremur eða fjórum piparsveinum öðrum. Þá var fjörið oft mikið og reglulegt og Kristinn veislustjórinn. Hann vildi stuð og ekkert múður.

Lífið leiddi okkur víða og sambandið var minna stundum þó við fylgdumst alltaf hver með öðrum. Þó hittumst við nokkuð reglulega síðustu 20 árin; röktum þá garnirnar hver úr öðrum, fórum yfir þjóðmálin og deildum gömlum minningum. Vanalega var Kristinn hrókur alls fagnaðar á þessum fundum og lét okkur heyra það óþvegið ef honum þótti ástæða til.

Við ræddum stundum okkar í milli hve ótrúlega orkumikill og duglegur Kristinn var. Hann vann mikið og hafði margt í takinu; íþróttir, músík og félagsmál. Alltaf að standsetja íbúð eða kaupa nýja. Meðfram byggði hann svo þetta líka flotta sumarhús í Kjósinni. Við hinir komumst ekki nálægt félaganum í umsvifum, enda fengum við að heyra reglulega hvað við værum litlir framkvæmdamenn.

Það er vont að missa svona dreng. Um leið og við kveðjum félaga Kristin sendum við samúðarkveðjur til aðstandenda allra.

Guðlaugur, Jakob, Jón Hrólfur.
-------------------------------------------------------

Elsku Kristinn, þín verður sárt saknað en við trúum því að þú hafir það betra á nýjum stað, við munum ætíð minnast þín með hlýhug.

 • Þeir segja mig látinn, ég lifi samt
 • og í ljósinu fæ ég að dafna.
 • Því ljósi var úthlutað öllum jafnt
 • og engum bar þar að hafna.
 • Frá hjarta mínu berst falleg rós,
 • því lífið ég þurfti að kveðja.
 • Í sorg og í gleði ég senda mun ljós,
 • sem ykkur er ætlað að gleðja.

(Höf. ók.)

 • Þótt ég sé látinn,
 • harmið mig ekki með tárum,
 • hugsið ekki um dauðann
 • með harmi eða ótta.

 • Ég er svo nærri,
 • að hvert eitt tár ykkar
 • snertir mig og kvelur,
 • þótt látinn mig haldið.

 • En þegar þið hlæið og
 • syngið með glöðum hug,
 • lyftist sál mín upp
 • í mót til ljóssins.

 • Verið glöð og þakklát
 • fyrir allt sem lífið gefur
 • og ég, þótt látinn sé,
 • tek þátt í gleði ykkar yfir lífinu.

(Höf. ók.)

Kærar kveðjur, Guðrún, Lína, Rakel, Guðný, Ómar, Steini og fjölskyldur.