Júlíus Þorkelsson

mbl.is 25. maí 2013 | Minningargreinar  

Júlíus Þorkelsson fæddist á Siglufirði 1. júlí 1925. Hann lést á sjúkrahúsi Siglufjarðar 11. maí 2013.

Foreldrar hans voru Þorkell Kristinn Sigurðsson, f. 8. apríl 1881, á Hæringsstöðum, Svarfaðardalshreppi, Eyjafirði, d. 20. desember 1940, og kona hans Jóhanna Guðríður Kristjánsdóttir, f. 6. janúar 1892, í Aðalvík, N-Ísafjarðardjúpi, d. 11. desember 1986.

Júlíus var sjöundi í röðinni af þrettán systkinum.

Látin eru

  • Elenóra Þorkelsdóttir,
  • Sigurpáll Þorkelsson,
  • Kristján Þorkelsson,
  • Margrét Þorkelsdóttir,
  • Axel Þorkelsson,,
  • Albert Þorkelsson,,
  • Sigurður Þorkelsson,,
  • Hansína Þorkelsdóttir og
  • Elísabet Þorkelsdóttir.
    Eftirlifendur eru
  • Hilmar Þorkelsson,
  • Sigríður Inga Þorkelsdóttir og
  • Jóhanna Þorkelsdóttir.
Júlíus Þorkelsson

Júlíus Þorkelsson

Júlíus giftist 27. desember 1965 Maríu Einarsdóttur
og eignuðust þau þrjár dætur.

1) Hjördís Júlíusdóttir, f. 23.11. 1952, maki Ævar Friðriksson.
Börn þeirra eru:
  • Júlíus, maki Ólöf Eir Gísladóttir,
    þau eiga fjögur börn og eitt barnabarn.
Friðrik Már, d. 1974. Harpa, maki Örvar Kærnested,
þau eiga þrjú börn.
  • Auður, maki Óskar Guðmundsson,
    þau eiga tvö börn.
2) Hrefna Brynhildur Júlíusdóttir, f. 22.1. 1957, maki Guðmundur Lárus Helgason.
Börn þeirra eru:
  • Ragnar Veigar, maki Lloyd Burchill.
  • Víðir, maki Daoprakai Saosim,
    þau eiga þrjú börn.
  • Guðrún, hún á eina dóttur.
  • Atli.

3) Elísabet Júlíusdóttir, f. 15.3. 1968, maki Magnús Jónsson.
Börn þeirra eru:
  • Álfhildur María,
  • Logi Már og
  • Dagný Lára.
    Sonur Elísabetar úr fyrri sambúð er Magnús Mar, faðir hans er Vignir Rafn Gíslason. Magnús á eina dóttur.

Fyrir átti María tvo syni sem Júlíus gekk í föðurstað.

1) Hjörtur Egilsson.
Börn hans eru:
  • Jóhann, maki Lilja Ásgeirsdóttir, þau eiga eina dóttur.
  • Egill, maki Ása Linda Egilsdóttir, þau eiga fjögur börn og eitt barnabarn.
  • Hjörtur, maki María Bóel Gylfadóttir, þau eiga þrjú börn.
2) Rúnar Egilsson.
Börn hans eru:
  • Jóhannes Geir, maki Guðrún Bergmann Fransdóttir, þau eiga þrjár dætur.
  • María Kristín, maki Ingvar Sæbjörnsson, þau eiga þrjú börn.

Júlíus stundaði sjómennsku á Siglufirði, vann ýmis störf á fiskibátum en lengst vann hann sem háseti á togurum. Þegar Júlíus yfirgaf sjóinn vann hann sem netagerðarmaður. Júlíus var dugnaðarforkur til vinnu og sat sjaldan auðum höndum. Síðustu árin hnýtti hann net sem hestamenn nýttu við heygjafir.

Útför Júlíusar fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag, 25. maí 2013, og hefst athöfnin kl. 14.
-----------------------------------

Elsku pabbi.

Þá er komið að kveðjustundinni. Mig langar að minnast þín hér í nokkrum orðum. Frá því ég man eftir mér þá varst þú hetjan mín, stór, sterkur og gast allt. Þú varst á sjónum, oft langan tíma, og man ég þá að við mamma sátum og horfðum út um eldhúsgluggann á vonda veðrið og hugsuðum um þig þarna úti á úfnum sjónum. Ég fékk að sofa í þinni holu þegar þú varst ekki heima.

En alltaf komst þú aftur alveg sama hve veðrið var búið að vera vont. Þegar þú varst heima þurfti ég mínar sögur fyrir svefninn, það voru ekki lesnar bækur, heldur sagðar sögur sem þú sagðir svo skemmtilega að atburðarásin var ljóslifandi fyrir mér. Ég man að þú þurftir að læðast út úr húsi ef þú vildir sleppa við það að taka mig með. Ég vildi alltaf fara með hvert sem þú fórst. Ég man ferðirnar í vondu vetrarveðrunum þar ég var undir úlpunni þinni og gekk í sporin þín, því snjóstormurinn var svo mikill.

Ég man einnig Reykjavíkurferðirnar sem við fórum saman, 10 klukkustunda ökuferðir og oft í mjög slæmri færð. Aldrei efaðist ég um að þú kæmir mér á leiðarenda því þú gast allt. Einhvern tíma gleymdirðu skóflunni og við lentum í vandræðum í gömlu skriðunum, þá skelltirðu þér út úr bílnum og sparkaðir niður umferðarskilti til að moka með, svo við kæmumst áfram. Þegar ég lít til baka þá hlýt ég að hafa verið dekurrófa.

Ég fékk allt, nýjar buxur í Kjarnabæ, fimmtudagskvöldbíó með þér áður en aldur leyfði, veiðiferðir í Haganes, siglingar með þér á togaranum til Hull á Englandi, skutl á útihátíð, ferð til Ameríku og margt og mikið sem ungmenni girnast. Kannski var þetta af því ég var yngst og vegna þess að þú fékkst að ráða nafninu mínu og ákvaðst að ég skyldi heita í höfuðið á Betu systur þinni, megi minning hennar lifa sem lengst. Þú talaðir alltaf svo vel um Betu og öll þín systkini.

Síðustu árin áttum við góðar stundir. Þegar við fjölskyldan eignuðumst íbúðina á Siglufirði þá sýndir þú hversu fjölhæfur handverksmaður þú varst. Þú bólstraðir stóla, málaðir glugga, útvegaðir hitt og þetta ásamt því að laga hluti sem voru ekki alveg í lagi. Þú varst fljótur að hlaupa til þegar eitthvað vantaði í íbúðina.

Minning þín mun lifa í börnunum mínum, sem fannst þú frábær afi, skemmtilegur og uppátækjasamur. Þú varst alltaf tilbúinn að gera hluti með þeim s.s. berjaferðir, veiðiferðir og sundferðir svo ég tali nú ekki um hlaupin með dýnur, bekki og kodda þegar allir þurftu að vera í sólbaði á pallinum.

Á pallinum fannst þér gott að vera enda mikill sóldýrkandi. Það var ekki fyrr en í fyrrasumar sem þú varðst undan að láta því þá hefur sjúkdómurinn verið farinn að banka upp á. Það lýsti þér samt best að þú sagðir alltaf að þetta væri ekkert og það myndi líða hjá. Gamla hörkutólið var nú ekki vant að kvarta. Ég kveð þig elsku pabbi og megi minning þín lifa lengi.

Þín dóttir, Elísabet.
----------------------------------------------

Í dag verður til moldar borinn tengdafaðir minn, Júlíus Þorkelsson frá Siglufirði. Júlli Kela, eins og hann var jafnan kallaður, bjó alla sína ævi á Siglufirði, en sú ævi var löng, tæplega 88 ár. Mín fyrstu kynni af honum voru þegar ég kom á Siglufjörð í páskafríi 1974 að heimsækja Brynhildi dóttur hans. Þar tóku á móti mér elskuleg hjón og þá fékk ég að kynnast besta soðna brauði, sem ég hef nokkru sinni fengið, en þann heiður átti María tengdamóðir mín.

Starfsævi Júlla var tengd sjónum. Hann var stýrimaður, kokkur, neta- og bátsmaður og háseti á ýmsum bátum og togurum. Einnig vann hann á netaverkstæðum enda snillingur í meðhöndlun neta. Hún er góð sagan, sem hann sagði mér af ferð sinni, frá Siglufirði fyrir fjölda mörgum árum, þar sem hann flutti nót á pallinum á kraftlitlum bíl þannig að ekkert sást aftur fyrir bílinn. Í einni brekkunni sóttist ferðin hægt og þar sem hann er einn í heiminum bregður honum heldur í brún, þegar maður rífur upp hurðina, skipar honum að hunskast út í kant svo hann komist fram úr, en sá hafði þá misst þolinmæðina, stöðvað sinn bíl og hlaupið Júlla uppi.

Það var alltaf mikil tilhlökkun hjá börnum okkar að fara á Sigló, soðið brauð með hangikjöti og rúllupylsu hjá ömmu og svo að fá að keyra hjá afa á góðu svæði, sem tilvalið var að æfa sig á. Júlli var alltaf léttur á fæti, en nú seinni árin var þrekið farið að minnka og hann þurfti oftar að hvíla sig. Fyrir stuttu kom svo í ljós mein sem búið var að hreiðra um sig og lokaspretturinn var snöggur. Hans verður sárt saknað.

Blessuð sé minning hans, hvíl í friði.

Þinn tengdasonur, Guðmundur Lárus.
------------------------------------------------------

Afi Júlli var einstaklega glæsilegur maður. Hann var flottur með sixpensarann og axlaböndin sem voru einkennandi fyrir hann.

Það var alltaf notalegt að koma til ömmu og afa á Hvanneyrarbraut. Þá var stjanað við okkur. Amma bar fram kræsingar og afi vaskaði upp. Góð samvinna þar.

Afi hafði sérstaklega gaman af börnum og hændust þau að honum. Hann hafði gaman af að ræða málin, fíflast og hlæja með þeim. Hann fylgdist með þeim klifra uppí Hvanneyrarskál, æfa sig á skíðum, leika sér í fjörunni eða hvað það var sem þau tóku sér fyrir hendur á Sigló.

Hann var afar léttur í lundu og snöggur í hreyfingum. Hann var alltaf til í að rétta hjálparhönd þeim sem þurfti á henni að halda.

Hann elskaði sólina og var tíðrætt um hana. Notaði hann hvert tækifæri til að liggja í sólbaði í garðinum eða á pallinum

Þó að afi hafi verið frekar heilsulaus síðustu ár þá bar hann sig alltaf vel og kvartaði aldrei. Þó að aldurinn væri farinn að segja til sín þá bar hann þess ekki merki, eins og krakkarnir mínir sögðu: „en hann var ekkert svo gamall“.

Minning um yndislegan afa lifir og hans verður sárt saknað á Sigló.

Hvíl í friði, Harpa og fjölskylda.
--------------------------------------------------

Í dag kveð ég elsku afa minn.

Eftir standa margar ógleymanlegar minningar um lífsglaða, ljúfa, góða, hressa og káta afa minn. Það var alltaf gaman að koma á Sigló og heimsækja ömmu og afa á Hvanneyrarbrautina. Afi var ótrúlega hress og alltaf til í allt, ég gleymi aldrei þegar hann sýndi mér hvernig hann gat tekið vísifingurinn af og sagðist hann geyma hann í vasanum, þessu trúði ég auðvitað eins og nýju neti í mörg ár og skildi ekki hvers vegna ég fékk aldrei að halda á fingrinum. Þetta var alveg dæmigert fyrir afa, alltaf að grínast.

Það var alltaf mikil tilhlökkun að fara á Sigló á sumrin, ég man alltaf eftir þegar ég og Gunna frænka fengum að heimsækja afa og ömmu bara tvær. Það var gaman að koma og heimsækja afa í netagerðina, hann vildi allt fyrir okkur gera. Við fórum oft á rúntinn um bæinn og hann laumaði að okkur ís eða pulsu og appelsíni, hann var alveg ekta afi.

Afi var alltaf svo léttur á sér og flottur karl, alvöru sjómaður og sagði svo skemmtilega frá lífinu á sjónum. Afi var líka mjög barngóður og alltaf var gaman að koma með börnin að hitta hann, hann hafði svo gaman af þeim og hafði alltaf orð á því hvað þau væru flott og skemmtileg.

Það verður tómlegt að koma á Sigló núna og sjá afa ekki veifandi á svölunum.

Ég er þakklát fyrir að hafa kynnst þessum skemmtilega og lífsglaða manni sem afi minn var. Betri afa er ekki hægt að hugsa sér, ég veit hann er kominn á góðan stað núna. Hvíl í friði, elsku afi minn.

Auður og fjölskylda.
-------------------------------------------------

Elsku afi okkar. Við eigum erfitt með að trúa því að þú sért dáinn, afi. En núna er víst komið að því. En við erum samt sem áður ánægð með það að þú þurfir ekki að þjást lengur vegna veikindanna.

Það eru ótal minningar sem við systkinin eigum um Júlla afa okkar og eru þær allar góðar. Í öll þau skipti sem við komum í heimsókn til ömmu og afa á Siglufirði tók afi alltaf á móti okkur með bros á vör sem var einkennandi fyrir hans skapgerð. Afi okkar var mikill húmoristi og hafði skemmtilega sýn á flesta hluti. Við systkinin og önnur barnabörn nutum þeirra forréttinda að fá upp úr 10 ára aldri að prófa að keyra sjálf með afa í bílnum hans og talaði hann um að við værum komin með bílpróf á Siglufirði langt á undan prófinu í Reykjavík. Þessar bílferðir tóku þó enda fyrir um það bil þremur árum þegar kom í ljós að bílprófið gilti ekki í Héðinsfjarðargöngunum.

Það eru alls kyns hlutir sem við gerðum með afa sem í minningunni eru ómetanlegir. Veiðiferðirnar við bryggjuna á Siglufirði, sundferðirnar, ísbíltúrarnir, berjamó, sögurnar sem hann sagði okkur af sjónum, allir brandararnir, hestanámskeiðin, þegar við keyrðum næstum út í sjó, puttagaldurinn, og svo margar fleiri ógleymanlegar minningar sem við munum eiga af afa okkar alla tíð. Það sem er þó verðmætast af öllu þessu er minningin um væntumþykjuna sem afi bar til okkar og hversu gaman var að vera í kringum hann.

Við munum sakna þín óendanlega mikið afi og við vitum að nú ertu kominn á betri stað. Þín barnabörn.

Magnús, Álfhildur, Logi og Dagný.
---------------------------------------------------

Elsku afi. Ég trúi ekki að þú sért farinn. Ég er svo heppin að hafa átt þig sem afa. Það var alltaf svo gaman hjá okkur, eins og þegar við fórum oft í berjamó og einu sinni lenti bíllinn í skurði og Nonni þurfti að draga bílinn upp. Fyrsta ökukennslan mín var með þér þegar þú leyfðir mér að keyra bílinn þinn. Ég man þegar þú fórst með mér útí fjöru að tína skeljar, þegar þú keyptir handa mér ís á heitum degi og margt fleira. Ef ég bara fengi eina ósk, myndi ég vilja eignast fleiri frábærar minningar um þig. Þú varst frábær afi og ég mun sakna þín svo mikið. Ég gleymi þér aldrei og þú munt lifa lengi í hjarta mínu.

Góða ferð, elsku afi minn.

Þitt barnabarn, Álfhildur María.