Tengt Siglufirði
mbl.is + sótt annað 20. apríl 2003 | Minningargreinar
Lárus Blöndal fæddist á Siglufirði 12. júlí 1912. Hann lést á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Holtsbúð í Garðabæ 8. apríl 2003 og var útför hans gerð frá Vídalínskirkju í Garðabæ 15. apríl.
Systkini Lárusar, (og hann)
Hinn 27.7. 1945 giftist Lárus Guðrúnu Sigríði Jóhannesdóttir (Gauju) fædd 21. október 1923 í Hrísey. Hún lést á
Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Holtsbúð í Garðabæ 18. júní 2010.
Foreldrar hennar voru Jóhannes Marino Guðmundsson , f. 18.12. 1893, d. 14.12. 1933, og Valgerður Jónsdóttir,
f. 23.12. 1884, d. 27.3. 1988.
Systkini Guðrúnar eru:
Börn þeirra Lárusar og Guðrúnar eru:
-------------------------------
Það er svo ótrúlega margt sem kemur upp í hugann þegar við hugsum um Lalla afa. Við munum eftir ótal mörgum sunnudögum þar sem við borðuðum kökur hjá ömmu og hlustuðum á sögur hjá afa, borðuðum ís og fengum brjóstsykur. Við eldri systurnar munum eftir því að hafa horft á Húsið á Sléttunni alla sunnudaga með afa. Afi var fljótur að fá sér videotæki til að taka upp barnaefni, gamanþætti og þess háttar fyrir yngri barnabörnin.
Afi var mikill bókasafnari og lestrarhestur og átti ógrynnin öll af bókum, frá ástarsögum til danskra Andrésblaða, ævi- og þjóðsagna sem hann greip oft til og las fyrir okkur. Oft var gaman að stinga sér inni í bókaherbergi og skoða allar þessar bækur. Hann afi var mikið jólabarn, og skreytti húsið mikið. Með öll jólaljósin og tilheyrandi skreytingar, gerði hann húsið að eins konar ævintýraheimi sem gerði okkur barnabörnin agndofa.
Á jóladag buðu amma og afi allri stórfjölskyldunni í hangikjöt og kaffi. Þá var oft margt um manninn og mikið fjör. Það sem við munum helst eftir voru allir kossarnir, hann kyssti alla fram og til baka, dillandi hláturinn og létta lundin. Lalli afi mun alltaf lifa í minningu okkar. Við söknum hans og óskum honum góðrar ferðar til himnaríkis.
Karlotta, Eivor Pála og
Anna Kristín.
--------------------------------------------------
Afi okkar var án efa besti afi í heimi. Blíðari, jákvæðari og betri mann var ekki að finna og hann heillaði alla með persónuleika sínum. Á hverjum sunnudegi hlökkuðum við til að fara í heimsókn til afa og ömmu í Hlíðarbyggðina því þar biðu þau eftir að fá að knúsa okkur og dekra við okkur með kræsingum eins og kúlukökunni frægu. Afi var alltaf brosandi og alltaf var stutt í sönginn.
Sama hvað gekk á í lífinu þá gat maður alltaf komið til afa og fengið að heyra magnaðar sögur frá Siglufirði eða af galdrakarlinum góða og látið stríða sér aðeins með kitli og "kemur afi gangandi". Það myndu heldur ekki allir afar spila á greiðu og penna fyrir afabörnin sín á jólahlaðborði á veitingastað úti í bæ. En það gerði afi. Hann hafði alltaf tíma fyrir afabörnin sín og gerði allt fyrir þau. Því eins og hann sagði sjálfur þá var hann barn í anda og skildi þess vegna okkur börnin betur en hitt fullorðna fólkið.
Stundirnar sem við áttum með afa voru ómetanlegar og eru það að okkar mati forréttindi að hafa átt svona frábæran afa.
Elsku afi okkar, við munum ekki aðeins sakna þín sem besta afa í heimi heldur höfum við líka misst einn af okkar bestu vinum. Þú munt samt lifa áfram í hjörtum okkar.
Guð geymi þig. Þínar afastelpur,
Erna Kristín,
Marta Guðrún og Brynja Rut
-----------------------------------------------------------------
Föðursystkin mín hafa öll fengið þá ættarfylgju að eldast ekki. Að vísu hefur hár sumra þeirra gránað og á andlit þeirra hafa bæst drættir sem hafa vitnað um reynslu þeirra, áhyggjur, gleði og sorgir, en annað hefur ekki breyst. Þau hafa á einhvern undarlegan og óútskýranlegan hátt fengið eilífa æsku í vöggugjöf, eilífa að því marki að hún hefur enst þeim fram í andlátið. Lárus föðurbróðir minn var alltaf yngstur allra.
Hann tók mig í fangið þegar ég leit inn til hans á 90 ára afmælinu hans sl. ár og það var á engan hátt hægt að merkja að þar færi öldungur; hlátur hans, tillit og lauflétt lund var alls ekki í samræmi við háan aldur. Og hann ræddi hvorki um elli né mæði við okkur þennan dag, heldur um hvað hann hefði lært á langri sjúkrahúslegu þegar hann var kornungur maður, hann hafði lært að lífið er dýrmætt og þess virði að lifa því til fulls.
Ég veit varla hvort fyrstu minningar mínar um Lalla frænda eru frá Siglufirði eða úr Skerjafirðinum enda má það einu gilda.
Lalli og Gauja komu stundum í bæjarferðir
með allan barnaskarann og þá gistu þau gjarnan á Baugsveginum þótt þar væri nú bara stofan til umráða. Ég man hvað mér fannst mikið til um barnafjöldann, 1,
2, 3, 4, 5, 6... tók þessi halarófa engan enda? Minningarnar frá Siglufirði eru með öðru móti og þar ber hæst þau sumur sem ég fékk að fara ein norður og afgreiða
í Aðalbúðinni.
Lárus og hans fólk bjó á efri hæðinni í húsinu sem nú er horfið en stóð við Lækjargötu 6 en amma, afi og föðursystur mínar tvær, Anna og Bryndís, bjuggu á neðri hæðinni. Þá buðu Lalli og Gauja mér í mat eins og fullorðinni manneskju, það var talsverð lífsreynsla. Þar var fallega lagt á borð, fínn matur á borðum og alúð lögð við allt í heimilishaldinu - og samt var ég bara krakki.
Af tíu börnum Lárusar og Gauju voru Steingrímur og Kristín elst og næst mér að aldri og það eru eðlilega þau sem ég man best á bernsku- og unglingsaldri. Myndarleg voru þau, greind og metnaðarfull, og maður var alveg viss um að þau ættu langa og bjarta framtíð fyrir höndum. En á lífsþátt þeirra hafði verið skrifaður annar endir. Þau létust bæði í blóma lífsins og ég hef oft hugsað um það hvernig Lalli og Gauja gátu yfirleitt risið undir þeirri þungu byrði sem á þau var lögð. Það voru bara svo margir sem þurfti að sinna, hin átta börnin þeirra og svo barnabörnin; lífið varð að halda áfram.
Lalli var föðurbróðir minn, um það vitna ættarbækur. En það stendur ekki á neinum bókum að manni eigi að þykja eins vænt um föðurbræður sína og mér þótti um Lalla. Það er og verður óútskýrt og ekki mælt á neinn venjulegan kvarða.
Við Palli sendum Gauju innilegar samúðarkveðjur svo og öllum börnum Lárusar og fjölskyldum þeirra.
Þórunn Blöndal.
----------------------------------------------------------
Látinn er á tíræðisaldri Lárus Þ. J. Blöndal, bóksali í Siglufirði í áratugi. Ævi hans var hetjudáð. Ungur háði hann baráttu við berklana, sem marga lögðu að velli á æsku- og unglingsárum hans. Hann hafði dýrkeyptan sigur. Merki þeirrar baráttu bar hann alla tíð. Hann hafði ekki líkamlega jafnstöðu í lífsbaráttunni við fullfríska menn. En hugur hans var frjór, viljinn sterkur og sjálfsbjargarviðleitnin honum í blóð borin.
Þrátt fyrir allnokkurn heilsubrest vann hann jafnan langan vinnudag. Þau hjón komu tíu börnum til manns og mennta. Það var ekki lítið ævistarf. Tvö þeirra eru látin. Blessuð sé minning þeirra. En átta halda manndómsmerki foreldra sinna hátt á lofti.
Lárus rak um hálfa öld verslun í síldarbænum, Aðalbúðina, sem seldi margs konar vörur, og Bókabúð Lárusar Þ. J. Blöndal. Hann stóð að vísu ekki einn í verslunarvafstrinu. Við hlið hans stóð bróðir hans, Óli. J. Blöndal, síðar bókavörður, og systurnar Anna og Bryndís. Þetta var úrvalslið, viðmótsþýtt og og skemmtilegt.
Siglufjarðararmur Blöndalsættarinnar setti, ásamt öðru listrænt þenkjandi fólki, menningarlegan svip á Siglufjörð í heila öld. Systkinin, frú Sigríður Blöndal, kona séra Bjarna Þorsteinssonar, og Jósep Blöndal, símstöðvarstjóri, faðir Lárusar, vóru ljóðelsk og söngvin, sem og flestir afkomendur þeirra. Siglfirsk menning, ekki síst söngmenntin, varð ríkari vegna þessa fólks.
Siglfirskir sjálfstæðismenn áttu oft leið í Aðalbúðina. Þar var afgreiðsla Morgunblaðsins. Þar vóru óformlegir fundir um málefni líðandi stundar. Þar vóru ráð þegin af þeim bræðrum, Óla og Lárusi, sem tóku virkan þátt í félagsmálum og flokksstarfi. Þeirra framlag á þeim vettvangi verður seint fullþakkað.
Undirritaður kveður Lárus Blöndal með þakklæti fyrir áratuga kynni og vináttu. Megi hann eiga góða heimkomu. Fjölskylda mín sendir aðstandendum hans innilegar samúðarkveðjur.
Stefán Friðbjarnarson.
----------------------------
Siglfirðingur 1972
Lárus Blöndal SEXTUGUR
Allir þeir, sem þekkja til siglfirskrar sögu og þróunar á þessari öld, kunna skil á ættarafninu Blöndal. Ber þar fyrst að nefna systkinin frú Sigríði Blöndal, konu sr. Bjarna Þorsteinssonar, forustumanns um siglfirsk sveitarstjórnarmál í áratugi og heiðursborgara Siglufjarðar, og Jósep Blöndal, sem var póstmeistari og kaupmaður hér í Siglufirði. Þetta kemur mér í hug er góðvinur minn og sonur Jósefs Blöndal, Lárus J. Blöndal, fulltrúi skattstjórans í Norðurlandsumdæmi vestra, varð sextugur 16. júlí 1972.
Enginn Siglfirðingur fyrirfinnst, sem ekki þekkir Lárus Blöndal, og sennilega hefur haft við hann meiri eða minni viðskipti, og sem ekki ber til hans hlýhug og metur að verðleikum. Lárus hefur um langan aldur átt við vanheilsu að stríða, sem vissulega hefur háð honum á marga lund, en aldrei beygt hann eða brotið. Með fádæma viljafestu, dugnaði, meðfæddum og láunnum hæfi leikum, hefur hann, þrátt fyrir vanheilsu, stundað hin margvíslegustu störf, stofnað og rekið eigin fyrirtæki af myndarskap, og komið til manns og mennta stórum barnahópi.
Er mér til efs, þegar öll kurl eru krufin, að -þeir séu fjölmargir sem hafa með starfandi huga og höndum, skrifað á lífsferil sinn raunsannari hetjusögu en hann. . . Þrátt fyrir eril og margan mótbyr er Lárus maður bjartsýnn, skemmtinn og ávallt fús til að rétta öðrum hjálparhönd. Slíkir menn eru góðir samborgarar. Og slíka menn er gott að eiga að vini og ráðgjafa. Það hafa áreiðanlega fleiri fundið en sá, sem þessa stuttu . afmæliskveðju skrifar.
Í þessu blaði er skylt að geta starfa afmælisbarnsins fyrir Sjálfstæðisflokkinn og í þágu þeirra málefna, sem flokkurinn hefur barist fyrir. Þær eru ótaldar stundirnar og ómæld sú fyrirhöfn, sem hann hefur fúslega fórnað þeim málstað, sem hann batt við trú og tryggð, og vissi að þjónaði til vegs og velmegunar í þjóðfélaginu. Siglfirskir sjálfstæðismenn samfagna heilshugar sextugum gæðadreng og þakka honum viðkynningu og vel unnin störf í marga áratugi. Lárus hefur starfað dyggilega í fleiri félagasamtökum hér í bæ og má þar sérstaklega nefna stúku góðtemplara og Lions klúbb Siglufjarðar, en hann var einn af stofnendum klúbbsins.
Lárus Blöndal fæddist 16. júlí 1912. Foreldrar hans voru sæmdarhjónin frú Guðrún Guðmundsdóttir Blöndal og Jósep L. Blöndal. Lárus kvæntist 27. júní
1945 frú Guðrúnu Jóhannesdóttur frá Hrísey og hafa þau hjónin eignast 10 börn. Elsta son sinn, Steingrím, misstu þau uppkominn, þá við viðskiptafræðinám
í Háskóla Íslands, sérstakan hæfnismann, sem öllum Siglfirðingum var harmdauði. Kæri vinur! Ég árna þér gæfu og gengis sextugum. Megi bjartsýni þín,
létt lund og vinátta endast okkur félögum þínum langan aldur enn. Með Lionskveðju.
Stefán Friðbjarnarson.