Guðrún Sigríður Jóhannesdóttir Blöndal

mbl.is 28. júní 2010 | Minningargreinar

Guðrún Sigríður Jóhannesdóttir Blöndal var fædd 21. október 1923 í Hrísey.
Hún lést á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Holtsbúð í Garðabæ 18. júní 2010.

Foreldrar hennar voru Jóhannes Marino Guðmundsson , f. 18.12. 1893, d. 14.12. 1933, og Valgerður Jónsdóttir, f. 23.12. 1884, d. 27.3. 1988. Systkini Guðrúnar eru:

  • 1) Jörundur, f. 5.10. 1919, d. 10.3. 1996.
  • 2) Áslaugur, f. 13.9. 1928.

Hinn 27.7. 1945 giftist Guðrún Lárusi Þ. J. Blöndal, f. 16.7. 1912.
Börn þeirra eru:

1) Steingrímur Blöndal, f. 19.2. 1947, d. 13.6. 1970, kvæntur Ingunni Þóroddsdóttur, f. 11.9. 1949, og áttu þau soninn
  • Steingrím Þórarin Steingrímsson, f. 31.1. 1968.

Guðrún Blöndal

Guðrún Blöndal

2) Kristín Blöndal, f. 31.1. 1948, d. 18.8. 1983, átti hún með Jónasi Gústafssyni, f. 19.6. 1948, soninn
  • Lárus Steingrím, f. 3.6. 1974, sem ólst upp hjá móðurforeldrum sínum. Hann er kvæntur Írisi Magnúsdóttur, f. 5.3. 1973, þau eiga tvær dætur.

3) Jóhannes Valgarð Blöndal, f. 25.8. 1949, kvæntur Maj Britt Pálsdóttur, f. 16.10. 1952, eiga þau þrjár dætur;
  • a) Karlottu, f. 1.11. 1973,
  • b) Eivor Pálu, f. 29.4. 1976, í sambúð með Alexander Peterson, f. 2.7. 1980, þau eiga tvo syni,
  • c) Önnu Kristínu, f. 22.9. 1988.

4) Jósep Blöndal, f. 5.11. 1950, kvæntur Hedvig Krane, f. 9.11. 1954, og eiga þau þrjú börn:
  • a) Erlend, f. 1.10. 1985,
  • b) Lísu, f. 16.3. 1989,
  • c) Nínu, f. 20.1. 1994.

5) Gunnar Blöndal, f. 7.11. 1952, kvæntur Margréti Hólm Magnúsdóttur, f. 12.12. 1956, þau eiga fjögur börn:
  • a) Guðrúnu Kristínu, f. 18.7. 1976, gift Sigurði Sveini Sigurðssyni, f. 24.2. 1976, og eiga þau þrjú börn,
  • b) Önnu Bryndísi, f. 25.10. 1978, hún er gift Haraldi Líndal Péturssyni, f. 13.4. 1978, þau eiga þrjú börn,
  • c) Magnús, f. 14.1. 1989, d) Orri, f. 10.10. 1990.
6) Guðmundur Sigurbjörn Theodór, f. 6.8. 1954, kvæntur Ingu Pálmadóttur, f. 19.7. 1955, d. 8.1. 2005, og eignuðust þau þrjár dætur;
  • a) stúlka, f. 10.5.1986, d. 10.5.1986,
  • b) Hrefnu Fönn, f. 14.10. 1987,
  • c) Hlín, f. 19.3. 1991. Fyrir átti Inga börnin
  • Ingólf og
  • Sunnu.
7) Guðrún Blöndal, f. 28.7. 1956, gift Theodór Gunnari Sigurðssyni, f. 23.11. 1956, og eiga þau þrjú börn:
a) Gunnlaug Kristin, f. 24.8. 1984,
  • b) Þorbjörgu Liesel, f. 30.11. 1987,
  • c) Lárus Heiðar, f. 15.8. 1990.

8) Lárus Rafn Blöndal, f. 5.11. 1961, kvæntur Soffíu Ófeigsdóttur, f. 7.3. 1961, þau eiga þrjár dætur:
a) Ernu Kristínu, f. 29.4. 1984, gift Jens Þórðarsyni, f. 14.2.1982, þau eiga einn son.
  • b) Mörtu Guðrúnu, f. 9.2. 1988,
  • c) Brynju Rut, 10.9. 1994.

9) Anna Bryndís, f. 22.7. 1963.
10) Jón Ásgeir, f. 13.5. 1966, kvæntur Huldu Ólafsdóttur, f. 25.5. 1969, þau eiga þrjú börn:
  • a) Alexander Jósep, f. 11.7. 1996,
  • b) Silju Björk, f. 11.4. 1998,
  • c) Birtu Rós, f. 13.6. 2002. Jón Ásgeir og Hulda slitu samvistum.
    Áður átti Lárus soninn Birgi, f. 15.11. 1944. Hann er kvæntur Áslaugu Steingrímsdóttur, f. 2.6. 1946. Börn þeirra eru:
  • a ) Emil, f. 5.1. 1967, kvæntur Önnu Maríu Guðmundsdóttur, f. 23.6. 1968, og eiga þau tvö börn,
  • b) Anna Sigríður, f. 25.12. 1970, gift Kristni Bjarnasyni, f. 5.8. 1970, þau eiga tvö börn,
  • c) Þröstur, f. 6.11. 1975.

Guðrún stundaði nám við Húsmæðraskólann á Laugalandi í Eyjafirði. Eftir að hún hóf búskap stundaði hún húsmóðurstarfið af mikilli alúð og dugnaði og ól upp 11 börn. Lengst af bjuggu Guðrún og Lárus á Siglufirði en fluttust í Garðabæ 1982 og bjuggu þar alla tíð síðan.

Útför Guðrúnar verður gerð frá Garðakirkju í Garðabæ í dag, 28. júní 2010, og hefst athöfnin kl. 13.

Kveðja til mömmu

  • Ég heiðra mína móður vil
  • af mætti sálar öllum
  • ég lyfti huga ljóssins til
  • frá lífsins boðaföllum.
  • Er lít ég yfir liðna tíð
  • og löngu farna vegi
  • skín endurminning unaðsblíð
  • sem ársól lýsi degi.
  • Að færa slíka fórn sem þú
  • mun flestum ofraun vera,
  • En hjálpin var þín heita trú
  • þær hörmungar að bera.
  • Í hljóði barst þú hverja sorg,
  • sem hlaustu oft að reyna
  • en launin færðu í ljóssins borg
  • og lækning allra meina.
  • Nú er of seint að þakka þér
  • og þungu létta sporin,
  • þú svífur fyrir sjónum mér
  • sem sólargeisli á vorin.
  • Þú barst á örmum börnin þín
  • og baðst þau guð að leiða
  • ég veit þú munir vitja mín
  • og veg minn áfram greiða.

(Eiríkur Einarsson)

Jóhannes, Jósep, Gunnar,

Guðmundur, Guðrún, Lárus, Anna Bryndís og Jón Ásgeir.

Elsku amma mín.

Þegar pabbi sagði mér að þinn tími væri kominn þá hugsaði ég með mér að nú værir þú frjáls. Ég sá anda þinn svífa eins og fuglinn fljúgandi, og sá afa taka á móti þér opnum örmun, glerfínan í jakkafötunum.

Þú hefur alltaf átt sérstakan stað í hjarta mínu, enda ber ég nafnið þitt. Þegar ég var yngri þá var gott sækja ykkur afa heim í Garðabæinn og fá kökur og djús, steikina góðu og sósuna með. Þú alltaf að stússast í eldhúsinu.

Ég hefði viljað kynnast þér betur, og þá sem fullorðin kona. Mér gafst ekki tækifæri til að spyrja þig um þína drauma og þrár, um lífið í Hrísey og á Sigló, um allan þennan krakkaskara. Börnin mín fengu ekki að kynnast þér eins og þú varst, svo umhyggjusöm og hæglát. Þegar við hittumst næst þá ræðum við betur saman. Þangað til bið ég að heilsa afa, hvíldu í friði, amma mín.

Guðrún Kristín.
------------------------------------------

  • Ég sendi þér kæra kveðju
  • nú komin er lífsins nótt,
  • þig umvefji blessun og bænir
  • ég bið að þú sofir rótt.

  • Þó svíði sorg mitt hjarta
  • þá sælt er að vita af því,
  • þú laus ert úr veikinda viðjum
  • þín veröld er björt á ný.

  • Ég þakka þau ár sem ég átti
  • þá auðnu að hafa þig hér,
  • og það er svo margs að minnast
  • svo margt sem um hug minn fer

  • þó þú sért horfinn úr heimi
  • ég hitti þig ekki um hríð,
  • þín minning er ljós sem lifir
  • og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)
(Guðrún Kristín Blöndal.)
-------------------------------------------------

Nú hefur elsku amma okkar, amma Gauja, kvatt þennan heim og er komin á betri stað við hlið afa Lalla. Þrátt fyrir að sjúkdómurinn hafi hægt og bítandi tekið ömmu frá okkur er kveðjustundin runnin upp núna, þegar hún er endanlega farin. Það var alltaf yndislegt að hitta ömmu og finna hlýjuna frá henni; hún var svo ljúf og skipti aldrei skapi. Hún tók öllum hlutum með jafnaðargeði og aldrei heyrði neinn hana blóta.

Við eigum margar ljúfar minningar úr sunnudagskaffinu hjá ömmu og afa í Hlíðarbyggðinni. Amma töfraði fram kræsingar handa stórfjölskyldunni á hverjum sunnudegi alla okkar barnæsku með lítilli fyrirhöfn, að því er virtist. Við systurnar litum líka oft inn til ömmu og afa á leiðinni heim úr skólanum og gátum verið vissar um að fá góðar móttökur, hvenær dagsins sem var. Stundum fengum við sykur í bolla hjá ömmu og sátum svo úti í garði og hámuðum í okkur rabarbara. Amma var alltaf stórglæsileg, vel til höfð og gekk aldrei í buxum, sama hvert tilefnið var.

Jafnvel í berjamó var amma í kjól og tíndi á við fimm manns, það var magnað að fylgjast með afköstunum. Amma og afi voru samrýnd hjón og varla er hægt að minnast annars þeirra án þess að hitt komi við sögu. Þess vegna brosum við út í annað við tilhugsunina um það að þau séu nú sameinuð aftur. Við söknum ömmu mikið og munum alltaf minnast hennar sem þeirrar óeigingjörnu og yndislegu konu sem hún var.

Erna Kristín, Marta Guðrún og Brynja Rut.
----------------------------------------------

3. júlí 2010 |

Guðrún Sigríður Jóhannesdóttir Blöndal var fædd 21. október 1923 í Hrísey. Hún lést á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Holtsbúð í Garðabæ 18. júní 2010.

Útför Guðrúnar var gerð frá Garðakirkju í Garðabæ 28. júní 2010.

Elsku Gauja amma okkar er dáin, 87 ára gömul.

Við héldum fyrir nokkrum árum að hún væri að kveðja en hún tók á sig rögg og ákvað að það væri nú aldeilis ekki málið. Þetta var amma í hnotskurn, nett og smávaxin en ótrúlega harðger og þrautseig kona. Hún var fámál og blíðlynd, kallaði okkur elskuna sína og hló að vitleysunni í börnunum sínum sem þekkt eru fyrir ýmsar brellur.

Amma var meistari heimilisins, stoð þess og stytta, umhyggja og blíða.

Við munum eftir henni sívinnandi í eldhúsinu, berandi fram ótal kökusortir og hún fylgdist grannt með því að allir fengju sér minnst einu sinni af hverri sort. Tekex með smjöri og osti sem búið var að smyrja hliðarnar á, hafrakex, hjónabandssæla, grænkaka, lagkaka, djöflaterta, karamelluterta, formkökur og kleinur.

Ást hennar kom til okkar í formi sætabrauðs. Hvern sunnudag komum við í heimsókn og settumst til hennar í eldhúsið. Á jólunum var svo beðið með eftirvæntingu eftir ömmukossunum, sem engum hefur tekist að baka jafnvel, og ekki má gleyma heimatilbúna ísnum. Við munum sakna hennar og vildum óska þess að hafa fengið fleiri tækifæri til að ræða við hana um horfinn heim, þegar fólk ólst upp í torfbæjum, konur fæddu tíu börn og áttu sitt ríki innan veggja heimilisins. Amma okkar var hlédræg og kímin, með iðnar hendur og hlýjan vanga.

Við minnumst hennar með virðingu og þakklæti.

Karlotta J. Blöndal, Eivor-Pála J. Blöndal og Anna Kristín B. Jóhannesdóttir.