Tengt Siglufirði
mbl.is 28. desember 1991 | Minningargreinar
Jónatan Aðalsteinsson, Vestmannaeyjum Fæddur 19. júlí 1931 fæddur á Siglufirði. Dáinn 4. desember 1991
Ég vil með nokkrum orðum kveðja kæran vin og frænda Jónatan Gísla Aðalsteinsson en hann lést á sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum 4. desember sl.
Jónatan var sonur hjónanna Sigríðar Gísladóttur og Aðalsteins Jónatanssonar sem bæði eru látin, en þau bjuggu í Siglufirði allan sinn búskap.
Börn þeirra hjóna auk
Jónatan ólst upp í Siglufirði. Á þeim árum þegar síldin veiddist fyrir norðan og Siglufjörður var í hugum margra Íslendinga bær tækifæranna og ævintýranna. Að vísu var Jónatan barn og unglingur á þeim árum en hann mundi þó vel þessa tíma.
En síldin hætti að veiðast og þar með misstu menn þann grunn sem afkoma manna og fjölskyldna í Siglufirði byggðist á.
Margir Siglfirðingar urðu því að leita út á land eftir vinnu. Flestir munu hafa farið á Suðvesturlandið í atvinnuleit. Margir
fóru til Suðurnesja, aðrir til Vestmannaeyja.
Þegar Jónatan fór í fyrsta sinn ungur maður í atvinnuleit "suður" lá leiðin til Vestmannaeyja og það varð
hans gæfuspor, þar ílengdist hann, þar kynntist hann Önnu Sigurlásdóttur sem síðar varð kona hans.
Anna og Jónatan eignuðust þrjú börn, þau eru
Á sjöunda áratugnum byggði Jónatan stórt og myndarlegt hús á Brimhólabraut 37 og þar bjuggu þau alla tíð síðan að undanskildum þeim tíma sem fjölskyldan bjó í Kópavogi eftir gosið. En þau voru svo lánsöm að hús þeirra slapp að mestu við skemmdir af völdum gossins.
Sjómennska varð lífsstarf Jónatans. Hann var mjög eftirsóttur vegna dugnaðar og annarra mannkosta, enda hafði hann ekki oft vistaskipti. Hann var nokkur ár starfsmaður Sjóveitu Vestmannaeyja eða þar til rekstri veitunnar var hætt. 1973-1974 eftir Vestmannaeyjagosið starfaði hann hjá Ísal og bjó þá í Kópavogi, en síðustu árin hefur hann verið starfsmaður Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs.
Jónatan vann mikið að félagsmálum sjómanna. Hann var formaður sjómannafélagsins Jötuns í Vestmannaeyjum í mörg ár. Þann tíma var hann einnig í stjórn Sjómannasambands Íslands og fulltrúi þess og síns félags við kjarasamninga til fjölda ára. Í félagsmálum sem annars staðar var hann hinn hægláti umgengnisgóði maður sem vildi öllum vel, lagði aldrei illt til nokkurs manns. Hann vann öll störf sín af ýtrustu trúmennsku. Hann var drengskaparmaður í fyllstu merkingu þess orðs.
Jónatan var stór vexti og samsvaraði sér vel. Hann var rammur að afli, en kunni vel með það að fara. Þá var hann á yngri árum mikill sundmaður svo sögur fóru af, en þær verða ekki sagðar hér.
Jónatan heitinn átti við alvarleg veikindi að stríða um tveggja eða þriggja missera skeið, sem takmörkuðu mjög vinnugetu. Hann var þó við vinnu daginn sem kallið kom, en naut umönnunar á sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum síðustu klukkustundirnar af hérvistar dögum sínum.
Að lokum vil ég þakka Jónatan heitnum samfylgdina. Hann var mér, foreldrum mínum og systkinum ákaflega kær frændi.
Ég vil biðja góðan Guð að milda þann söknuð sem að eiginkonu, börnum og barnabörnum er kveðinn við fráfall þessa ljúfa manns. Guð blessi minningu hans.
Jón Kr. Olsen
-----------------------------------
Jónatan G. Aðalsteinsson Þegar hringt var í mig, og mér sagt að vinur minn Tani hefði látist
þá um daginn, var mér brugðið, þótt mig hefði lengi grunað að sjúkdómur hans væri mun alvarlegri en hann vildi vera láta, Tani var ekki sú manngerð að vola eða kvarta þó hlutirnir gengju ekki sem skyldi.
Nú finnst mér að ég megi ekki láta hjá líða að minnast hans nokkrum orðum, þó fátækleg séu.
Fyrst kynntist ég Tana fyrir um það bil 40 árum, þegar hann kom til eyja frá Siglufirði, en þar var hann fæddur og alinn upp. Tani kom eins og aðrir ungir og hraustir menn til að vinna á vertíð. Kynni okkar urðu nánari þegar hann nokkrum árum seinna réðst til starfa hjá föður mínum í Fiskimjölsverksmiðjunni í Vestmannaeyjum hf., og eftir að undirritaður fluttist frá Eyjum héldum við alltaf góðu sambandi.
Eftir Vestmannaeyjagosið fluttist Tani með fjölskylduna í Kópavoginn og hóf störf hjá álverksmiðjunni, þar sem leiðir okkar lágu aftur saman um tíma, og eins og endranær kom hann sér mjög vel sem starfsmaður álverksmiðjunnar og var eftirsjá að honum þaðan.
Svo fór að heimþráin tók völdin og flutti fjölskyldan aftur til eyja. Lengst af stundaði Tani sjóinn og var árum saman með þeim þekkta aflamanni Helga Bergsveinssyni og síðar mörg ár á Herjólfi, þar til að hann þurfti að fara í land vegna veikinda sinna fyrir u.þ.b. ári.
Ekki má gleyma því, að árum saman var Tani einn aðalsamningamaður sjómanna í Eyjum, og hefi ég það fyrir satt að þegar hann var sestur við samningaborðið máttu hinir fara að passa sig.
Tani var fluggáfaður og vel lesinn. Hann þekkti skáldin okkar eins og fingurna á sér, og einhvern veginn fannst mér alltaf að hann hefði átt að ganga menntaveginn, en ástæður þess að svo varð ekki þekki ég ekki, en eitt er víst að hann hefði orðið góður fræðimaður. Tani átti auðvelt að koma auga á spaugilegar hliðar mála, og var einkar þægilegur og skemmtilegur í góðra vina hópi.
Frá því Tani starfaði hjá föður mínum í fiskimjölsverksmiðjunni í gamla daga reyndist hann fjölskyldu minni sannur vinur og málsvari, og er mér minnisstætt hve föður mínum þótti vænt um Tana og hafði mikið álit á honum.
Tani hafði ekki verið lengi í Eyjum þegar hann féll fyrir einni gullfallegri Eyjadömunni, Önnu Sigurlásdóttur, og þau komu sér upp myndarlegu heimili og eignuðust 3 mannvænleg börn, og ekki hitti ég svo Tana að hann minntist ekki á eitthvert þeirra, og þá var það alltaf eitthvað gott og jákvætt.
Anna mín, ég og fjölskylda mín samhryggjast þér og börnum ykkar innilega, einnig sendi ég öðrum ættingjum Tana samúðarkveðjur.
Fúddi