Jónas G Halldórsson rakari

2. júní 1995 | Minningargreinar 

Jónas Halldórsson. f. 9. janúar 1910 - Dáinni 26. maí 1995

Tengdafaðir minn Jónas Halldórsson er fallinn frá. 
Við fráfall hans er mér efst í huga þakklæti fyrir áratugalanga vináttu hans. Ég kynntist honum fyrir rúmum 40 árum er ég átti því láni að fagna að kvænast elstu dóttur hans, Hermínu. Hann sýndi mér strax traust sem ég mat mikils og gaf mér vináttu sína, sem aldrei bar skugga á og aldrei verður fullþökkuð.

Jónas rakari, eins og hann var jafnan nefndur, nam iðn sína ungur og setti upp sína fyrstu rakarastofu á Ísafirði, þar sem hann kynntist eiginkonu sinni, Kristínu Steingrímsdóttur. Árið 1940 fluttust þau til Siglufjarðar og bjuggu þar í tæp 40 ár. Þar rak Jónas eigin rakarastofu allt til ársins 1979, er þau fluttust til Stokkseyrar. Þar bjuggu þau í nálægð barna sinna í 6 ár eða þar til Kristín lést árið 1985.

Eftir lát hennar bjó hann fyrst hjá Guðnýju dóttur sinni og tengdasyni en síðustu árin bjó hann að Hrafnistu í Reykjavík þar sem hann naut einstakrar umhyggju.

Á Siglufirði lifðu þau mikla uppgangstíma síldaráranna og var þá ekki spurt hvaða tími sólarhringsins var þegar vinnan kallaði. Þar ólu þau upp börnin sín og var oft mikið um að vera, gestkvæmt og glatt á hjalla á heimili þeirra á Kirkjustíg 9. Seinna nutu börnin okkar sumarheimsókna til afa og ömmu, sem beðið var með eftirvæntingu allan veturinn, enda var umhyggja þeirra fyrir barnabörnunum einstök.

Jónas var af þeirri kynslóð sem háði harða lífsbaráttu á fyrri hluta aldarinnar. Efalaust hefur sú reynsla mótað lífsskoðanir hans, en þær einkenndust einkum af sterkri réttlætiskennd og samúð ásamt umhyggju fyrir öðrum. Margir sem áttu um sárt að binda nutu þessara mannkosta hans sem og örlætis sem honum var í blóð borið, þótt aldrei heyrðist hann hafa orð á slíkum verkum sjálfur. Jónas var mikill tónlistarunnandi og flestum betur heima í bókmenntum. Miðlaði hann þeirri þekkingu sinni af óeigingirni og glæddi áhuga hjá börnum sínum og barnabörnum.

Hans er nú sárt saknað af okkur sem eftir stöndum. Í fyrirrúmi er þó þakklæti fyrir að hafa átt slíkan öndvegismann að.

Guð blessi minningu hans.

Karl Lilliendahl.
------------------------------------------------- 

Jónas Halldórsson rakari.  -- Ljósmynd Kristfinnur

Jónas Halldórsson rakari. -- Ljósmynd Kristfinnur

2. júní 1995 

Jónas G. Halldórsson Kveðja frá barnabörnum

Afi okkar Jónas Halldórsson hefur kvatt okkur. Það gerði hann á sinn hógværa og hljóða hátt á fallegum vordegi þegar veðrið var líkt því sem það gerist best heima á Siglufirði. Þar gerðust ævintýr bernsku okkar. Ef til vill ekki svo stórkostleg í augum ókunnugra en okkur voru þau verðmæti sem endast munu allt lífið.

Miðpunktur ævintýranna var húsið á Kirkjustíg 9, stóra fallega húsið afa og ömmu sem stóð svo virðulega uppi á brekku fyrir neðan kirkjugarðinn. Við áttum margar stundir þar í eldhúsinu hjá ömmu og þá gjarnan á spjalli við afa sem hafði ódrepandi áhuga á að tala við okkur þrátt fyrir ungan aldur okkar og takmarkað vit.

Sjálfur var hann víðlesinn og fróður ásamt því að vera mikill unnandi ljóða og tónlistar. Við fórum ekki varhluta af því. Spjall við afa varð oft að kennslustund. Þannig fengum við okkar fyrstu kynni af ljóðum Einars Benediktssonar og sönglögum Inga T. Lárussonar svo eitthvað sé nefnt.

Við vöndum komur okkar í afahús á sumrin allt fram á fullorðinsár eða þar til hann og amma ákváðu að flytja suður, þangað sem öll börn þeirra og barnabörn bjuggu. Fyrst fluttu þau á Stokkseyri og voru þar í nokkur ár en eftir að amma dó flutti afi hingað til Reykjavíkur. Hann bjó á heimili dóttur sinnar Guðnýjar þar til hann flutti á Hrafnistu þar sem hann dvaldi til síðasta dags.

Við finnum oft til þess að eiga engan lengur heim að sækja á Siglufirði. Afahús er nú í eigu annarra. En það er með þakklæti sem við hugsum til þess að hafa fengið að hafa hann hér fyrir sunnan þessi síðustu ár. Ekki síst vegna þess að börnin okkar hafa með því fengið að kynnast honum.

Áhugi afa á okkur barnabörnum hans var ósvikinn. Hann spurði okkur ætíð hvert um annað og lét sér annt um hvað við tókum okkur fyrir hendur hvert og eitt. Hann vildi minna tala um sjálfan sig. Vafalaust hefur okkur stundum sést yfir hvernig honum leið í seinni tíð, sökum lítillætis hans. Árin hans afa voru orðin áttatíu og fimm.

Við vitum að á þeim tíma hefur hann oftsinnis þurft að takast á við erfiðleika og sorgir sem m.a. fylgja því að missa ástvini sína. En um allt slíkt var hann jafnan hljóður. E.t.v. hefur það verið hluti af því ríkjandi viðhorfi hans að vilja ekki vera neinum byrði. Sjálfur bar hann glaður með okkur ef með þurfti. Elsku afi okkar. Með sárum söknuði kveðjum við þig að sinni. Með þakklæti minnumst við þín og með gleði njótum við alls þess sem þú kenndir okkur:

  • "Í kyrrð var stríð þitt háð og fall þitt hljótt
  • þú hetja í krossför lýðsins; sofðu rótt!"

(Einar Benediktsson)

Stína, Hulda og Teddi.