Tengt Siglufirði
mbl.is 1. júní 1996 | Minningargreinar
Ólöf Kristinsdóttir var fædd á Siglufirði 24. september 1902. Hún lést á Sjúkrahúsi Siglufjarðar 24. maí síðastliðinn.
Foreldrar hennar voru hjónin Marsibil Ólafsdóttir og Kristinn Þorláksson.
Hálfbróðir hennar, sammæðra, var
Ólöf Kristinsdóttir giftist: Gísli Jónsson, hinn 9. maí 1927. Hann lést 13. október 1974.
Þau eignuðust eina dóttur 1928, sem skírð var Anna Bára, en lést fárra daga gömul.
Þau ættleiddu síðan þriggja mánaða gamlan dreng,
Útför Ólafar Önnu fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag og hefst athöfnin kl. 14.
------------------------------------------------------------------------
Ólöf Kristinsdóttir
Okkur er öllum úthlutaður tími í þessu jarðlífi, mislangur þó. Sumir fá aðeins að lifa morgun lífsins, en aðrir lifa að sjá
Ólöf Kristinsdóttir Okkur er öllum úthlutaður tími í þessu jarðlífi, mislangur þó. Sumir fá aðeins að lifa morgun lífsins, en
aðrir lifa að sjá kvöldsólina og jafnvel fram í myrkur.
Þannig var það með þessa kæru frænku mína, sem nú hverfur úr þessari jarðvist. Hún
náði öllum deginum, alveg fram í myrkur - já, hún náði næstum í heila öld. Og þó síðustu árin væru erfið og oft mikið myrkur á köflum,
þá var birtutíminn miklu lengri og í minningu minni var alltaf bjart í kringum Ólu frænku.
Ótal minningar hrannast upp frá æsku minni og unglingsárum á Siglufirði,
sem tengjast þessari mætu konu. Hún var talsvert eldri en foreldrar mínir og var mér eins og kær amma. Ég gat alltaf leitað til hennar og gerði oft. Hún og Gísli, maður hennar, fóstruðu
mig ef mamma þurfti að fara bæjarleið. Þá fékk ég að sofa á dívan í fallega svefnherberginu þeirra og bursta á mér hárið með silfurburstanum hennar frænku
minnar fyrir framan stóra spegil snyrtiborðið hennar. Heimili þeirra var ákaflega fallegt og snyrtilegt. Þau áttu svo marga fallega hluti sem gaman var að skoða og snerta.
Fastir liðir í
tilverunni á æskuárum mínum voru oftar en ekki tengdir Ólu frænku. Þá er tími jólanna sá eftirminnilegasti, þegar foreldrar mínir og við systkinin, ásamt fleiri
ættingjum voru við laufabrauðsgerð í litla eldhúsinu hennar Ólu, og síðan jólaboðin og síðast en ekki síst gamlárskvöld.
Þá beið maður eftir því allt kvöldið að lagt yrði af stað til Ólu frænku og Gísla, og skömmu fyrir miðnætti var lagt í hann með fáeina flugelda og stjörnuljós í poka og dvalist við leik og söng langt fram á nótt í félagsskap fjölda ættingja og vina, því það var alltaf mannmargt í litla húsinu á nýársnótt.
Við
krakkarnir fengum að vaka jafnlengi og fullorðna fólkið og höfðum oft ofan af fyrir okkur með því að skiptast á að róla okkur í dálítilli rólu sem Gísli hafði
komið upp í kjallaranum. Og það veit ég að öll þau börn sem komu á þetta notalega heimili, muna hvað best eftir rólunni í kjallaranum, því svoleiðis var nú
ekki á hverju heimili.
Óla frænka mín var í senn mjög ákveðin og hlý manneskja, hún átti það til að skamma okkur krakkana rækilega og láta okkur
hlýða, en vera samt góð við okkur um leið. Við bárum mikla virðingu fyrir henni og það hefði aldrei hvarflað að okkur að andmæla henni. Hún var stór og myndarleg kona
með sítt grásprengt dökkt hár sem hún fléttaði alltaf í tvær fléttur og vafði um höfuð sér. Ég hafði sítt hár á þessum árum
og markmiðið var þá að ná sömu hársídd og Óla frænka svo ég gæti líka vafið því um höfuðið eins og hún. En bæði skortur á
þolinmæði og tískustraumar komu í veg fyrir það.
Þegar ég nú sit og skrifa hjá mér þessi minningabrot og hugsa til baka til ljúfra og áhyggjulausra æskuára
þá er mér þakklæti efst í huga, þakklæti til þessarar góðu frænku minnar fyrir allar þær góðu minningar sem hún gaf mér og fyrir að vera sú
sem hún var, sterk og raungóð. Hún var mér og fjölskyldu minni mikill styrkur er faðir minn lést langt um aldur fram fyrir meira en tuttugu árum síðan. Fyrir það vil ég þakka
henni alveg sérstaklega, þá var gott að eiga hana að.
Já, það er svo ótal margt sem ég gæti rifjað upp frá þessum gömlu góðu árum, en læt
hér staðar numið.
Kæra frænka mín, nú ert þú komin á grænar grundir, létt á fæti og leiðir Gísla þinn við hönd. Nú veit ég
að það er aftur bjart í kringum þig og þér líður vel. Þakka þér fyrir allar ógleymanlegu stundirnar sem þú gafst mér.
Og til ykkar, kæru frænkur
og frændur, Kata, Palli, Ólöf, Guðmundur, Jóhanna og Ágústa, sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur og einnig til allra annarra ættingja og vina. Blessuð veri minning Ólu
frænku.
Helga Ottósdóttir.