Ægir Kristjánsson rakari

mbl.is 19. júní 1974

Ægir Kristjánsson rakari — Minning.  Fæddur 10. júlí 1926 Dáinn 10. júní 1974.

Með þessum fátæklegu línum langar mig til að þakka mági mínum Ægi Kristjánssyni rakara fyrir allt og allt, hve hlýr og góður hann ætíð var mér og börnum mínum, ekki síst, er ég kom í fyrsta skipti á heimili hans og eiginkonu hans Ágústu Engilbertsdóttur.

Þá áttu þau heima á Siglufirði, en þar dvaldi ég um sumartíma ásamt einu barna minna eftir að hafa hlotið alvarlegt skipbrot. Systir mín og mágur tóku mér þá opnum örmum og vildu allt fyrir mig gera. Fyrir það og allt annað gott vil ég nú biðja góðan Guð að launa honum. Ægir átti alla tíð einstaka hjartagæsku til að bera og lét ætið þá njóta hennar, sem halloka fóru í lífsbaráttunni. —

Ægir Kristjánsson - ljósmynd Kristfinnur

Ægir Kristjánsson - ljósmynd Kristfinnur

Þannig reyndist hann systrum sinum, einkum þeim, er áttu við veikindi að stríða. Veit ég, að þeir nánir ástvinir hans, sem á undan eru farnir, systir hans og dóttir, sem þau Ægir og Ágústa misstu fyrir mörgum árum, svo og bróðir hafa tekið á móti honum, umvafið hann ást sinni og leitt hann um ljóssins heima.. Sjúkdómslega Ægis var honum þungbær, en aldrei heyrðist frá honum æðruorð. Systir mín og börn hennar hafa misst mikið, því að Ægir var góður og ástríkur heimilisfaðir. —

Það er sárt að sjá á bak ástvini og varla nokkur orð, sem huggað geta í svo mikilli sorg. Ég finn sárt til með aldraðri móður hans, Guðrúnu Sigurðardóttur á Siglufirði, sem nú kveður þriðja barn sitt, en nú eru aðeins fáar vikur liðnar síðan hún sá á bak eiginmanni sínum Kristjáni Ásgrímssyni skipstjóra. Ég treysti og trúi því einlæglega, að Guð huggi og styrki alla ástvini Ægis og þerri tár þeirra. Drottinn gefi dánum ró, hinum líkn sem lifa. Mágkona. Ægir Kristjánsson hóf nám f hárskeraiðn 1944 hjá Jónasi Halldórssyni, hárskerameistara á Siglufirði og lauk því árið 1948. Að námi loknu fór hann til Kaupmannahafnar til að kynnast því nýjasta í fagi sínu, og vann þar 5—6 mánuði.

Eftir heimkomuna kvæntist Ægir heitkonu sinni Ástu Engilbertsdóttur, ættaðri frá Vestmannaeyjum. Var hún honum góður lífsförunautur í blíðu og stríðu og skapaði honum og börnum þeirra gott heimili.

Síðustu 5 mánuðina var Ægir á sjúkrahúsi og barðist við þann sjúkdóm sem varð honum að aldurtitla fyrir aldur fram. Eftir komu sína frá Kaupmannahöfn rak Ægir eigin rakarastofu á Siglufirði með miklum sóma, enda mjög fær í sinni iðn. Árið 1969 flutti Ægir með fjölskyldu sina til Keflavíkur og rak þar rakarastofu meðan heilsan leyfði. Ég hafði gegnum árin samband við Ægi sem meðlim í fagfélagi okkar.

Fyrir þrem árum kom Ægir til mín og bað mig að taka son sinn Ólaf sem nemanda. Hafði Ólafur þá lokið prófi í Iðnskólanum á Siglufirði og starfað hjá föður sínum í hálft ár. Ég var fljótur að taka ákvörðun, því ég vissi að „sjaldan fellur eplið langt frá eikinni", enda kom það fljótt í ljós, að Ólafur varð mjög fljótur að ná góðum árangri i faginu og lauk sveinsprófi s.l. haust með ágætum.

Meðan Ólafur vann hjá mér hafði ég oft samband við Ægi, við þau kynni fann ég hve mikinn áhuga hann hafði fyrir giftu og gæf u barna sinna. Það er vani okkar Íslendinga að spyrja um ætt og uppruna.
Foreldrar Ægis eru Guðrún Sigurðardóttir, ættuð frá Ólafsfirði og Kristján Ásgrímsson, skipstjóri, nýlátinn. Þau hjónin voru eftir því sem ég hefi heyrt eftir samborgurum þeirra, virtir og vel látnir Siglfirðingar.

Ég sem þessar línur rita hefi orðið fyrir þeirri lífsreynslu að missa maka minn, því get ég frú Ásta skilið betur þinn missi, barna ykkar og aldraðrar móður, en bænir þær sem okkur voru innrættar í æsku munu reynast þér eins og mér styrkur. Eins er ómetanlegt að eiga góð börn, tengdabörn og barnabörn, samvistir við þau munu gefa þér trú á lífið í framtíðinni.

Börn þeirra Ástu og Ægis sem á lífi eru, eru

  • Ólafur trúlofaður Klöru Karlsdóttur, flugfreyju,
  • Íris gift Haraldi Kornelíussyni, gullsmið,
  • Bára 12 ára og
  • Alda 10 ára.

Að leiðarlokum vil ég og fjölskylda mín senda ykkur samúðarkveðjur I von um að Jónsmessan, hátíð sumars og sólar sem nú nálgast, verði ykkur leiðarljós í framtíðinni, eftir þá erfiðu mánuði sem nú eru að baki. Jarðarför Ægis verður gerð frá Fossvogskapellu kl. 10.30 í dag. Páll Sigurðsson.
-----------------------------------

Tilvitnun: Faxi - 1972  

........ Hársnyrting fer í vöxt Að vanda var mikið að starfa hjá hárskerum fyrir jólin, að því er Ægir Kristjánsson, hárskeri sagði okkur, þetta er ósköp eðlilegt, allir vilja láta snyrta hár sitt fyrir jólahátíðina. Aðspurður um það hvort unglingarnir væru farnir að láta snyrta hár sitt meira en tíðkast hefur undanfarin ár, sagði hann að það hefði heldur farið í vöxt. Sítt hár þyrfti frekar hirðingar við en stutt.

Unglingunum og reyndar þeim eldri líka, sem eru farnir að safna hári, að hægt væri að láta klippa hárið og laga, án þess að stytta það.

Að lokum sagðist Ægir vonast til að ungir sem gamlir gleymdu því ekki hve fallegt hár hefur mikið að segja fyrir útlitið.
--------------------------------------------------
Viðauki sk: 2022

Ægir Kristjánsson rakari, f. 10. Júlí 1926
Maki: Ágústa Margrét Engilbertsdóttir f. 24. september 1929

Börn þeirra:
1. Ólafur Ægisson, f. 22. desember 1950 á Siglufirði. Kona hans Sigríður Einarsdóttir.
2. Stúlka, f. 9. ágúst 1952, d. 20. nóvember 1952.
3. Íris Ægisdóttir, f. 21. nóvember 1953 á Siglufirði. Maður hennar Haraldur Kornelíusson.
4. Bára Ægisdóttir, f. 24. september 1961 á Siglufirði. Maður hennar Snorri Gissurarson.
5. Alda Ægisdóttir, f. 18. ágúst 1963 á Siglufirði. Maður hennar Hans Helgi Stefánsson, látinn.