Friðrika Ólína Ólafsdóttir

Neisti - 2. tölublað (16.05.1966)

Ólína Ólafsdóttir var fædd 16. apríl 1886, á Reykjum í Ólafsfirði. Foreldrar hennar voru Ólöf Eiríksdóttir og Ólafur Guðmundsson, sem þá bjuggu þar. Hún var yngst 12 systkina og átti auk þess eina fósturdóttur.

Hún ólst upp með foreldrum sínum og fluttist með þeim í Neðri-Skútu í Siglufirði, er hún var 10 ára. Stuttu seinna missti hún móður sína og fluttist hún þá stuttu síðar með föður sínum að Efri-Skútu, er hann gerðist ráðsmaður þar. 22 ára gömul sigldi hún til Noregs með vinkonu sinni, Steinþóru Barðadóttur og dvaldist þar vetrarlangt.

Ferð þessi og dvölin í Noregi var henni minnisstæð um alla ævi.

Þann 23. september 1911 giftist hún Jóakim Meyvantssyni. Þau hjónin eignuðust átta börn, tvö þeirra dóu í æsku. Börn þeirra eru harðduglegt fólk og velmetnir borgarar.

Ólína Ólafsdóttir

Ólína Ólafsdóttir

Jóakim Meyvantsson lést 17. sept. 1945. Ólína bjó manni sínum og börnum fallegt og gott heimili, enda var myndarskap hennar og snyrtimennsku viðbrugðið. Þau hjónin voru gestrisin með afbrigðum, og stór var þeirra vina- og kunningjahópur.

Í mars 1955 varð Ólína að fara á sjúkrahúsið og dvaldist þar til dauðadags. Haust1957 dvaldist ég á sjúkrahúsinu um hálfs mánaðar skeið. Ég kom þá oft inn á sjúkrastofu Ólínu, og þá kynntist ég henni á þann hátt, sem ég mun aldrei gleyma. Það var ætíð bjart og hlýtt yfir henni og góðmennskan geislaði frá henni.

Hún átti alitaf þægilegt með að koma fólki í gott skap og orðheppin var hún mjög. Það má með sanni segja, að Ólína hafi verið alveg sérstæð kona, hennar var ástúð og kærleikurinn til allra. Það er því auðskilið að söknuður barna hennar og annarra ástvina hennar er mikill, en þeirra söknuður, yfir ástvinarmissinum, er einnig söknuður allra þeirra mörgu er hin látna miðlað' af ástúð sinni og kærleika.

Guð blessi minningu Ólínu Ólafsdóttur.

Jóhann G. Möller.

Jóakim Meyvantsson og Ólína Friðrika Ólafsdóttir

Jóakim Meyvantsson og Ólína Friðrika Ólafsdóttir