Ástrún Jóhannsdóttir

15. september 2020 | Minningargreinar | 2301 orð | 1 mynd

Ástrún Jóhannsdóttir fæddist á Þrasastöðum í Fljótum 2. apríl 1925. Hún lést á Dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri 4. september 2020.

Foreldrar hennar voru Jóhann Guðmundsson, bóndi á Þrasastöðum, og kona hans Sigríður Gísladóttir sem fædd var og uppalin á Ljótsstöðum í Skagafirði.

Systkini Ástrúnar voru

 • Gyða Jóhannsdóttir,
 • Margrét Jóhannsdóttir,
 • Gísli Jóhannsson og
 • Einar Jóhannsson, sem öll eru látin.
Ástrún Jóhannsdóttir

Ástrún Jóhannsdóttir

Ástrún giftist 1947 Birni J. Friðbjörnssyni, skipstjóra og fiskmatsmanni, sem fæddur var í Hrísey 9.4. 1922, d. 7.2. 2007.

Ástrún og Björn Friðbjarnarson bjuggu lengst af á Siglufirði.
Þar fæddust og ólust upp synir þeirra þrír:

Friðbjörn Björnsson, kvæntur Kristínu Guðbrandsdóttur,
börn þeirra eru
 • Björn Jörundur Friðbjörnsson,
 • Anna Júlía Friðbjörnsdóttir og
 • Ástrún Friðbjörnsdóttir.
Ingi Björnsson, kvæntur Margréti Baldvinsdóttur,
börn þeirra eru
 • Ásta Björg Ingadóttir,
 • Þorsteinn Ingason og
 • Björn Ingason.

Ásbjörn Björnsson, kvæntur Hlíf Hansen,
b
örn þeirra eru
 • Valdemar Ásvjörnsson og
 • Katrín Ásbjörnsdóttir.

Ömmu- og langömmubörn eru orðin 19 að tölu.

Ástrún flutti með foreldrum sínum úr Fljótum til Siglufjarðar árið 1935. Hún nam við Húsmæðraskólann á Ísafirði og Tegne- og kunstindustriskolen í Kaupmannahöfn. Ástrún tók stúdentspróf frá öldungadeild Menntaskólans á Akureyri á efri árum, komin fast að sjötugu. Ástrún starfaði við ýmis skrifstofustörf á Siglufirði, m.a. rak hún um tíma Þormóð Eyjólfsson hf. sem hafði umboð fyrir Sjóvá tryggingafélag Íslands og Eimskipafélag Íslands. Eftir að hún flutti til Akureyrar, þar sem hún bjó síðustu árin, vann hún við verslunarstörf.

Síðustu átta árin dvaldist Ástrún á Dvalarheimilinu Hlíð.

Útför Ástrúnar fer fram í Höfðakapellu 15. september klukkan 13.30. Vegna aðstæðna geta aðeins nánustu aðstandendur og vinir verið viðstaddir útförina.

Ástrún mín elskulega tengdamamma, er látin 95 ára að aldri. Ég er svo lánsöm að hafa átt hana að í yfir 45 ár. Hún tók vel á móti mér þegar ég aðeins 17 ára kom á Siglufjörð með Inga syni hennar. Ástrún var glæsileg kona, dökk yfirlitum og ætíð vel tilhöfð.

Fljótin voru Ástrúnu hugleikin. Þar ólst hún upp fram að 10 ára aldri. Hún sagði okkur oft frá því að veturnir þar gátu verið erfiðir, mikill snjór og oft kalt. Hún þurfti að sækja skóla langa leið, fór á tunnufjölum sem faðir hennar hafði smíðað og oft komst hún ekki alla leið heim og þurfti þá að þiggja gistingu á einhverjum sveitabænum. Á heimili hennar Þrasastöðum var símstöð fyrir sveitina og voru þær systur iðulega sendar til að sækja þá sem hringt var eftir. Oft sóttist þeim ferðin seint. Ástrún bjó yfir áræði og þrautseigju og hefur nú sennilega fengið það úr uppvextinum í Fljótunum.

Þegar hún flutti til Siglufjarðar fóru hún og faðir hennar á hesti yfir Siglufjarðarskarð, aðrir fjölskyldumeðlimir sigldu frá Haganesvík. Þetta hefur verið löng leið fyrir litla stelpu en hún og faðir hennar tóku eina kú með sér. Þegar hún loksins kom á Siglufjörð þá sá hún bíl í fyrsta skipti og fannst eins og hann öskraði á sig. Á Siglufirði bjó hún í 50 ár og talaði alltaf fallega um fjörðinn og lognið sem þar var.

Eftir að Ástrún og eiginmaður hennar Björn fluttu til Akureyrar settist hún á skólabekk og útskrifaðist úr öldungadeild MA. Hún hafði alltaf mikla löngun til að læra og loks hafði hún tækifæri til þess. Tímar í öldungadeildinni voru á kvöldin og hentaði það Ástrúnu ekki alltaf. Hún á sjötugsaldri sótti þá tíma í dagskólanum. Hún gerði verkefni með unga fólkinu og eignaðist þar góða vini. Ég dáðist að áræði hennar, hún gat jú verið amma allra þarna.

Ástrún vann úti mestan hluta ævi sinnar og rak meðal annars ein stærstu umboðin á Siglufirði, Sjóvá og Eimskip. Það hefur örugglega þótt sérstakt á þessum tíma að kvenmaður væri þar í forsvari. Hún hefði getað talað um sig sem brautryðjanda fyrir aðrar konur en það gerði hún ekki, hún var of hæversk til þess.

Síðustu æviár sín dvaldi Ástrún á Dvalarheimilinu Hlíð og naut þar góðrar aðhlynningar. Starfsfólki Furuhlíðar eru færðar bestu þakkir.

Ég er ævinlega þakklát fyrir að hafa átt Ástrúnu að tengdamóður og vini og fyrir þá ástúð sem hún sýndi mér og börnunum mínum. Henni var umhugað um velferð okkar, var ætíð til staðar og hjálpar án stjórnsemi eða ýtni.

Ég kveð hana með virðingu og þakklæti.

Margrét Baldvinsdóttir.
------------------------------------------------

Elskuleg tengdamóðir mín er látin, sátt við Guð og menn. Ástrún var greind, samviskusöm, réttsýn og heiðarleg manneskja. Auk mannkosta hennar var hún mjög falleg kona, dökk á brún og brá. Hún var afskaplega fróðleiksfús og þráði að menntast. Á sjötugasta aldursári lauk hún stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri (öldungadeild).

Það sem var henni efst í huga var sveitin hennar, Fljótin. Hún gat endalaust rifjað upp minningar og sögur frá árunum í sveitinni. Og veit ég að henni var það þungbært að skilja við sveitina og flytjast til Siglufjarðar, þó svo að lífið væri erfitt þar og lífsbaráttan hörð. Faðir hennar, Jóhann Guðmundsson, tók við Þrasastöðum af föður sínum.

Voru þeir tveir af bræðrunum búandi í Stíflunni, Jóhann á Þrasastöðum og Þorvaldur á Deplum. Viss er ég um að ef þeir bræðurnir sæju umbyltinguna þar, tryðu þeir ekki sínum eigin augum né eyrum. Þegar flutt var úr sveitinni þurfti Ástrún að ganga alla leið frá Þrasastöðum, með föður sínum til Siglufjarðar, yfir Skarðið (sem var þá bara götuslóði og mjög hættulegur fjallvegur) með kú í taumi. Trúi ég að tíu ára barn hafi verið orðið þreytt eftir það ferðalag.

Á langri ævi er óhjákvæmilegt að skiptist á skin og skúrir. Líklega hefur ótímabær dauði bræðra hennar verið henni hvað þungbærastur. Þeir létust með tíu ára millibili, báðir þrjátíu og fimm ára gamlir.

Ástrún reyndist mér alltaf vel og bar aldrei skugga á okkar vináttu. Barnabörnunum var hún góð og fóru þau oft til afa og ömmu á Sigló. Þá naut afa Björns við. Hann var gull af manni. Hann missti hún fyrir þrettán árum. Það þarf engin orð um hversu sárt var að missa hann. Eins var það þegar hún missti systur sínar. Þær voru mjög nánar og töluðust við á hverjum degi. Hún sagði stundum að hún skildi ekkert í því, eins og tæknin væri orðin í dag að ekki væri hægt að hringja til himna, það væru svo margir sem hún þyrfti að tala við!

Ég kveð Ástrúnu með virðingu og þökk. Tel ég mig heppna að hafa fengið að ganga með henni í lífinu, meira en fimmtíu ár.

Megi hún vera vel af Guði geymd og eiga góða heimkomu til allra sinna sem eru horfnir yfir móðuna miklu.

Kristín Guðbrandsdóttir.
-------------------------------------------------

Elskuleg amma mín Ástrún Jóhannsdóttir hefur nú kvatt í hinsta sinn.

Frá því að ég man fyrst eftir ömmu talaði hún um að við værum vinkonur. Loksins var komin stúlka í fjölskylduna og kærkominn bandamaður í lið gegn strákagerinu. Ég sé hana ljóslifandi fyrir mér brosa sínu sposka brosi og hrista höfuðið yfir stríðni og athugasemdum strákanna, taka öllu með jafnaðargeði og taka jafnvel undir grínið en leitaði svo eftir stuðningi hjá „vinkonu“ sinni. Hún ljómaði öll þegar við tvær vorum saman, spjölluðum, fórum saman í búðir og þegar hún sýndi stelpuna sína út um allan bæ.

Það fjölgaði svo í bandalaginu og við urðum fjórar ömmustelpurnar og átta barnabörnin alls. Ég held að barnabörnin hafi verið aðaláhugamál ömmu fyrir utan bóklestur og bridge. Hún fylgdist vel með okkur öllum og var svo óendanlega stolt af afkomendunum. Meira að segja undir það síðasta, þegar minnið var aðeins farið að bregðast henni, gat hún ennþá sagt manni nýjustu fréttir af frændsystkinunum, hver væri kominn í nýja vinnu eða hefði verið að trúlofa sig.

Þessi mikli áhugi og fjarlægðin við áhugamálið framkallaði spurningaflóð, oftast símleiðis, og gat verið ansi strembið að sitja fyrir svörum. Ég held að á gelgjuskeiðinu hafi ég til að mynda ekki haft þolinmæði fyrir þessum yfirheyrslum og ekki skilið hversu mikilvægt upplýsingahlutverk mitt var. Síðar meir, aðeins þroskaðri, gat ég betur notið samtalanna við ömmu.

Við hringdumst á, hún duglegri að hringja en ég og lét það ekki stoppa sig þótt hún þyrfti að hringja til útlanda. Mikið sem það hefði verið gaman ef tækninnar sem nú er til hefði notið við þá – við hefðum tekið Zoom-fundi! Af og til skrifuðum við bréf og kort og oftar en ekki bárust aurar með bréfunum til Englands, sem alltaf skiluðu sér enda seðlarnir vandlega pakkaðir í kalkipappír. Ef amma var búin að ákveða eitthvað var það framkvæmt vel og vandlega.

Alla tíð vildi amma ræða um bækur og bókmenntir og var mikil fyrirmynd og hvatning í þeim efnum. Við vorum á sama tíma í menntaskóla þegar hún tók upp á því að fara í kúrsa við Menntaskólann á Akureyri og útskrifuðumst sem stúdentar um svipað leyti, ég tvítug, hún nærri sjötugu. Henni fannst svo gaman í skólanum og var þakklát fyrir það tækifæri. Samnemendur hennar tóku henni líka vel, hafa örugglega haft gaman af henni og buðu henni stundum í partí. Amma sagði að krakkarnir væru „svo góðir við sig“ sem er lýsandi fyrir hennar hlédræga persónuleika. Hver væri ekki góður við sjötuga bekkjarsystur sína?

Amma lét verða af því að heimsækja mig til London með foreldrum mínum árið 1998 þegar ég kláraði BA-námið. Við fórum í ferðalag um Suður-England og hún naut ferðarinnar en aðallega held ég að hún hafi bara viljað vera með, áfangastaðurinn hefði ekki skipt neinu máli. Ég vildi að ég hefði getað eytt meiri tíma með ömmu í gegnum tíðina en er þakklát fyrir stundirnar sem við áttum saman og öll samtölin.

Elsku fallega amma mín og vinkona, takk fyrir að vera mér samferða.

Anna Júlía Friðbjörnsdóttir.
----------------------------------------------

Í dag kveðjum við elsku ömmu með söknuði en líka þakklæti. Við systkinin vorum einstaklega heppin hversu mikið amma og afi fylgdu okkur eftir. Samverustundirnar eru svo margar og ljúfar.

Eftirminnilegust eru hádegin í Rimasíðu. Þegar við vorum öll í grunnskóla þá sá amma um að gefa okkur hádegismat. Oft sendi hún afa einan með pottinn, þá var grjónagrautur eða brauð með skinku og peru. Enn betra var þegar amma kom líka og gaf okkur kjötbollur eða fiskihring, hann var bestur. Vinsældir okkar á þessum árum skrifast nær alfarið á ömmu og það var sjaldan sem við vorum bara þrjú í mat. Bekkjarfélagar okkar voru duglegir við að lauma sér með og voru alltaf velkomnir.

Amma var líka leikfélagi okkar og hún faldi fingurbjörgina sína ótal sinnum og raulaði vísuna meðan við leituðum.

Við vorum heppin að hafa þetta trausta bakland hjá ömmu og afa. Þegar það þurfti að láta passa okkur voru þau alltaf tilbúin til að bjóða okkur í Furulundinn. Það var gaman að vera hjá þeim, kannski sérstaklega vegna þess að þau sögðu aldrei nei við okkur.

Eftir að afi dó þá breyttist margt hjá ömmu. Hún tók aldrei bílpróf sjálf en var vön að fara svo víða í bílnum með afa. Síðustu árin voru heldur tilbreytingalítil og sérstaklega eftir að hún hætti að treysta sér í heimsókn í Flatasíðu. En alltaf var samt gaman að tala við ömmu, segja henni fréttir og sitja hjá henni. Hún hafði alltaf óþrjótandi áhuga á okkur og barnabarnabörnunum.

Elsku amma okkar var einstök.

Elsku amma, takk fyrir allt, alla okkar tíð.

Ásta Björg, Þorsteinn og Björn.
-----------------------------------------------------

Móðursystir okkar, Ástrún Jóhannsdóttir, er látin 95 ára að aldri. Þar með eru öll börn Jóhanns afa Guðmundssonar og Sigríðar ömmu Gísladóttur frá Þrasastöðum í Fljótum fallin frá. Ástrún var önnur í röð fimm systkina en Gyða móðir okkar var elst. Næst á eftir komu Gréta, Gísli og Einar. Ástrún fæddist á Þrasastöðum og ólst þar upp til 10 ára aldurs er afi brá búi og flutti til Siglufjarðar eins og margir bændur í Fljótum gerðu á þeim tíma.

Þorvaldur afabróðir bjó á Deplum sem var næsti bær við Þrasastaði og var mikill samgangur á milli bæja. Eins og hjá móður okkar leitaði hugur Ástrúnar alla tíð mikið í Fljótin og systurnar gerðu sér gjarnan ferð á sumrin í þessa fallegu sveit. Þá býsnuðust þær mikið og áttu erfitt með að trúa því þegar hafist var handa með byggingu lúxushótels á Deplum í þeirri snjóþungu sveit sem Fljótin vissulega voru og eru enn.

Ástrún og eiginmaður hennar Björn Friðbjörnsson bjuggu lengst af á Siglufirði og um tíma bjuggu þær systur báðar að Túngötu 43. Þegar Ástrún og Björn fluttu um set var það ekki lengra en í næsta hús. Seinna flutti Gréta einnig til Siglufjarðar og voru þá systurnar allar sameinaðar. Þær voru alla tíð mjög nánar og samskipti þeirra þétt og innileg. Þá spillti ekki fyrir að synir Ástrúnar og Björns, þeir Friðbjörn og Ingi Garðar, voru á svipuðu reki og við bræður en Ásbjörn var þeirra yngstur.

Ástrún og Björn, sem nú er látinn, skipuðu alltaf stóran sess í huga okkar og eru samofin í minningunni. Ástrún var glæsileg kona, ákaflega samviskusöm, minnug og víðlesin. Hún var kletturinn í fjölskyldunni, varkár og hlédræg að eðlisfari, algjör andstæða við móður okkar. Björn, þessi fjallmyndarlegi maður frá Hrísey, þótti okkur afar áhugaverður enda um tíma skipstjóri á skrítna síldarbátnum Fanney og síðar verkstjóri í frystihúsinu á Siglufirði.

Ástrún og Björn fluttu síðar til Akureyrar og við til Reykjavíkur. Þegar hún var komin á hjúkrunarheimilið Hlíð á Akureyri naut hún þess að vera ættstór. Þar höfðu Ingi, Margrét kona hans og börn veg og vanda af því að halda uppi fjölskyldutengslunum. Það var unun að heimsækja Ástrúnu þegar við áttum leið hjá. Ávallt var hún með bók í hönd og kom víða við í frásögnum sínum. Í heimsókn ekki fyrir löngu þegar verið var að ræða eins og svo oft áður um Þrasastaði og Fljótin þá kastaði hún fram vísu sem afi Jóhann hafi ort um Þorvald bróður sinn:

 • Þorvaldur bróðir áttræður er
 • enginn mér finnst hans jafni
 • þrekið og handlagnin einsdæmi er
 • það uppi mun halda hans nafni
 • og svo er um niðja hans flesta hér
 • að sérhver uppeldi hlýðir
 • og kona hans bregður birtu á
 • bústað þeirra og prýðir.

Við bræður minnumst Ástrúnar með hlýhug og þakklæti fyrir allar þær góðu minningar sem hún hefur gefið okkur. Fyrir hönd fjölskyldna okkar sendum við Friðbirni, Inga Garðari, Ásbirni og fjölskyldum þeirra hugheilar samúðarkveðjur.

Valtýr og Jóhann Ágúst Sigurðssynir