Ásdís Magnea Gunnlaugsdóttir

mbl.is 17. október 2020 | Minningargreinar 

Ásdís Gunnlaugsdóttir fæddist á Sólbakka í Önundarfirði 18. mars 1939. Hún lést hjúkrunarheimilinu á Siglufirði 25. september 2020.

Foreldrar Ásdísar voru Gunnlaugur Jónsson, f. 7. maí 1907, d. 25. okt. 1974, og Kristín Magnúsdóttir, f. 1. nóv. 1913, d. 25. sept. 1949.

Bróðir hennar er Páll Gunnlaugsson, f. 28. feb. 1936.

Frá Sólbakka flutti fjölskyldan til Raufarhafnar og þaðan til Siglufjarðar.

Ásdís gekk í húsmæðraskólann í Löngumýri þegar hún var 15 ára. Árið 1955 hóf hún störf á Hótel Höfn á Siglufirði þar sem hún kynntist Sigurjóni Jóhannssyni skipstjóra, f. 8. sept. 1928, d. 22. des. 2010, þau giftu sig þann 13. júlí 1957.

Faðir hans var Jóhann Pétur Jónsson, f. 1. des. 1882, d. 11. okt. 1971. Móðir hans var Herdís Þorsteinsdóttir, f. 30. júní 1893, d. 23. nóv. 1968.

Ásdís og Sigurjón áttu fjögur börn;

Ásdís Gunnlaugsdóttir ásamt dætrum sínum Kristínu og Herdísi. (ath. ef smellt er á mynd, stækkar hún og sést neðar á síðu)

Ásdís Gunnlaugsdóttir ásamt dætrum sínum Kristínu og Herdísi. (ath. ef smellt er á mynd, stækkar hún og sést neðar á síðu)

1) Kristín Sigurjónsdóttir, f. 7. feb. 1958, gift Gunnari Smára Helgasyni.
Hún á fjögur börn með fyrri manni sínum Þórði M. Sigurðssyni (þau skildu).
Börn þeirra:
a) Þórður Matthías, sambýliskona Sigríður Oddný Baldursdóttir,
synir þeirra
 • Haraldur Ívar og
 • Matthías Baldur;
b) Sigurjón Veigar, kvæntur Höllu G. Þórðardóttur,
synir þeirra
 • Kristján Gabríel,
 • Engill Þór,
 • Þórður Davíð og
 • Óskar Máni;
c) Sigurður Freyr, sambýliskona Sylvía Rós Sigurðardóttir,
synir þeirra
 • Sigurður Karl og
 • Jökull Logi;
d) Ragnar Freyr, sambýliskona Sara Valgerður Júlíusdóttir,
synir þeirra
 • Mikael Erik og
 • drengur Ragnarsson.
  Fyrir átti Ragnar
 • Gabríel Reyni, f. 4. jan. 2011, d. 21. júní 2012, með Söndru Grétarsdóttur.
2) Jóhann Sigurjónsson, f. 5. des. 1960, kvæntur Shirley Sigurjónsson.
Hann á þrjú börn með fyrri konu sinni Theresu Chu Sigurjónsson (þau skildu).
Börn þeirra:
a) Sarah Chu, gift Cory Vandervort,
börn þeirra
 • Emma Kristin,
 • Finley Elizabeth,
 • Owen Sterling og
 • Evan Sterling;
b) Kristín Chu, gift Nick Kirschner; c) Jóhann Pétur, kvæntur Heather Sigurjonsson.
3) Herdís Sigurjónsdóttir, f. 8. des. 1965, gift Erlendi Erni Fjeldsted. Börn þeirra:

4) Sigurjón Sigurjónsson, f. 23. jan. 1973, d. 26. jan. 1973.
 • a) Ásdís Magnea, sambýlismaður Arnfinnur Rúnar Sigmundsson;
 • b) Sturla Sær, sambýliskona Gígja Teitsdóttir;
 • c) Sædís Erla.

Ásdís var lengst af húsmóðir á heimili þeirra Sigurjóns, Laugarvegi 15 á Siglufirði, og taldi það forréttindi að sinna uppeldi barnanna. Hún varði miklum tíma í handavinnu og garðyrkju og ræktaði poodle-hunda um tíma.

Hún vann í rækjuvinnslu um tíma en árið 2002 stofnaði hún, ásamt vinkonum sínum, Gallerí Sigló sem var starfrækt í tólf ár. Þar gerði hún glerlistaverk og málaði postulín sem hún seldi, auk korta sem hún gerði utan vinnu.

Ásdís lét einnig til sín taka í félagsstörfum á Siglufirði og var alltaf félagi í kvennadeild slysavarnafélagsins. Auk þess var Ásdís ein af stofnendum Siglufjarðardeildar Garðyrkjufélags Íslands og var um tíð formaður þess.

Útför Ásdísar fer fram í Siglufjarðarkirkju 17. október 2020, klukkan 14.

Streymt verður frá athöfninni:  https://www.youtube.com/embed/aLMMWZZPGRg

Virkan hlekk á slóð má nálgast á: https://www.mbl.is/andlat
-----------------------------

Elsku mamma. Samvera okkar síðastliðið ár hefur verið meira á rafrænu formi en við hefðum kosið. í ár ætluðum við að fara á Raufarhöfn og klára þennan stutta spotta sem þú áttir eftir að fara við Höfn. Við létum þó sóttvarnir og heilsuleysi ekki stöðva okkur um daginn við að fara í ferðalagið góða með aðstoð Google.

Skemmtilegast var á Raufarhöfn. Þegar við brunuðum um bæinn og út á Rauðanúp og þú sagðir mér frá æskuheimilinu sem var staðsett við síldarverksmiðjuna þar sem afi Gulli vann. Hvernig loginn í ofnum verksmiðjunnar blasti við ykkur og hvað ykkur Palla þótti spennandi að fá að slökkva á bænum á kvöldin með rofa sem staðsettur var í eldhúsinu ykkar. Það var líka gaman að skoða aftur húsið sem við bjuggum í á Raufarhöfn veturinn 1969 og rifja upp eitt og annað frá þeim tíma.

Mikið óskaplega þakka ég þér eljusemi við björgun þjóðarverðmæta. Þín vegna er til gott safn af skjölum og myndum sem tengjast sögu fjölskyldunnar sem ég mun koma í öruggt skjól. Það er búið að vera einstaklega skemmtilegt að fara í gegnum safnið með þér. Það mun þó trúlega taka mig nokkur ár og jafnvel áratugi að ljúka verkefninu okkar.

Allir sem þekktu Ásdísi Gull vita að hún var með græna fingur og elskaði tilraunir með fræ og græðlinga. Það var alvanalegt að mamma væri úti í garði að rótast í mold á kvöldin og því var það henni erfitt þegar hún gat ekki lengur sinnt garðinum við Laugarveg 15 og þegar gróðurhúsið var farið.

Verðskulduð verðlaun fékk hún fyrir garðinn, en það hnussaði þó í henni þegar pabbi, sjómaðurinn sem á þeim tíma hafði varla komið út í garð, var heiðraður fyrir garðinn. Það var alltaf jafn gefandi að fara með mömmu út í garð og róta í mold. Í ár var hún þó aðeins í mynd í símanum, en mikið voru þær stundir samt frábærar.

Listakonan á Laugarvegi 15 skilur eftir sig mörg listaverkin; sængurföt, jóladiska, jólaföt og bolla, svo ekki sé talað um öll fallegu kortin sem hún hefur unnið um dagana. Hún var listakokkur, kökugerðarmeistari og sannur brauðtertusnillingur.

Páskarnir voru hátíðin þín og því verða páskar Rituhöfðafjölskyldunnar á Siglufirði tómlegir án ömmu á Sigló. Páskakakan, skreytt páskagrein, páskaegg og málshættir, páskaföndur, páskabollar, páskadúkar og allt hitt.

2020 mæðradagskveðja til mömmu er hér endurbirt:

„Ég á svo dásamlega mömmu sem ég elska endalaust.

Hún Ásdís Magnea Gunnlaugsdóttir er falleg og hlý, ráðagóð, mann- og dýravinur með stórt hjarta, mikil listakona, fagurkeri og elskar fallega tónlist. Mamma er með sérlega græna fingur og margverðlaunuð fyrir það. Hún er töffari, kaffifíkill og sú eina sem ég þekki sem fær sér kaffi þegar hún getur ekki sofið.

Mamma hefur líka dásamlega nærveru og er algjörlega áreynslulaust að þegja með henni. Hún er góð vinkona, Amma með stórum staf, skemmtileg, sælkeri og besti kokkur í heimi. Mamma er ein af þessum sjómannskonum sem einfaldlega geta allt.

Þú ert ekki bara góð fyrirmynd, þú ert einfaldlega best.“

Takk fyrir allt og allt og ég lofa að gefa smáfuglunum.

Herdís Sigurjónsdóttir.
----------------------------------------------

Móðir mín, þegar ég hugsa um hana finn ég fyrir ást, hlýju og þakklæti.

Ásdís Magnea Gunnlaugsdóttir var mikill mann- og dýravinur, hún umvafði fólkið sitt og vini með miklum kærleik og góðmennsku alla tíð.

Foreldrar mínir voru gift í 53 ár og eftir að faðir minn Sigurjón Jóhannsson lést árið 2010 flutti ég til Siglufjarðar. Er ég þakklát þeim árum sem við mamma áttum saman alveg fram í andlát hennar.

Það er af nógu að taka þegar farið er í gegnum minningarnar, móðir mín var afar mikil listakona og má sjá verk hennar hjá öllum hennar afkomendum. Þar eru postulínsmunir, málaði hún á sængurföt og jóladúka barna sinna og barnabarna, prjónaði, vann með leður, útsaum og listilega gerð tækisfæriskort.

Eitt af því sem er mér virkilega minnisstætt er matargerð mömmu, henni tókst að gera listaverk úr öllum mat. Þar sem faðir minn fór oft í siglingar var frystikistan full af framandi matvörum sem hún framreiddi hversdags eins og á fínasta veitingahúsi, jólaboð þar sem borðið svignaði undan fallega skreyttum kræsingum í alls konar litum, tertur þar sem hún bjó til fallegar blómaskreytingar og alls konar marsípanfínerí.

Ekki síst var öll sú aðstoð sem ég fékk á stóru stundunum í lífi mínu og minna, giftingu, skírnum, afmælum og fermingum barnanna minna. Hún var alltaf boðin og búin. Eitt sinn sendi hún ævintýraeyju með manni og mús, sem hún bakaði og skreytti, í flugi frá Siglufirði til Reykjavíkur til að gleðja barnabörnin á afmælisdaginn.

Móðir mín ræktaði ekki aðeins ættgarðinn sinn, heldur er garð- og blómarækt hennar eitt af því sem fylgdi henni alla ævi. Hún var alltaf umvafin blómum, bæði úti og inni. Þar á meðal er kaktus sem er yfir 50 ára og fallegur garður fullur af trjám og alls konar blómum sem hafa fylgt henni alla tíð.

Þegar ég hugsa til baka finnst mér móðir mín hafa getað allt, hún hugsaði alltaf í lausnum og var ekkert ómögulegt. Ég sé enn fyrir mér svipinn á rútubílstjóranum þegar mamma var með okkur systkinin þrjú við vegarkantinn í Haganesvík eftir sumardvöl í sumarbústaðnum okkar í Fljótum, með allt okkar hafurtask eftir sumarið og „alla kartöfluuppskeruna“.

Eitt af því sem veitti henni mikla gleði var Gallerí Sigló sem hún stofnaði ásamt „stelpunum“ og starfaði þar um árabil. Þangað var alltaf gott að koma, einstakt andrúmsloft vináttu og frjórrar listsköpunar.

Þegar heilsu móður minnar hrakaði fór hún mikinn á alheimsnetinu, átti auðvelt með að nýta sér tæknina og átti samskipti við fólkið sitt úti um allan heim. Hún notaði facetime, messenger á facebook, deildi fallegum myndum og góðmennsku á facebooksíðu sinni, skoðaði alls konar hugmyndir á pinterest, var að sækja sér þekkingu og læra allt til dauðadags. Í vor þegar mamma var á sjúkrahúsinu á Siglufirði spjallaði hún við okkur öll í einu í mynd; við Gunnar Smári á Kanarí, Jóhann og Shirley í Seattle og Herdís og Elli í Mosfellsbæ.

Elsku hjartans móðir, minningin um þig lifir um ókomna tíð í hjarta allra þinna afkomenda sem og annarra sem urðu á þínum lífsins vegi.

Kristín Sigurjónsdóttir.
--------------------------------------------------

Árið 2016 kynntist ég Ásdísi Magneu tengdamóður minni, þegar við Kristín Sigurjóns fórum að stinga saman nefjum.

Ég hefði gjarnan viljað kynnast Ásdísi fyrr, því hún var yndislega hlý og góð kona. Við náðum vel saman í sambandi við alls konar föndur sem hún lifði fyrir, og ég naut þess að spjalla við hana um ýmislegt varðandi föndrið, sérstaklega man ég vel eftir því þegar til stóð að rafvæða kortin sem hún gerði og hafa á þeim ljósaskreytingar, því hún var algjör snillingur í að búa til kort, hvort sem það voru jólakort eða önnur tækifæriskort, sem hvert og eitt var einstakt listaverk.

Þegar ég heimsótti hana vakti það snemma athygli mína að sjónvarpið hennar talaði yfirleitt dönsku. Hún fylgdist vel með dönskum sjónvarpsþáttum sem hún hélt mikið upp á og var einnig áskrifandi að dönskum föndurblöðum. Stundum kom það í minn hlut að hjálpa henni við að hafa samband við útgefandann í Danmörku til að reka á eftir blöðunum ef þau bárust seint.

Hún vafraði um netið eins og vindurinn á stóra iPad-inum sínum og fann þar ótrúlegustu hluti þegar handverk og föndur var annars vegar. Margoft var hún á undan okkur Kristínu að frétta af áhugaverðum málum bæði í nærsamfélaginu og úti í hinum stóra heimi, hvort sem það var af netinu eða með öðrum hætti. Hún fylgdist með öllu sem var að gerast, allt fram á síðasta dag, og var mjög klár í kollinum, þótt líkaminn væri henni til trafala síðustu árin.

Margoft á þessum örfáu árum sem við þekktumst glímdi hún við erfið líkamleg veikindi svo ég hélt oft að hún væri komin að leiðarenda en alltaf reis hún upp aftur með einhverjum krafti sem erfitt var að útskýra, og aldrei heyrðist hún kvarta yfir nokkrum hlut. Ég skildi stundum alls ekki úr hverju þessi kona var gerð, svo mikil var þrautseigja hennar og dugnaður.

Ég minnist Ásdísar tengdamóður minnar með miklum söknuði og bið Guð að geyma minningu hennar í hjarta þeirra sem fengu tækifæri til að kynnast þessari frábæru konu.

Gunnar Smári Helgason.
----------------------------------------------------

Takk fyrir allt, amma Ásdís.

Það er komið að því að kveðja eftir ástríka, ánægjulega vegferð.

Þegar ég var að alast upp sem barn þá voru alltaf hornsteinar sem aldrei högguðust og voru þeir hjá ömmu og afa í Valhöll í Grindavík og ömmu og afa á Laugarvegi 15 á Sigló.

Þegar ég kom til ömmu og afa á Sigló þá steig maður inn í ævintýraland þar sem ótrúlega skemmtilegir og spennandi hlutir gerðust. Endalausar sögur frá afa gamla og allur heimsins fróðleikur um allar tegundir af blómum, trjám, kryddjurtum og allt í sambandi við mat og matargerð frá henni ömmu. Ef ég hafði spurningu hafði amma í flestum tilfellum svarið.

Amma hafði afskaplega rólega nærveru sem ég leitaði í þegar ég var lítill og kunni virkilega mikið að meta, hún kenndi mér mikið um að beisla sköpunargáfuna og leyfa höndunum að njóta sín.

Ég gleymi aldrei minni fyrstu baráttu við þolinmæði sem ég háði hetjulega ungur að árum við stofuborðið á Laugarveginum með dyggri leiðsögn frá henni ömmu þegar hún lagði á borðið blað og blýant og lét mig teikna mynd af leikfangabátnum mínum, frá fyrsta striki til þess síðasta.

Frá því ég man eftir mér hafði hún alveg einstakt lag á því að fá mann til að slaka á, hætta að flýta sér og sjá fegurðina í því sem var í kringum mann, enda var ég einstaklega glysgjarn og kunni mikið að meta fallega hluti, sem gerði henni afskaplega auðvelt um vik að ná til mín.

Rólega fasið hennar einkenndi hana í öllu sem hún gerði. Enda fór það svo að í hvert einasta skipti sem ég kom á Sigló þá var eins og heimurinn væri bara í pásu, engin vandamál eða æsingur ... bara hlaða batteríin á Laugarveginum hjá ömmu og afa.

Í dag sem fullorðinn maður get ég ekki enn lýst því í orðum hversu þakklátur og glaður ég er að hafa átt hana að í minni barnæsku, einnig hversu þakklátur ég er að fjölskyldan mín hafi fengið að kynnast henni.

Strákarnir mínir hafi fengið að sjá hverskonar hugljúfi hún var og svo auðvitað öll þessi endalausu blóm, fræ og jurtir sem hún og Sigga gátu talað um klukkutímum saman.

Það eru blendnar tilfinningar sem brjótast um í mér í dag, að kveðja hana ömmu með sorg í hjarta en jafnframt að gleðjast yfir því að loksins eru amma og afi sameinuð á ný.

Takk fyrir allt, amma Ásdís. 

Þórður Matthías Þórðarson.
---------------------------------------------------------

Hvílík gæfa í lífsins happdrætti að hafa fengið hana Ásdísi sem ömmu. Ég á erfitt með að finna lýsingarorð yfir þessa konu sem hefur reynst mér og mínum ómetanleg stoð og stytta í gegnum lífið. Ég ætla samt að reyna.

Ég man fyrst eftir mér hjá ömmu og afa á Siglufirði mjög ungur og dvaldist þar mjög oft og lengi. Laugarvegurinn var mitt annað heimili og ég á gífurlegt magn af yndislegum minningum frá Siglufirði. Skíðaferðirnar í skarðinu, fyrsti bekkur í grunnskóla, allar flugferðirnar á Sigló, sex tíma rútuferð í gegnum snjóþyngsli aldarinnar af Króknum inn á Sigló í kennaraverkfallinu '94, úr bústaðnum í Fljótum með afa við veiðar eða tína ber í skriðunum með ömmu. Hún vissi um alla bestu staðina og svo var farið heim að búa til sultu.

Hún amma mín var nefnilega listamaður í eldhúsinu og það er enginn sem getur eldað gæs eins og amma gerði hana. Enda fékk hún víst nóg af gæs úr að moða og gæsaveislurnar urðu ófáar á L15.

Hún tók öllu fólkinu sínu fagnandi og skilyrðislaust, hvort sem það var henni blóðskylt eður ei. Hún var alltaf amma.

Ég vandi komur mínar á L15 mjög reglulega með hækkandi aldri því það var mitt skjól. Ég veit ekki töluna á því hversu oft ég settist upp í bíl sem ungur maður og keyrði norður á Siglufjörð og kom mér fyrir á Laugarveginum því þar var bara svo ofboðslega gott að vera.

Oft kom ég einn og seinna tók ég strákana mína með mér í þessi Siglóskrepp. Nærvera ömmu og þessi skilyrðislausa væntumþykja sem hún hafði fyrir öllum sínum er eitthvað sem við barnabörnin og seinna barnabarnabörnin fengum að njóta.

Hún amma mín var handverkskona og listamaður af guðs náð og ótrúlegt magn af fallegu ámáluðu postulíni, sængurfötum og öðrum dýrgripum liggur eftir þessa kjarnakonu. Hún var ótrúlega glögg á margt og hún þurfti ekkert endilega alltaf að segja með orðum það sem henni fannst um hlutina. Maður bara vissi. Tengingin var slík.

Halla hafði oft haft orð á því hversu vænt henni þótti um þig og hve þakklát hún var alltaf yfir því hve vel þú hefðir tekið henni og Engli frá degi eitt.

Það er sárt og erfitt að vita til þess að þessi klettur sem alltaf hefur staðið keikur við bakið á okkur í gegnum súrt og sætt er ekki lengur til staðar. Ekki lengur einu símtali eða facetime-samtali frá, en á móti er maður þakklátur fyrir að hafa haft hana í sínu liði öll þessi ár. Hún var nefnilega miklu meira en amma. Hún var vinur, félagi, stoð og stytta.

Nú kveðjum við þessa fallegu konu í hinsta sinn og megi guðs englar vaka yfir heiðurshjónunum Budda Jó og Ásdísi Gull, sem nú eru sameinuð á ný.

 • Við allt viljum þakka amma mín,
 • indælu og blíðu faðmlög þín,
 • þú vafðir oss vina armi.
 • Hjá vanga þínum var frið að fá
 • þá féllu tárin af votri brá,
 • við brostum hjá þínum barmi.
 • Við kveðjum þig elsku amma mín,
 • í upphæðum blessuð sólin skín,
 • þar englar þér vaka yfir.
 • Með kærleika ert þú kvödd í dag,
 • því komið er undir sólarlag,
 • en minninga ljós þitt lifir.

(Halldór Jónsson frá Gili)

Takk fyrir allt.

Sigurjón Veigar Þórðarson, Halla Guðbjörg Þórðardóttir og börn.
-------------------------------------------------

Elsku amma, við vissum að það færi að styttast í lokin hjá þér en þetta kom mér samt svo í opna skjöldu þegar ég fékk símtalið frá mömmu, bjóst ekki við þessu á þessum tímapunkti. Kannski var ég að vona að þú myndir aldrei deyja.

Eftir símtalið helltust yfir mig minningar um allar mínar yndislegu stundir sem ég átti með þér og afa í gegnum árin á Sigló. Fótboltinn, veiðin í Fljótunum og svo öll litlu hárgreiðslumómentin okkar á baðinu, sem þú hafðir einstaklega gaman af eins og við ræddum reglulega um og brostum svo að.

Ekki má gleyma veiðiskólanum hennar ömmu á pallinum við bústaðinn. Þegar þú lést okkur fá litlu stangirnar og kenndir okkur að veiða plastfiskana á grasinu áður en það var farið í alvörugræjurnar. Þetta var upphafið að mínum veiðiferli sem hefur fylgt mér eins og skuggi síðan.

Ég man að þú varst ansi hissa þegar ég kom óvænt norður ásamt fjölskyldunni minni og honum Golíat eftir að ég hafði farið í fljótið og sett í maríulaxinn minn í fyrsta kasti. Það var gjörsamlega magnað en það hefði verið ennþá betra ef Golíat hefði ekki laumað sér í burtu og étið hinar þrjár sjóbleikjurnar sem ég ætlaði að sjóða fyrir okkur að hætti afa. En þú gast nú ekki annað en hlegið að þessu enda hefur þú örugglega skilið hundaeðlið, enda hef ég aldrei þekkt eins mikinn dýravin og þig.

Elsku amma, þú mikla kjarnakona, fyrirmyndin mín og trúnaðarvinur. Við Sara og strákarnir eigum eftir að sakna þín. Ég veit að afi tekur á móti þér með opnum faðmi og þið hjónin hvílið loks saman og vakið yfir okkur.

Ragnar Freyr Þórðarson.
------------------------------------------------

Hún amma á Sigló er einn bjartasti karakter sem ég hef kynnst. Þegar ég hugsa um hana sé ég bara þetta fallega bros sem gerði allt betra. Hún var góð við alla og sýndi mér og mínum skilyrðislausa ást bæði í orðum og verki.

Það jafnast ekkert á við að mæta til ömmu á Sigló eftir langa keyrslu úr bænum og finna út á götu lyktina af grjónagrautnum, sem var sá allra besti í öllum heiminum. Við systkinin erfðum öll hennar listrænu hæfileika á einhvern hátt og gerði hún allt sem hún gat til að miðla sinni reynslu í bakstri, matreiðslu, saumaskap og kortagerð.

Hún sagði mér alls konar skemmtilegar sögur í gegnum tíðina. Ein góð var þegar hún ætlaði að gerast áskrifandi hjá Wilton, kökugerðartímaritinu. Hún sendi skriflega beiðni og pening í umslagi til Bandaríkjanna og beið eftir svari. Nokkru seinna fékk hún peninginn sendan til baka þar sem fyrirtækið hafði lítið við íslenskan pening að gera, hún fékk þó send nokkur tímarit fyrir bréfið.

Við vorum oft í bústaðnum hjá ömmu og afa í Fljótunum í berjamó og að veiða. Það mátti þó enginn fara að veiða með afa fyrr en að hafa útskrifast úr veiðiskóla ömmu. Skólahald fór fram á pallinum fyrir framan bústaðinn þar sem handtökin voru æfð. Amma komst þó ekki slysalaust í gegnum kennsluna þar sem hún lenti oftar en einu sinni í því að fá öngul annaðhvort í kinnina eða öxlina.

Eins sárt og það er að kveðja þessa yndislegu konu þá munu þessar skondnu og hlýju minningar ávallt fylgja mér.

Amma mín, ég mun ávallt bera nafn þitt með stolti og elska þig af öllu hjarta.

Ásdís Magnea Erlendsdóttir.
------------------------------------------------

Ásdís Magnea Gunnlaugsdóttir, betur þekkt sem amma á Sigló, var góðhjartaðasta manneskja sem ég hef kynnst. Ég á einungis minningar af henni brosandi, hún veitti manni ótakmarkaða ást, hún var manns besti vinur og alltaf var stutt í grínið.

Þegar maður kom á Sigló var alltaf grjónagrautur tilbúinn á hellunni og oftar en ekki kaka í eftirrétt. Sama hversu margar kökur maður smakkar, þá jafnast ekkert á við kökurnar hennar ömmu.

Amma var ótrúleg manneskja þegar kom að svefni. Hún var nánast alltaf seinust að fara að sofa en síðan var hún alltaf inni í eldhúsi með morgunbollann þegar maður vaknaði, hún tók þó oft smá kríu þegar hún horfði á sjónvarpið.

Ég get ekki annað en minnst á þá skemmtilegu tíma eftir að amma fékk sér facebook. Hún hlýtur að eiga heimsmet í að deila myndum og myndböndum. Það var oft hápunktur dagsins að kíkja á facebook og sjá að amma væri búin að deila krúttlegu myndbandi af dýrum eða mynd af blómaskreytingu.

Sú minning sem ég held mest upp á er þegar sagði ömmu að ég hefði áhuga á því að sauma, hún varð virkilega glöð að við ættum það sameiginlegt. Hún kenndi mér mikið og leyfði mér að nota saumavélarnar sínar. Það mun ekkert jafnast á við það að sýna ömmu eitthvað sem ég hafði saumað og sjá hversu stolt hún var af mér.

Amma varð ótrúlega glöð þegar ég sagði henni frá því að Gígja kærasta mín væri frá Hrísey eins og Gunnlaugur pabbi hennar ömmu. Í sumar fór ég í heimsókn á Ystabæ, þar sem langafi ólst upp, og fékk að skoða gömul myndaalbúm. Ég tók myndir fyrir ömmu og sýndi henni þegar ég kíkti í heimsókn, þar sem hún sagði mér gamlar sögur af langafa og æskuárum sínum.

Eins ótrúlega vont og það er að missa hana ömmu á Sigló, þá er ég heppinn að eiga þessar góðu minningar sem ég mun varðveita alla tíð og minnast með bros á vör í anda ömmu.

Sturla Sær Erlendsson.
-----------------------------------------------

Ásdís Magnea Gunnlaugsdóttir, góð vinkona og fermingarsystir, er látin. Ásdís ólst upp á Siglufirði innan fagurra fjalla ásamt Páli bróður sínum sem var henni mjög kær. Ásdís var einlæg, hress og kát og bjartsýn á lífið og tilveruna, það sýndi hún best síðustu mánuði sem hún lifði. Ásdís var stálminnug, fróð, skemmtileg og góð heim að sækja.

Aldrei skorti okkur umræðuefni, alltaf nóg að tala um. Við minntumst samverustundanna frá því í gamla daga, óteljandi margra. Við ræddum um saumaklúbbana, hve margt var þá brallað, hlegið og spjallað. Núna í seinni tíð var vinátta okkar ekki minni, vorum jafnvel enn nánari en oft áður og símtölin milli okkar voru mörg. Við minntumst einnig verslunarmannahelgarinnar 1989 er við hittumst árgangur 1939 á Siglufirði og skemmtum okkur saman.

Þar voru Ásdís og Sigurjón eiginmaður hennar hrókar alls fagnaðar. Við gleymum aldrei þegar Sigurjón maður Ásdísar kom með eina stærstu hákarlsbeitu sem ég hef séð og gerði hákarlinn mikla lukku hjá hópnum. Sigurjón var farsæll skipstjóri og vinmargur og voru Kjartan maðurinn minn heitinn og hann miklir mátar. Síðustu æviár þeirra beggja áttu þeir við mikil veikindi að stríða og dóu með nokkurra daga millibili. Hvíla þeir nú saman hlið við hlið í nýja kirkjugarðinum á Siglufirði.

Ásdís var mikil blómakona og bar mikla umhyggju fyrir blómum og garðinum sínum. Bar garðurinn þess glöggt merki hve miklum tíma hún eyddi þar.

Minningar um Ásdísi eru margar og góðar og verða ekki frá okkur teknar. Þrátt fyrir heilsuleysi síðustu ár heyrði ég hana aldrei kvarta og stutt var í brosið, einkum ef börnin hennar og barnabörn bar á góma.

Með hryggð í huga kveð ég kæra vinkonu mína með þakklæti fyrir allar góðu stundirnar. Börnum hennar og fjölskyldunni allri sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur. Hvíl í friði elsku Ásdís.

Brynja Stefánsdóttir.

Sigurjón Jóhannsson, Jóhann Sigurjónsson, Ásdís Gunnlaugsdóttir Herdís Sigurjónsdóttir og Kristín Sigurjónsdóttir 1965

Sigurjón Jóhannsson, Jóhann Sigurjónsson, Ásdís Gunnlaugsdóttir Herdís Sigurjónsdóttir og Kristín Sigurjónsdóttir 1965