Kristín Engilráð Kristjánsdóttir

Morgunblaðið - 08. desember 2011

Kristín Kristjánsdóttir fæddist í Hnífsdal 12. janúar 1915. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ í Reykjavík 18. nóvember 2011. Útför Kristínar fór fram frá Seljakirkju í Breiðholti 25. nóvember 2011.

Kristín Kristjánsdóttir, föðursystir mín, er fallin frá, 96 ára að aldri. Henni hefur sjálfsagt ekki fundist það hár aldur að ná, frekar en annað sem hún þurfti að takast á við í lífinu, m.a. að missa eiginmann sinn, Ottó Jóakimsson, á besta aldri, og þurfa að koma börnunum sínum þremur, þeim Ólafi, Jóakim og Helgu, á legg, alein, hún bætti þá bara við sig vinnu, án þess að æmta eða skræmta eða bera vandræði sín á torg Þessi síkvika kona og heimili hennar var einn fastra punkta í minni æsku.

Það leið varla sá sunnudagur að ég kæmi ekki í heimsókn, með pabba eða yngri systkinum mínum, til Stínu frænku í Túngötunni á Siglufirði, og ömmu minnar, Jónu Sigríðar Jónsdóttur, sem þá bjó hjá frænku. Amma þurfti að vita allt; hvernig gekk í skólanum og „Nær kemur pabbi þinn í land?“ voru spurningar sem hún fékk aldrei nógu góð svör við. Þó að tímarnir hafi verið erfiðir vantaði aldrei upp á væntumþykjuna hjá Stínu frænku, baráttan fyrir lífsins brauði vék samstundis ef okkur systkinin bar að garði. Hjá henni áttum við alltaf vísan mjólkursopa ásamt nýbökuðu eða steiktu brauði og kleinum.

Kristín Kristjánsdóttir - okunnur ljósmyndari

Kristín Kristjánsdóttir - okunnur ljósmyndari

Hún gaf sér ætíð tíma til að leiðbeina og naut ég eitt sinn mjög góðs af því er ég dvaldi hjá henni á Túngötunni þegar mamma brá sér í siglingu með pabba. Sú dvöl er ein af bestu æskuminningum mínum. Samband okkar rofnaði er árin liðu, eins og gengur. Ég eignaðist mína eigin fjölskyldu og frænka flutti frá Siglufirði til þess að vera nær sínum börnum, sem þá voru löngu flutt úr bænum, og fjölskyldum þeirra. Fyrir nokkrum árum, þegar ég var nýfluttur suður, endurnýjuðum við svo kynni okkar er ég heimsótti hana ásamt dótturdóttur minni og áttum við þá saman ánægjulegt spjall.

Það var eins og við hefðum hist á hverjum degi frá því ég var lítill gutti í heimsókn hjá henni fyrir norðan. Allt vildi hún vita um mína hagi og stundum minnti spurningahríðin mig á gamla konu sem sat og prjónaði í norðausturhorni eldhússins á Túngötunni. Mínar innilegustu samúðarkveðjur sendi ég frændsystkinum mínum, þeim Ólafi Styrmi, Jóakim, Helgu Dóru og þeirra fjölskyldum og einnig frænda mínu Jóni Kr. Bjarnasyni, eftirlifandi bróður frænku minnar Stínu Ott.

Kristján S. Elíasson.