Tengt Siglufirði
Ólafur Guðmundsson. Hann er hér nýlega látinn í hárri
elli, 79 ára, að heimili dóttur sinnar Ólínu, konu Jóakims Meyvantssonar sjómanns.
Ólafur heitinn var fæddur á Höfðaströnd í Skagafirði, fluttist 9 ára
gamall til Jóns bónda og hreppstjóra á Siglunesi og ólst upp hjá honum.
Þá er hann var rúmlega tvítugur, giftist hann á Siglunesi Ólöfu Eiríksdóttur, og reistu þau það hið sama ár bú að Reykjum í Ólafsfirði og bjuggu þar myndarbúi í 32 ár.
Var hin mesta gestrisni á heimili þeirra og rausnarskapur, því bæði voru þau hjón samvalin hvað dugnað snerti og greiðasemi; varð þó brátt þungt heimili þeirra þar eð þau eignuðust 12 börn. 2 þeirra dóu ung og 2 fullorðin, en 8 þeirra eru á lífi, 4 hér í Siglufirði, og 4 í Ólafsfirði. Er mikið og gott æfistarf í því fólgið að koma svo stórum barnahóp vel á legg, hjálparlaust.
Hreppsnefndarmaður var Ólafur heitinn í Ólafsfirði margra ára. Fyrir 25 árum fluttu þau hjón búferlum að Neðri-Skútu hér í Siglufirði og bjuggu þar 2 ár, en þá missti Ólafur konu sína og brá búi skömmu eftir lát hennar. Hefir hann altaf síðan verið hér í Siglufirði með börnum sínum, og nú mörg undanfarin ár dvalið hjá áðurnefndri dóttur sinni.
Hann fatlaðist á hendi fyrir mörgum árum og gat ekkert unnið upp frá því og bilaði þá einnig heilsan; þó mátti heita að hann hefði fótaferð alt fram að síðustu áramótum. Með Ólafi heitnum er fallinn í valinn, einn af gömlu og góðu Siglfirðingunum. Hann var jarðsunginn hér í gærdag og fylgdi honum fjöldi til grafar.