Jóakim Meyvantsson verkamaður

Jóakim Ottósson sendi inn upplýsingar til sksiglo.is (1980)

Afi, Jóakim og Ólína amma

Hjónin Jóakim og Ólína, giftust 23.09.1911, bjuggu í Lindargötu 2b, (húsið flutt vegna nýju kirkjutröppunnar).

Jóakim Meyvantsson Fæddur á Staðarhóli í Siglufirði 17. júlí 1886 Látinn 17. september 1945 Sjómaður á Siglufirði. Verkamaður á Siglufirði 1930.

Ólína Friðrika Ólafsdóttir Fædd á Reykjum í Ólafsfirði, Eyjafirði 16. apríl 1886 Látin 2. apríl 1966 Vinnuhjú í Skútu, Hvanneyrarsókn, Eyjafirði 1901. Var í Jónshúsi í Hvanneyrarsetri., Eyjafirði 1910. Húsfreyja á Siglufirði 1930. Síðast bús. á Siglufirði.

Afi og amma mín: Upplýsingar úr Íslandingabók (www.islendingabok.is):
Foreldrar: Meyvant Gottskálksson Fæddur á Ysta-Mói í Flókadal, Skagafirði 16. nóvember 1844 Látinn í Sléttuhlíð 4. apríl 1893 Guðrún Jónsdóttir Fædd í Skarðdalskoti í Siglufirði.
---------------------------------------------

Jóakim Meyvantsson

Jóakim Meyvantsson

Neisti - 27. september 1945

Þann 17. sept. 1945 andaðist af hjartaslagi Jóakim Meyvantsson verkamaður Lindargötu 3c hér í bæ. Gekk hann alheilbrigður heiman að frá sér, en var fluttur heim aftur að lítilli stundu liðinni, lífvana. Slíkt eru snögg umskipti, er hljóta að hafa djúptæk áhrif á nánustu ástvini og valda saknaðarþrunginni truflun í fjölskyldulífinu á hvaða heimili, sem það kemur fyrir.

Er nauðsynlegt fyrir ástvini að geta tekið slíkum atburðum með stillingu hins andlega sterka manns, og mun svo hafa verið í þessu tilfelli.

Jóakim var fæddur 18. júlí 1887 að Staðarhóli við Siglufjörð, sonur hjónanna Meyvants Gottskálkssonar og Guðrúnar Jónsdóttur, og var hann tvíburi. Móður sína missti Jóakim, er hann var á fyrsta ári og föður sinn einnig meðan hann var á unga aldri, og ólst hann því upp hjá vandalausum.

Eftir fermingaraldur var hann í vinnumennsku á - ýmsum stöðum, og lagði einnig stund á sjómennsku framan af æfi bæði á hákarlaskipum og við þorsk og síldveiðar. Síðari ár stundaði hann verkamannavinnu aðallega verksmiðjuvinnu,

Eftirlifandi konu sinni Ólínu Ólafsdóttur giftist Jóakim þann 23. september 1911, og hafa þau alla tíð verið búsett hér í Siglufirði. Eignuðust, þau átta börn, tvö þeirra dóu í æsku, en sex eru uppkomin og hin mannvænlegustu. Við fráfall Jóakims Meyvantssonar má segja með réttu, að horfinn sé einn af hinum ágætu alþýðumönnum, sem helga hverju þjóðfélagi krafta sína hávaðalaust, en með elju og trúleik í starfi.

Dauðinn gerir oft engin boð á undan sér og svo var hér. Ástvinir syrgja. Systkini og börn flétta margþættan minningakrans á stund hinnar hinstu  kveðju, en dýpstur hlýtur harmur hennar að vera, sem var f örunautur þinn Jóakim, á farinni leið á jörðu hér, hennar sem byggði upp með þér heimilið og helgaði því krafta sína.

Milli manns og konu sem byggt hafa upp heimili' í þjóðfélaginu, komið til manns stórum, myndarlegum barnahóp, og lagt fram í sameiningu alla krafta sína í erfiðleikum lífsbaráttunnar, liggja svo margir og viðkvæmir þræðir, að tunga eða penni óviðkomandi manns er ekki fær um að lýsa sársauka þeim, sem verður þegar dauðinn heggur þá strengi. En flestir eiga innra með sér þann helgidóm, sem við köllum tilfinningar.

Þær eru einkaeign, og þeim hagræðir hver eins og hjartað krefst í sorg og starfi. Frá þeim mun hlýtt um þig. Ég þakka þér Jóakim fyrir samvinnuna á hinum daglegu störfum.

Ég kem á eftir. Í guðs friði. 

Jóakim Meyvantsson og Ólína Friðrika Ólafsdóttir

Jóakim Meyvantsson og Ólína Friðrika Ólafsdóttir