Tengt Siglufirði
Ólafur Jóakimsson fæddist á Siglufirði 11. maí 1924. Hann lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri 1.júní1998.
Foreldrar hans voru Jóakim Meyvantsson verkamaður og Ólína Ólafsdóttir húsmóðir.
Systkini Ólafs eru:
Hinn 27. september 1950 kvæntist Ólafur Fjólu Baldvinsdóttur, f. 2.6. 1927 í Ólafsfirði. Foreldrar hennar voru Baldvin Jóhannesson sjómaður og Sigfríður Björnsdóttir húsmóðir.
Ólafur og Fjóla eignuðust fjóra syni. Þeir eru:
Ólafur ólst upp til fullorðinsára á Siglufirði og þar kynntist hann konu sinni Fjólu. Hann lauk gagnfræðaprófi og síðan prófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1951. Hann var á ýmsum togurum og bátum til þess tíma er hann ræðst til Magnúsar Gamalíelssonar árið 1948 á NB Einar Þveræingur og var Ólafur skipstjóri á Einari til ársins 1959.
Þá sótti hann nýtt skip til Noregs, Guðbjörgu OF, og var skipstjóri á því til 1966. Það ár fékk útgerðin nýtt skip, Sigurbjörgu ÓF 1, sem hann stýrði til 1979 þegar hann tók við nýrri Sigurbjörgu, sem var skuttogari. Hann lét af störfum vegna veikinda árið 1984 eftir 35 ár hjá sömu útgerðinni. Síðan starfaði Ólafur eftir það sex ár á hafnarvoginni í Olafsfirði.
Útför Olafs Meyvants Jóakimssonar fer fram frá Dalvíkurkirkju í dag og hefst Þegar moldin umlykur þig vinur og þú ert laus úr búri þínu sé ég þig svífa eins og frjálsan fugl frá mér núna syngjandi af gleði. Ég vildi að ég gæti flogið með þér um ónumin lönd og átt vináttu þar sem hér áður. En vinur ég kemst ekki með þér svo ég óska þér góðrar ferðar (Gísli Gíslason frá Ólafsfirði) Hann Ólafur Meyvant Jóakimsson eða Óli Jó tengdapabbi var engum líkur. Þeir sem kynntust honum sáu strax að hann var mikilhæfur maður, góður og vinsæll mjög.
Ég hef þekkt þig í 15 ár eða frá því ég kynntist eiginmanni mínum. Fyrir 15 árum lást þú á sjúkrahúsi í Reykjavík, þá í lífshættu eftir slæmt hjartaáfall. Við tengdapabbi eigum sama afmælisdag. Ég tel víst að það hafi ekki spillt fyrir er Siggi minn tók þá ákvörðun að ég yrði konan í lífi hans, því hann hélt alltaf upp á vissa daga ársins og þetta er einn af þeim dögum. Synir þínir, Óli minn, hafa alla tíð haldið upp á þig. Ég sem tengdadóttir þín hef ekki getað fengið betri tengdapabba og vil ég segja það að minningin um þig er ljúf.
Þegar ég kom inn í ykkar fjölskyldu, tókuð þið hjónin, þú og Fjóla, vel á móti mér. Ég átti son fyrir og var honum vel tekið sem hann hafi alla tíð verið í þessari fjölskyldu. Að koma á Gunnólfsgötuna var alltaf eins og að koma á sex stjörnu hótel. Þið hjónin tókuð ætíð höfðinglega á móti okkur og öllum öðrum gestum. Þú varst ættrækinn mjög og hafðir mikið gaman af því að hitta þína nánustu og m.a. fannst þér skemmtilegast af öllu þegar þú sérstaklega hafðir alla syni þína hjá þér ásamt tengdadætrum og barnabörnum og barnabarni.
Allir synir þínir hafa valið það ævistarf að vera sjómenn eins og þú, og ekki auðvelt að koma því við að allir séu í landi á sama tíma. En þegar það varð að veruleika var yfirleitt glatt á hjalla. Þá varst þú í essinu þínu og hamingjan skein úr andliti þínu. Ættarmótið fyrir vestan, þú manst, vegirnir þeir voru ekki upp á það besta, þar sem Maja og þú voruð ættarhöfðingjarnir. Ekki hefði ég viljað missa af þessu móti þrátt fyrir vegina góðu.
Á þessum ættarmótum naust þú þín fram í fingurgóma. Síðastliðið sumar varð síðasta ættarmótið sem þú komst á lifandi, ég segi lifandi, því ég veit nefnilega að þið systkinin sem þegar eruð látin verðið öll á því næsta bara ekki okkur sjáanleg heldur finnanleg. Ægir bróðir þinn dó fyrir tveim árum og fannst okkur í minni fjölskyldu þetta stór missir og það má með sanni segja að þar fór einn af höfðingjunum sem ég kynntist úr þessari stóru ætt. Nú er hún Maja ein eftir af þessum stóra systkinahópi frá Siglufirði.
Óli, þín verður sárt saknað. Óli, þú varst alltaf svo léttur í lund, sást góðu hliðarnar á lífinu, það var fátt sem þú gast ekki leyst með þínu ljúfa og góðlátlega fasi. Þú gerðir ekki mikið úr sjúkdómi þínum, sem háði þér allan þann tíma sem ég þekkti þig, en það eru 15 ár. Þú treystir fólki svo vel, því þú varst þannig að hvaða barn, unglingur eða fullorðinn endurgalt þér þetta traust.
Ég man eftir táningi sem var nýbúinn að fá bílpróf og þurfti að skreppa eitthvað og hjá þér var það ekkert sjálfsagðara en að lána honum bílinn þinn. Þetta er bara smá dæmi. Þú varst skipstjóri á mörgum skipum og hélst þar nánast alltaf sama mannskap áratugum saman vegna þess að það var eftirsóknarvert að vera undir þinni stjórn, bæði vegna þess hve þú varst þægilegur í umgengni og líka að það gaf vel í aðra hönd að róa með þér. Þín framkoma var bara þannig, þú barst virðingu fyrir fólki og eins og máltækið segir: „Eins og þú sáir munt þú uppskera." Svona man ég líka eftir þér, barnabörnin löðuðust að þér og líka annarra manna börn.
Þú hefðir orðið góður hjá þeim á Tjarnarborg. Synir þínir voru með þér á sjó, og gerði það þeim bara gott að vera með þér þar. Ég veit að Siggi minn hafði góða fyrirmynd hvort sem það var um borð í Sigurbjörginni eða á heimili ykkar Fjólu. Alltaf þegar Siggi kom af sjónum eftir að við rugluðum reitum okkar saman í Reykjavíkinni, þurfti hann að hringja í þig til þess að ræða um fiskirí og fótbolta. Maðurinn minn var og er pabbastrákur, og er það vel meint hjá mér. Þú varst góð fyrirmynd fyrir strákana þína.
Barnabörnin þín leituðu oft til þín og báðu þig bónar sem þú einn gast á þinn einlæga hátt látið eftir þeim, án þess að verið væri að spilla þeim. Ég á ekki nógu mörg orð til þess að lýsa persónu þinni og velvilja, en eitt veit ég að það er mikill missir að þér. Elsku Fjóla, Guðni, Ægir, Jóakim og Sigurður, ykkar missir er mikill, megi hið almáttuga hjálpa ykkur í gegn um sorgina. Áslaug. Það er erfitt að trúa því að afi sé dáinn, sérstaklega þegar við erum svona langt í burtu. Það var sunnudaginn 31.5. að við fengum skilaboð um það að afi væri mikið veikur og vart hugað líf. Það varð svo úr að það sem maður hefur óttast mest frá því að maður var smápatti varð að veruleika, símhringing um miðja nótt.
Eitthvað sem alltaf getur fengið hjartað til að taka aukaslag þar sem svo margir í fjölskyldunni eru sjómenn. En í þetta skipti tók hjartað ekki aukaslag, það var frekar eins og það stoppaði eitt augnablik, ég fylltist tómleika, söknuði og reiði. Það var ekki fyrr en ég talaði við ömmu sem reiðin hvarf og við tóku stanslausar hugsanir um þær gleðistundir sem ég hef fengið að njóta með afa. Þau voru ófá skiptin sem ég fékk að fara með afa út á bryggju þegar Sigurbjörgin var í landi. Þessar ferðir renna mér seint úr minni þar sem ég fékk að fikta í öllum tökkum, tólum og leika skipstjóra nánast afskiptalaus.
Það var nefnilega rétt sem hún Ásdís María sagði: „Hann afi skammaði okkur aldrei." Afi var gæddur þeim einstaka eiginleika að koma sínu á framfæri án þess að æsa sig. Sjómannadagurinn var einn að heilögustu dögum ársins hjá afa, enda starfaði hann sem sjómaður mestalla sína starfsævi. Það var orðinn siður hinn síðari ár að ég færi með afa í sjómannamessu á sjómannadaginn.
Við keyrðum venjulega upp að pósthúsi, þar biðum við eftir skrúðgöngunni og gengum með henni síðasta spölinn að kirkjunni. Þessar stuttu gönguferðir með afa gáfu mér mjög mikið og skilja eftir sig góðar minningar. Það lýsir afa mjög vel að þegar við vorum að leggja af stað frá Gunnó til að fara í skrúðgönguna þá sagði ég alltaf við afa: „Eigum við ekki að gera eins og síðast og bíða við pósthúsið." Hann svaraði mér alltaf eins, elsku karlinn: „Eigum við ekki að kíkja út á vigt?" Hann vildi alltaf reyna að gera meira en honum var ráðlagt. Hann var aldrei fyrir það að láta vorkenna sér né láta fólk stjana í kringum sig, sem sannaði sig best þau skipti sem hann lá inni á spítala, hann vildi helst ekki trufla hjúkkurnar því þær áttu að vera að sinna veika og gamla fólkinu.
Afi reyndist mér afar vel allt frá því að ég man fyrst eftir mér. Það eru ekki mörg afabörnin sem hafa komist í gegnum skólaárin á annan hátt en ég gerði. Afi kenndi mér á klukku, hann kenndi mér að reikna, skrifa og svo kemst maður ekki hjá því að vera stanslaust að læra eitthvað um lífið sjálft þegar maður fær tækifæri til að umgangast svo einstakan mann sem afi var. Þeir voru margir klukkutímarnir sem við nafnarnir sátum við stofuborðið í Gunnó og lærðum saman. Ég held að afi hafi verið eini maðurinn sem hafði þolinmæði til þess að reyna að kenna mér og verð ég honum ævinlega þakklátur.
Án hans væri ég sjálfsagt ekki með þann menntaáhuga sem ég hef í dag. Ég veit að yngri systkini mín og frændsystkini vita hvað
er verið að tala um þegar minnst er á stafabókina hans afa. Elsku afi, þakka þér fyrir allar þær stundir sem við fengum að vera saman í þessu lífi. Ég kveð þig
í hinsta sinn með miklum söknuði. Elsku amma, Guðni, pabbi, Siggi, Jói og Maja. Guð gefi okkur styrk í okkar miklu sorg. Guð blessi þig, elsku afi. Minning þín mun lifa í hjörtum
okkar um ókomna tíð.
Ólafur Ægisson og Steingerður Sigtryggsdóttir, Oklahoma.
-----------------------------------------------
Elsku afi. Þú varst besti vinur okkar, þú kenndir okkur á klukkuna, að þekkja stafina og skrifa þá. Þú varst jafn spenntur og við þegar fyrsti skóladagurinn kom sem var svo stór stund hjá okkur. Þú fylgdist vel með náminu hjá okkur og hvort við værum ekki dugleg eins og Óli Æ., Fjóla, Lilja og Óli P. Þau lærðu nefnilega líka fyrstu stafina og á klukkuna hjá þér.
Þú hafðir áhuga á öllu sem við gerðum, fórst með okkur á bryggjuna að veiða og komst á æfingarnar á vellinum því þú varst líka svo mikill Leiftursmaður. Söknuður okkar er mikill en þú varst svo duglegur að leggja inn á „minnisbók barnanna" og við getum alltaf tekið út úr henni án þess að tæma hana, og minnst þín með bros á vör seinna meir. Hafðu þökk fyrir allar góðu stundirnar sem þú gafst okkur, elsku afi.
(KHALIL GIBRAN)
Kveðja. Kolbeinn, Atli Þór, Ásdís María, Ólafur Meyvant og Baldvin Orri.
---------------------------------------------------------
Elsku Óli mágur. Mig langar til þess að senda þér nokkrar línur, og þakka þér fyrir allar yndislegu stundirnar sem ég hef fengið að njóta með þér og systur minni, Fjólu. Þú hringdir oft til mín, til þess að fá fréttir af litlu útgerðinni minni fyrir sunnan og fá að vita um aflabrögðin. Það var ekki nóg að vita um hvar veiddist heldur á hvaða breiddargráðu veitt var, hve mikill aflinn var og hvort þetta hafi ekki verið almennilegur fiskur.
Þú sagðir við mig að þarna hafi langþráður draumur ræst hjá mér, að komast út á sjó, vera sjálfs míns herra. Eins og þú vissir var það allt honum Andra mínum að þakka að þessi draumur gat ræst. Ég vil þakka þér fyrir stuðning sem þú gafst mér við fráfall Skjaldar, sem dó fyrir 17 árum, og einnig við fráfall Andra, sambýlismanns míns, á síðasta ári. Það má víst segja að ég þekki sorgina vel.
Þessa dagana hefur sorgin hellst yfir mig aftur þegar þú kvaddir þetta líf. Ég þekki sorgina allt of vel. Ég kom norður til ykkar í
heimsókn, en þú varst ekki heima heldur á sjúkrahúsi á Akureyri. Ég var einungis búin að vera hjá ykkur Fjólu systur í sólarhring þegar alvarlegar fréttir
bárust frá spítalanum. Mikið var þessi sólarhringur sem eftir var lengi að líða. Biðin er alltaf svo erfið. Svo kom sorgarfréttin, að þú hefðir látist mánudagsmorguninn
1. júní.
Elsku systir, systrasynir og fjölskyldur. Ég sendi ykkur mínar samúðarkveðjur.
Vigdís systir.
-----------------------------------------------
Ólafur Jóakimsson skipstjóri í Ólafsfirði lést í Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri mánudaginn 1. júní síðastliðinn. Ólafur fæddist á Siglufirði 11. maí 1924. Foreldrar hans voru þau Ólína Ólafsdóttir og Jóakim Meyvantsson sjómaður. Ólafur hóf sjósókn snemma, fyrst á smábátum frá Siglufirði, en árið 1943 flutti hann til Ísafjarðar þar sem hann var m.a. á Huganum 11.
Hann hélt suður til Reykjavíkur þar sem hann var á síðutogaranum Tryggva gamla og síðar á Drangey. Sumarið 1946 og þrjú næstu sumur var hann við síldveiðar á Helga Helgasyni frá Vestmannaeyjum sem þá var stærsta síldarskipið í flotanum.
Hann flutti til Olafsfjarðar árið 1949 og var fyrst á mótorbátnum Einari Þveræingi sem var í eigu Magnúsar Gamalíelssonar , en hjá því fyrirtæki starfaði Ólafur alla tíð þar til hann hætti sjómennsku árið 1984. Var Ólafur skipstjóri á Einari Þveræingi til ársins 1959 en það ár sótti hann nýtt skip, Guðbjörgu til Noregs og var skipstjóri á því til ársins 1966.
Það ár fékk útgerðin nýtt skip, Sigurbjörgu OF-1 sem hann stýrði til 1979 þegar hann tók við nýrri Sigurbjörgu sem var skuttogari. Hann lét af störfum árið 1984 og starfaði eftir það sex ár á hafnarvoginni í Olafsfirði. Ólafur lauk gagnfræðaprófi og síðar prófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík árið 1951. Eftirlifandi eiginkona hans er Fjóla Baldvinsdóttir.
Þau eignuðust fjóra syni, Guðna, Ægi, Sigurð og Jóakim.