Jóhann Pétur Halldórsson

mbl.is 22. janúar 2010 | Minningargreinar

Jóhann Pétur fæddist á Siglufirði 14. mars 1946. Hann lést á heimili sínu 14. janúar 2010.

Móðir Jóhanns Péturs er Sigríður Júlíusdóttir, f. 16. ágúst 1930. Faðir hans var Halldór Pétursson, f. 21. janúar 1926, d. 22. mars 1991.

Jóhann Pétur ólst upp hjá föðurömmu sinni Björgu Andrésdóttur og fósturafa Guðjóni Jónssyni á Siglufirði. Jóhann Pétur var elstur sex systkina en þau eru Júlíus Einar, f. 1950, Ingibjörg, f. 1952, Rafn, f. 1954, Björg Guðný, f. 1960 og Sigurður f. 1965.

Jóhann Pétur giftist Ingileif Hafdísi Björnsdóttur, f. 17. desember 1951, í Hallgrímskirkju 2. júní 1973. Móðir hennar er Anna Halldórsdóttir, f. 16. október 1923. Faðir Ingileifar var Björn Stefánsson, f. 11. mars 1917, d. 2. júní 1989.

Jóhann Pétur og Ingileif eignuðust saman fjóra syni:

Halldór Guðjón, f. 6. ágúst 1971. Sambýliskona hans er Sigurlín Jóna Baldursdóttir, f. 28. febrúar 1964.
Jóhann Pétur Halldórsson - ókunnur ljósmyndari

Jóhann Pétur Halldórsson - ókunnur ljósmyndari

Sonur Halldórs er
 • Óskar Ingi, f. 26. júní 2000.
  Börn Sigurlínar eru
 • Daniel Þór og 
 • Ingibjörg Petrea Ágústsbörn, f. 9. október 1997.

Davíð Freyr, f. 10. desember 1976. Sambýliskona hans er Pálína Þorgilsdóttir, f. 8. apríl 1976. Dóttir þeirra er
 • Ásdís María, f. 11. október 2004.

Ingvi Karl, f. 2. mars 1980. Sambýliskona hans er Þórdís Ólöf Viðarsdóttir, f. 26. maí 1983.
Jóhann Ingi, f. 30. júní 1983. Sambýliskona hans er Sólveig Lára Kjærnested, f. 3. nóvember 1985. 

Einnig er von á tveimur barnabörnum til viðbótar í næsta mánuði og var mikil tilhlökkun hjá Jóhanni Pétri.

Jóhann Pétur gekk í Gagnfræðaskóla Siglufjarðar og lærði síðar vélvirkjun við Iðnskólann á Siglufirði. Hann vann síðan við vélvirkjun hjá Síldarvinnslu ríkisins á Siglufirði og Reyðarfirði þar til hann og Ingileif fluttust til Hafnarfjarðar 1971 þar sem þau hófu búskap. Þar vann hann við ýmis störf.

Árið 1973 fluttust þau til Reyðarfjarðar og þar vann Jóhann hjá Síldarvinnslu ríkisins. Á níunda áratugnum stofnaði hann sitt eigið fyrirtæki, Véla- og bifreiðaverkstæði JPH og vann síðar sjálfsætt þar til hann hóf störf hjá Vegagerð ríkisins.

Haustið 1998 fluttust Jóhann Pétur og Ingileif til höfuðborgarinnar og settust að í Kópavoginum. Þar vann hann hjá Vegagerðinni og við ýmis önnur störf þar til hann lét alfarið af störfum.

Útför Jóhanns Péturs fer fram frá Digraneskirkju í dag, föstudaginn 22. janúar 2010, og hefst athöfnin kl. 13.
------------------------------------------

Jóhann Pétur, elsti bróðir okkar og sonur eða Mansi eins og hann var oftast kallaður af Siglfirðingum, er látinn, en Jói var Siglfirðingur í húð og hár og þekkti fjöldann allan af fólki þar. Fréttin um lát hans kom eins og reiðarslag, maður á besta aldri, rétt rúmlega sextíu og þriggja ára, einmitt á því aldursskeiði sem maður ætlar að fara að hafa það gott og hlakkar til að fylgjast með barnabörnum en hann átti tvö barnabörn og tvö eru á leiðinni.

Jói var í eðli sínu hress og kátur og hafði gaman af því að gera góðlátlegt at í fólki. Ein sagan um hann er þegar hann kom í eitt skiptið upp í vinnuna til Rabba bróður síns og bað sölumanninn um milljón súkkulaðikúlur sem hann ætlaði að kaupa.
Sölumaðurinn koma þá inn í verksmiðju og talaði við Rabba verkstjóra og spurði hann hvort hann myndi selja milljón kúlur í lausu, það væri maður frammi sem biði eftir svari.
Rabbi fór þá fram og þar var Jói fyrir hlæjandi og hafði mikið gaman af.
Sölumaðurinn var ekki eins glaður.

Nú þegar við sitjum og skrifum minningabrotin rifjast margar góðar minningar upp, til dæmis sumarbústaðaferðin síðastliðið sumar þar sem við vorum öll systkinin ásamt mömmu og myndataka í Keflavík. En þar áttum við skemmtilega stund saman, mikið var hlegið og var Jói hrókur alls fagnaðar. Síðasta samverustundin sem við áttum var skötuveisla á Þorláksmessu heima hjá mömmu. Grunaði okkur ekki þá að þetta væri í síðasta skiptið sem við værum öll samankomin.

Jói átti stóra og samhenta fjölskyldu og voru þau höfðingjar, hann og Inga konan hans, heim að sækja. Þar var gestrisni og umhyggja í fyrirrúmi, glaðværð og léttleiki. Að leiðarlokum er þakklæti fyrir allar góðu samverustundirnar efst í huga okkar, systkina, mömmu og maka. Sendum Ingu og sonum hennar, Dóra, Davíð, Inga og Jóhanni Inga, okkar innilegustu samúðarkveðjur. Hvíl í friði elsku bróðir og sonur.

Mamma, Júlíus Einar, Ingibjörg, Rafn og Sigurður.
--------------------------------------------------

Elsku pabbi, tíminn sem við áttum saman var yndislegur. Þær stundir sem við áttum saman vekja ótal minningar. Ég fæ víst ekki að bjóða þér út á fótboltaleik, þú hefðir haft gaman af því. Allt sem þú hefur gefið mér og ráðlagt stendur eftir og því gleymi ég aldrei. Hvernig þið mamma hafið komið okkur strákunum til manns er ekki sjálfgefið.

Samspil ykkar hefur gert okkur að þeim einstaklingum sem við erum í dag. Þú varst húsbóndinn á heimilinu þegar við vorum að alast upp, lést okkur heyra það ef við áttum það skilið. Í minningunni varst þú harður og ákveðinn, en á sl. árum hefurðu svo sannarlega sýnt á þér mýkri hliðar. Þakka þér fyrir hjálpina á öllum þeim augnablikum sem maður þurfti á þér að halda.

Þú varst alltaf tilbúinn að aðstoða, hvort sem það var heima eða á miðri Miklubrautinni. Þú munt sennilega hlæja að mér reyna að rembast við að bjarga málunum. Ég mun alltaf hugsa til þín ef eitthvað bjátar á, tala til þín og leita lausna. Að missa þig úr fjölskyldunni er líkt og knattspyrnulið missi fyrirliðann sinn af leikvelli.

Leikmenn liðsins þurfa að standa betur saman og hver og einn þarf að leggja meira á sig. Það sem gerðist var svo óvænt, en mun styrkja fjölskylduna. Við bræður eigum eftir að tala meira saman, stelpurnar einnig. Við munum horfa öðrum augum á lífið og hugsa áfram vel um mömmu. Þetta hvetur okkur til að standa saman og njóta þess tíma sem okkur er gefinn. Ég vona að fleiri sjái að allt það veraldlega hefur lítið að segja þegar dauðinn grípur okkur. Það er ekki sjálfgefið að við fáum að verja meiri tíma með okkar nánustu.

Elsku pabbi, þú gafst aldrei upp og hef ég þá tilfinningu að þú hafir engan veginn vitað að dauðinn væri að grípa þig, það var friður yfir þér. Að greinast með flogaveiki 14 ára og lenda í slæmu fótbroti innan við tvítugt er nokkuð sem hefur styrkt þig. Ég man þegar þú ristarbrotnaðir þegar þú vannst hjá Vegagerðinni.

Þú tókst kæli spreybrúsa með upp í sófa, blótaðir en gast jafnframt hlegið að því hvernig þetta gerðist. Þvílík harka að bíða í klukkutíma heima eftir lækni! Ég man þegar þú byrjaðir að fá verki í hnén. Það dró verulega úr krafti þínum og virkni á vinnumarkaðinum. Erfið hindrun sem þú þurftir að glíma við því það er ekki auðvelt fyrir fólk komið á sextugsaldurinn að skipta eða draga úr vinnu.

Þú varst svo sannarlega ríkur, áttir okkur strákana, ásamt mömmu. Allar þær góðu stundir sem við áttum saman eru nú dýrmætar minningar. Þú naust þess að vera lifandi, varst mikil félagsvera og hafðir gaman af því að hitta fólk og spjalla. Þú hafði ekki miklar áhyggjur af tiltekt eða varst að stressa þig ef einhver var væntanlegur, mamma sá alveg um það.

Þú gast notið lífsins með mömmu og þið vóguð hvort annað vel upp. Þær minningar sem eru mér minnisstæðastar eru síðustu stundirnar sem við eyddum saman. Jólatónleikarnir, verslunarleiðangurinn og ratleikurinn voru frábærar stundir sem eru mér dýrmætar. Ég vona að þú hafir það gott, elsku pabbi. Minning þín mun ávallt lifa.

Þinn sonur, Jóhann Ingi.
------------------------------------------

Elsku pabbi er dáinn en eftir lifa góðar stundir og minningar sem ég er þakklátur fyrir að eiga. Elsku pabbi þú komst mér oft til að hlæja en varst líka stundum stríðinn og þver. Ekki átti ég von á því að þú færir svona snöggt frá okkur. Við áttum góðar stundir saman um síðustu jól og ekki grunaði mig að það væri þín síðasta stund með okkur fjölskyldunni. Það var alltaf gleði þegar öll fjölskyldan var samankomin og gátum svo sannarlega hlegið mikið að þér. Þú áttir alltaf einhverja gullmola sem kom okkur til þess að brosa.

Elsku pabbi, hefði ég vitað að þú værir að yfirgefa þennan heim, þá hefði ég sagt hversu þakklátur ég er fyrir að vera sonur þinn og hversu mikið mér þykir vænt um þig. Ég vil því segja það núna og vona að þú heyrir að ég elska þig pabbi minn, virði þig og mun alltaf vera stoltur af þér elsku pabbi. Ég kveð þig nú með miklum söknuði. Hvíl þú í friði og ró, ég veit að guð er með þér og að þú vakir yfir okkur bræðrum og mömmu.

 • Ég fel mig þínum föðurarm,
 • er fast mig sorgir mæða.
 • Þú einn kannt sefa hulinn harm
 • og hjartans undir græða.

 • Hið minnsta duft í mold þú sérð
 • og mælir brautir stjarna,
 • þú telur himintungla mergð
 • og tárin þinna barna.

 • Ég fel mig þinni föðurhlíf,
 • er fer ég burt úr heimi,
 • en meðan enn mér endist líf,
 • mig ávallt náð þín geymi.

 • Þú ystu takmörk eygir geims
 • og innstu lífsins parta,
 • þú telur ár og aldir heims
 • og æðaslög míns hjarta.

(Valdimar Briem)

Þinn sonur, Halldór Guðjón.
--------------------------------------------------

Elsku pabbi minn. Nú er komið að kveðjustund og er margs að minnast þegar ég horfi til baka, en það er erfitt að koma því niður á blað. Þú varst hress og kátur maður. Sprell, spaug, grín og glens man ég helst, en stöku sinnum varst þú nú líka reiður en það var bara í æsku. Ég held að við bræðurnir höfum þurft á töluverðum aga í uppeldi að halda enda voru þar á ferð orkumiklir strákar sem þurftu að losa mikla orku á hverjum degi og varð þá að setja reglur fyrir okkur til að fara eftir.

Enn förum við bræður eftir þeim aga sem okkur var kenndur í æsku. Þetta var gott samspil hjá þér og mömmu og auðvitað lærði maður að spila á það. Það var nú þannig að ef pabbi var spurður hvort við mættum fara út á kvöldin, þá kom svarið: „Já blessaður góði farðu út og vertu eins lengi og þig langar.“ Þarna var notuð tækni sem ég held að hafi hentað vel fyrir okkur.

Þið mamma komuð okkur fjórum bræðrum á legg og held ég að þið getið bara verið nokkuð ánægð með ykkar verk, þótt ég sé kannski hlutdrægur. Pabbi sagði alltaf að við yrðum að læra eitthvað, bara eitthvað. Nú eru fjögur sveinspróf í höfn ásamt BS-gráðu og enn er verið að læra meira og bæta við þekkinguna. Takk fyrir að hvetja okkur áfram. Orðin „neeeii“, og „Inga slappaðu af“ eru mér ákaflega minnisstæð og voru oft notuð. Ef þið fóruð á einhverja mannfagnaði þá fannst þér gaman að hitta fólk og spjalla.

Mig langar að þakka þér fyrir að hafa komið til okkar Dísu á gamlársdag og fyrir að hafa eytt síðustu áramótunum hjá okkur. Það var virkilega gaman að skála fyrir nýju ári og spjalla um fortíðina sem og framtíðina. Takk fyrir að binda hnútinn á bindið og nú fer ég að læra hann, með annað bindi að sjálfsögðu því þinn hnútur fær að vera í friði.

Það er svo skrítið að oft þarf svakalegt áfall, erfiðleika og mótlæti til þess að maður átti sig á því hve yndislegt lífið er í raun og veru.

Maður virðist vera blindaður af hugsunum um hluti sem virkilega skipta engu máli. Hvernig væri að taka utan um sína nánustu og finna hlýjuna. Sú tilfinning sem fylgir því að sjá látinn föður sinn er ákaflega erfið. En maður veit að þetta er gangur lífsins og fylltist ég ákveðnu stolti yfir því að hafa fengið að njóta þess með þér í 30 ár pabbi minn.

Pabbi, við geymum allar minningarnar um þig og hugsum hlýtt til þín. Við gætum mömmu fyrir þig. Nú getur þú farið á alla þá fótboltaleiki í ensku úrvaldsdeildinni sem þig langar á. Ég veit að þú ert hér að fylgjast með okkur og ég er viss um að þú ert ákaflega stoltur maður. Þú verður á vaktinni þegar þú eignast fleiri afabörn á næstu mánuðum, og átt eftir að vaka yfir okkur öllum. Takk fyrir samveruna elsku pabbi, elska þig.

Þinn sonur, Ingvi.
---------------------------------------------------

Sífellt er verið að minna okkur á að lífið getur tekið enda hvenær sem er, hvort sem maður er undir það búinn eða ekki. Ekki datt mér það í hug að árið 2010 væri árið sem tengdapabbi myndi kveðja okkur. Nú þegar dagarnir líða koma minningar upp í hugann og verða manni óendanlega dýrmætar.

Á undanförnum dögum hefur verið einstakt að fylgjast með Ingu og strákunum þjappa sér saman og styðja við bakið hvert á öðru. Fjölmargar minningar hafa skotið upp kollinum og framkallað bros og hlátur í gegnum tárin. Áfallið og sorgin er mikil, en þegar dagarnir líða sér maður hvernig eftir stendur enn nánari og samrýndari fjölskylda þótt stórt skarð hafi verið höggvið þar í. Rólegur, spaugsamur og mikil félagsvera.

Á þennan hátt myndi ég lýsa tengdapabba. Hann var ekki mikið að stressa sig á hlutunum og skildi oft ekki lætin í Ingu sem alltaf er á fullu, enda ótrúlega kraftmikil og dugleg. Aldrei var langt í grínið og prakkarastrikin og varð maður sífellt að vera vakandi þegar tengdapabbi var annars vegar.

Það er sárt að hugsa til þess að litla prinsessan okkar Jóhanns Inga fái ekki að njóta samverustunda með föðurafa sínum. Við huggum okkur þó við það að hún eigi nú fleiri engla til að vaka yfir henni og bíðum eftir að hún verði nægilega gömul til þess að geta sagt henni sögur af afa sínum. Hvíldu í friði elsku Jói minn.

Þín tengdadóttir, Sólveig Lára.
-----------------------------------------

Síðast þegar ég sá Jóa bróður sat hann við eldhúsgluggann heima hjá mömmu í Keflavík í sumar, í svörtum hlýralausum bol, brúnn og sællegur að drekka kaffi og borða vöfflur og flatkökur með hangikjöti og náttúrlega að gera grín að okkur sem hann hafði svo sannarlega gaman af.

Jói ólst upp hjá afa og ömmu á Siglufirði. Þótt hann væri töluvert eldri en ég var ég nógu gömul til að „stelast“ í plötusafnið hans. Hann hafði svo gaman af öllum þessum gömlu íslensku lögum og sat oft og hlustaði á gamla grammófóninn.

Jói bróðir var góður maður. Aldrei heyrði ég hann segja neitt niðrandi um aðra menn eða æsa sig yfir málum sem bar á góma. Ég held að það sé merki um innri frið og skilning og að vera sáttur við lífið.

Hann var elsti bróðir minn og ekki gamall þegar kallið kom, aðeins 63 ára gamall. Það er eitthvað sem brestur þegar bróðir manns deyr og þessi brestur er svo sársaukafullur og ótrúlegur og ósanngjarn.

Við Nigel, Egill, Anna og Henry vottum ykkur, Ingu og strákunum, okkar innilegustu samúð á þessum sorglegu tímamótum. Þótt við séum svona langt í burtu eruð þið öll í huga okkar og hjarta. Hvíl í friði elsku bróðir.

Björg systir.
------------------------------------------

mbl.is/minningar

Hversu oft sannast ekki orð sálmaskáldsins: „Á snöggu augabragði“, og alltaf erum við jafnóviðbúin þeim tíðindum þegar einhver okkur kunnugur fellur frá skyndilega. Þannig var því farið er við fregnuðum að Jóhann Pétur Halldórsson hefði verið af heimi hrifinn.

Hress og kátur eins og alltaf hafði hann verið þegar fundum bar síðast saman, glettnislegt var brosið og tilsvör öll eins og alltaf áður, komið beint að hlutunum og hvergi dregið undan. Það var í ætt við eðlislæga hreinskilni hans og skoðanir hafði hann á hverju einu og fylgdi þeim fram svo sem hann mátti.

Hann hafði talsverð afskipti af málum heimastaðar okkar á sinni tíð og eitt var alveg víst, hann vildi sjá eitthvað gerast, eitthvað sem munaði um fyrir framtíðarvelferð fólks og þótt við værum ekki samstiga þá fann ég vel hvaða vilji bjó að baki og mat það að hann sagði sína meiningu hreint út og umbúðalaust við hvern sem var og hvenær sem var.

Það var aldrei nein lognmolla í umræðunni þegar Jóhann Pétur var annars vegar. Hann var glöggur á vélar s.s. hann hafði menntun til og verklaginn, röskur að hverju sem hann gekk. Um verkfærni hans á ég gott dæmi. Þegar hann rak bifreiðaverkstæði heima fékk ég hann eitt sinn í talsverða viðgerð á mikið eknum bíl mínum og það entist lengi og bærilega.

Hann var einu sinni í forystu fyrir þorrablótsnefnd heima og dóttir mín og tengdasonur voru þar með honum og sú samvinna var þeim báðum afar minnisstæð og hugþekk. Þeir sem náðu að kynnast honum best kunnu enda vel að meta þessa ákveðnu einlægni og fundu hlýjuna innst inni, enda var Jóhann Pétur bæði greiðvikinn og hjálpfús.

Og nú er þessi glaðbeitti maður allur svo alltof snemma og svo skyndilega og mikill er harmur hans ágætu og ljúfu eiginkonu, sona þeirra og annarra aðstandenda. Þau sakna hins mikla heimilismanns sem ætíð hafði fjölskyldu sína í fyrirrúmi, alltaf hugsandi um þeirra hag sem allra bestan.

Við Hanna og okkar fólk sendum henni Ingileif, mínum kæra nemanda fyrrum, hughlýjar samúðarkveðjur sem og öllu hennar fólki. Bjartar minningar um góðan dreng ná vonandi að sefa sorgina miklu. Í birtu þeirra minningamynda kveðjum við Jóhann Pétur Halldórsson. Blessuð sé minning hans.

Helgi Seljan. 

----------------------------------

22. janúar 2010 | Minningargrein á mbl.is 

Jóhann Pétur. 

Jóhann Pétur Halldórsson fæddist á Siglufirði 14. mars 1946. Hann lést á heimili sínu 14. janúar 2010. Móðir Jóhanns Péturs er Sigríður Júlíusdóttir, f. 16. ágúst 1930. Faðir hans var Halldór Pétursson, f. 21. janúar 1926, d. 22. mars 1991.

Jóhann Pétur ólst upp hjá föðurömmu sinni Björgu Andrésdóttur og fósturafa Guðjóni Jónssyni á Siglufirði. Jóhann Pétur var elstur sex systkina en þau eru Júlíus Einar, f. 1950, Ingibjörg, f. 1952, Rafn, f. 1954, Björg Guðný, f. 1960 og Sigurður f. 1965.

Jóhann Pétur giftist Ingileif Hafdísi Björnsdóttur, f. 17. desember 1951, í Hallgrímskirkju 2. júní 1973. Móðir hennar er Anna Halldórsdóttir, f. 16. október 1923. Faðir Ingileifar var Björn Stefánsson, f. 11. mars 1917, d. 2. júní 1989. Jóhann Pétur og Ingileif eignuðust saman fjóra syni: Halldór Guðjón, f. 6. ágúst 1971. Sambýliskona hans er Sigurlín Jóna Baldursdóttir, f. 28. febrúar 1964.

Sonur Halldórs er Óskar Ingi, f. 26. júní 2000. Börn Sigurlínar eru Daniel Þór og Ingibjörg Petrea Ágústsbörn, f. 9. október 1997. Davíð Freyr, f. 10. desember 1976. Sambýliskona hans er Pálína Þorgilsdóttir, f. 8. apríl 1976. Dóttir þeirra er Ásdís María, f. 11. október 2004. Ingvi Karl, f. 2. mars 1980. Sambýliskona hans er Þórdís Ólöf Viðarsdóttir, f. 26. maí 1983. Jóhann Ingi, f. 30. júní 1983. Sambýliskona hans er Sólveig Lára Kjærnested, f. 3. nóvember 1985.

Einnig er von á tveimur barnabörnum til viðbótar í næsta mánuði og var mikil tilhlökkun hjá Jóhanni Pétri.

Jóhann Pétur gekk í gagnfræðiskóla Siglufjarðar og lærði síðar vélvirkjun við Iðnskólann á Siglufirði. Hann vann síðan við vélvirkjun hjá Síldarvinnslu ríkisins á Siglufirði og Reyðarfirði þar til hann og Ingileif fluttust til Hafnarfjarðar 1971 þar sem þau hófu búskap. Þar vann hann við ýmis störf. Árið 1973 fluttust þau til Reyðarfjarðar og þar vann Jóhann hjá Síldarvinnslu ríkisins.

Á níunda áratugnum stofnaði hann sitt eigið fyrirtæki, Véla- og bifreiðaverkstæði JPH og vann síðar sjálfsætt þar til hann hóf störf hjá Vega8gerð ríkisins. Haustið 1998 fluttust Jóhann Pétur og Ingileif til höfuðborgarinnar og settust að í Kópavoginum. Þar vann hann hjá Vegagerðinni og við ýmis önnur störf þar til hann lét alfarið af störfum. Útför Jóhanns Péturs fer fram frá Digraneskirkju í dag, föstudaginn 22. janúar 2010, og hefst athöfnin kl. 13.

Síðast þegar ég sá Jóa bróður, sat hann við eldhúsgluggann heima hjá mömmu í Keflavík, í svörtum hlýralausum bol, brúnn og sællegur að drekka kaffi og borða vöfflur og flatkökur með hangikjöti ... og náttúrlega að gera grín að okkur sem hann hafði svo sannarlega gaman af. Þá setti hann upp þennan sakleysissvip sem bara hann gat sett upp. Og við féllum alltaf á prófinu og trúðum honum út í eitt, þar til hann fór að hlæja og þá vissum við að hann var að stríða okkur. Hann var alltaf með  prakkaraglampann í augunum þannig að maður vissi aldrei hvort að sagan var sönn eða ekki.

Jói ólst upp hjá afa og ömmu á Siglufirði. Þó hann væri töluvert eldri en ég, var ég samt nógu gömul til að stelast í plötusafnið hans ef hann var ekki heima. Hann hafði svo gaman af öllum þessum gömlu íslensku lögum og sat oft og hlustaði á gamla grammófóninn sem var inni í stofu hjá ömmu. Hann átti líka Volkswagen bíl og fékk ég stundum að fara í bíltúr með honum og keyra um bæinn. Síðan þá minna þessir bílar alltaf á hann.

Ég  er svo heppin og glöð að hafa verið heima síðastliðið sumar og átt margar yndislegar stundir með allri fjölskyldunni. Einn daginn tók mamma mín sig til og skipaði öllum strákunum sínum fjórum að fara í klippingu, raka sig og mæta í jakkafötum suður í Keflavík, því nú áttum við öll sex systkinin að fara í alvöru myndatöku á alvöru myndastofu. Ingibjörg systir og ég þurftum ekki að láta segja okkur það tvisvar. Bræðurnir komu einn og einn, fínir og vel greiddir. Og svo kom Jói, í stuttbuxum og bol með hárið svolítið upp í loftið.

Hann sagðist ekki vita um nein jakkaföt, það hafði enginn minnst neitt á það við hann. Allt fjörið í eldhúsinu hjá mömmu stoppaði en við áttum að vera mætt eftir hálftíma. En þá byrjaði hann að hlæja og kom með jakkaföt sem voru í plastpoka í plasti og á herðartré. Hann var að sjálfsögðu skammaður í bak og fyrir þangað til við vorum öll farin að hlæja og flissa eins og litlir krakkar. Myndatakan heppnaðist alveg frábærlega og mikið gaman haft. En hún var síðasta myndatakan af okkur systkininum öllum og mömmu.

Jói hafði alltaf gaman af og vildi endilega vita hvernig lífið gengi hjá mér úti á Nýja Sjálandi. Hann hafði mikinn áhuga á veðurfarinu og hvað klukkan væri. Hvað væri mikill tímamunur. Við vorum oft búin að tala um hvað þetta væri skrýtið og hlæja að þessu öllum saman, þegar sumar var hér, var vetur heima. Og svo snérist þetta allt við, nótt og dagur, sumar og vetur.

Jói bróðir var góður maður. Aldrei heyrði ég hann segja neitt níðandi um aðra menn eða æsa sig úr hófi fram um mál sem bar á góma. Ekki það að það skipti hann ekki máli, heldur var hann með sínar skoðanir og hvað sem gekk á skipti hann ekki um skoðun en þurfti ekki að sannfæra aðra. Ég held að það sé merki um innri frið og skilning og líka það að vera sáttur við lífið.

Hann var elsti bróðir minn og ekki gamall þegar kallið kom, aðeins 63 ára gamall. Það er eitthvað sem brestur þegar bróðir manns deyr og þessi brestur er svo sársaukafullur og ótrúlegur og sérstaklega ósanngjarn einhvern veginn. Komið er skarð í hópinn. En ég hef þá trú að Jói Pétur sé hérna einhversstaðar nálægt okkur, í hjarta mínu, sem er mér styrkur og stoð og leyfi ég mér líka að brosa þegar ég hugsa um hvernig hann hló, þessum hlátri sem hann gat bara hlegið sem ég geymi og gleymi aldrei. Hann verður alltaf með okkur. Hann er hluti af okkur. Hann er bróðir minn.

Það er ekki skrýtið að Jói skuli hafa átt og á enn yndislega fjölskyldu. Fjóra frábæra syni, Dóra, Davíð, Ingva og Jóhann Inga. Þeir eru sko strákar sem við öll hefðum viljað eiga, skemmtilegir, innilegir og ekki síst ... stór myndarlegir. Inga móðir þeirra, elsku Inga sem hefur alltaf tekið mér og fjölskyldu minni opnum örmum. Það vantaði aldrei gestrisnina og umhyggjuna. Við Nigel, Egill, Anna og Henry, vottum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur á þessum sorglegu tímamótum. Þó við séum svona langt í burtu, eruð þið öll í huga okkar og hjarta. Hvíl í friði elsku bróðir.

Björg systir Nýja Sjálandi