Magnús Vagnsson, síldarmatsstjóri

Sjómannablaðið Víkingur - 1951

Magnús Vagnsson, síldarmatsstjóri, lést að heimili sínu á Siglufirði 12. febrúar 1951 og var jarðsunginn þar nyrðra níu dögum síðar.

Með honum er genginn til moldar gagnmerkur maður, sem seint mun gleymast þeim, er kynntust mannkostum hans og starfsferli.

Magnús var Vestfirðingur að ætt og uppruna; fæddur að Leiru í Leirufirði, Jökulfjörðum, 3. maí 1890.

Foreldrar hans voru þau hjónin Tormóna Ebenesersdóttir og Vagn Elíasson sjómaður. Þau eignuðust tvö börn: Vagnfríði, lengst af húsfreyju á Höfðaströnd í Grunnavíkurhreppi, gifta Bæring Einarssyni, nú búsetta í Bolungarvík — og Magnús, sem aðeins var misserisgamall, er faðir hans drukknaði.

Ólst hann eftir það upp með móður sinni einni; fyrst að Dynjanda til 7 eða 8 ára aldurs, en eftir það í Hnífsdal og á Ísafirði. Tormóna var merkileg manneskja. Dugnaður hennar var frábær og lífsgleðin svo djúp og frjó, að hún náði að ylja öðrum um hjartarætur og auka trú á lífið. Hún háði lífsbaráttu sína, með dreginn sinn sér við hlið, af þeim horska sjálfstæðis- og frelsishug, sem henni var svo eiginlegur.

Tormóna var líka ein þeirra 13 kvenna, er fyrstar kynsystra sinna hér á landi, að ég ætla, gerðu verkfall og mörkuðu með því tímamót í frumsögu íslenskrar verklýðsbaráttu. Það var vestur á Ísafirði á fyrsta áratug aldarinnar. Verkfallið varð nokkuð langvinnt og því þungt í skauti fátækri einstæðingsmóður, sem tæplega átti til hníf s og skeiðar, en það er til marks um manndóm Tormónu, að þá greip hún til þess úrræðis að taka sér sleggju í hönd, fara upp í steinauðga hlíðina og mylja grjót, sem hún svo seldi.

Mun slíkt harla óvenjulegt tiltæki, og sennilegt, að ýmsir hafi vart mátt á milli sjá, hvort „kvenlegra" var: verkfallið eða steinhöggið.

Þau mæðginin slitu svo að segja aldrei samvistum. Hann bjó alltaf með henni, þar til hann kvæntist, en hún hjá honum alla stund eftir það.

Tormóna lést á sumardaginn fyrsta 25. apríl 1946, 88 ára að aldri. Allir, sem þekktu Tormónu, dáðust að henni og varð óhjákvæmilega hlýtt til hennar. En hrifnastur var hann, sem þekkti hana best: sonurinn gáfaði og trygglyndi, er hún hafði lifað fyrir og gefið hið óforgengilegasta af auðlegð sinni.

Um fermingaraldur hóf Magnús sjómennsku, sem varð aðalstarf hans framan af og um miðbik ævinnar. Vann hann þó um tveggja og hálfs árs skeið sem lærlingur í fyrstu niðursuðuverksmiðjunni á Íslandi — „Pétursborg" á Ísafirði — og hugði meira að segja til framhaldsnáms erlendis, þótt atvikin höguðu því þannig, að ekkert yrði úr.

Gerðist hann um tvítugsaldur háseti á norskum línuveiðara og fór með honum til Noregs, fyrst og fremst með iðnnámið fyrir augum. Skömmu eftir heimkomuna tók Magnús á Ísafirði „pungaprófið" svokallaða, en árið 1917 lauk hann fiskiskipstjóraprófi hinu meira við Sjómannaskólann í Reykjavík. Var hann fyrst stýrimaður m. a. hjá hinum fræga og fengsæla skipstjóra Karli Löve, sem Magnús dáði mjög og taldi „tvímælalaust mesta skipstjóra, sem þá var uppi". (Karl er enn á lífi hér í Reykjavík, hálfáttræður að aldri).

Fljótlega varð hann svo skipstjóri sjálfur og sótti skip til útlanda, m. a. „Kára" árið 1915, sem hann átti að einum fjórða, en það var sú fleytan, sem hann mun lengst hafa stjórnað og honum þótti vænst um. Er vísa þessi úr gömlum formannabrag frá Ísafirði:

  • „Þó að báran brjóti í höfn
  • og boði fárið leiða,
  •  Magnús „Kára" á djúpa Dröfn
  • drífur knár til veiða".

Magnús stundaði svo sjómennsku sem skipstjóri af og til fram undir fertugsaldur, síðast á línuveiðaranum „Anders", sem hann sótti út til Svíþjóðar fyrir Óskar Halldórsson. Stundum frá árinu 1924 var hann þó verkstjóri og síldarsöltunar eftirlitsmaður, annaðist hrognakaup o. fl. fyrir sama mann.

Hinn 4. júlí 1919 kvæntist Magnús eftirlifandi konu sinni Valgerði, dóttur Ólafs Theódórs Guðmundssonar byggingameistara í Reykjavík og fyrri konu hans H61mfríðar Pétursdóttur.

Börn Magnúsar voru sjö:

  • Bragi Magnússon, lögregluþjónn á Siglufirði, sem hann átti fyrir giftingu með Jóhönnu ljósmóður Jónsdóttur dýralæknis Þórðarsonar —

og hjónabandsbörnin

  • Hólmfríður Magnúsdóttir,
  • Pétur Ólafur Magnússon,
  • Vigdís Valgerður Magnúsdóttir og
  • Guðrún Magnúsdóttir —

Öll á Siglufirði, eftir því, sem ég best veit, tvö ennþá í foreldrahúsum —
Sigríður, sem dó í æskubernsku og
Magnús, er lést 15. apríl 1946 — 10 dögum fyrir lát ömmu sinnar — aðeins 16 ára gamall, mesti efnispiltur.

Voru erfiðir dagar hjá Valgerði og dapurleg heimkoma hjá Magnúsi þá um vorið, en hann hafði dvalið erlendis, svo sem oft endranær, er báðir þessir atburðir gerðust. Hann var hinn umhyggjusamasti heimilisfaðir og fundu börn hans vel, hvern félaga og vin þau áttu í honum.

Fyrr á árum tók Magnús drjúgan þátt í opinberum málum á Ísafirði, skrifaði greinar, talaði á fundum og var ofarlega á framboðslistum við bæjarstjórnarkosningar. Á þeim baráttuárum var mörgum áhugamanninum heitt í hamsi, og það átti áreiðanlega ekki við skapferli og gáfur Magnúsar að sitja hjá.

Hann var róttækur jafnaðarmaður alla tíð; lengst af í Alþýðuflokknum. En svo skapmikill og herskár, sem hann var að eðlisfari, reyndist þó drengskapurinn og hreinskilinn alltaf öllu öðru sterkara. Það brást aldrei. Man ég mörg dæmi þess síðar, að þá er samherjar hans stundum gerðu harða hríð að fjarstöddum andstæðingum og þótt þeir segðu e.t.v. ekki aukatekið orð umfram það, sem hann sjálfur hugsaði og myndi hafa mælt ófeiminn og eftirminnilega upp í opið geðið á þeim — reis hann til varnar og dró fram sjónarmið mótherjanna.

Og þetta gerði hann svo heils hugar, að taka varð tillit til. Það var ekki til að sýnast, og gilti viðvíkjandi hvaða ágreiningsmálum sem var. Á síðari árum stóð Magnús framarlega í ýmsum félagssamtökum á Siglufirði og átti beinlínis frumkvæði að stofnun eða endurreisn sumra.

Þannig var hann formaður Byggingarsamvinnufélagsins þar á staðnum, ritari Slysavarnadeildarinnar, skipstjórafélagsins „Ægis", og Rotaryklúbbsins um tíma, og gjaldkeri Sjómannadagsráðsins þar um margra ára skeið. Þá var hann og áhugasamur kaupfélagsmaður og trúði á heilbrigðan mátt samvinnusamtakanna, svo langt sem honum fannst þau ná. Magnús var ágætur félagsmaður, að vísu í frekara lagi gagnrýninn, fannst sumum, en glöggskyggn, ósérhlífinn og áhugasamur, vel máli farinn og prýðilega ritfær. Hann vildi alltaf láta eitthvað gerast.

Alþingishátiðarárið gerðist Magnús starfsmaður Síldareinkasölu ríkisins. Árið eftir flutti hann atvinnu sinnar vegna búferlum frá Reykjavík til Akureyrar fyrst, en síðar til Siglufjarðar 1934. Má segja, að þá fyrst hafi hann fyrir alvöru sveigst inn á það verksvið, sem hans mun lengst minnst í sambandi við.

Eftir að einkasalan var lögð niður, annaðist Magnús síldarverkun fyrir ýmsa stærstu síldarsaltendur, svo sem t. d. Ingvar Guðjónsson og Kaupfélag Eyfirðinga, annað hvort sem verkstjóri eða eftirlitsmaður.
Skömmu eftir að Síldarútvegsnefnd tók til starfa á miðju ári 1935, réðist hann svo til hennar og hafði með höndum eftirlit með matjessíldarsðltun aðallega og yfirtöku erlendra síldarkaupenda á þeirri vörutegund.

Fór honum allt það mætavel úr hendi og hélt hann þeim starfa til ársins 1938 að Síldarmat* ríkisins var stofnað, en þá varð hann síldarmatsstjóri og gegndi þeirri þýðingarmiklu stöðu til dauðadags. En Magnús átti merkilegan þátt í undirbúningi hins nýja embættis og í hans hlut féll einnig að bera hitann og þungann af framkvæmd viðkomandi landslaga, sem vissulega voru þá mjög umdeild og snertu ýmsa á mjög svo viðkvæman hátt.

Þar var því ábyrgðarmikið vandaverk að vinna. Persónuleg kynni okkar Magnúsar hófust ekki fyrr en við vorum báðir starfsmenn Síldarútvegsnefndar. En frá þeim tíma fylgdist ég vel með störfum hans og þykist nokkuð geta um þau borið. Það sýnir vel, hvernig Magnús skildi og tók hlutverk sitt, að á meðan hann enn var hjá Síldarútvegsnefnd og á fyrstu árum Síldarmatsins, tók hann sér fyrir hendur margháttaða forystu í síldverkunarmálunum, sumpart algerlega fyrir utan það, sem trúnaður hans og embættisskylda kröfðu.

Þá stofnaði hann Landssamband síldarverkunarmanna, gerðist aðalhvatamaður að útgáfu blaðsins „Síldin", sem einkum átti að ræða síldverkunarmál, og skrifaði „Handbók síldverkunarmanna", er prentuð var sem handrit 1939, en áður og samtímis veitti hann forstöðu námskeiðum fyrir eftirlitsmenn við síldverkun. Enginn værukær embættismaður, sem launin eru aðalatriðið, hefði lagt á sig það mikla erfiði, sem allt þetta kostaði.

En Magnúsi var ljúft og létt hvert spor, sem lá að því takmarki að hefja síldverkun landsmanna á hærra stig. Það var honum kært hugsjónamál, og á því sviði var honum ekkert óviðkomandi. Með eigin breytni sem síldverkunarmaður, trúnaðarmaður Síldarútvegsnefndar, síldarmatsstjóri og síðast en ekki síst sem áhuga- og hugsjónamaður, hefur Magnús innt af höndum merkilegt og erfitt brautryðjandastarf, er mun seint verða metið sem vert er.

Viðvíkjandi þessum málum voru menn löngum ekki á eitt sáttir, að ekki sé dýpra tekið í árinni, en með einstæðum hæfileikum sínum, víðsýni og með fádæma viljaþreki tókst Magnúsi að sigla þessum viðsjárverðu málum heilum í höfn, þannig, að andófsraddirnar hafa nú flestar eða allar þagnað hér innanlands, og tiltrú erlendra síldarkaupenda, sem til þekktu, var fljótt slík, að þeir í mörgum tilfellum þorðu óhræddir að kaupa síldarframleiðslu okkar óséða fyrir milljónir króna samkvæmt gæðaflokkun og mati embættis Magnúsar.

Er það að mínum dómi einn mesti sigur íslenskrar vöruvöndunar og viðskiptasiðgæðis á þessu sviði, unninn við erfiða aðstöðu, og hlýtur að verða skráður gullnu letri í sögu útflutningsframleiðslu þjóðarinnar. Þarna vann Magnús — að vísu með þýðingarmikilli samvinnu við ýmsa góða forvígismenn síldarútvegsmálanna, en líka, og því má ekki gleyma, í fullkominni óþökk og andstöðu margra — stórkostlegt afrek, sem honum var aldrei full þakkað í lifandi lífi, en ætti a. m. k. að viðurkennast að honum látnum. Við vitum nú, hvað Magnús gerði, en ekki hvað það kostaði hann. Ég man hann í styrnum, einbeittan, viljafastan og óhvikulan, enda þótt hann gengi e. t. v. sjaldnast heill til skógar. Hann þótti þá oft viðskotaillur og þver.

Ýmsir kveinkuðu sér og dómarnir voru ekki alltaf sem elskulegastir. En hafi Magnús einstaka sinnum verið svalari en nauðsyn krafði, hygg ég að þar hafi þá verið um að ræða álíka „frostrósir" og Bjarni Thorarensen talar svo meistaralega um í eftirmælum Odds Hjaltalín. Magnús missti aldrei sjónar af settu marki og karlmennska hans var slík, að hann kaus heldur að verða skotspónn, jafnvel eitraðra örva, heldur en að víkja hársbreidd frá því, sem hann vissi sannast og réttast og áleit þjóðárarnauðsyn.

Þessi fátæklegu orð mín eru þegar orðin fleiri en ég bjóst við í upphafi, en þó ekki nema lítið brot þess, sem á leitar, þegar nú hugurinn hvarflar til Magnúsar Vagnssonar að honum öllum. Þá langar mig til að minnast þess að lokum, hve skemmtilegur og góður félagi hann var; fjölfróður, víðlesinn, notalega kíminn og leikandi hagmæltur — hrókur alls fagnaðar í glöðum hóp.

Frásagnarhæfileiki hans var ljómandi; málið oft mergjað og litauðugt og stundum eilítið forneskjulegt, þegar hann brá slíku fyrir sig til gamans, og finnst mér nú, er ég eftir á hugsa til þess sérstaklega, sem hann á sínum betu stundum hafi átt skilið hina klassísku lýsingu Einars Benediktssonar:  „ . . . þínar sögur, þín svör voru sjóir með hrynjandi trafi".—
Vinátta Magnúsar var traust og sönn, og hann var sá vinur, sem til vamms sagði. Um hvort tveggja þetta get ég persónulega borið af eigin raun.

Ég kveð þennan ágæta vin minn og mæta mann með þökk og virðingu. Og ég óska honum unaðslegrar hvíldar eftir erilsaman dag.
Baldvin Þ. Kristjánsson.
-----------------------------------

Mjölnir - 07. mars 1951

Hinn 12. febr. 1951. andaðist að heimili sínu einn af merkustu borgurum þessa bæjar, Magnús Vagnsson, síldarmatsstjóri, eftir alllanga vanheilsu. Magnús Vagnsson fæddist að Leiru í Furufirði 3. maí 1891. Faðir hans, Vagn Elíasson drukknaði, þegar Magnús var á fyrsta ári. Eftir það ólst hann upp með móður sinni, Tormónu Ebeneserdóttur. Vann móður hans fyrir honum meðan hann var á barnsaldri, en naut síðar hjá honum og konu hans í elli sinni. , :

Strax um fermingaraldur byrjaði Magnús að stunda sjómennsku. Hann lauk fiskimannaprófi frá Stýrimannaskólanum 1917, en hafði áður verið skipstjóri nokkur ár. Hafði hann síðan á hendi skipstjórn um langt skeið bæði á eigin skipum og á annarra útgerð, uns hann varð að hætta sjómennsku vegna heilsu brests árið 1930. Etir það gerðist hann starfs maður Síldareinkasölu ríkisins þar til hún var lögð niður.

Starfaði síðan við síldverkun í landi, en árið 1938, þegar Síldarmat ríkisins var stofnað, varð hann síldarmatsstjóri og gegndi því starfi til dauðadags. Árið 1919 kvæntist Magnús eftirlifandi konu sinni Valgerði Ólafsdóttur, hinni ágætustu konu. Valgerður er ættuð úr Reykjavík. Bjuggu þau fyrst á Ísafirði, en fluttust til Reykjavíkur 1925 og þaðan til Akureyrar 1931.

Til Siglufjarðar fluttust þau hjón 1934 og hafa búið hér síðan. Þau eignuðust 6 börn og eru fjögur þeirra á lífi, en auk þess eignaðist Magnús einn son áður en hann kvæntist. Slík er ævisaga Magnúsar sögð í fáum orðum, en sú saga Segir fátt eitt af manninum, högum hans og lífi. 1 æsku mun hugur Magnúsar hafa staðið til að mennta, en sú leið mun hafa verið lokuð vegna fátæktar, þó tókst honum að brjóta sér leið með dugnaði og viljafestu til manndóms og frama, en ekki til auðs, enda mun það aldrei hafa verið takmark hans. Hann varð þó ágætlega menntaður á mörgum sviðum og hafði frábæra þekkingu á starfi sínu. Eins og fyrr er sagt byrjaði hann snemma að vinna fyrir sér. Hann vann hörðum höndum meðan heilsan entist og stæltist við erfiðleikana, en guggnaði aldrei.

Magnús var svipmikill og höfðinglegur, bæði í sjón og f asi, og vakti hvarvetna athygli þar sem hann fór. Ágætur félagsmaður var hann bæði í samtökum stéttar sinnar, Slysavarnarfél. og víðar. Jafnframt var hann þó laus við að ota sjálfum sér fram fyrir aðra, en var skörungur, þar sem hann hlutaðist til um, enda tók hann ógjarna að sér nokkurt starf, hvorki í félagsskap eða annarstaðar, nema hann væri viss um að hann gæti leyst það af hendi svo vel að betur yrði ekki gert.

Honum mátti því ævinlega treysta til hvers þess starfs, sem hann tók að sér af fúsum vilja. Merkasti þáttur í starfi Magnúsar mun þó hafa verið síldarmatið. Það hóf. hann sem braut ryðjandi og var óþreytandi í því að vinna að bættri verkun saltsíldar til hagsbótar fyrir þennan atvinnuveg og aukinnar virðingar fyrir íslenska framleiðslu erlendis. Magnús var gáfumaður glöggþekkinn og skarpskyggn. Stálminnugur og fróður um margt.

Skýr og skörulegur ræðumaður á opinberum vettvangi, en fyndinn og gamansamur í vinahópi og kunningja. Það er mikil eftirsjá og söknuður að slíkum mönnum, sem Magnúsi Vagnsyni. Hann féll í valinn aðeins sextugur að aldri og hefði eflaust ennþá unnið giftudrúgt starf hefði líf og heilsa ekki brugðist. En það var ekki venja hans að sýta, eða bera tilfinningar sínar á torg, til þess var hann of heilbrigður og heilsteyptur maður. Ég vil því Ijúka þessum línum með því að óska þess að þjóð vor mætti eignast, sem flesta kjarngóða kostakvisti sem hann var.

Hlöðver Sigurðsson
---------------------------------------  

Siglfirðingur - 24. febrúar 1951 MINNINGARORР

Magnús Vagnsson var fæddur að Leirum í Grunnavíkurhreppi við Ísafjarðardjúp 3. maí 1890. Dáinn 

Ekki er þeim sem línur þessar ritar kunnugt um ætt hans, en þó renna nokkrar stoðir undir þá tilgátu, að hann hafi verið afkomandi hins nafnkunna manns, Vagns frá Dynjanda, eða af sömu ætt, en um Vagn þann hefir myndast grúi þjóðsagna, sérstaklega um skotfimi hans og aflabrögð, og er nokkuð af þeim prentað. Þar við Ísafjarðardjúp mun Magnús hafa alist upp, en tekið snemma að stunda sjó, fyrst á opnum bátum, en síðar á vélskipum, og minnir mig að Magnús segði mér eitt sinn, að hann hefði verið allmörg ár á skipum Magnúsar Thorbergs, er þá rak mikla útgerð frá Ísafirði, og að það hefði verið fyrir áeggjan og atbeina Thorbergs, að hann réðist í það um tvítugsaldurinn, að nema sjómannafræði.

Gekk Magnúsi námskeiðið vel og tók eftir skamman tíma gott próf, fékk strax skip og var í mörg ár skipstjóri á síldveiðum hér og þorskveiðum frá Ísafirði, og lánaðist honum skipstjórnin mjög vel. Um 1930 hætti hann skipsstjórn og réðist þá bryggjuformaður í Bakka hjá. Óskari Halldórssyni, og síðar á Roaldsstöðinni hjá Morten Ottesen. Árið 1934 fluttist Magnús alfarin hingað til Siglufjarðar með fjölskyldu sína, og hefur búið hér ávallt síðan.

Hann var skipaður síldarmatsstjóri 1938 og því starfi gegndi hann til dauðadags.

Magnús var kvæntur Valgerði Ólafsdóttur, ættaðri frá Ísafirði, mikilhæfri ágætiskonu. Þeim varð 5 barna auðið og eru 4 þeirra á lífi og öll hér, þar af eru tvær dætur giftar. Einn son eignaðist Magnús, áður en hann kvæntist. Er það Bragi lögregluþjónn hér. Magnús var mikilhæfur maður á marga lund. Hann var prýðisvel greindur og menntaður í góðu lagi. Skemmtinn í tali og spaugsamur og oft manna orðheppnastur.

Magnús var með stærri mönnum á vöxt og karlmenni að burðum. Sálarþrek hans var meira en flestra annara sem ég hefi kynnst, sem sýndi sig best í hinum löngu og kvalafullu veikindum hans. Hann vissi vel að hverju dró í þeim efnum, en langt var frá því að hann nokkru sinni mælti æðruorð, heldur hafði hann oftast spaug og hnyttni í tilsvör á reiðum höndum við kunningja sína. Magnús var einlægur trúmaður en þó grunar mig að hann hafi eigi fylgt að öllu margtroðinni sporaslóð forfeðra sinna í þeim efnum, því hann las mikið og las bækur með athygli og umþenkingu og hafði gagn af þeim.

Starf sitt rækti Magnús af miklum áhuga og mun óefað hafa á því sviði unnið mikið gagn. Magnús og börn hans byggðu sér hér traust og myndarlegt steinhús við Hvanneyrarbraut 44 og hafa búið þar síðustu árin. Magnús var trygglyndur. Við þá sem hann festi vináttu, hélt hann henni, en hann var ekki allra vinur. Hinsvegar vissi ég ekki til þess að Magnús ætti nokkra óvildarmenn. Olli það um miklu hreinlyndi hans og hreinskiptni í hverju því, er hann hafði saman við menn að sælda. Það er mikið skarð orðið fyrir skyldi við fráfall Magnúsar, ekki síst fyrir okkur hina eldri vini hans, samstarfsmenn og kunningja.

Við kveðjum hann nú að leiðarlokum með þökk fyrir starf hans, þökk fyrir margar ánægjulegar samverustundir. Þökk fyrir öll hnyttin tilsvörin og græskulausa gamanspjallið. Og við óskum þess að verndarvættir lands vors og þjóðar vaki yfir ástvinum þínum og annist hagsæld þeirra, jafnframt og við biðjum hin góðu goðmögn að annast um hagsæld þína á landinu sem þú nú hefur numið handan við móðuna miklu, sem skilur heimana tvo.
Jón Jóhannesson.
--------------------------------------------------

Einherji 3. apríl 1951

Magnús Vagnsson er dáinn. — Hann var Vestfirðingur. Þar fæddist hann, þar ólst hann upp og mótaðist, og þar starfaði hann í landi og á sjó meginhluta æfi sinnar. Magnús flutti til Siglufjarðar ásamt fjölskyldu sinni árið 1934. Magnús gerðist brátt góður Siglfirðingur, en jafnhliða hélt hann áfram að vera góður og sannur Vestfirðingur. Hann var einn allra fremsti forystumaður félagssamtaka Vestfirðinga hér í bæ.

Hvatámaður að stofnun félags okkar og í fyrstu stjórn þess. Magnús var mörg ár formaður Vestfirðingafélagsins og lífið og sálin í starfi þess og framkvæmdum. Það var ánægjulegt að starfa með Magnúsi. Á fundum félags okkar var hann kátur og skemmtilegur. Hann kunni frá mörgu að segja, og honum var lagið að segja vel frá. Magnús stundaði sjó mennsku vestra langa hríð, og var skipstjóri árum saman. Frá þessu tímabili æfi sinnar kunni hann frá mörgu sérkennilegu að segja, mönnum og atvikum, sem fátíð eru nú vegna breyttra atvinnuskilyrða og uppeldis- og lifnaðarhátta.

Eftir að Magnús fluttist hingað stundaði hann ekki sjómennsku. En samt má segja, að hann hafi alltaf verið á sjónum. Honum var einkar hugleikin öll mál sjávarútvegsins og sjómanna, og á sjónum var hugur hans, þótt sjálfur væri hann í landi. Sjómannadagurinn var dagur Magnúsar Vagnssonar; þá hátíð var honum ljúft að halda. Þann dag vildi hann nota sem best til að vekja athygli allra á nauðsyn þess, að vel sé að íslenskri sjómannastétt búið, ,bæði að kjörum og atvinnuöryggi. Með starfi sínu sem síldarmatsstjóri ríkisins var Magnús fyrst og fremst að vinna að hagsmunum sjávarútvegsins.

Hann vildi, að síldin væri sem allra best verkuð. Hann var vandlátur, og stundum munu útflytjendur jafnvel hafa talið hann óþarflega strangan. — Starf Magnúsar í embætti var brautryðjendastarf og því á margan hátt erfitt og vandasamt; I nokkur ár var rætt um það innan félags okkar að hefja skógrækt. Sjónarmið manna voru misjöfn í því máli. Magnús tók oft þátt í þessum umræðum og þar kom það fram, að hann var stórhuga. Hann vildi rækta skóg. —

Ekki nokkur tré, heldur miklu meira. 'Hann trúði því, að ef rétt væri að unnið og ef þolinmæði og þrautseigja væri fyrir hendi mætti auðveldlega takast að rækta hér reglulegan nytjaskóg. Vestfirðingafélagið lagði síðan í að koma upp dálitlum skógarlundi. Tvö síðastliðin sumur vann Magnús að því með okkur af alúð og áhuga að gróðursetja og hlúa að ungviði í okkar litla reit. Magnús er dáinn, hann er horfinn félagssamtökum okkar og öllum sínum ástvinum og að vori verður hann ekki í hópi okkar við ræktunarstörfin. —

Við munum sakna hans. Vestfirðingur

Hjónin Valgerður Ólafsdóttir og Magnús Vagnsson

Hjónin Valgerður Ólafsdóttir og Magnús Vagnsson