Anna Svanmunda Vignisdóttir

mbl.is 8. maí 2021 | Minningargrein

Anna Vignis fæddist 16. ágúst 1935. Hún lést 29. júlí 2019.

Útför Önnu fór fram 9. ágúst 2019.

Ég vil minnast minnar kæru systur, Önnu Svanmundu Vignisdóttur, sem fæddist í Sigríðarstaðakoti í Fljótum 16. ágúst 1935. Anna ólst mikið upp hjá afa sínum og ömmu ásamt móður sinni og systkinum hennar, einnig var hún um tíma hjá föður sínum á Siglufirði. Hún var ung þegar hún fór að vinna fyrir sér. Hún fór á vertíð til Eyja og þegar hún kom þaðan gaf hún mér forláta kanínupels sem ég átti lengi, hef verið 4-5 ára og skartaði ég honum á tyllidögum, pelsinn hefur örugglega kostað mikið. Anna stundaði ýmis störf, vann í síld, fiski og við búðarstörf.

Hún vann í litlu búðinni eins og hún var nefnd, þá gaf hún mér oft límband og miða til að skrifa á hvað hlutirnir kostuðu því ég var í búðarleik uppi á lofti heima hjá mér og ætlaði að verða búðarkona eins og systir mín. Eftir að hún hætti að vinna fór nánast allur tíminn í bútasaum sem hún var svakalega flink við, hún gerði svuntu á mömmu okkar sem var blómum skrýdd og einnig gaf hún pabba svuntu sem á voru tunnur því pabbi vann í tunnuverksmiðjunni og var það við hæfi.

Anna Vignis  - ókunnur ljósmyndari

Anna Vignis - ókunnur ljósmyndari

Hún prjónaði líka mikið. Hún var mikil blómakona, mamma okkar var það líka eins og dætur hennar. Hún gaf mér forláta teppi þegar ég varð fimmtug. Við hringdum alltaf hvor í aðra af og til. Hún hringdi í mig 2019 í júlí til að láta mig vita að hún væri að fara á sjúkrahúsið á Akureyri, við áttum íbúð pantaða á þessum tíma og gátum við hjónin heimsótt hana á sjúkrahúsið. Ég hélt hún myndi hafa það af en hún var svo veik, ég er þakklát fyrir að hafa getað séð hana og talað við hana. Hún lést 29. júlí, sama dag og pabbi minn. Elsku Anna mín, hvíl í friði, fjölskyldum vil ég senda samúðarkveðjur.

Kristrún Ástvaldsdóttir og fjölskylda.