Guðbrandur Sigfússon (Stóri Brandur)

Siglfirðingur - 24. febrúar 1951  MINNINGARORÐ

Guðbrandur Sigfússon, hann var fæddur í Skarðdalskoti í Siglufirði 12. júlí 1888, sonur hjónanna þar Sigurlaugar Guð brandsdóttur Einarssonar bónda í Saurbæ og Sigfúsar Jóhannssonar frá Kjarna í Eyjafirði.

Eignuðust foreldrar Guðbrandar, 10 mannvænleg börn, 6 dætur og 4 syni, 2 synir þeirra hjóna dóu í æsku og sonur þeirra er Helgi Guðbrandsson hét varð úti ásamt öðrum manni í Siglufjarðarskarði hinn 8. mars 1903, þá 19 ára gamall.

Í þessu sambandi er rétt að geta þess, að fjórði og yngsti sonur þeirra hjóna, Guðbrandur Sigfússon, sá er hér um ræðir, hrapaði síðla vetrar 1899 í hinni svokölluðu Snókshlíð.
Var hann að sækja fé föður síns þangað upp, er óhapp þetta skeði.
Geirlaug systir hans og fleira fólk af bæjunum í kring, sáu ófarir hins unga smalamanns og litu svo á, að þetta hið mikla fall hefði orðið honum að aldurtila.

Svo fór þó ekki, en í þess stað hlaut hann mjög alvarleg meiðsli um allan líkamann og- þó sérstaklega á höfði, að hann varð ekki samur eftir það. Undruðust þeir, er sáu hann hrapa, svo og þeir er fundu hann liggjandi í blóði sínu í fjallshlíðinni, að drengurinn skyldi lifa af slíkt áfall.

Guðbrandur Sigfússon og Sigurður Jóhannsson - Þarna aðeins í kippnum, í olíuporti SHELL -- Mig vantar mynd(ir) af Guðbrandi, á ekki einhver slíka ? sk21@simnet.is

Guðbrandur Sigfússon og Sigurður Jóhannsson - Þarna aðeins í kippnum, í olíuporti SHELL -- Mig vantar mynd(ir) af Guðbrandi, á ekki einhver slíka ? sk21@simnet.is

Föður sinn missti Guðbrandur þegar hann var 12 ára gamall, en dvaldist áfram í föðurhúsum þar til hann var 14 ára, en réðist þá til Páls Kröjers bónda í Efri-Höfn og var þar í nokkur ár, og fluttist þaðan til verslunarstjóra Jóns Guðmundssonar og mun hafa dvalið þar í 5 ár.
Á þessum heimilum ávann hann sér mikið traust og hylli húsbænda sinna fyrir dugnað og trúmennsku.

Hinn 7. júní 1919 kvæntist hann eftirlifandi konu sinni, Guðrún Flóventsdóttir frá Akureyri og eignuðust þau 2 börn, stúlku og pilt, sem bæði eru búsett hér. —

Árið 1922 fluttu þau hjón til Akureyrar og áttu þar heima í 2 ár, en flytja þá hingað aftur og byggðu hús við Hvanneyrarbraut 22 og hafa ávallt búið þar síðan með hinum mesta myndarbrag, því Guðbrandur var ötull og umhyggjusamur heimilisfaðir, og kona hans þrifin og dugleg húsmóðir, svo heimilið var ávallt hið myndarlegasta og bar þeim hjónum öruggt vitni.

Árið 1929 stofnuðu nokkrir dugnaðarmenn með sér félagsskap, er hlaut nafnið „Losunar og lestarfélag." Var Guðbrandur .einn af stofnendunum og starfaði í félagi þessu í 19 ár. Auk þess stundaði hann búskap nokkuð, átti alltaf almargar kindur og 1 hest. Hirti hann skepnur sínar sjálfur og taldi sig hafa af slíku starfi bæði ánægju og dægradvöl, því Guðbrandur kunni því illa að hafa ekki einhver störf með hönd um, enda af því bergi brotin, því mér er tjáð að foreldrar hans hafi verið óvenjulega vinnugefin og dugleg við öll verk, og faðir hans hafi verið mjög eftirsóttur til sjós vegna dugnaðar og sjómennskuhæfileika. Þrátt fyrir hin miklu meiðsli er Guðbrandur hlaut 10 ára gamall og áður getur um, óx hann og dafnaði með ágætum.

Hann mun hafa verið 185 sm hár og gildur að því skapi, flestum mönnum þrekmeiri og til marks um það má taka fram, að þegar hann byggði hús sitt, þá bar hann á bakinu mest allan sand er hann þurfti til byggingarinnar, úr Hvanneyrarkrók og heim til sín, sem er all löng leið og hafði þetta sem aukaverk, því allan hinn vana lega vinnudag vann hann við byggingu Dr. Paul-verksmiðjunnar hér.

Að lokum þetta: Guðbrandur var greiðvikin og hjálpsamur við samborgara sína, orðheldinn og áreiðanlegur í öllum viðskiptum; hélt fast við gamla siði og venjur, þó engin væri hann öfgamaður í því efni.
Hann var allmikill alvöru maður og trúmaður í besta lagi. Hann var gamansamur og glaðvær hversdagslega, og í góðum félagsskap var hann hrókur alls fagnaðar og neytti gæða lífsins með dugnaði og skörungsskap, eins og allt annað er hann gekk að. Hann ávann sér traust og vinsælda allra þeirra er af honum höfðu einhver kynni og þeir voru margir. Hann var hreinlyndur drengskaparmaður.

Nú er þessi ágæti samferðamaður horfinn úr hópi vina og vanda manna og finnst mörgum áreiðanlega vera skarð fyrir skyldi og rúm það er hann sat, vera að ýmsu leyti vandfyllt. Hann andaðist að heimili sínu hér í bæ þann 10. febrúar og var jarðsettur þann 20. þ.m., að viðstöddu fjölmenni. Sjálfur þakka ég hinum látna vini mínum fyrir langan einlægan vinskap — og óska honum bestu fararheilla.

Siglufirði, 23/2 1951 Þorsteinn Pétursson
---------------------------------------------------------

Neisti - 16. febrúar 1951

Þann 10. 1951. andaðist Guðbrandur Sigfússon, Hvanneyrarbraut 21c h/r í bæ. Guðbrandur heitinn var innfæddur Siglfirðingur, fæddur 12. júlí 1888, og öllum bæjarbúum að góðu kunnur, enda munu þeir fáir Siglfirðingarnir, sem ekki töldu sig  góðan vin hans. — Hann var annálaður þrek- og dugnaðarmaður og  drengskaparmaður í raun. Guðbrandur átti við mikla vanheilsu að stríða síðastliðið ár, en þá byrði bar hann með sama þrekinu og aðrar byrðar lífsins. Blessuð sé minning þessara látnu, mætu manna
----------------------------------------------------------

Einherji - 1951

Guðbrandur Sigfússon, Hinn 10. febr. 1951 andaðist að heimili sínu hér í bæ einn af vinsælustu borgurum Siglufjarðar, Guðbrandur Sigfússon. Guðbrandur var fæddur í Skarðdalskoti á Siglufirði 12. júlí 1888, sonur hjónanna Sigurlaugar Guðbrandsdóttur og Sigfúsar Jóhannssonar frá Kjarna í Eyjafirði. Guðbrandur dvaldi í föðurgarði til 14 ára aldurs, en þá réðist hann til Páls Kröjers, bónda í Efri-Höfn og dvaldi þar nokkur ár.

Hinn 7. júní 1919 gekk Guðbrandur að eiga eftirlifandi konu sína, Guðrúnu Flóventsdóttur frá Akureyri. Eignuðust þau 2 börn,
Sigurlaug Guðbrandsdóttir og
Ólafur Guðbrandsson, sem bæði eru búsett hér.

Laust eftir 1920 byggði Guðbrandur hús sitt við Þormóðsgötu 22 og bjó þar ætíð síðan. Guðbrandur hefur alið allan sinn aldur hér í Siglufirði, að undanskildum 2 árum, er þau hjónin voru búsett á Akureyri.

Siglfirðingar þekktu því Guðbrand vel, enda var honum gott til vina. Hann var glaður og hress í tali, hjálpsamur, greiðvikinn og góður starfsbróðir. Afkastamaður mikill var hann til 'allrar vinnu, gekk heill og óskiptur að starfi, og skilaði jafnan góðu dagsverki. Guðbrandur var einn af stofnendum Losunar- og lestunarfélagsins hér í bæ og starfaði við losun og lestun skipa í nærfellt 20 ár.

Alstaðar var Guðbrandur eftirsóttur sem vinnufélagi, bæði vegna dugnaðar og ósérplægni, og þá líka vegna vinnugleði sinnar og gamanyrða, er jafnvel stundum gat gert stritið að leik með glöðum félögum. Allir sem kynntust Guðbrandi vel fundu, að þar var góður drengur, dugmikill maður og sannur vinur á ferð. Hinir mörgu vinir og kunningjar Guðbrands sakna drengskaparmanns, er flust hefur yfir sundið mikla á ströndina, sem bíður og aldrei f yllist. Um leið og ég þakka Guðbrandi góð kynni, óska ég honum fararheilla til fyrirheitna landsins.
Ragnar Jóhannesson.
----------------------------------------------------------

Ég undirritaður, man ég eftir þessum góða manni, sem var barngóður og þægilegum í viðmóti.
Oft á vetrum (um tvö ár að minnsta kosti, 1946 +/-) hafði hann að aukastarfi (?) að keyra út kolum til íbúa í Norðurbænum, þar með að heimili mínu við Mjóstræti 1 á Siglufirði.

Oft fengum við, sumir krakkanna, einnig stelpur, ma. Anna Karlsdóttir einn af vinum mínum, að taka í tauma hestsins sem dró nokkuð stóran sleða, oft vel lestuðum kolapokum, frá kolaafgreiðslu Kaupfélagsins sem var staðsett nánast á sama stað og Rarik er staðsett í dag með spennistöð við Norðanverða Norðurgötu.

Síðan var stoppað við flest hús í Norðurbænum, Brandur tók pokana og losaði í kolageymslur viðkomandi húsa. Stundum var það aðeins einn poki á einstaka hús, en yfirleitt nokkrir pokarí hvert hús, poka sem hann setti á bakið, stundum jafnvel tvo poka þegar hann var að flýta sér (um 50 kg. af kolum í hverjum poka) -

Hann átti það til karlinn að vera ofurlítið blautur stundum, og fyrir kom að hann dottaði í sleðanum á leiðinni á milli hús,a og þurfti ég þá að ýta aðeins í hann.

Góðar minningar um góðan mann.

Skrifað árið 2021. Steingrímur Kristinsson.