Guðmundur Sigurðsson kennari

Mjölnir - 07. mars 1951    Minning

Guðmundur Sigurðsson  Þann 1. febrúar 1951 lést að heimili sínu, Lækjargötu 8, Siglufirði. eftir þunga og alllanga legu.

Guðmundur var fæddur 25. mars 1871 á Hesteyri í Jökulfjörðum, en þar bjuggu foreldrar hans þá, en fluttu skömmu síðar að Látrum í Aðalvík, og þar ólst Guðmundur upp hjá foreldrum sínum. Snemma leitaði hugur hans til meira náms og menntunar, er þá var títt um börn alþýðunnar. Þótt fjárhagurinn væri þröngur réðist hann samt í að fara í búnaðarskólann í Ólafsdal, og lauk þar búfræðingsprófi 1897. En ekki þótti honum þetta næg menntun handa sér, og nokkru síðar gerði hann för sína í annað sinn að heiman til náms, og fór þá í Fensborgarskólann í Hafnarfirði og lauk þaðan kennaraprófi 1901.

Strax og Guðmundur kom frá Ólafsdal hóf hann kennslustörf og það varð að ýmsu leyti hans aðal lífsstarf, því í fimmtíu ár stundaði hann alltaf kennslu meira og minna, og mér er kunnugt um, að hann átti og á mikil ítök í þessum sínum mörgu nemendum, og ég held, að allir minnast þeir Guðmunds með virðingu og þakklæti, enda geta engir, er hann þekktu í raun og veru, hugsað til hans öðruvísi.

Er Guðmundur hafði lokið námi, er hann vafalaust stundaði til þess að geta orðið sér og sínum og svo héraði sínu, til meira gagns, hóf hann umbótastörf þar heima. Hann barðist fyrir stofnun og byggingu barnaskóla í Aðalvík, og fékk því máli farsællega komið í höfn, þótt á stundum væri við ramman reip að draga. En margt lét Guðmundi betur en það að gefast upp við að koma áhugamálum sínum í höfn.

Heima í héraði hlóðust á Guðmund ýmis trúnaðarstörf, eins og eðlilegt var. Lengst af var hann í skólanefnd og form. hennar, lengi í hreppsnefnd og um árabil sýslunefndarmaður hrepps síns. En oft stóð um hann styr, en svo er löngum um þá, er eitthvað eru á undan sinni samtíð, en það var Guðmundur alltaf, heima í sínu héraði.  Ennfremur rak Guðmundur verslun og útgerð í Aðalvík um 15—20 ára. skeið, en honum var annað betur lagið en það, að hagnast fjárhagslega á við-. skiptunum við náungann.

Árið 1903 giftist Guðmundur eftirlifandi konu sinni, Pálínu Hannesdóttur og eignuðust þau 8 börn.  Þrjú dóu ung. Það er missir og hann sár. En þau hjón áttu eftir að reyna meira. 1939 missa þau son sinn Guðmund, þá 35 ára, efnilegan atorkumann.

Árið 1949, á nýársdag, deyr dóttir þeirra Ásgerður, þá 34 ára, eftir miklar sjúkdómsþrautir, en þó mikið starf og mikið nám, í því augnamiði að ná meiri árangri í því starfi, er hún hugði gera sér að lífsstarfi. En skammt er stórra högga á milli. Haustið 1950 sækir svo dauðinn heim sjötta barn þeirra hjóna, Jórunni kennara, en hana og störf hennar þekkja allflestir Siglfirðingar. Margur hefur látið undan síga fyrir minni áverka en þessum.

Það er erfitt nær áttræðum manni að ganga á eftir tveim uppkomnum börnum til grafar og vera sjálfur þrotinn Iíkamsþreki.  En þetta gerði Guðmundur með karlmennskuhug þess manns sem hugsar sem svo: Aldrei að gefast upp ! En ekki eru léttari sporin fyrir eiginkonu, sem orðið hefir áður að sjá á eftir 6 börnum að ganga svo á eftir eiginmanni sínum til hinstu hvíldar, en þar sýndi hún sama þrekið eins og alltaf áður, ísambúðinni við bónda sinn, þegar eitthvað reyndi á.

Guðmundur og Pálína fluttust hingað til Siglufjarðar árið 1923 og bjuggu hér eftir það.

Guðmundur var nemandi tveggja skólastjóra, er alla tíð verða taldir til öndvegismanna í uppeldismálum íslensku þjóðarinnar, þeir voru forvígismenn skólamálanna þegar þau voru fyrst að verða raunverulegur þáttur í menntun hennar og menningu. Báðir þessir menn, Torfi í Ólafsdal og Ögmundur í Flensborg, voru af öllum reyndir og þekktir drengskaparmenn, og engan hef ég heyrt segja um þá hnjóðsyrði.

Guðmundur Sigurðsson var í lífi sínu og starfi, þeim báðum til sóma. Það er erfit mál að minnast góðs vinar þá genginn er. Að síðustu þakka ég þér fyrir allt, og ekki síst fyrir allan fróðleikinn, er þú lést mér í té, og mörgum öðrum.

Vertu sæll. Vinir þig geymi.

R. G.