Sigurgeir Jósefsson vélstjóri, skipstjóri

Morgunblaðið - 06. mars 1984  Minning

Sigurgeir Jósefsson, f. 22. janúar 1909, d. 21. febrúar 1984

Sigurgeir Jósefsson lést á Hrafnistu í Reykjavík 21. febrúar 1984. Jarðarförin fer fram í Siglufjarðarkirkju mánudaginn 27.febrúarkl. 14

Sigurgeir Jósefsson —  Það verður enginn héraðsbrestur, þótt gamall sjómaður á Hrafnistu, taki jarðlífspokann sinn og leggi upp í þessa löngu sjóferð á eilífðarúthafinu, sem sagt er að bíði manns, þegar ferðavolkinu er lokið hérna megin. Þá er gott að trúa á fagrar strendur með góðri lendingu, líkt og Örn Arnar í kvæðinu um þann fræga sjómann Stjána bláa, en þar telur Örn víst, að enginn minni en drottinn sjálfur standi á ströndu og biði sjómannsins.

Trúlegt er það, að hlýlega sé tekið við sjómönnum, sem koma þreyttir af hafi upp að þessari eilífðarströnd og þeim þá bættur heldur rýr hlutur og harðsóttur í hérvistinni. Það er oft hljótt um gamla  sjómenn i minningaskrifum, fátíð um þá kílómetraskrif. Þetta stafar af því, hversu sjómannslífið er almenningi framandi. Sjómaður verður oft dálítið utangátta í þjóðlífinu. Jafnvel nánir vandamenn þekkja ekki sjómanninn, vegna þess að í landi er hann allur annar en í starfi sínu til sjós.

Sigurgeir Jósefsson  - Ljósmynd: Kristfinnur

Sigurgeir Jósefsson - Ljósmynd: Kristfinnur

Margur sjómaður, sem er harður karl og óvæginn á dekkinu eða í brúnni en spaugsamur í lúkarnum, er máski hinn mesti meinhægðarmaður í landi og heldur fyrirferðarlítill og lítið glensfullur. Það er ekki óalgengt, þegar börnum sjómanna eða konum þeirra eru sagðar sögur af manninum til sjós, að þá komi þeim lýsingin á óvart — ha, átti hann pabbi þetta til. — Börnin hafa aldrei séð pabba bregða skapi, né taka hraustlega til hendi, hvessa róminn eða bregða hart við og ætla ekki að trúa því, að karlinn hafi verið skapmikill og orðhvass og hið mesta hraustmenni og snarmenni.
-----------------------------------------------------

Sigurgeir Jósefsson, sem ég minnist hér nokkrum síðbúnum orðum, var jarðsettur í Siglufirði 27. febrúar, og var dæmigerður sjómaður, að því leyti sem að framan er lýst. Til að kynnast því, hver maður hann var í raun, var nauðsynlegt, að þekkja hann sem sjómann, því að hann var um margt annar maður á sjónum en í landi, en þar var hann heldur fámáll maður og mjög hlédrægur, einkum eftir að aldurinn færðist yfir hann, og það varð ekki séð á þessum kyrrláta manni, að hann hafi verið „eitilharður sjómaður en einnig gamansamur skipsfélagi," eins og maður nokkur orðaði það sem lengi hafði verið Sigurgeiri samtíða til sjós. Sigurgeir fæddist í Lögmannshlíð við Akureyri, 21. janúar 1909.

Foreldrar hans voru hjónin Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir og Jósef ísleifsson, bæði af kunnum eyfirskum bændaættum.

Um sautján ára aldur hleypti Sigurgeir heimdraganum og fór á vertíð til Eyja og eftir það var sjómannsferill hans óslitinn þar til 1965, að hann fór alfarinn í land og fluttist frá Siglufirði, þar sem hann var lengst af búsettur og til Reykjavíkur.

Þar fór hann að vinna í Hampiðjunni og var rúmt sjötugur, þegar hann hætti þar og fluttist á Hrafnistu, þar sem hann lést 21. febrúar. Sigurgeir kvæntist Guðbjörgu Guðjónsdóttur frá Enni í Skagafirði og áttu þau hjón tvo drengi, Harald, framkvæmdastjóra Valhúsgagna hf., og Jósef, kjötiðnaðarmann, búsettan í Svíþjóð. Dótturina, Sigurlínu, sem gift er Tómasi Tómassyni, starfsmanni í Álverinu, átti Sigurgeir fyrir hjónaband.

Konu sína missti hann 10. nóv. 1949 og var það honum mikill missir. Það er langt mál að rekja ítarlega 40 ára sjómannsferil Sigurgeirs. Hann sótti, eins og margir norðlenskir sjómenn, mikið suður á vetrarvertíðum en stundaði síldveiðar nyrðra á sumrum. Eftir að Sigurgeir tók Hið minna fiskimannapróf 1934, var hann skipstjóri samfellt í aldarfjórðung, og á ýmsum bátum, sem of langt er upp að telja, enda fáir, sem þekkja þau nöfn nú.

Hann var nokkur ár með báta frá Reykjavík, Skeggja og Skíða, og á síld með Hornafjarðarbátana Gissur hvíta og Ingólf, en lengst var hann skipstjóri á Gróttu, þekktum aflabáti á sinni tíð nyrðra og átti Friðfinnur Níelsson þann bát meðan Sigurgeir var með hann. Sigurgeir var góður og mjög jafn aflamaður, brást ekki vertíð, og hann sótti fast en aldrei í neina ófæru og skipstjórnarferill hans var áfallalaus. Sem háseti var Sigurgeir harðduglegur verkmaður og einstaklega samviskusamur í verkum sinum bæði sem háseti og skipstjóri.

Sjálfsagt hefur Sigurgeir oft komist i hann krappan á sjómannsferli sínum án þess sögur fari af, en tvívegis var hann hætt kominn svo vitað sé. í fyrra skiptið var hann háseti á báti frá Siglufirði, Æskan hét hann, og þeir voru að koma úr róðri í vonsku veðri og fóru uppí brimgarðinn við Sauðanesið, en það er vondur staður að lenda á í brimi og skipshöfnin bjargaðist nauðuglega.

Síðara slysið var hið mikla Elliðaslys 10. febrúar 1962. Sigurgeir hætti skipstjórn rúmt fimmtugur og réðst þá á togarann Elliða með Kristjáni Rögnvaldssyni og varð þar aðstoðarmaður í vél, 3. meistari á undanþágu. Margir bátaskipstjórar fyrrum voru einnig góðir vélamenn og það hefur Sigurgeir líklega verið, svo laginn verkmaður sem hann var, þótt ekki hefði hann prófréttindi.

Almenn frásögn af Elliðaslysinu og björguninni var ítarlega rakin í blöðum þess tíma og hér er aðeins drepið á það, hvernig Sigurgeiri reiddi af, en hann lenti í harðri raun í vélarrúminu og var síðan illa búinn til að mæta hrakningum. Það var seinnipart laugardags 10. febrúar 1962, að togarinn Elliði slóaði sunnarlega og djúpt á Breiðabugt einar 25—30 mílur undan í útsunnan hvassviðri með miklu hafróti.

Sigurgeir átti að fara á vakt klukkan sex um kvöldið, en var kominn uppí borðsal á sjötta tímanum og sat þar, þegar skipið fékk á sig mikinn brotsjó og kastaðist á stjórnborðssíðuna og lá á brúarvæng og rétti sig ekki, svo sem venja þess var, því að þetta var kraftmikið skip, sem rétti sig jafnan fljótt undan sjónum. Sigurgeiri kom þetta undarlega fyrir og hann fór niður í vélarrúm, þótt hann væri ekki kominn á vakt, ef aðstoðar hans væri þar þörf.

Um síðir tókst að rétta skipið með því að dæla á milli tanka, en það hélst ekki lengi á réttum kili, heldur lagðist næst á bakborðssíðuna, og rétti sig ekki eftir það, enda ekki hægt að dæla, því að ljósavélarnar misstu kælivatnið við hallann á skipinu og stöðvuðust. Þegar sýnt var að ekki tækist að rétta skipið, gaf skipstjórinn skipun um fulla ferð til að snúa skipinu þannig, að bakborðssíðan, sem var í kafi, snéri uppi vind og sjó þar sem þá yrði hægara að komast frá skipinu á gúmbátunum, ef sú síðan, sem uppúr var, væri til hlés.

Þegar ljósavélarnar stöðvuðust, var engin kæling lengur á gufunni, sem nú streymdi útí vélarrúmið og komust vélstjórarnir í mikla raun í myrkvuðu og sjóðheitu rúminu við að pína síðustu snúningana úr vélinni til að snúa skipinu.

Þeim tókst það, og reyndist það mikið happaverk, þegar kom að björgun skipshafnarinnar um borð í Júpíter, sem kom á síðustu stundu til bjargar. Þegar Sigurgeir fór uppúr vélarrúminu ásamt 1. meistara varð þeim leiðin ógreið í svarta myrkrinu með heita gufuna í vitunum og hallinn orðinn mikill á skipinu.

En þeir voru leiðum kunnugir og tókst að komast upp, en það sagði Sigurgeir, að hann hafi talið víst, þegar hann var að klungrast upp, að skipið væri að farast. Það voru allir komnir upp, bæði þeir, sem voru framí og hinir, sem voru afturí, þegar þessir tveir komu upp á keisinn og allir voru mennirnir með björgunarbelti að skipan skipstjórans.

Sigurgeir fór afturí klefa sinn að ná í sitt belti og hlífðarföt, sem héngu í læstum skáp í klefa hans. Hann fann strax björgunarbeltið i myrkrinu en ekki lykilinn að skápnum og honum tókst ekki að brjóta hann upp, því að hann fann ekkert verkfæri, sem hann gæti notað til þess. Hann sá því ekki annað til ráðs en fara upp aftur á einni saman léreftsskyrtuni, skipinu gat hvolft á hvaða augnabliki sem var, eins og hallinn var orðinn.

Þegar Sigurgeir kom frami brúna, gat skipstjórinn lánað honum frakka og má segja, að það yrði Sigurgeiri til lífs í þeirri kaldsömu bið, sem skipshöfnin mátti þola, þar til henni var bjargað, nema þeim tveimur mönnum, sem fórust i gúmbát, sem slitnað hafði frá skipinu. Þetta slys og það volk, sem því fylgdi gekk nærri Sigurgeir, sem farinn var að láta undan og hann náði sér aldrei fyllilega eftir það.

Hann fór samt strax aftur til sjós og þá á hinn Siglufjarðartogarann, Hafliða, og var þar, uns hann hætti til sjós 1965 og flutti suður, í von um léttara starf, sem hann gæti enst lengur við, en hann átti þá orðið sem áður segir 40 árin að baki á sjónum og margt farið að gefa sig i skrokknum. Við, sem enn biðum farar, vitum ekki hvernig lendingin tekst hjá einum eða öðrum á ströndinni handan við hafið, en það skulum við ætla, að þessi góði sjómaður og vammlausi drengur hafi fengið góða lendingu.

Ásgeir Jakobsson