Tengt Siglufirði
mbl.is 7. maí 2006 | Minningargrein
Oddur Jónsson fæddist á Siglufirði 6. desember 1930. Hann lést 27. mars 2006.
Hann var sonur hjónanna Jóns Oddssonar, útvegsbónda á Siglunesi, og Báru Tryggvadóttur. Bróðir Odds er Einar Jónsson, f. 1932.
Árið 1954 kvænist Oddur Svövu Aðalsteinsdóttur og bjuggu þau á Brimnesi á Siglunesi til 1959. Þá fluttu þau
til Siglufjarðar og áttu þar heima eftir það.
Börn þeirra, sjö talsins, eru:
Oddur ólst upp á Siglunesi og sótti barnaskóla á Siglufirði. Þá fór hann fljótlega að heiman til vinnu, m.a. í Viðey og á Keflavíkurflugvelli. En eftir það var hann m.a. á síld og vann í Tunnuverksmiðjunni og í Síldarverksmiðjunum og við það annað sem til féll.
Í nokkur ár var hann umsjónarmaður í Barnaskóla Siglufjarðar. Árið 1968 keypti Oddur með öðrum trilluna Mávur SI 76 og var sjómennskan og fiskverkun aðalstarf hans upp frá því.
Vorið 1999 veikist Oddur og dvaldist eftir það á Heilbrigðisstofnun Siglufjarðar.
Útför Odds var gerð frá Siglufjarðarkirkju
8. apríl.
--------------------------------------------------------------
Oddur Jónsson er af þeirri kynslóð Íslendinga sem tengja þúsund ára fortíð þjóðarinnar og nútímann sem hófst á fyrri hluta 20. aldar. Hann var Siglnesingur í húð og hár og ólst upp í foreldrahúsum á Siglunesi og tók strax og hann vettlingi gat valdið virkan þátt í bústörfum og sjósókn með föður sínum Jóni Oddssyni bónda og hákarlaveiðimanni.
Í æsku lærði hann flest það sem nema mátti til að þekkja náttúruna og að lifa á harðbýlum stað. Til að heyskapurinn lukkaðist á stuttu og umhleypingasömu sumri eða fénaðurinn færist ekki í ótryggri fjörubeit að vetri varð að kunna góð skil á veðrum og vindum.
Það sama gilti um sjómennskuna. Báturinn smíðaður í nausti og svo urðu menn að þekkja miðin eins og haglendið heimavið. Róa þangað sem helst var afla von miðað við árstíð og hafstrauma. Og þær fiskislóðir voru ekki sóttar nema þekkja fjöllin í landi og taka af þeim rétt mið. Og stöðugt varð að hafa gát á krappri báru og bliku á lofti.
Þessa þekkingu sem var eins og lífsþráður eða fjöregg landsmanna í þúsund ár færði Jón á Nesi í hendur syni sínum Oddi og hann kom aftur að mörgu leyti áfram til sona sinna, þeim Aðalsteini, Jóni, Sigurði og Gunnlaugi sem allir urðu sjómenn.
Rauðmaga- og grásleppunetin felld að vetri og lögð snemma vors. Silunganet í Neskrók þegar á leið. Læðst að þekktum selaklöppum og bragðmikið selaketið snætt með söltuðu spiki. Harðfiskur og hákarl sjálfsögð fæða allt árið um kring og gómsæt kríuegg í lok maí. Ótal ferðir á báti sínum í Héðinsfjörð í öflun nýmetis úr sjófuglabyggðum eða veiðivatni. Vakandi auga á öllu umhverfinu.
Þannig gekk lífið - þar sem maðurinn er hluti af náttúrunni og nýtir gjafir hennar af kappi án þess þó að ganga of langt.
Útgerð á trillum sem allar báru nafnið Mávur SI 76 var lífsstarf Odds þótt hann reyndi fyrir sér á öðrum sviðum um skeið, svo sem að vera háseti á síldarskipi, vinna í síldarverksmiðju, tunnuverksmiðju eða við húsvörslu í barnaskólanum.
Sjósókn, fiskveiðar og fiskverkun var það sem Oddur kunni best og færði honum og fjölskyldu hans örugga lífsafkomu.
Þó svo að tölvustýrðar veðurspár, radar, GPS-staðsetningartæki og djúpsjár töfrum líkastar hafi tekið við af gamalli huglægri þekkingu er hennar og vökuls auga sífellt þörf. Réttur skilningur á náttúrunni og tilfinning fyrir öflum hennar er það sem alltaf gerir gæfumuninn.
Allt er breytingum háð. Hin ævaforna þekking sem við fluttum með okkur til landsins og þróuðum í 1100 vetur og sumur er að glatast. Hver kann lengur að smíða árabát úr rekaviði eða beita seglum? Svona spurningar og ýmsar fleiri sem snerta framtíð sjávarútvegs og rótgróinna útgerðarbæja eins og Siglufjarðar vakna í huga mínum þegar veiðimaðurinn og náttúrubarnið Oddur Jónsson er kvaddur úr þessum heimi.
Svövu, eftirlifandi sonum hennar og dætrunum Ástu og Báru sendi ég samúðarkveðjur.
Örlygur Kristfinnsson.