Óskar Ástvaldur Garðarsson

mbl.is 19. desember 2003 | Minningargreinar

Óskar Garðarsson fæddist á Siglufirði 27. ágúst 1924. Hann lést á Sjúkrahúsi Siglufjarðar miðvikudaginn 10. desember 2003.

Foreldrar hans voru hjónin Garðar Jónasson, f. á Akurbakka við Grenivík 9. október 1898, d. 9. janúar 1981, og Guðrún Ástvaldsdóttir, f. á Á í Unadal, Skagafirði, hinn 25. desember 1892, d. 23. janúar 1966.

Alsystkini Óskars voru

  • Jónína Garðarsdóttir, f. 11. desember 1926, og
  • Jónas Garðarsson, stýrimaður, f. 29. júlí 1931, d. 3. maí 2001
    Hálfsystir Óskars var
  • Svava Jóhannsdóttir, f. 6. desember 1915, d. 18. janúar 1990.

Óskar bjó á Siglufirði alla sína ævi. Hann ólst upp hjá foreldrum sínum sem bjuggu á Hóli í Siglufirði og síðar í Leyningi, en 1926 fluttu þau í kaupstaðinn og bjuggu þar til æviloka.

Mynd tekin á Raufarhöfn 1959- Vinnuferð SR

Mynd tekin á Raufarhöfn 1959- Vinnuferð SR

Óskar vann við trésmíðar lengst af á vegum Síldarverksmiðja ríkisins. Óskar var ókvæntur og barnlaus.

Útför Óskars verður gerð frá Siglufjarðarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.
------------------------------------------------

Elsku Óskar frændi. Nú ertu farinn, og fórst svo snöggt að ég fékk ekki ráðrúm til þess að kveðja þig. Það verður tómlegt að koma á Sigló og fara ekki í heimsókn til þín og fara með þig í bíltúr sem þú hafðir svo gaman af.

Alveg síðan að ég var lítil stelpa hefur þú verið partur af jólunum mínum, þú komst alltaf og hjálpaðir okkur mömmu að koma jólatrénu á sinn stað, sjóða fótinn og saga hann til. Síðustu árin hefurðu verið með okkur á aðfangadagskvöld og það verður ekki eins án þín.

Þær eru margar minningar um þig, elsku Óskar, þú varst alltaf svo góður við afa Jónas. Ég vaknaði ósjaldan við það að þú varst að moka tröppurnar á Hverfisgötunni, því þú vissir að afi gat það ekki sjálfur.

Ég var svo oft með þér og afa Jónasi að brasa eitthvað. Þú sagðir mér oft söguna af því þegar ég elti þig heim og þú vissir ekkert af mér. Ég kom bara upp í eldhús til þín á eftir þér og sagði að ég hefði komið göngin, en þá meinti ég að ég hefði komið upp þrönga stigann þinn.

Ég var ekki gömul þegar ég var svo stolt af því að rata alveg sjálf yfir til þín, þótt þú hafir nú búið mjög nálægt okkur. Þá fór ég margar ferðir yfir til þín, því ég vissi að ég fengi alltaf súkkulaði hjá þér.

Takk fyrir að vera alltaf svona góður við mig.

Elsku Óskar, ég kveð þig með þessari bæn:

  • Legg ég nú bæði líf og önd,
  • ljúfi Jesú, í þína hönd,
  • síðast þegar ég sofna fer
  • sitji Guðs englar yfir mér.

(Hallgr. Pét.)

Þín Jóna Hrefna.
-----------------------------------------------

Óskar frændi minn var sonur Garðars afabróður míns og Guðrúnar eiginkonu hans. Ég minnist þessa frændfólks míns sem bjó í litlu timburhúsi á Hverfisgötunni eða öllu heldur suður og uppi í Skriðum eins og það var kallað.

Ekki var mikill samgangur á milli heimilanna, en það breyttist þegar foreldrar mínir fluttu á Hverfisgötuna árið 1966 og bjuggu aðeins þremur húsum norðar en fjölskylda Óskars.

Voru þeir eftir það miklir mátar frændurnir, Garðar, faðir Óskars og Jónas faðir minn. Segja má að faðir minn hafi tekið þennan aldna heiðursmann og frænda sinn Gæja upp á sína arma og hafði mikið og oft ofan af fyrir honum upp frá því.

En það var ekki bara á annan veginn, því að ég minnist þess þegar snjóaði, en í þá daga snjóaði oftar og meira en nú, þá var Gæi mættur fyrir allar aldir og búinn að moka frá þegar aðrir fóru á fætur.

Kynslóðir koma og kynslóðir fara. Eftir fráfall Gæja snerust hlutirnir við og það var Óskar sem kom í stað pabba síns og var alla tíð síðan mikil hjálparhella og heimilisvinur hjá foreldrum mínum eftir það. Síðustu árin hefur það verið Guðrún systir mín sem hefur hugsað um Óskar eftir að hann varð eldri, þar sem aðrir ættingjar hans hafa, eins og margir aðrir, flutt frá Siglufirði.

Óskar vann alla almenna vinnu og var á yngri árum m.a. til sjós. Hann vann í u.þ.b. tólf ár hjá trésmíðaverkstæði SR við uppbyggingu verksmiðja á þeirra vegum víðs vegar um land.

Frá árinu 1970 og fram til starfsloka árið 1994 starfaði hann hjá Siglufjarðarkaupstað við viðhald og viðgerðir á eignum bæjarins.

Óskar lifði rólegu og fast mótuðu lífi og blandaði ekki geði við marga að fyrra bragði. Hann var vinur vina sinna og úrræðagóður og fróður um menn og málefni. Hann hafði skoðanir á málunum eins og hann átti ættir til. Óskar dvaldi fjögur síðustu ár ævinnar á ellideild Sjúkrahúss Siglufjarðar og naut þar góðrar ummönnunar og þjónustu.

Á þriðjudaginn 9. desember fann hann til nokkurra óþæginda og var fluttur á sjúkrahúsið um kvöldið. Hann lést síðan að morgni hins 10. desember. Andlát hans var hægt og hljótt, rétt eins og öll ferð hans gegnum lífið. Við fjölskylda Jónasar Björnssonar, vinar og frænda Óskars, þökkum honum samfylgdina.

Björn Jónasson.
----------------------------------------------- 

Óskar Garðarsson.

Örfá orð frá vini: 

Það er vandræðalaust að taka undir öll þau orð sem hór ofar er skrifað. Ég vann við hlið hans og með honum undir stjórn verkstjóra okkar Páli G Jónssyni byggingameistara hjá SR., al í um átta ár. Betri vinnufélaga var vart hægt að hugsa sér. Sama hvað gekk á, ávalt tók hann við hinu óvænta með jafnaðargeði.

Hann var í raun lærifaðir minn, bæði hvað vinnu við smíðar snerti, sem og öðru. Ég átti til að vera fljótfær og hefja aðgerð með hraða, enn oftar en ekki sagði Óskar rólegri röddu: "Steingrímur, hægðu á þér, heldurðu að það sé ekki betra að gera þetta svona" og svo kom álit hans sem í ÖLLUM tilfellum var framkvæmt eins og ann stakk upp á. Hann var ekki aðeins fljótur að sjá bestu leiðina til framkvæmda, heldur var hugmyndin sett fram með blíðum rómi og góðlátlegu brosi.

Það voru ekki margir fyrrverandi vinnufélaga hans sem heimsóttu hann á hjúkrunar deildina uppi á loftinu yfir Sjúkrahúsinu, eftir að hann flutti þangað.
Og tók hann því ávalt vel á móti mér brosandi, þegar ég heimsótti hann og við ræddum hina gömlu góðu daga, eftir að ég hafði flutt honum ýmsar fréttir af bæjarlífinu.

Síðast, nokkrum dögum fyrir andlát hans hafði ég heimsótt hann, og þá var hann hress að ég taldi, og því kom það mér verulega á óvart þegar ég frétti af andláti hans. En svona er lífið og ekki ávalt við það ráðið.

Steingrímur Kristinsson

Góðir vinir: Óskar Garðarsson og Steingrímur Kristinsson. 
Þarna er ég að heimsækja Óskar uppi á Sjúkraheimilinu, yfir Sjúkrahúsi Siglufjarðar. sk

Góðir vinir: Óskar Garðarsson og Steingrímur Kristinsson.
Þarna er ég að heimsækja Óskar uppi á Sjúkraheimilinu, yfir Sjúkrahúsi Siglufjarðar. sk