Óskar Sveinsson verkfræðingur, frá Steinaflötum

Siglfirðingur - 10. desember 1960

Óskar Sveinsson. Fæddur 6. maí 1916 dáinn 23-september 1960

Það mun marga hafa sett hljóða, er þeir fréttu lát Óskars Sveinsonar frá Steinaflötum, hinn 25. sept. sl.

Hann kom hingað til Siglufjarðar seint í ágústmánuði í sumar, og undirritaður hitti hann sem snöggvast hér á Aðalgötunni og við tókum tal saman og hann virtist hress og kátur og það var ákveðið, að Óskar kæmi heim til mín og við spjölluðum saman, eins og við höfðum svo oft áður gert, en hann kom ekki.

Hann hafði mjög stutta viðdvöl hér í firðinum, líkt og hann væri kominn til að kasta kveðju á siglfirsku fjöllin í síðsumarskrúða, kveðja hlíðar og tinda æskustöðvanna.
Skömmu eftir að hann fór héðan og suður til Reykjavíkur, fréttist um veikindi hans, en fáa mun hafa rennt grun í, að hér væri komið að leiðarlokum, enda maður á besta aldri, og það var fremur sem hann hafði náð góðri heilsu að lokinni dvöl á heilsuhæli fyrir ekki alllöngu síðan.

Óskar Sveinsson verkfræðingur

Óskar Sveinsson verkfræðingur

Óskar Sveinsson var fæddur hér í Siglufirði hinn 6. maí 1916, og voru foreldrar hans hin kunnu siglfirsku heiðurshjón, Geirlaug Sigfúsdóttir og Sveinn Jónsson, trésmíðameistari frá Steinaflötum.
Þau hjón þekkja alir Siglfirðingar og þau voru í marga áratugi í hópi mætustu borgara þessa bæjar, sakir dugnaðar og mannkosta.

Sveinn, faðir Óskars, var hinn mesti dugnaðarmaður, og hann mun hafa reist fleiri síldarstöðvar og síldarhús hér í firðinum, bæði fyrir Íslendinga og Norðmenn, en nokkur annar smiður. Sveinn var mjög eftirsóttur til slíkrar mannvirkjagerðar, sakir dugnaðar og hagsýni.

Og ég man það, að faðir minn mat Svein mjög mikils, og fól honum að stækka og endurbyggja síldarstöð sína 1925—26, og taldi fáa geta leyst það betur af hendi en hann. Óskar ólst upp á Steinaflata heimilinu í hópi glaðværra og dugmikilla systkina, og eins og að líkum lætur, fór hann ungur að árum að handleika hamar og sög með föður sínum, og það kom fljótt í ljós, hve hagur hann var og hugmyndaríkur. Hann var mjög kappsamur og vinnugefinn og hann sá snemma hve mörgu var ábótavant i húsbyggingum hér í Siglufirði, sem auðvitað stafaði af því, hve einangrun og þekkingarskortur varmikill hér, fremur en af efnaskorti.

Óskar þráði að komast út fyrir landssteinana, til að afla sér þekkingar, og það þótti, talsvert mikið átak fyrir rúmum tuttugu árum, að brjótast til náms erlendis, og ekki voru þeir margir, Siglfirðingarnir, sem gátu sótt sér þekkingu og menntun í framandi löndum fyrir tuttugu til þrjátíu árum síðan. En Óskar kleif þrítugan hamarinn, og sumarið 1938 tók hann sér far með lestaskipi, er flutti síldarfarm til Svíþjóðar, og hélt austur yfir hafið.

Hann innritaðist í byggingafræði og teikniskóla í Gautaborg strax eftir komuna til Svíþjóðar, og þar fann hann það, sem hann hafði dreymt um: tækni og þekkingu í sínu fagi. Undirrituðum er vel kunnugt um það, að Óskar notfærði sér dvölina ytra kappsamlega til að auka á þekkingu sína og nema hagnýtar nýjungar í byggingariðnaði. Námið þar ytra var bæði bóklegt og verklegt, og ekki virtist hin erlenda tunga tefja fyrir honum. Hann mun hafa skilað útreikningum og verklegum viðfangsefnum með prýði og hlaut maklegt lof kennara sinna.

Og í árslok 1939 kom Óskar aftur hingað heim og setti á stofn teiknistofu hér í bænum, sennilega fyrstu, sjálfstæðu teiknistofuna, er hér hefir starfað, viðfangsefnin streymdu að honum bæði héðan og utanbæjar. Hann fékk strax orð á sig fyrir smekkvísi, skynsamlegar áætlanir og rétta útreikninga og mun hafa yfrið nóg að starfa. Sjálfur réðist hann í að byggja tvö ný hús við Laugaveginn, er þá var að mestu óruddur, og seldi svo hús þessi einstaklingum. Þetta var 1940—1941.

Og um þetta leyti var sótt fast eftir að hann tæki að sér stórbyggingar, einkum á Suð-Vesturlandi, þar sem verkefnin voru stærri í siðum en hér heima, og því fór svo, að Óskar fluttist suður á land, fyrst vestur á Snæfellsnes, þar sem hann reisti stórt hraðfrystihús og nokkur íbúðarhús, og síðar suður á Akranes, þar sem hann teiknaði og reisti hvert stórhýsið á fætur öðru, svo sem Bíóhöllina, hraðfrystihús Heimaskaga, sundlaug, vita og ýmis stór og myndarleg íbúðarhús.

Loks fluttist hann svo til Reykjavíkur og fékk starf á teiknistofu húsameistara ríkisins, og má því segja, að hann hafi verið eftirsóttur í sínu fagi og skilað jafn góðum árangri og þeir starfsbræður hans, sem langskólagengnari kallast.

Óskar kvæntist árið 1941, ágætri konu, Rut Einarsdóttur, ættaðri frá Snæfellsnesi. Þeirra sambúð varð ekki löng, þau slitu samvistum. 

Það mætti rita margt um hlutdeild þá, sem Óskar á í þróun skíðaíþróttarinnar hér í Siglufirði. Á yngri árum var hann ágætur skíðakappi og starfaði af lífi og sál að því að efla skíðaíþróttina, og hann vildi gera Siglufjörð að vetraríþróttamiðstöð, þannig, að ekki eingöngu bæjarbúar yrðu með í leiknum, heldur skyldi ráðast í að byggja rafknúna lyftu, er flytti skíðafólk upp í Hvanneyrarskál, þar sem geysistórar fannbreiður bíða skíðamanna, oft langt fram á vor.

Óskar hafði aflað sér upplýsinga og gert áætlanir um kostnað slíks mannvirkis, en ekki reyndist kleif t að f á næga samstöðu og áhuga um málið, svo af framkvæmdum varð ekki. Þó mun slík lyfta, ásamt útbúnaði, ekki hafa kostað yfir 15—18 þús. krónur, en þetta var nú fyrir meira en tveimur áratugum síðan og þá voru viðhorfin önnur en síðar varð.

En hugmynd Óskars var djörf, en hún var sú, að gera Sigluf jörð að miðstöð skíðaíþróttar með kennslu og skíðamótum, fyrir innlenda og jafnvel erlenda skíðaáhugamenn, yfir þann tíma ársins, sem deyfð og kyrrstaða hafði ríkt hér í bænum og auka á þann hátt ýmsa starfsemi og viðskipti í kaupstaðnum, svo sem greiðasölu og hótelrekstur og ýmsa þjónustu.

Hann var einn af stofnendum skíðafélagsins „Skíðaborgar" hér í bænum og hann var ágætur skíðamaður á yngri árum og var framarlega í röð bestu skíðakappa hér í Siglufirði, og á meðan hann dvaldi í Svíþjóð, keppti hann nokkrum sinnum á skíðum og vann þar tvo bikara fyrir gönguafrek á vegum Göteborg Skiklub. Óskar var mjög kappsamur að hverju sem hann gekk.

Hann var hamhleypa til allrar vinnu og fann hlífði sér hvergi. Og það mun aldrei hafa verið markmið hans, að vinnustundirnar yrðu sem f æstar á viku hverri. Það er öllu líkara, að fann hafi ofboðið þreki sínu á þeim árum, er hinar víðtæku stórframkvæmdir í byggingariðnaði hvíldu á herðum hans, og sennilega hefir hann þá stundum ekki gætt þess að miklu starfs þreki má ofbjóða.

En starfið og áhuginn var honum allt, og kannske hefir hann grunað, að tíminn, sem mælir líf okkar, yrði naumur. Og nú er hann horfinn héðan. Það ber að harma, að dvöl hans varð styttri en mátt hefði ætla.

Og við, jafnaldrar hans, er ólumst hér upp í firðinum með honum á þriðja og fjórða tug aldarinnar, við söknum hans vissulega. Við minnumst góðs drengs, sem setti, þegar í æsku, viðfelldinn svip á bæinn okkar, og þótt brot af samtíð æskuára okkar hafi horfið með honum, mun hans lengi verða minnst af okkur öllum, sem hann þekktu.
K.H.