Sr. Óskar J. Þorláksson

mbl.is 18. september 1990 | Minningargrein

Óskar J Þorláksson ­ Kveðjuorð Fæddur 5. nóvember 1906 Dáinn 7. ágúst 1990 Sr.

Óskar Þorláksson hefur kvatt þennan heim, eftir mikið og gott starf. Hann var hógvær í framgöngu og skapi, en manna fyrirmannlegastur á velli. Hár vexti og beinn í baki. Honum var gefin góð skapgerð, en hélt vel á málum, en hann kom víða við er hann keppti um brauð, var hann jafnan sigursæll þó margir væru í boði.

Óskar Jón Þorláksson var fæddur 5. nóv. 1906 í Skálmarbæ í Álftaveri í Vestur-Skaftafellssýslu. Foreldrar hans voru Þorlákur Sverrisson, bóndi í Klauf í Meðallandi Magnússonar og kona hans Sigríður Jónsdóttir bónda í Skálmarbæ Sigurðssonar.

Sr. Óskar J. Þorláksson

Sr. Óskar J. Þorláksson

Þorlákur Sverrisson flutti síðan til Víkur í Mýrdal og stundaði þar búskap og kaupmennsku. Að lokum flutti hann með fjölskylduna út til Vestmannaeyja og gerðist þar kaupmaður.

Óskar var þegar í æsku bókhneigður og hneigður til lærdóms. Hann sat í lærdómsdeild Menntaskólans í Reykjavík og varð stúdent 1926.
Hann kaus sér guðfræði sér til lærdóms og prestskapinn sem ævistarf. Hann tók guðfræðipróf 1930, og fór þá í framhaldsnám í Oxford og London og las þar Nýja-testamentisfræði, trúfræði og predikunarfræði er honum kom til góða er hann sté í stólinn.

Sr. Óskar hafði hneigð til átthaganna og kaus að vera prestur í Kirkjubæjarklaustursprestakalli, er var með bestu prestaköllum í Skaftárþingi. Þó hann yndi sér vel í átthögunum þá mun hann hafa kosið sér stærri verkahring í prest starfinu, þó hann væri orðinn prófastur í Vestur-Skaftafellssýslu.

Er Siglufjörður losnaði er var eitt af bestu brauðum landsins, sóttu 5 um brauðið. Sr. Óskar var einn af þeim enda eigi ókunnur Siglufirði frá skólaárum sínum.

1925 var hann þar í síld ásamt nokkrum skólabræðrum sínum. Honum líkaði dvölin þar vel. Þekkti hann allmarga borgara í sjón og hafði í minni þetta góða fólk. Hann var kominn langa vegu úr öðrum landsfjórðungi til að sýna sig og sjá aðra. Hann var kosinn prestur á Siglufirði sem eftirmaður sr. Bjarna Þorsteinssonar er nær í hálfa öld var mikilhæfur prestur þar og gáfumaður, samhliða því að vera prestur á stéttunum fyrir land og lýð.

Árið 1934 gekk sr. Óskar Þorláksson að eiga Vigdísi Elísabetu Árnadóttur, bónda í Gerðakoti á Miðnesi, Eiríkssonar.
Hún var al systir Ólafíu Sigríðar sem var seinni kona sr. Þórðar Oddgeirssonar á Sauðanesi.

Þau hjón sr. Óskar og Elísabet eignuðust tvö börn, dreng er dó óskírður og

  • Árni Óskarsson sviðsstjóra hjá sjónvarpinu. Kona hans er Heiðdís Gunnarsdóttir, dóttir sr. Gunnars Benediktssonar prests í Saurbæ í Eyjafirði.

    Þá kom til þeirra hjóna
  • Helga Pálmadóttir systurdóttir Elísabetar í fóstur á barnsaldri. Hún er gift Helga Samúelssyni verkfræðingi.

Hjónaband þeirra hjóna Elísabetar og sr. Óskars var farsælt. Hún var mikilhæf kona starfaði í verslun Haraldar Árnasonar og var við hússtjórnarnám í norskum skóla áður en hún giftist. Heimili þeirra hjóna bar með sér snyrtimennsku og menningarblæ. Viðbrugðið var hvað hún studdi mann sinn á Siglufirði. Svo var einnig hér. Húsbóndinn var bókelskur um guðfræði og lærdómsrit. Hann batt inn marga bókina sér til ánægju.

Mikið starf beið sr. Óskars á Siglufirði. Ný kirkja hafði verið byggð fyrir fáum árum, mikið hús og merkilegt. Kom sér nú vel að hann hafði numið framburð á Guðsorði, er var skýr og vel fram borinn í stólnum. Enda var sr. Óskar vel látinn af sóknarbörnum sínum, ungum sem öldnum. Hann var reglumaður alla ævi, meðlimur í Stórstúku Íslands.

Þá kom hann víða við, honum lét vel að kenna æskulýðnum enda stundakennari í Gagnfræðaskólanum í Siglufirði. Í stjórn Gesta- og sjómannaheimilinu á Siglufirði. Formaður Búnaðarfélags Siglufjarðar. Þá var hann presta bestur að útbreiða Kirkjuritið á sínum tíma. Hann var jafnan í mörgum félagsskap aufúsu gestur og vann störf sín af kostgæfni.

Þá kom að því að Dómkirkju brauðið losnaði. Sótti sr. Óskar Þorláksson um það ásamt fleiri prestum og hlaut kosningu.

Honum var veitt brauðið 1. júní 1951. Þjónaði hann því í 25 ár. Vel látinn sem áður í prestskapnum af söfnuði sínum. Hann bar virðingu fyrir fyrirrennara sínum í brauðinu, sr. Bjarna Jónssyni, og bauð honum að predika í sínu gamla guðshúsi. Reyndist þetta vera síðasta messa sr. Bjarna.

Sr. Óskar var valinn maður í sínu starfi og var á seinni árum prófastur í Reykjavíkurprófastdæmi.

Ég kynntist sr. Óskari aðallega er ég var nýkominn til Reykjavíkur og gerðist meðlimur í Félagi fyrrverandi Sóknarpresta. Sr. Óskar sótti jafnan fundi félagsins og var um árabil í stjórn þess. Á seinni árum tók ég hann jafnan með mér á leið að Grund. Að lokinni messu og fundi lá leið hans með okkur að Hátúni þar sem kona hans Elísabet dvaldi.

Við höfum fengið meðbræður okkar í félaginu á fundum til þess að flytja endurminningar um skólagöngu og prestsskapinn. Sr. Óskar var meðal þeirra.

Ekki fyrir löngu, kvaddi hann sér hljóðs á fundi og flutti erindi blaðalaust, er laut að æskuhögum hans í Álftaveri, Vík í Mýrdal og prestskap á Síðu.
Honum var þetta létt, því hann hafði ritað fyrir löngu árbók Ferðafélags Íslands 1935 um Vestur-Skaftafellssýslu. Þetta erindi hans var ógleymanlegt að efni, mælsku og góðum hugsunum, eins og hann væri orðinn ungur í annað sinn, þó sjúkur væri.

Sr. Óskar var gæfumaður. Er hann var heima eða á sjúkrahúsi, naut hann mikillar umönnunar og kærleika síns venslafólks uns yfir lauk.

Við kveðjum þennan starfsbróður okkar, er átti langa ævi til starfa í heilagri kirkju og margir minnast hans.

Pétur Þ. Ingjaldsson