Ragnar Karlsson

mbl.is 30. janúar 2021 | Minningargrein

Ragnar Karlsson fæddist ásamt bróður sínum: Óli Karlsson á Siglufirði 12. maí 1935.

Hann lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 29. desember 2020.

Foreldrar hans voru Jónína Sigurðardóttir, f. 20.8. 1912, og Karl Gíslason, f. 23.5. 1901.

Ragnar átti einn uppeldisson,

  • Davíð Pál Helgason, f. 2.3. 1973.

Útförin fór fram í kyrrþey frá Fossvogskapellu 6. janúar 2021.
------------------------------------------

Elsku pabbi minn. Það er ólýsanlega sárt að nú sé komið að kveðjustund okkar. Þú komst inn í líf mitt við eins árs aldur þegar þið mamma tókuð saman í annað sinn. Mín fyrsta minning um þig er einn vetrardag þegar við vorum að leik í snjónum fyrir utan heima. Þegar ég var 5 ára slituð þið mamma sambúð.

Ragnar Karlsson - ókunnur ljósmyndari

Ragnar Karlsson - ókunnur ljósmyndari

Niðurbrotinn fór ég til að ná í þig, við ræddum málin og eftir að þú hafðir útskýrt fyrir mér að ég væri alltaf velkominn til þín þá leið mér aðeins betur. Vinátta og virðing hélst á milli ykkar mömmu og ég heimsótti þig vikulega. Við gerðum margt saman. Fórum niður í fjöru, skoðuðum bátana í smábátahöfninni, fórum í sund og þú kenndir mér að hjóla. Á veturna fórum við stundum í Bláfjöll á skíði og það fannst mér ótrúlega gaman.

Fimm sumur í röð dvöldum við eina viku á Bifröst í Borgarfirði. Þar var yndisleg náttúrufegurð og mér leið svo vel. Eitt sumarið kom mamma með okkur og ég var svo glaður að þið voruð þrátt fyrir sambúðarslitin ennþá vinir. Þú sást til þess að mig skorti ekkert, gafst mér frá unga aldri reglulega vasapening og dekraðir við mig með hinum ýmsu gjöfum.

Einnig sástu til þess þegar ég var 9 ára að við mamma hefðum öruggt húsaskjól með útborgun fyrir íbúð verkamannabústaða. Við áttum gott með að tala saman og alltaf varst þú til staðar þegar ég þurfti á að halda.

Áhugamál þín voru m.a. skák, tvisvar varst þú Suðurnesjameistari og þrisvar Keflavíkurmeistari, enska knattspyrnan og spilaðir þú reglulega í íslenskum getraunum. Þú áttir gott safn bóka og hafðir gaman af að lesa allskonar fróðleik.

Laugardalssundlaugin var í miklu uppáhaldi hjá þér og syntir þú reglulega. Þú varst heilsuhraustur og lagðist inn á spítala í fyrsta skipti 83 ára þegar þú dast í hálku við sundlaugarnar. Einu ári síðar ákvað ég að taka þig heim til mín eftir að þú veiktist alvarlega og hafðir dvalið um tíma á spítala.

Ég vildi hafa þig hjá mér svo að ég gæti annast þig eins vel og ég gæti. Með tímanum styrktist þú og við fórum út að ganga nánast daglega, auk þess fórum við til Þingvalla, Hveragerðis og á gamla vinnusvæði Varnarliðsins í Keflavík þar sem þú starfaðir í 45 ár. Þér fannst margt breytt en hafðir gaman af að sjá sumt sem þú kannaðist við.

Í ágúst á liðnu sumri vildir þú hefja aftur sjálfstæða búsetu og daglega heimsótti ég þig.
Allt virtist ganga vel þangað til í október að þú þurftir að leggjast inn og svo aftur í lok nóvember.
Rétt fyrir jól bauðst þér svo dvöl á hjúkrunarheimili og þú sagðist treysta mér til að taka ákvörðun. Og nú þegar ég skrifa þetta þá renna tár sársaukans niður mínar kinnar því að þú hafðir aðeins dvalið þar rétt um eina viku þegar þú kvaddir þennan heim.

  • Þú komst til mín sem engill frá himni og færðir mér birtu og yl.
  • Þú studdir mig í einu og öllu með þér var svo gott að vera til.
  • Þeim dýrmætu stundum sem við áttum saman mun ég aldrei gleyma.
  • Mynd af þér djúpt í hjarta mér mun ég ávallt geyma.
  • Þú varst minn verndarengill og ég mun sakna þín mjög mikið.
  • En ég trúi að við munum sameinast síðar meir.
  • Hvíl í friði, elsku pabbi minn.

Þinn Davíð.
------------------------------------------------------------------------

Báða strákana þekkti vel þó yngri væru, og minnist þess hve vel þeim gekk að læra í Barnaskólanum og ég öfundaði þá.

Ekki man ég hvor þeirra það var, en annar þerra að minnsta kosti var búinn að læra vel að lesa danskan texta.

Hann "hjálpaði" mér að þýða nokkra kafla frá danskri tæknibók um bíó-sýningarvélar.

Það tókst honum með ágætum, því pabbi var hissa þegar ég sýni honum þýðinguna, hann hélt að ég þá 13 ára hefði þýtt textann, þar sem hann þekkti skrift mína sem ekki var neitt til að húrra fyrri. Ég leiðrétt það og sagði honum frá þýðandanum. Hann varð raunar enn meira undrandi þar sem Raggi/Óli var einu ári yngri en ég. 

Mamma hafði raunar lesið oft fyrir mig myndasögurnar í dönsku blöðunum sem hún var áskrifandi af og ég fylgt þar vel með (hafði áhuga á efninu) en ég komst ekki með hælana þar sem Ragna/Óli hafð tærnar. Hann las slíka texta án þess a hnökra.
Ekki voru erlend tungumál á námskrá barnaskóla á þessum tímum, sem margir höfðu meiri áhuga á r en mörgu ruglinu sem okkur stóð til boða, sem fæst börnin höfðu áhuga á.

Ninnuguttarnir voru eins og margir fjörugir strákar á þessum tímum talvert miklir prakkarar, svona (eins og ég sjálfur)
En aldrei hafði ég heyrt neitt um óþokkaskap frá þeim, sem því miður, sumir strákar framkvæmdu.     -- Góðir strákar: Ninnuguttarnir.

Steingrímur Kristinsson.

Ragnar og Óli