Pétur Björnsson fyrrverandi erindreki

Morgunblaðið - 24. maí 1978 - Minning:

Pétur Björnsson Fæddur 25. október 1897. Dáinn 11. maí 1978.

Foreldrar hans voru Björn Guðmundsson og Stefanía Jóhannesdóttir, er lengi bjuggu á Á í Unadal í Skagafirði. Af ræktarsemi kenndi Pétur sig löngum við þann bæ. Hann kvæntist 1928 Þóru Jónsdóttur, útvegsbónda í Ystabæ í Hrísey.

Þau eignuðust fjögur börn, sem öll eru uppkomin og hafa stofnað sín eigin heimili. Pétur var frá unga aldri karlmannlegur, mikill að vallarsýn, höfðinglegur og gjörvulegur. Hann var stór í lund og stór í hugsun, og að vissu leyti átti við hann vísan sem Fornólfur orti um Björn

 • Hvort sem reyndi á harðrærin
 • eða hyggjur djúpt að leiða
 • eða snöggleg snarræðin
 • af öðrum æ hann bar...
Pétur Björnsson

Pétur Björnsson

En hann hafði það fram yfir höfðingjann í Ögri, að hann tamdi skap sitt svo, að fáir vissu hvort honum líkaði betur eða verr, fyrr en hann tók af skarið. En það gerði hann aldrei nema eftir vandlega íhugan. Hann braut hvert mál til mergjar, og þegar hann þóttist viss um hvað réttast væri, hélt hann svo fast við það að honum varð ekki þokað. Og þegar hann hafði tekið ákvörðun, var þar munur að mannsliði.

Siglfirðingar geta best um þetta dæmt, því að þar eyddi hann manndómsárum sínum. Allir vissu að hann vann af heilum huga að hverju sem hann gekk, og öll ráð hans voru hollráð þessa naut Siglufjarðarkaupstaður og mun þess lengi minnst þar. Þau hjónin, Þóra og Pétur, voru samvalin og einhuga, og áttu sér mörg sameiginleg áhugamál. En hjartans mál beggja var baráttan gegn áfengisbölinu. Áratugum saman spöruðu þau hvorki fé né fyrirhöfn í því starfi, enda urðu þau brautryðjendur þar.


Var það þeirra mesta gleði að sjá árangur af því starfi. Jafnframt létu þau þá kirkju og safnaðarmál mjög til sín taka, því að þeirra dómi áttu frá kirkjunni að berast straumar þess siðgæðis er getur orðið brimbrjótur á vegi helstefnunnar. A þessum árum breyttist allur bæjarbragur í Siglufirði mjög til hins betra. Mér kemur ekki til hugar að þakka það Pétri einum, en hann átti áreiðanlega sinn stóra þátt í því, vegna þess að hann lét öll menningarmál staðarins til sín taka, og varð frumkvöðull að ýmsu því, sem bærinn er nú stoltur af.

Hér skal aðeins nefnt tvennt: Sjómannaheimilið og Bókasafnið. Það var að frumkvæði hans að GT-reglan í Siglufirði stofnaði Sjómannaheimilið. Áður höfðu aðkomusjómenn ekki átt þar neitt athvarf, en þeir voru margir á „síldarárunum". Heimili þetta varð þegar mjög vinsælt, og marga reykvíska sjómenn, já heilar skipshafnir, heyrði ég dást að því og blessa það. Og satt að segja var mikið og erfitt vandamál leyst með stofnun þess. Pétur varð einnig driffjöðurin í endurreisn Bókasafns Siglufjarðar og átti mestan þátt í viðgangi þess.

Eftir að Pétur fluttist til Reykjavíkur var hann fulltrúi hjá Áfengisvarnaráði og fékk því að starfa að sínu helgasta áhugamáli þar til yfir lauk og heilsan bilaði. Og það var eins og annað mikið um Pétur, að við þrautir og þjáningar varð hann að berjast um 20 mánaða skeið, áður en lausnin kom. Hann fór ekki varhluta af andstreymi í lífinu vegna langvarandi sjúkdóms. En þó kalla ég hann gæfumann verið hafa. Hann eignaðist hinn besta auð, sem til er á jarðríki, góðu konu og góð og gáfuð börn.

Hann gat með sanni sagt að heimilið væri sitt vígi, enda var jafnan sérstök reisn yfir heimili þeirra hjóna. Þar var líka gott að koma, hlýleg gestrisni og andrúmsloftið hlaðið af friði og öryggi. Og til þessa heimilis sótti margur hjálp, hugsvölun og kjark þegar á móti blés. Að manni liðnum er ekki um það spurt, hvar hann hafi eytt ævinni, né heldur í hvaða flokki hann hafi verið, eða á hvaða tröppu í mannfélagsstiganum hann hafi staðið . Spurningin er aðeins ein: „Hvað vannstu drottins veröld til þarfa?" Pétur vildi öllum vel og eftir því breytti hann alla ævi

Árni Óla.
-------------------------------

Þegar ég heyrði tilkynningu um andlát Péturs Björnssonar vinar míns og frænda, sagði ég Guði sé lof. Það getur farið svo, að andlát bestu vina og vandamanna sé kærkomin lausn. Þegar ekkert er fram undan nema langvinnt stríð veikinda, er gott að fá hvíld sem jafnvel öllum er kærkomin og í raun og veru gleðiefni.

Sárindi og söknuður er þó alltaf samfara láti hinna horfnu vina. Hann hét fullu nafni Pétur Sigurður Halberg segir „Samtíðarmenn" og hafði ég ekki munað eftir því en hann var fæddur að Brekkukoti í Blönduhlíð, en æskuheimilið hans var Á í Unadal og við það nafn var Pétur löngum kenndur. Oft heyrði ég Pétur tala um unglingsárin á Á en þar bjuggu foreldrar hans, Björn Guðmundsson og Stefanía Jóhannesdóttir, frá 1906 til 1915 er þau fluttu til Siglufjarðar og nefndu heimili sitt þar Á.

Í Siglufirði vann Pétur og átti heimili um 43 ár, hann rak þar verslun undir sínu nafni og var með kunnustu borgurum bæjarins. Hann naut trausts allra er honum kynntust og aukastörf hans voru æði mörg. Áhugi hans um Bókasafn Siglufjarðar og stúkustörfin tel ég þó að hafi verið efst í huga hans og eiga þessi samtök honum mikið að þakka og eru örugglega ómetanleg, veit ég að jafnvel í banalegu hans sem var löng, voru þessi áhugamál efst í vitund hans.

Þó að Pétur starfaði að mörgum málum um ævina þá fannst mér að landbúnaður væri alltaf ofarlega í huga hans og búsýsla var honum eiginleg. Því var það að árið 1944 keypti hann jörðina Garð í Hegranesi og rak þar búskap í 7 ár með sinni samhentu og stórmerku konu. Jörðina Garð endurbættu þau mjög þó erfitt væri að hafa rekstur á tveimur stöðum. Pétri var ekki gjarnt að hlaupa frá einu í annað og eitt sinn sagði hann mér að sér væri mjög nauðugt að þurfa að hætta búskapnum, hann var svo fast mótaður í hverju sem hann tók að sér og vann að.

Eftir að Pétur fluttist til Siglufjarðar eignaðist hann heimili að Á, fyrst hjá foreldrum sínum en 2. júní 1928 kvæntist hann Þóru Jónsdóttur frá Ystabæ í Hrísey.
Hann sagði mér oftar en einu sinni að þá hefði hann stigið sitt mesta hamingjuspor, en nú þegar leiðir skilja eru þau bæði landskunn fyrir störf sín og persónuleika.

Heimili okkar Péturs hafa alltaf verið bundin tryggum vinaböndum og raunar fannst mér hann oft vera sem bróðir, má raunar segja hið sama um Þóru frænku því að svo einkennilega vill til að ég er skyldur þeim báðum. Alltaf gistum við hjá Þóru og Pétri er komið var til Siglufjarðar, þar var kærkomið athvarf. Mest og best fann ég þó hlýhuga allrar fjölskyldunnar þegar ég var sjúklingur þar og beið eftir að komast á sjúkrahúsið.

Þegar hættulegur uppskurður var afstaðinn og ég talinn í lífshættu sat Pétur yfir mér. Til þeirra fór ég að sjúkrahússvist afstaðinni. Já, þannig voru þau bæði — heilir og óskiptir vinir. Þó að fjölskyldan hafi flutt til Reykjavíkur þá veit ég að hugur þeirra hefir æði oft dvalið á Norðurlandi, því að þar áttu þau traustar rætur. Pétur vann að hugðarmálum sínum hjá Áfengisvarnaráði í raun og veru lengur en heilsa og orka leyfðu.

Þessi vinur minn átti oft við vanheilsu að stríða og banalegan var löng og erfið, en Þóra, þessi mikilhæfa, trúaða og góða kona, var eins og frá byrjun þeirra hjúskapar hin trausta og góða stoð hans allt til síðustu stundar. Þetta eru einkenni hinna bestu íslensku kvenna þar sem kærleikur og fórnfýsi er hið fyrsta og seinasta. Þóru ásamt börnunum öllum sem tekið hafa í arf einkenni foreldranna sendum við hjónin, Vinirnir frá Bæ, innilegar samúðarkveðjur.

Björn í Bæ.
--------------------------------------------

Enn hefur verið höggvið stórt skarð í hóp samherja minna og vina. Ég get með sanni sagt, „að nú gerist skammt stórra högga á milli." Fyrir nokkrum dögum kvaddi ég Snorra Sigfússon, og nú andaðist Pétur Björnsson félagi minn og vinur, 11. maí s.l. Segja má, að sá atburður hafi ekki komið á óvart og að fagna megi lausn frá þjáningunum eftir veikindastríð, sem stóð látlaust yfir hálft annað ár.

Og huggun er það nokkur að um að geta þess hér, að innilegra og betra fjölskyldulífi hefi ég ekki kynnst seinni árin. — Það voru engin vandræði með aldursflokkabilið á bænum þeim. Kom það best í ljós í veikindastríði Péturs, en ekki skulu hér fleiri orð um það höfð. - Eitt af sameiginlegum áhugamálum okkar Péturs var blaða- og tímaritasöfnun, einkum varðandi bindindismál.

Pétur hafði verið stjórnarformaður bókasafnsins á Siglufirði, og einnig vann hann að stofnun bókasafns okkar góðtemplara, áfengisvarnaráðs o.fl., sem ég tel ekki hér. Hann var ákaflega bókfróður maður og sýndi óþreytandi eljusemi í þessu starfi. En allir kunnugir vita, hve erfitt starf er orðið að tína saman gömul blöð og tímarit. Ég minnist þess með ánægju, hvað hann sagði oft við mig, þegar ég heimsótti kunningja mína, að ég skyldi nú athuga, hvort ekki lægi eitthvert blaðarusl uppi á háalofti eða niðri í kjallara hjá þeim!

Og sannarlega gerði ég það! Það var mér mikil gleðistund, ef ég gat fært vini mínum einhvern slíkan feng, og að sjá gleðibros hans, ef hann fann eitthvað, sem hann eða aðra vantaði! Hann kynntist fjölda manna úti um allt land, sem áttu sama áhugamál og sendu honum blöð og tímarit. Hann fékk jafnvel blaðasendingar frá Ameríku. —

Mörgum hjálpaði hann í þessum efnum. Ekki man ég eftir, að peningar væru nefndir í því sambandi aðeins vöruskipti, — en tímatakmörk engin sett. Oft snerust umræður okkar Péturs un bókmenntir og þjóðleg fræði. Hann unni móðurmálinu mjúka og ríka og kunni ósköpin öll í fornum fræðum, t.d. málsháttum og talsháttum. Lærði ég margt af honum í þeim efnum. Hann var eljumaður rnikill og ekki gefinn fyrir að geyma það til morguns, sem hægt var að gera í dag, Þá sagði hann oft: „Maður á aldrei ráð á morgundeginum." Og hver neitar því?

Hann var ákaflega hagsýnn maður, ráðhollur og góðgjarn. Ég sagði stundum við hann, að ef ég hefði þekkt hann á yngri árum mínum, ætti ég núna stórt íbúðarhús, því að hann mundi hafa gefið mér svo góð ráð til framkvæmdanna. — Enn ekki vildi hann nú viðurkenna það. Pétur var gæddur ágætu skopskyni og gat verið fyndinn og orðheppinn, svo af bar. Hann var gætinn í tali, en hélt fast á sínum málstað. í málflutningi gat hann verið erfiður andstæðingur, en ekki minnist ég þess að hann legði öðrum illt til.

Ef ég ætti að lýsa hinum látna vini mínum í fáum orðum, tæki ég nafn hans til samanburðar. Svo fremi að Pétur þýði hella eða bjarg, þá var hann sannarlega bjarg, sem byggja mátti á, þéttur á velli og þéttur í lund, skapmikill, en hófsamur. Hann gat verið stundum þungur á brún eins og björgin. Sumum virtist máske nokkuð þykk á honum skelin, en þegar inn fyrir kom, var hjartað hlýtt, heitar tilfinningar og samúð með þeim, sem í erfiðleikum áttu. Og tryggari vin gat enginn átt. Svona kom hann mér fyrir sjónir. —

Og nóg mun nú samt vera, hygg ég, að hann segði við mig. Að endingu þakka ég ennþá hjartanlega vináttu Péturs Björnssonar og votta elskulegri eiginkonu hans og fjölskyldum þeirra innilega samúð mína. Þau hafa mikið misst, en munu líka þakka fyrir það, sem hinn látni ágætismaður var þeim, og geyma minningu hans í leyndum sjóði hjarta síns. Það munu og aðrir frændur og vinir Péturs Björnssonar gera. Hans mun alltaf verða minnst, sem eins hins besta manns samtíðar sinnar.

Ingimar H. Jóhannesson.
-------------------------------

Það hefur verið gæfa íslenskrar bindindishreyfingar frá upphafi vega að innan vébanda hennar hafa jafnan verið sterkir einstaklingar, gæddir slíku siðferðisþreki, svo óhvikulli sannleiksást og hiklausri réttlætiskennd, að hvergi varð efast um heilindi þeirra og trúmennsku. Einn slíkra var Pétur Björnsson. — Með honum er genginn einn traustasti og besti maður bindindishreyfingarinnar á vorum dögum. Hann stóð jafnan trúr og djarfur á verðinum, brá sér hvorki við andstöðu né hik annarra. Hann var eins og sá drangur sem brimskaflar lemja en fá hvergi bifað.

Pétur Björnsson var fæddur að Brekkukoti fremra í Blönduhlíð 25. október 1897. Foreldrar hans voru hjónin Stefanía Margrét Jóhannesdóttir og Björn Guðmundsson sem síðar bjuggu um skeið að Á í Unadal og voru löngum kennd við þann bæ. —
Foreldrar Stefaníu voru Jóhannes Jóhannesson, bóndi að Hornbrekku í Ólafsfirði, og kona hans, Jónanna Guðrún Jónsdóttir.

Jóhannes drukknaði af hákarlaskipinu Draupni frá Siglufirði er Stefanía var á öðru ári. Jóhannes, afi Stefaníu, var Pétursson, Arngrímssonar, bónda á Geirmundarstöðum í Sæmundarhlíð. Jónanna Guðrún var dóttir hjónanna Önnu Stefánsdóttur og Jóns Dagssonar að Vémundarstöðum í Ólafsfirði. —

Foreldrar Björns voru hjónin Valgerður Olafsdóttir og Guðmundur Gunnarsson, síðast bóndi á Ingveldarstöðum á Reykjaströnd.
Valgerður var dóttir Ólafs, bónda á Illugastöðum í Laxárdal og Mallandi, Ólafssonar á Borgarlæk, og Helgu Aradóttur, bónda í Hólkoti á Reykjaströnd, Péturssonar. Guðmundur var sonur Gunnars, hreppstjóra á Skíðastöðum, Gunnarssonar, bónda þar, Guðmundssonar.
Kona Gunnars hreppstjóra, amma Björns, var Ingibjörg, dóttir Björns, bónda á Herjólfsstöðum og Illugastöðum, og konu hans Sigurlaugar Jónsdóttur, bónda á Kleif, Þorvaldssonar, prests í Hvammi í Laxárdal, Jónssonar.

Ætt Gunnars er alkunn, Skíðastaðaætt. Pétur Björnsson ólst upp með foreldrum sínum, fyrsta árið að Brekkukoti, þá á Bakka í Viðvíkursveit til 1906 og síðan á Á í Unadal frá 1906 til 1915 en þá flutti fjölskyldan til Siglufjarðar. Þar varð starfsvettvangur Péturs í rúm 40 ár, allt þar til hann gerðist erindreki Áfengisvarnaráðs árið 1955. -

Pétur naut góðs uppeldis í skjóli ástríkra foreldra. Ég man þá báða, Björn, blindan öldung en síkátan og hressan, Stefaníu, einstaka gæðakonu og hjálparhellu þeirra er höllum fæti stóðu. Ungur sigldi Pétur til Noregs og vann þar við beykisstörf og fleira árin 1919 og 1920. Er heim kom til Siglufjarðar tókst hann á hendur ýmiss konar störf til ársins 1927 er hann stofnaði verslun sem hann starfrækti til 1958.

Eins og fyrr segir hafði hann gerst erindreki Áfengisvarnaráðs 1955 og því  flutti hann heimili sitt til Reykjavíkur. Hann gegndi störfum hjá Áfengisvarnaráði til hausts 1976. Um sjö ára skeið, frá 1944, stundaði hann búskap í Garði í Hegranesi samhliða kaupmennskunni. Auk þessara aðalstarfa vann Pétur Björnsson að fjölmörgum öðrum málum er til heilla horfðu.

Hann var bæjarfulltrúi á Siglufirði 1946—1950, í niðurjöfnunarnefnd 1924-1928, endurskoðandi bæjarreikninga 1929—1933, formaður stjórnar Bókasafns Siglufjarðar 1938—1958, formaður áfengisvarnanefndar Siglufjarðar 1935—1958, í stjórn Sparisjóðs Siglufjarðar 1947—1948, í sóknarnefnd 1936—1960, formaður Sögufélags Siglufjarðar um skeið, í stjórn Búnaðarfélags Siglufjarðar lengi, í stjórn verkamannafélags í 6 ár, í fyrstu stjórn karlakórsins Vísir og er þó ekki allt talið. Til að mynda hefur ekki verið minnst á störf hans, mikil og merk, innan bindindishreyfingarinnar.

Áður en það verður gert er tilhlýðilegt að geta konu hans, sem átti ómældan þátt í störfum hans og heillum þeim er honum fylgdu, Þóru Jónsdóttur, útvegsbónda frá Ystabæ í Hrísey, Kristinssonar. Þau Pétur giftust 2. júní 1928. Sér hún því á bak manni sínum eftir hálfrar aldar hjúskap. Og svo nátengd voru þau hjónin „á Á"

Í augum Siglfirðinga að þá kom jafnan hitt í hug er annað var nefnt.
Fjögurra barna varð þeim hjónum auðið og eru öll á lífi.
Þau eru:

 • Hallfríður Elín Pétursdóttir handavinnukennari, gift Stefáni Friðrikssyni lögreglumanni;

 • Stefanía María Pétursdóttir, gift Ólafi Tómassyni yfirverkfræðingi;

 • Kristín Hólmfríður Pétursdóttir bókasafnsfræðingur, gift Baldri Ingólfssyni menntaskólakennara; og

 • Björn skrifstofustjóri á Akranesi, kvæntur Bergljótu Ólafsdóttur kennara.

Barnabörnin eru 12.

Þegar Pétur Björnsson varð 75 ára og á áttræðisafmæli hans minntist ég hans nokkrum orðum. Þar segir örlítið frá félagsmálastarfsemi hans og raunar þeirra hjóna beggja. Mun ég vitna til þess að nokkru hér: Þau hjón, Þóra Jónsdóttir og Pétur Björnsson, höfðu, þegar þau giftust, verið í stúkunni Framsókn um skeið og frú Þóra „hafði þá um sinn verið ein helsta stoð og stytta bindindisstarfs á Siglufirði.

Unnu þau hjón síðan samhent og ákveðið að félagsmálum Siglfirðinga í tæpa þrjá áratugi. Frú Þóra var löngum gæslumaður barnastúkunnar Eyrarrósar og mun varla ofmælt að hún hafi leitt tvær kynslóðir ungra Siglfirðinga fyrstu sporin á félagsmálabrautinni. Mér er í barnsminni hve henni var eðlilegt að beina hugum ungs fólks að þeim siðum sem háleitastir eru. Fyrir það eiga margir henni þakkarskuld að gjalda. —

Pétur Björnsson var hins vegar lengst af í fylkingarbrjósti í stúkunni Framsókn." Einn merkasti þátturinn í starfi stúkunnar var stofnun og starfræksla Sjómanna- og gestaheimilis Siglufjarðar. „Saga Sjómannaheimilisins er gildur þáttur í sögu Siglufjarðar um aldarfjórðungs skeið. Ekki hygg ég á neinn hallað þó að þess sé minnst að Pétur Björnsson átti hvað drýgstan þáttinn í stofnun þess og var öruggur bakhjarl starfseminnar jafnan síðan." í stjórn Sjómanna og gestaheimilisins sat hann rúma tvo áratugi.

Og þótt þessa eins væri minnst af störfum Péturs á Siglufirði „nægði það til að tryggja honum verðugan sess meðal bestu forystumanna Siglfirðinga." Ein var sú stofnun siglfirsk sem Pétur Björnsson lét sér annt um öðrum fremur. Það var Bókasafn Siglufjarðar. Sem fyrr segir var hann formaður stjórnar bókasafnsins í áratugi „og átti manna drýgstan þáttinn í að efla safnið og afla því ýmislegs fágætis. Og það hygg ég sannmæli að Bókasafn Siglufjarðar væri önnur stofnun og rislægri ef ekki hefði notið forsjár hans um langan aldur og vökullar útsjónarsemi alla tíð."

Þegar Pétur Björnsson varð fyrsti erindreki Áfengisvarnaráðs hafði frú Þóra um nokkurt árabil verið stórgæslumaður unglingsstarfs Stórstúku íslands. „Var eðlilegt að þau væru kvödd til starfa fyrir landsmenn alla. Slík höfðu störf þeirra á Siglufirði verið."

„Pétur Björnsson átti hvað drýgstan hlut að máli þegar hafist var handa við að skipuleggja störf áfengisvarnanefnda og stofna félög þeirra. Þar var í engu rasað um ráð fram en unnið af stillingu og festu. Pétur fór sér að engu óðslega, gaf sér tíma til að kynnast aðstæðum á hverjum stað, mönnum og málefnum. Verk hans eru því traustrar gerðar eins og maðurinn sjálfur og unnin af þeirri einlægni og innsýni í kjör manna og háttu að vini" átti „hann í hverri byggð á landi hér."

Áfengisvarnaráð og áfengisvarnamenn víðs vegar um land þakka störf Péturs og samstarfið við hann frá upphafi vega. Öryggi, festa og gætni einkenndu störf hans og dagfar allt. Hann var óvenju heilsteyptur maður. Fjas og sýndarmennska voru eitur í beinum hans. Hann vildi vel og vann vel. — Mér er í minni hversu náið hann fylgdist með högum góðra vina sinna í áfengisvarnanefndum víðs vegar um land. —

En Pétur var ekki allra. Óheiðarlegt fólk, svikult og rætið, átti ekki upp á pallborðið hjá honum. Um slíkt fólk vildi hann helst ekki tala; hann þekkti það ekki. Trúlyndi var svo sterkur þáttur skaphafnar hans að hann átti bágt með að þola yfirborðshátt, dómgreindarskort og illgirni flysjunga. Pétur Björnsson man ég allt frá þeim tíma að ég tók að skynja veröldina kringum mig.

Með þeim föður mínum var kær, gamalgróin vinátta sem ekki féll skuggi á meðan báðir lifðu. Síðar átti ég eftir að verða samstarfsmaður Péturs um árabil. Ekki gat ég óskað mér betri félaga þótt aldursmunur væri nokkur. Það fylgdi því notaleg öryggiskennd að vita af honum í stólnum sínum. Ráð hans voru heillaráð. Honum gat ég treyst í hverjum vanda. „Betri voru handtök hans heldur en flestra tveggja". Og nú er Pétur horfinn frá önnum þessa lífs og erli, aldinn að árum. Hvíldin mun kær vinnulúnum atorkumönnum. Og það er gott að kveðja með slíkt dagsverk að baki sem Pétur á. Frú Þóru og öðrum aðstandendum vottum við samúð. Guð gefi honum raun lofi betri.

Ólafur Haukur Árnason.
-------------------------------

 • "Að reikna ekki í árum en öldum
 • að alheimta daglaun að kvöldum
 • því svo lengist mannsæfin mest"

Þessar ljóðlínur leita á hugann, þegar ég rifja upp samferðaleiðina með Pétri Björnssyni. Kynni okkar Péturs hófust ekki fyrr en hann kom til starfa hjá Áfengisvarnaráði og mörg undanfarin ár vorum við saman í stjórn Landssambandsins gegn áfengisbölina og var hann varaformaður þess. Þar var hann vakinn og sofinn yfir hverju því tækifæri, sem gafst til þess að þoka málum nokkuð á leið. Landssambandið þakkar honum mikið og óeigingjarnt starf í bágu þess. Pétur var eldheitur hugsjónamaður.

Hann sá fyrir sér hamingjusamt, bindindissinnað og heilbrigt þjóðfélag og helgaði starf sitt því, sem hann áleit rétt, gott og farsælt fyrir land og þjóð. Hann spurði ekki um laun, heldur hvort hægt væri að verða að liði. Hann mat hlutina ekki eftir daglaunum að kvöldi heldur eftir því hvers virði þeir voru bornum og óbornum. Hann var ávallt með það í huga að ganga götuna til góðs og að ávextir strits og starfs yrðu almenningi til heilla. Og þótt á móti blési um sinn var aldrei gefist upp né misst sjónar á háleitu markmiði, heldur unnið sleitulaust til þess að bæta úr og þoka málum áleiðis. Pétur var einlægur bindindismaður.

Hann tók ávallt nærri sér, þegar illa fór fyrir fólki vegna áfengisneyslu. Miðað við allt það böl, sem áfengisneyslan orsakar fannst honum lítið á sig lagt að vinna gegn slíku með því að vera bindindismaður sjálfur. Væru þeir nógu margir, sem sýndu þá staðfestu að neyta ekki áfengis, þá væri stórvirki unnið í baráttunni gegn áfengisbölinu. Alla ævi ásamt sinni ágætu konu, Þóru Jónsdóttur, vann Pétur meira og minna að bindindismálum og var virkur mjög í baráttunni gegn því böli, sem af áfengisneyslu leiðir. Pétur var dugmikill starfsmaður. Góður að skipuleggja verk og fylginn sér.

Um leið og hann tók verkefni að sér var það komið í gang af fullum krafti og því lokið á ótrúlega skömmum tíma. Og frá hverjum þætti var gengið þannig að öruggt væri. Ekki sleppt hendi af nokkru atriði fyrr en það var að fullu leyst. Þetta einkenndi störf Péturs. Pétur var sannur Íslendingur. Hann var bókamaður mikill og fróður mjög. Hann var með afbrigðum orðheldinn, stundvís og reglusamur. Hann var kröfuharður við sjálfan sig og hann mat mikils góðar dyggðir. Hann var vinfastur, traustur og góður drengur.

Pétur taldi að fólk ætti ávallt að kappkosta að vera góð fyrirmynd á hvaða sviði sem væri og sannarlega brást hann ekki sjálfur þeirri lífsskoðun sinni. Vandamálin væru færri og lífshamingjan meiri ef fólk ætti almennt eins háleita lífstrú og gengi eins öruggum skrefum lífsbraut sína og Pétur gerði.

Við sem þekktum hann þökkum af heilum huga og öll þjóðin getur þakkað mætum syni, syni sem ekki barst á en lagði sig fram um að varða. lífsbrautina, sem til farsældar og gæfu liggur. Brostinn er strengur hreinna og sannra tóna, tóna, sem ekki deyja út heldur lifa í verkum og minningum um góðan dreng. Honum fylgi blessun guðs. Eiginkonu og aðstandendum öllum sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Páll V. Daníelsson
-------------------------------

Sextugur í dag : Pétur Björnsson kaupmaður og erindreki

PÉTUR BJÖRNSSON er fæddur 25. okt. 1897 í Brekkukoti við Stóru-Akra í Blönduhlíð. Bjuggu þar þá foreldrar hans, Stefanía Jóhannesdóttir og Björn Guðmundsson. Höfðu þau flutts þangað frá Borgarey í Vallhólmi, en voru komin i Hólminn utan af Reykjaströnd, frá Ingveldarstöðvm.
Þar byrjuðu þau búskap 1891, en þá giftust þau. Faðir Björns bjó um hríð á Ingveldarstóðum, þangað kominn vestan frá Hafstöðum, en Guðmundur var Gunnarsson, hreppstjóra á Skíðastöðum  Gunnarssonar, ©g voru þau systkini mörg og tápmikil, en móðir Björns var Valgerður Ólafsdóttir frá Mallandi. Skíðastaðarmenn eru athafna- og dugnaðarforkar, enda hafa margir þeirra komist í álnir.

Þegar Björn Guðmundsson var ungur maður á Reykjaströnd inni, bjó á Reykjum á Reykjarströnd Páll Halldórsson, fluttur þangað úr Ólafsfirði, og kona hans Jónanna Jónsdóttir. Var Páll seinni maður hennar, en af fyrra hjónabandi hennar var Stefanía. Jóhannes Jóhannesson, faðir hennar, drukknaði vorið 1875, og var Stefanía þá tveggja ára. Sá Jóhannes var Skagfirðingur, fæddur í Kjartansstaðakoti 1844, sonur Jóhannesar Péturssonar frá Geirmundarstöðum, bróður Jóhanns hreppstjóra á Brúnastöðum. —

Þau Björn og Stefanía urðu eftir, þegar móðir hennar og stjúpfaðir með börnum sínum hurfu af landi brott vestur um haf. — Ekki undu ungu hjónin lengi í Brekkukoti, enda er það rýrðarkot og nú fyrir nokkru komið í eyði. Brugðu þau búi 1898, og gerðist þá Björn ráðsmaður á Bakka í Viðvíkursveit, en kona hans var þar með börnin í húsmennsku. Frá Bakka lá leiðin út að Á í Unadal, og bjuggu þau hjón þar 1906—1915. Voru þeir feðgar oft kenndir við Á eftir það.

Árið 1915 fluttist fjölskyldan til Siglufjarðar, og síðan hefir Pétur átt heima þar. Nauðugur fór hann frá Á, því að hann hafði dreymt stóra drauma um góðbúskap, og harmaði hann um sinn flutninginn á mölina, en þar kom, að það greri kringum hann á Siglufjarðareyri, einkum í óeiginlegri merkingu. Pétur Björnsson er einn af bestu borgurum Siglufjarðar og einn þeirra manna, sem sett hefir svip á bæinn.

Framan af fékkst Pétur við allskonar vinnu, og fyrsta félagsmálastarf hans var í verkamannafélagi á Siglufirði. Var hann í stjórn þess í 7 ár. Árið 1926 hóf Pétur verslun í bænum og rekur hana enn. Hefir hann alltaf verslað með nauðsynjavörur. — Helstu hugðarefni hans hafa verið bindindismál, kirkjumál og bókasafnið, þó að fleira hafi hann látið til sín taka, eins »g búskap um skeið.

Segist Pétri svo frá, að sér hafi fundist hann skulda Skagfirðingum sinum eitthvert átak. Árið 1944 átti hann þess kost að eignast jörð og bú í Skagafirði, og rak hann búið í nokkur ár, eða meðan börn hans voru að komast á legg. Húsaði hann jörðina vel og gerði miklar jarðabætur. Þóttist nú Pétur að þessu búnu hafa greitt Skagafirði skuldina, er honum fannst hvíla á sér, áður en hann gerði Garðinn frægan.

Mörg trúnaðarstörf hefir Pétur Björnsson rækt fyrir Siglufjarðarkaupstað. Bæjarfulltrúi var hann eitt kjörtímabil, í niðurjöfnunarnefnd um hríð, í stjórn Búnaðarfélags Siglufjarðar um 20 ár og í stjórn Bókasafns bæjarins hefir hann verið frá 1938, og hefir safnið tekið miklum stakkaskiptum á þessum árum. Telur það nú um 12 þúsundir binda. Á enginn maður meiri þátt í vexti safnsins en Pétur.

Þá hefir Pétur verið í sóknarnefnd um 20 ár og jafnan látið sér annt um kirkju sína. Má með sanni segja, að hann hafi verið gæfumaður. Góðir og göfugir foreldrar leiddu hann ungan á farsældarveg. Góð atgerviskona var honum gefin og mannvænleg börn og honum hefir auðnast að vinna að framgangi góðra mála. „Guð í hjarta, Guð í stafni gefur fararheill". Síðast en ekki síst er að nefna starfsemi afmælisbarnsins á sviði bindindismála.

Pétur gerðist templari árið 1926, gekk í stúkuna „Framsókn", og hefir verið stoð hennar og stytta síðan, ásamt konu sinni, Þóru Jónsdóttur frá Ystabæ. Þau giftust 2. júní 1928, og segir Pétur það konu sinni að þakka, hvað hann hafi unnið að bindindismálum og öðrum góðum málum.

Frú Þóra hefir lengi verið gæslumaður barna stúkunnar „Eyrarrósin" með ágætum, og sex ár var hún  stórgæslumaður unglingastarfs í Stórstúku Íslands, og gegndi hún því starfi með framúrskarandi árvekni og beitti sínum miklu hæfi leikum til eflingar starfinu, og studdi maður hennar hana með ráðum og dáð. —

Ég hefi stundum hugsað um það, ef hvert þorp og kaupstaður á Íslandi hefði sl. mannsaldur átt Þóru og Pétur með sína „Framsókn" og „Eyrarrós", þá myndi margt betur horfa nú en raun ber vitni um í bæjum Íslands og þorpum. Þessi hjón hafa unnið ómetanlegt starf fyrir mannfélagið. 

Auk stúkustarfsins hefir „Sjómanna- og gestaheimilið" á Siglufirði að verulegu leyti hvílt á herðum þeirra hjóna, og var Pétur aðalhvatamaðurinn að stofnun þess 1939, en frá þeim tíma hefir stofan verið rekin með dálitlum styrk frá Góðtemplarareglunni, til blessunar fyrir sjómennina, sem þar hafa margir varðveitt heilbrigt líf sitt í véum þessa heimilis.

Fyrsta vinna Péturs á Siglufirði var að hjálpa til að koma upp norska sjómannaheimilinu. — Pétur hefur unnið mikið menningar- og björgunarstarf um ævina. Hann er maður ráðhollur og góðgjarn, og hafa margir notið þess. Formaður áfengisvarnanefndar hefir Pétur verið á Siglufirði, frá því er þær nefndir komu til sögunnar. Loks er að geta starfs afmælisbarns vors í þjónustu áfengisvarnaráðs.

Þegar ráð þetta var stofnað fyrir þremur árum síðan og ég var skipaður formaður þess, var mér ljóst, að því aðeins fengi starf áfengisvarnanefndanna náð tilgangi sínum, að ráðnir væru vel hæfir menn til þess að ferðast milli nefndanna, vekja áhuga þeirra á starfinu, samræma störf þeirra og starfsháttu og stofna til samvinnu við sem flesta menningaraðila í þjóðfélaginu. Áfengisvarnaráð féllst á ráðningu Péturs Björnssonar sem erindreka, og er þetta þriðja árið, sem hann starfar að áfengisvörnum fyrir ráðið.

Er þar skemmst frá að segja, að hann hefir í þessu starfi áunnið sér traust og virðingu áfengisvarnaráðs og vinsældir og álit áfengisvarnanefndanna. Tel ég, að Pétur hafi unnið 'Stórvirki þessi misseri. Ber þar margt til: Ið fyrsta, að hann er þaulvanur félagsmálastarfi. Annað, að hann kann manna best að þoka fram merkinu, án þess að hafa sig mikið í frammi. Hann er fáorður, en gagnorður.

Þriðja, að hann hefir óbilandi trú á málstaðnum, sem hann hefir tekið að sér. Fjórða, að hann kann að velja menn til starfa. Fimmta ,að hann er traustur eins og bjarg. Pétur Björnsson er óþreytandi. Hann hefir ferðast milli áfengisvarnanefndanna í hverjum hreppi og kaupstað um gervallt Norður- og Austurland, og sums staðar hefir hann komið tvisvar og þrisvar. Enn fremur hefir hann ferðast hér syðra í nágrenni Reykjavíkur og í sl. mánuði vestra, um Dali og sveitir Austur-Barðastrandarsýslu.

Skýrslur Péturs eru glöggar, og hann kann mætavel að greina milli meginatriða og aukaatriða, og er það mikilsvert. Heimili Péturs og Þóru er góðfrægt. Þau eiga f fjögur mannvænleg börn, og hefir hann aflað þeim góðrar menntunar. Við áfengisvarnaráðsmenn ám um Pétri Björnssyni allra heilla á sextugsafmælinu, kunnum honum bestu þakkir fyrir mikið og gott starf á vettvangi bindindismálanna og vonum, að við fáum að njóta krafta hans sem lengst. Persónulega þakka ég hugljúfa samvinnu vini mínum, reglu og starfsbróður.

Brynleifur Tobiasson.
-==========================================

Neisti - 18. apríl 1964

Landssíminn hefir tekið hús Péturs Björnssonar é leigu, og er ákveðið að flytja alla starfsemi pósts og síma þangað, meðan lokið verður við byggingu hins nýja póst og símahúss.
--------------------------------
Mjölnir - 26. maí 1964

LANDSSÍMINN er nú fluttur með póststofu og símaafgreiðslu í hús Péturs Björnssonar og verður þar næstu tvö ár til húsa, ef að líkum lætur. Vel þótti ganga að flytja símann og mun ekki hafa verið sombandslaust nema eina kvöldstund, og ekki virðist bera mikið ó „vitlausum númerum" þrátt fyrir flutninginn.

Sjálfvirki síminn er kominn til Siglufjarðar í sjötíu kistum og verður settur upp í nýja húsið.