Páll Ásgrímsson

Þjóðviljinn - 28. október 1978 - Fáein minningarorð

Páll Ásgrímsson Fæddur 23.mars 1892 — dáinn 3.ágúst 1978

„Allt hefðarstand er mótuð mynt, en maðurinn gullið þrátt fyrir allt".

Þegar við vinir og samverkamenn Páls Ásgrímssonar minnumst hans látins og samvistanna við hann, slíkur mannkostamaður sem hann var, finnst okkur ekkert lýsa honum betur en þessar ljóðlínur.  

Ævisaga hans var svipuð ævi fjölmargra annarra íslenskra alþýðumanna, en hann var sómi og prýði sinnar stéttar. Páll var fæddur að Sigríðarstöðum í Flókadal í Vestur-Fljótum.
Foreldrar hans voru hjónin Sigríður Sigurðardóttir og Ásgrímur Sigurðsson, sem þá bjuggu þar en fluttust siðar að Vatni og Dæli I sömu sveit. Foreldrar hans eignuðust 13 börn og komust 9 þeirra til fullorðinsára.

Páll Ásgrímsson - Ljósmynd Hulda G Kristinsdóttir

Páll Ásgrímsson - Ljósmynd Hulda G Kristinsdóttir

Vegna fátæktar urðu foreldrarnir að láta fjögur af börnum sínum frá sér á unga aldri og ólust þau upp hjá vandalausum. En Páll átti því láni að fagna að alast upp hjá foreldrum sínum og njóta þar kærleika og fórnfúsrar umönnunar eins og hann kemst sjálfur að orði. Eftir fermingu langaði hann mjög til að komast I skóla, því að hugurinn hneigðist ákaft til bókar, en þess var enginn kostur vegna fátæktar.

Seytján ára gamall fór hann I vinnumennsku að Felli i Sléttuhlíð og var þar i 8 ár. ú r Sléttuhlið fluttist Páll að Illugastöðum i Flókadal og bjó þar með Maríu systur sinni í fimm ár, en fluttist þá til Siglufjarðar 1925.

Á Siglufirði hefur hann búið síðan. Árið 1926 kvæntist hann Sigriði Indriðadóttur og eignuðust þau þrjá syni

Árið 1935 missti Páll Sigriði konu sina eftir ástrika sambúð og hafði hún þá átt við mikil veikindi að stríða.

Árið 1939 kvæntist Páll I annað sinn Ingibjörgu Sveinsdóttur mikilli dugnaðar- og mannkostakonu og lifir hún mann sinn. Sýndi hún ekki síst hver hún var, þegar Páll var þrotinn að heilsu og kröftum.
Þau Páll og Ingibjörg eignuðust þrjú börn:

  • Magnús Pálsson,
  • Sigríður Pálsdóttir og
  • Lilja Kristn Pálsdóttir

Og getur sá er þetta ritar borið því vitni, að þau virtust öll hafa erft kosti foreldranna í ríkum mæli.

Syni Páls af fyrra hjónabandi þekkti ég ekki, en þeir munu allir hafa verið góðum gáfum gæddir. Páll gegndi ýmsum trúnaðarstörfum um ævina, þar sem hann var glöggur og greindur og mjög vel að sér um marga hluti, þótt ekki gengi hann skólaveginn, en börn sin reyndi hann að styrkja til mennta eftir því sem efni leyfðu. Það var sama hvaða starf Páll tók að sér. 011 vann hann þau svo vel sem framast var unnt.

Flest þau störf, sem hann vann fyrir samfélagið voru á sviði verkalýðs-og samvinnumála. Hann var einn af stofnendum Kaupfélags Siglfirðinga og lengst af I stjórn þess og starfsmaður þess frá 1956 og til 1969. Einnig starfaði hann i áfengisvarnarnefnd og barnaverndarnefnd. En Páll var ekki framagjarn, annars hefði hann eflaust getað komist til meiri mannvirðingar, því til þess hafði hann alla burði.

En trúmennska Páls kom ekki aðeins fram í hverju því starfi, sem hann tók sér á hendur. Hann var alltaf trúr hugsjóninni um betri heim, og öll hans félagsstörf voru bundin þeirri hugsjón. Hann var alla tíð einlægur sósíalisti eftir að hann kynntist þeirri stefnu, og hann kunni einnig að meta gildi stéttar sinnar. Hann vissi vel, þótt hann væri hæglátur og yfirlætislaus, að verkamaðurinn átti ekki siður skilið virðingu en þeir sem teljast hærra settir i mannfélags stiganum og hann trúði a hlutverk stéttar sinnar. Slíkir menn eru salt jarðar svo notuð séu orð heilagrar ritningar.

En þótt hann væri hæglátur og yfirlætislaus, gat hann verið fastur fyrir og hvikaði aldrei frá því, sem hann taldi rétt. Síðustu árin var hann farinn að heilsu og orðinn blindur, en andlegri heilsu hélt hann til hinstu stundar. Hann dó á sjúkrahúsi Siglufjarðar og mun hafa þráð hvíld, enda trúði hann, að ekki væri öllu lokið með   þessu lífi.

Hann var allvel hagmæltur eins og þessi vísa sýnir, sem fannst I fórum hans látins:

  • "Senn að líður síðasta nótt
  • svefninn hvílir Iúna.
  • Það er gott að fara fljótt,
  • feigðin kallar núna."

Við þökkum Páli samveruna og öll hans giftudrjúgu störf og sendum hans ágætu eiginkonu og börnum hans samúðarkveðjur.
(Frá vinum og samstarfsmönnum)

_______________________

Mjölnir - 14. apríl 1972

Páll Ásgrímsson verkamaður, Mjóstræti 2, Siglufirði, varð áttræður hinn 21. mars sl. Þótt Páll hafi auðvitað mátt reyna ýmiskonar mótlæti á sínum áttatíu árum, er hann samt mikill gæfumaður, þegar á allt er litið. 1 þeim einkamálum, sem ráða úrslitum um persónulega giftu hvers manns, hefur flest orðið honum til farsældar.

Hann hefur verið vel kvæntur, heimilislíf hans hefur alltaf verið til fyrirmyndar og börn hans hafa komist hvert öðru betur til manns. Páll hefur mikil afskipti haft af málum verkalýðs og vinstri manna i Siglufirði, og á að baki áratuga starf í samvinnusamtökum og verkalýðssamtökum bæjarins og stjórnmálasamtökum vinstri manna.

Og fullyrða má, að einnig á þeim vettvangi hefur gæfa fylgt handtökum hans. Því veldur hófsemi hans og sanngirni, ásamt ágætri greind. Mjölnir óskar Páli til hamingju í tilefni af afmælinu, og þakkar honum liðveisluna í bar áttunni fyrir sameiginlegum áhugamálum.