Einar Pálsson forstjóri

Morgunblaðið - 26. júní 1977 - Minning 

Einar Pálsson  — Fæddur á Siglufirði 9. apríl 1929. Dó í bílslysi. 18.júní 1977.

Foreldrar hans voru Páll Ásgrímsson og Sigriðu Indriðadóttir

Albræður Einars voru 

 • Indriði Pálssonf. 9. apríl 1929, d. 18. júní 1977, og 
 • Ásgrímur Pálsson, f. 13. ágúst 1930, d. 17. desember 1984. 

Systkini frá seinna hjónabandi Páls með Ingibjörg Sveinsdóttir, konu hans eru:  

 • Magnús Pálsson, f. 6. september 1939, 
 • Sigríður Pálsdóttir, f. 10. desember 1940, og 
 • Lilja Kristín Pálsdóttir,  (Lilja Pálsdóttir) f. 5. janúar 1948.

Við, sem brautskráðumst frá Menntaskólanum á Akureyri vorið 1950, vorum óræður hópur bjartra vona og stórra fyrirheita. Einhvers staðar áttum við öll heima á hinni tölfræðilegu táknmynd, á Gaussiska fletinum, sem skýrir en skilur ekki. Þau okkar sem voru úr stærðfræðideild litum á þennan stærðfræðilega flöt sem leiðbeiningu um lífið og leitni þess. Stærðfræði og tölfræði voru bestu kennarar okkar, leiðarljósin og lífsins speki. í dag vitum við, að ekkert er óbrigðult.

Einar Pálsson - Ljósmyndari ókunnur

Einar Pálsson - Ljósmyndari ókunnur

Við fráfall Einars Pálssonar sannast að lífið lýtur ekki tölfræði, heldur tilviljun og tröllvöxnum sköpum, sem enginn skilur. Við Einar vorum samvista á Akureyri og í tvo vetur á Gamla Garði. Það var stutt á milli herbergja bæði fyrir norðan og sunnan. Við skröfuðum og skeggræddum, við tefldum og töluðum, og það var tekist á í gamni og alvöru. Fyrir mörgum árum rakst ég á Einar í Kaupmannahöfn. Þá sá ég að enn var Einar sá sami. Hann var glaður og ljúfur og sjálfum sér samkvæmur, slípaður og kurteis en þannig var einmitt Einar Pálsson, eins og ég sá hann fyrst og sá hann síðar.

Leiðir okkar lágu svo aftur saman á 25-ára stúdentsafmælinu 1975. Þá hittumst við á Akureyri glaðir og reifir, í sól og sumri. Einar hafði þá tekið að sér vandasamt starf, þar sem skipulagshæfileikar hans nutu sín og hann gat beitt glöggskyggni og raunsæi, stærðfræðingurinn Einar hafði fundið sinn tölfræðilega vettvang. Þessir fögru júnídagar á Akureyri 1975 urðu okkur öllum, sem þarna mættum, að ljúfri minningu, enda skipulagði

Einar sem áður allt, sem fram fór á vegum bekkjarsystkinanna.

"Hógværð hefur mikil völd," það orðtak á við um Einar Pálsson. Meðal okkar, sem kynntumst honum, var hann samnefnarinn, greindur og gegn.

Lífseiningin verður aldrei metin að magni, maðurinn aldrei skilinn af sjálfum sér, til þess eru engar rökréttar forsendur. Þessari hugsun skýtur upp þegar það ólíklega hefur orðið, þegar sá, sem átti veg virðingar og vanda, er horfinn. En staðreynd er það samt.

Það er fátt hægt að segja á slysstað, þó að sá veruleiki virðist við blasa, að tæknin taki börnin sín. Hvert fórnarlambið verður veit greinilega enginn. Það eina, sem eftir verður, er leiði og sár, sem lífið mun þó lækna.

Kynni mín af Einari voru slík, að ég man hann og minnist hans. Það veit ég, að þeir gera betur, sem næstir honum standa og nákaldan veruleikann eiga nú.

Selfossi, 22. júní 1977. Brynleifur H. Steingrímsson.
--------------------------

Það er 17. júní 1950. — Hópur nýstúdenta kveður Menntaskólann á Akureyri. Birta hins íslenska vors er algjör og framtíðin blasir við björt og fögur eins og „nóttlaus voraldar veröld."

7. júní 1975. — Glaðvær hópur miðaldra fólks er samankominn á Akureyri til þess að minnast 25 ára stúdentsafmælis. Sumir hafa ekki sést þennan aldarfjórðung enda eru nú fagnaðarfundir og margs að minnast. Aðeins einn bekkjarbróðir er horfinn á annað lífssvið, en okkur finnst hann vera mitt á meðal okkar. Einn úr hópnum flytur ræðu við skólaslit og afhendir gjöf bekkjarins til skólans. Sá er nýfluttur heim til Íslands eftir áratuga dvöl erlendis við nám og störf. Einar Pálsson, fyrrverandi Inspector scholae, kominn heim í gamla hópinn og enn ríkir „nóttlaus voraldar veröld."

Tvö ár líða og fréttin kemur sem reiðarslag. — „Þetta getur ekki verið hann Einar okkar," segir hver við annan í ótta og spurn. En staðreyndin er einmitt sú. — Skjótt hefir sól brugðið sumri."

Fórnfýsi, þrautseigja og trúmennska í starfi eru þeir eiginleikar í fari Einars Pálssonar sem voru áberandi strax á skólaárum hans. Það var því engin tilviljun að hann var kosinn Inspector scolae í 6. bekk M.A. Þórarinn Björnsson fékk þar traustan mann í ábyrgðarstöðu og vita allir sem eitthvað þekkja til skólastarfs hve mikilvægt er að gagnkvæmt traust sé milli slíkra aðila.

Einar var ekki þannig að hann notfærði sér stöðu sína til þess að segja skólasystkinum sínum fyrir verkum og sitja sjálfur auðum höndum. öðru nær. — Enginn sást hamast meira en hann við að bera borð og stóla þegar rýma þurfti „SAL" vegna hátíðar eða fundarhalda. Ósérhlífni hans var einstök. —

Sem dæmi um hjálpsemi Einars má nefna aðstoð hans við bekkjarbróður sem gekkst undir hættulegan uppskurð í Kaupmannahöfn þegar Einar var þar búsettur. Hvorki tími né peningar voru sparaðir til þess að létta hinum sjúka og aðstandendum heima á Íslandi baráttuna. Einar heimsótti bekkjarbróður sinn daglega og var i stöðugu símasambandi við aðstandendur sem heima biðu milli vonar og ótta. Einnig gaf hann sér tíma til að skrifa löng og ýtarleg bréf um batahorfur og líðan sjúklingsins.

Allt leyst af hendi með sömu ljúfmennskunni en jafnframt þessi hressilega drift. Engar vangaveltur heldur framkvæmd á stundinni. Hvað lífið verður einfalt og vandalítið í návist slíkra manna. Já, lífið, hvað er lífið? Aðeins þessi jarðvist? Þar verður hver að hafa sína skoðun. En sum okkar sætta sig ekki við þá trú að mönnum sé kippt úr þessu jarðlífi, á besta aldri, í fullu starfi og þar með búið.

„Ég lifi og þér munuð lifa" var sagt fyrir nær 2000 árum og er jafngilt nú sem þá. En þetta fyrirheit um framhald lífs, víkur oft fyrir sorg og söknuði sem fyllir hugann við fráfall vinar. Þó að stórt skarð sé nú höggvið í bekkjarhópinn þá er sorgin þó sárust hjá ástvinum Einars. Við sendum eiginkonu hans og börnum hans innilegar samúðarkveðjur og vonum að litli Einar Örn verði sannur sólargeisli sem hjálpi móður sinni að ná heilsu og kröftum á ný.

Bekkjarsystkini.
--------------------------------------

Í einu þeirra mörgu og sviplegu dauðaslysa sem haf a herjað á okkar litla þjóðfélag undanfarna daga, hvarf úr hópi okkar Einar Pálsson, forstjóri Reiknistofu bankanna. Einar var meðal frumherjanna, sem helguðu sig nýrri tækni sem þá var að byrja að ryðja sér til rúms. Kynni okkar hófust árið 1965 er ég réði hann til fyrirtækis míns. Hann var þá búsettur í Kaupmannahöfn.

Hlaut hann þar tveggja ára starfsþjálfun í tölvufræðum, en kom að því loknu heim til Íslands og tók við ábyrgðarstöðu hér, eins og fyrirhugað var. Mikil og ör þróun, að segja má byltingarkennd, varð á starfsvettvangi okkar um þær mundir er hann tók við starfi. Má því að líkum ráða að beðið var eftir starfsþekkingu hans og reynslu, enda má fullyrða að á þessum tíma hafi hann verið einn best menntaði Íslendingur I töluvfræðum.

Mjög fljótt vann Einar trúnað samstarfsmanna sinna, svo og viðskiptavina, vegna hæfni og traustvekjandi framkomu. Þegar Einar hafði gegnt stöðu deildarstjóra hér hjá IBM I tvö ár, óskaði hann eftir að flytja búferlum til Danmerkur á ný. Tók hann þá við deildarstjórastöðu hjá IBM í Kaupmannahöfn, sem hann gegndi, þar til hann var ráðinn forstjóri Reiknistofu bankanna árið 1973, en þá fluttist Einar alkominn til Íslands.

Því starfi gegndi hann er hið sviplega fráfall bar að. Reiknistofa bankanna  var aðeins til á pappírum þegar Einar réðst þangað. Kom það því í hans hlut að móta starfið frá grunni. Eigendurnir eru margir og því þurfti að samræma margvíslegar þarfir og mörg sjónarmið. Með meðfæddri lipurð og samviskusemi tókst Einari að leysa þetta vandasama hlutverk með miklum ágætum og hefur fyrirtækið unnið sér verðugt traust.

Einar hafði gert margvíslegar áætlanir til lausnar á framtíðarverkefnum, og má segja að þeir sem við taki komi þar að vel plægðum akri. Stórt skarð. er nú höggvið í hina fámennu frumherja stétt íslenskrar tölvutækni og fylgir aukin ábyrgð samferðamönnunum til að halda áfram því starfi sem Einar hefur mótað. Ýmsu er ólokið og margvíslegar áætlanir hafði Einar gert til lausnar á framtíðarverkefnum.

Þróun þeirra verður hann nú að fylgjast með á öðrum sviðum. Einar var meðal maður að hæð, vel limaður og bar sig vel. Lundin létt og brosið hlýtt. Dulur um einkamál, eins og títt er um trausta menn. Leiðir skilja að sinni, en minningin um góðan dreng lifir. Hún er traust og huggun ástvina hans I þeirra miklu sorg. Við hjónin sendum eiginkonu og börnum, okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Góður maður gengur á guðs vegum, hans gata er greið. Far þú i friði, friður guðs þig blessi.

Ottó A. Michelsen.
------------------------------------

 • Deyr fé
 • deyja frændur
 • deyr sjálfur en sama
 • en orðstír deyr aldrei
 • hveim er sér góðan getur.

Elskulegur mágur minn Einar Pálsson lést I bifreiðarslysi 18. júní 1977, aðeins 48 ára að aldri. Mér er tregt tungu að hræra, enda öll orð til einskis gagnvart staðreyndum og lögmálum lífs og dauða. En mig langar til að þakka honum hugljúfa samleið. Alla tíð, frá því ég kynntist honum fyrst sem ungum skóladreng, einkenndi hann drengileg og falleg framkoma.

Hann var einlægur og hjartahlýr og hafði ánægju af því að rétta öðrum hjálparhönd og greiða úr vandamálum samferðamanna sinna eftir mætti. Ég minnist hans siðast þegar ég sá hann þar sem hann lék við lítinn son sinn, barnsleg gleði skein úr augum beggja. Augljós var hamingjan á heimilinu.

Ég bið, að alvaldur guð gefi konunni hans styrk og þrek til að halda áfram á þeirri braut, sem þau voru byrjuð að marka. Börnin hafa mikið misst, því að góður og ástríkur faðir hefur lokið jarðvist sinni. Mættu þau erfa mannkosti föður síns og halda minningu hans þannig á lofti.

Blessuð sé minning hans. Elísabet Hermannsdóttir
----------------------------------------------

Frændi minn og vinur Einar Pálsson lést skyndilega af völdum bilslyss laugardaginn 18. júní.

Það er alltaf mikið áfall þegar góður drengur hverfur á braut svo snögglega og fyrirvaralaust, sem í þessu tilviki. Þó eru áhrifin alltaf sárari, þegar ljúflingur eins og Einar er skyndilega hrifinn brott, maður stendur eftir ráðþrota og dofinn og vitund manns neitar hreinlega að taka svona fregn til greina.

Við Einar þekktumst vel, bæði frá því er við vorum drengir á Siglufirði, þótt ég væri nokkuð miklu eldri, og siðar er störf okkar lágu saman hjá Flugfélagi Íslands. Einnig rækti Einar vel frændsemi sína við föður minn og fjölskyldu, þegar hann var í Menntaskólanum á Akureyri. Var hann nánast eins og einn af systkinum heima og batst tryggðaböndum við okkur. Hin síðari ár voru samfundir okkar ekki eins tíðir, en þó skorti ekkert á einlægnina og vináttuna þegar við hittumst.

Einar var fæddur 9. apríl 1929 á Siglufirði. Foreldrar hans voru Páll Ásgrímsson, föðurbróðir minn, og kona hans Sigríður Indriðadóttir, er Sigríður látin en Páll lifir enn, en heilsan er farin að gef a sig. Einar varð stúdent frá M.A. 17. júní 1950.

Árið 1953 hóf hann störf hjá Flugfélagi Íslands og starfaði hjá F.Í. á Íslandi, i Noregi og Danmörku til ársins 1965. Þá réðist hann til starfa hjá IBM í Danmörku til ársins 1973, tvö af þessum árum var Einar á Íslandi fyrir IBM. Árið 1973 flutti Einar alkominn til Íslands, vann að stofnun og uppsetningu Reikningsstofnunar bankanna og veitti henni forstöðu til þess er hann lést.

Einar átti fjögur börn:

 • Sigrún Einarsdórrir,
 • Stefán Einarsson,
 • Margrét Heiða Einarsdóttir og
 • Einar Örn Einarsson.

Eftirlifandi kona hans er Matthildur Haraldsdóttir. Hjónaband Einars og Matthildar var mjög hamingjusamt og þarf ekki að tíunda þann harm og þann sára missi, sem hún hefur orðið fyrir. Ég þekki hana vel úr starfi mínu hjá F.Í. en þar er hún starfandi flugfreyja.

Ég votta henni sérstaklega og allri fjölskyldu Einars hryggð mína og innilega samúð á þessari erfiðu stund I lífi þeirra. Þótt dauðinn sé bitur og ekkert líf án dauða má þó ekki gleyma þeirri von er felst i því að engin dauð er án lífs.

Jón A. Stefánsson.
---------------------------------------------

Þegar menn á miðjum starfsaldri falla skyndilega i valinn, minnir það okkur áþreifanlega á hversu oft er skammt á milli lífs og dauða. Dauðinn er furðuleg ráðgáta, sem mönnum gengur illa að skilja. Óskiljanlegastur þó, þegar fólk i blóma lífsins er hrifið burtu frá mikilvægu hlutverki.

Kynni okkar Einars Pálssonar hófust er hann kom til Íslands árið 1967, eftir að hafa dvalið nokkur ár í Danmörku, en tvö þau síðustu starfaði hann hjá tölvufyrirtækinu IBM við nám og undirbúning fyrir þann starfsvettvang sem hann síðan helgaði starfskrafta sína. Ekki var dvöl Einars löng hér á landi í það sinn, því hann fór aftur til Danmerkur árið 1969 og hóf störf aftur hjá IBM þar í landi.

Þegar íslensku bankastofnanirnar ákváðu að stofna til sameiginlegrar tölvumiðstöðvar, var það ljóst að árangurinn af þeirri stofnun yrði mjög svo undir því kominn hvernig til tækist með val á forstöðumanni. Til þessa starfs var Einar Pálsson valinn. Aðrir munu bera vitni því frábæra starfi, sem hann þegar hefur unnið þar, og sem svo miklar vonir voru bundnar við að héldi áfram. Leiðir okkar Einars lágu saman i störfum fyrir Skýrslutæknifélag Íslands, en árið eftir að Einar kom heim frá Danmörku var óskað eftir að hann tæki að sér varaformennsku í þeim félagsskap.

Formennsku gegndi hann svo árin 1975—1977, en á síðasta aðalfundi félagsins óskaði hann eftir að vera leystur frá störfum formanns. Vegna eindreginna óska félagsmanna tók hann þó að sér störf varaformanns i núverandi stjórn. Á þessum vettvangi vann Einar mikið og óeigingjarnt starf við að efla fræðslu og kynna nýjungar á sviði gagnavinnslu hér á landi. Nú á undanförnum misserum áttum við Einar Pálsson náið samstarf um sameiginlega hagsmuni þeirra stofnana sem við störfum við. Unnið var að því að taka í notkun ýmsar nýjungar á sviði gagnavinnslu.

Okkur, sem stóðum að þessu starfi, var ljóst að hlutur Einars var mikill og bundum við miklar vonir við áframhaldandi þátttöku hans. Það er þungt áfall í okkar fámenna þjóðfélagi, þegar slíkir hæfileikamenn eru brott kvaddir, langt um aldur fram. Orð mega sín lítils við sviplegt fráfall eiginmanns og föður.

Fyrir hönd okkar sem áttum samstarf við Einar Pálsson á sviði gagnavinnslumála og þeirra starfsmanna Skýrsluvéla ríkisins og Reykjavíkurborgar, sem samskipti áttu við hann, færi ég honum þakkir fyrir samfylgdina og bið eiginkonu hans og börnum blessunar guðs.

Sigurður Þórðarson.