Kristján Sigtryggsson smiður

Mjölnir - 2. tölublað (07.04.1982)

Kristján Sigtryggsson var fæddur á Giljum í Vesturárdal í Skagafirði 27. okt. 1906. Hann lést 11. janúar í vetur, staddur í Reykjavík. Foreldrar Kristjáns voru Sigtryggur Friðfinnsson bóndi á Giljum og Ingibjörg Pálsdóttir kona hans.

Kristján ólst upp í foreldrahúsum, vann það sem vinna þurfti á sveitaheimili, greip í bókband og smíðar með föður sínum og mun snemma hafa þótt handlaginn. Er hann hafði aldur til gerðist hann nemi í húsgagnasmíði hjá Steindóri Jónssyni á Sauðárkróki og setti þar upp verkstæði að námi loknu.

Meðan hann var að læra kynntist hann fósturdóttur Steindórs meistara síns, Aðalbjörgu Pálsdóttur, og kvæntist henni. Aðalbjörg var að nokkru alin upp hjá Steindóri og konu hans, Maríu Pálsdóttur, en foreldrar hennar voru Páll Guðmundsson og Halldóra Stefánsdóttir, sem bjuggu hér á Siglufirði.

Árið 1934 fluttust Kristján og Aðalbjörg til Siglufjarðar, sem þá var einn mesti uppgangsstaður landsins með fjölbreyttu athafnalífi og miklum framkvæmdum. Kristján byggði steinhús við Vetrarbraut, hafði verkstæði sitt á neðri hæðinni en íbúð uppi.

S.R. keyptu seinna þetta hús og höfðu þar efnarannsóknarstofu sína um langt árabil. Á stríðsárunum byggði Sósíalistafélag Siglufjarðar í áföngum eina húshæð fyrir starfsemi sína á lóðinni nr. 10 við Suðurgötu. Hús þetta var að ýmsu leyti af vanefnum gert og félaginu ofviða að byggja á lóðinni eins og skipulag útheimti. Það varð þá að samningum milli þess og Kristjáns, að hann byggði við húsið og tvær hæðir ofan á það.

Hafði hann þar síðan verkstæði sitt meðan hann rak það, en er hann hætti rekstri þess keypti verkalýðsfélagið Vaka hans hluta af húsinu og hefur þar nú skrifstofur sínar og fundaherbergi.

Kristján og Aðalbjörg eignuðust fimm börn.
Eitt þeirra,

  • Páll Kristjánsson, misstu þau á barnsaldri.

Hin fjögur eru:

  • Steindór Kristjánsson bifreiðastjóri á Siglufirði, kvæntur Sæunni Hjaltadóttur.

  • Sigtryggur, framleiðslustjóri hjá Húseiningum hf. á Siglufirði, kvæntur Pálínu Gústafsdóttur.

  • Páll Kristjánsson, sjómaður, kvæntur Halldóru Björnsdóttur, búsettur í Reykjavík, og

  • Ingibjörg Kristjánsdóttir, gift Jóni Björgvinssyni, einnig í Reykjavík.

 Ekki veit ég tölu á barnabörnum og barnabarnabörnum þeirra Kristjáns og Aðalbjargar, en það mun vera allstór hópur af mannvænlegu fólki.

Aðalbjörg lést 15. ágúst 1979.

Kristján Sigtryggsson var ákaflega hlédrægur maður og lítið gefinn fyrir að skipta sér ótilkvaddur af hlutum, sem ekki komu honum beint við. En hann átti hugðarefni, sem hann taldi sér skylt að leggja lið og gerði það af óeigingirni og hollustu við málefnið.

Hann kynntist ungur kenningum sósíalismans, sem vísuðu veg út úr því svartnætti fátæktar, misréttis og úrræðaleysis, sem ríkti á kreppuárunum, gekk í deild kommúnistaflokksins á Sauðárkróki og starfaði í henni og síðar í Siglufjarðardeild flokksins, þar til hún sameinaðist vinstra armi Alþýðuflokksins 1938.

Eftir það mun hann oftast eða alltaf hafa átt sæti í stjórn og fulltrúaráði Sósíalistafélags Siglufjarðar, meðan það starfaði. Hann starfaði einnig nokkuð í Alþýðubandalaginu og var þar hollráður og einlægur félagsmaður, þótt honum sem fleirum þætti yfirbragð þess á stundum í fölara lagi.

Þá starfaði hann um langt árabil að tónlistarmálum hér í bænum; voru það einkum Tónskóli Siglufjarðar og Lúðrasveit Siglufjarðar, sem nutu verka hans.
Og þrátt fyrir hlédrægnina komst hann ekki hjá því að gegna ýmsum borgaralegum skyldum og trúnaðarstörfum. Hann var í stjórnum Iðnaðarmannafélagsins og Trésmiðafélagsins, prófdómari við iðnpróf, sat í nefndum á vegum bæjarfélagsins o.fl. Hann var einn af forgöngumönnum að stofnun Húseininga hf., sat í stjórn þess fyrirtækis meðan það var að komast yfir byrjunarörðugleikana og starfaði síðustu árin í tæknideild þess.

Kristján vann öll sín störf af trúmennsku og vandvirkni, sem ávann honum traust og virðingu. Hann hafði orð á sér fyrir sérstaka vandvirkni og hagleik, enda beygði hann sig alltaf skilyrðislaust undir kröfur hvers þess verkefnis, sem hann tókst á hendur. Smíðisgripir hans urðu traustir, vandaðir og yfirlætislausir, eins og maðurinn sjálfur, sem alltaf efndi það sem hann lofaði og oftast heldur meira. Kristján hafði allt að því ofnæmi fyrir fúski og óvandvirkni.

Mér er minnisstætt þegar tveir annálaðir dugnaðarmenn, hvor í sitt skipti, hættu störfum á verkstæðinu hjá honum og fengu sér aðra atvinnu. Hvorugan þennan mann var hægt að saka um óvandvirkni; hinsvegar létu þeir ekki hvaða smámuni sem voru aftra afköstum sínum.

En það var eins og talsverðu fargi væri af Kristjáni létt þegar þeir hættu; voru þeir þó báðir persónulegir vinir hans. En vandvirkniskröfur þeirra voru ekki jafn skilyrðislausar og hans, og honum var raun að bera ábyrgð á jafnvel smávægilegustu göllum.

Hinsvegar gat breyskur hagleiksmaður, sem átti til að kasta af sér reiðingnum og fara að skemmta sér, þegar mest lá á að koma verkum áfram á verkstæðinu, gengið áratugum saman að vísu starfi hjá Kristjáni, hvenær sem honum hentaði. Þessum línum er ætlað að votta Kristjáni Sigtryggssyni þakklæti mitt fyrir samfylgdina, sem staðið hefur í meira en hálfan fjórða áratug, án þess að valda mér vonbrigðum í eitt einasta skipti. Ég veit, að undir þetta taka þeir, sem eftir eru af gömlum félögum okkar úr samtökum sósíalista á Siglufirði.

Benedikt Sigurðsson.
__________________________________________________________

Smá viðbót ári 2021:

Ég þekkti Kristján Sigtryggsson lítillega, þar sem einn af sonum hans,  Steindór Kristjánsson og ég áttum um tíma nokkra samleið og vináttu. Meðal annars fór hann með mig og konu mína í einskonar brúðskaupsferð í júnímánuði 1954, á fólksbifreið föður hans Studebaker F-168 - 1939 model +/-

Þegar Thorarensen endurnýjaði sýningavélarnar í Nýja Bíó árið 1947, þá keypti hann, fullkomnustu samstæðu búnaðar til bíó sýninga sem á þeim tíma var til í heiminum (að þá var talið), það var RCA Brencet frá Bandaríkjunum, vélar sem notaðar voru allt til loka í Nýja Bíó árið 1999 er bíósýningum var þar hætt, kjörgripir sem voru reglulega uppfærðir, samkvæmt tækniþróun hverju sinni, og heimatilbúnum að hluta-

Þegar Verið var að undirbúa listann yfir fylgibúnað og fleira tilheyrandi, þá var um tvennt að ræða varðandi annan hátalarann sem til þurfti, stóran keilulaga hátalara og hinn algeng tegund bassahátalara 14 tommu af þvermáli. Tvær tegundir voru af aðal hátalaranum, þessum keilulaga. Annar var úr málmi, en hinn sérsmíðaur fyrir RCA úr límdum krissvið. Eindregið í bæklingi var ráðlagt að velja þann sérsmíðaða þar sem hjómgæði hans var meir en þrefalt betri en þessum sem var úr málmi.

En gallinn var sá að hann kostaði margfalt meira en hin tegundin, svo mikið að Thorarensen tók ákvörðun um að velja þann ódýrari, þrátt fyrir eindregin tilmæli pabba annað, hann sem var jú sýningarmaðurinn og myndi sjá um uppsetningu all búnaðarins. Þetta var rétt fyrir helgi, svo pósthúsið sem tæki við pöntuninni frá Thorarensen opnaði ekki fyrr en á mánudag.

Pabbi þekkt Kristján Sigtryggson vel og þekkti til frásagna um snilld hans. Hann fór með bæklinginn til hans, þann tilheyrði vélbúnaði og tilheyrandi og spurði hvort hann gæti smíðað svona og hvað það mundi kosta. Kristján tók upp pípu sína og tóbakspoka, tróð vandlega í pípu sína á meðan hann horfði á teikningu af hátalarakeilunni. Hann kveikti í og fékk sér góðan teig. Spurði svo hvað þetta eigilega væri.

Pabbi útskýrði fyrir honum fyrirbærið og sagði honum frá hversu dýrt þetta væri, kæmi það frá Bandaríkjunum (Kristján var síður en svo hrifinn af USA, eins og lesa má út úr grein Benedikts hér fyrir ofan) - Hann spurði nokkurra spurning og sagði já, auðvitað, þetta ætti að vera auðvelt, en tekur nokkurn tíma. það verður mikið um límingar svo þetta tolli saman án þess að  titra.

Verðið get ég ekki sagt þér nú, ég þarf að skoða það frekar. Pappi hvatti hann til að vera fljótur því að pöntunin færi í póst strax eftir helgina. Ég skal gera það, ég læt þig vita. Á sunnudag kom tilboði í verkið, pabbi ætlaði varla að trúa því þar sem verðið var aðeins undir því verðið í dollurum um reiknað til íslenskar krónu, sem járnkeilan kostaði frá USA fyrir tolla og flutnings.

Pabbi hafði samband við Thorarensen og sýndi honum tilboð Kristjáns, handskrifað á stílabókarblað. hann sleppir pöntuninni á blikkkeilunni og stólaði á Kristján.

Kristján skíðað svo keilna sem í orðsins fyllstu merkingu hnökralaust, hreint meistaraverk. Og var í notkun án þess að nokkuð klikkaði allt til síðast sinn sem gripurinn var notaður árið 1999, er alvöru kvikmyndasýningum lauk á Siglufirði.

Sýningamaður, vinur pabba sem í mörg ár Óskar Steindórsson starfaði í Regnboganum í Reykjavík, heimsótti Siglufjörð og í leiðinni auðvitað í sýningarklefann í Nýja Bíó á Siglufirði, en samskonar vélar voru í Regnboganum.

Tal þeirra vina barst að hljómburðinum, sem hann dáðist af í salnum er hann "fór í bíó" kvöldið áður. Þegar hann sá hátalarann sem Kristján hafði smíðað, en pabbi hafði farið með honum til að skoða gripinn. Þá spurði hann, ",,,,,,og hefur hann aldrei farið að urra þessi" ?
Það hefði sá innflutti og rándýri gert í Regnboganum, þegar hann fór úr límingunum að hluta.

Þannig að hinn snilldar handsmíðaði gripur Kristjáns, stóðst vel yfir, öll gæðamörk, hins rándýra RCA framleidda grips.

Ég leitaði á netinu af sambærilegan grip, en fann ekki, en myndin hér fyrir neðan sýnir svipaða gerð, en hólfin í grip Kristjáns (RCA) voru 9 alls eins og sést innan rauða rammans og lína  sem ég gerði til skýringar, breidd og lengd um ca efir minni. 40 tommur á kant. og 50 tommur ca á dýpt.

Steingrímur Kristinsson,
starfandi sem sýningarmaður í Nýja Bíó í 50 ár, og man vel eftir allri atborðarás, og aðstoðaði föður minn, (handlangari og sendill) þá aðeins 13 ára krakki, við að setja upp búnaðinn árið 1947 -- Og síðar þar með; eigandi Nýja Bíós, ásamt konu og börnum mínum í 13 ár, allt til þess er við seldum hús og tilheyrandi árið 1999.