Kristján Rögnvaldsson skipstjóri

Kristján Rögnvaldsson fæddist á Litlu Brekku á Höfðaströnd hinn 12. ágúst 1931.
Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu hinn 18. apríl 1999.
Foreldrar hans voru Guðný Guðnadóttir húsmóðir og Rögnvaldur Sigurðsson, bóndi í Litlu Brekku. Þau eru bæði látin.

Kristján ólst upp á Litlu Brekku til fimm ára aldurs en fluttist þaðan til Hjalteyrar með móður sinni er faðir hans lést, og þaðan til Siglufjarðar níu ára gamall.
Kristján var ellefti í röðinni af 12 systkinum og af þeim eru fimm á lífi.

Hinn 10. mars 1955 kvæntist Kristján Lilju Jóelsdóttur, f. 27. maí 1931 á Hvoli í Fljótshverfi.
Foreldrar hennar voru Jónína Hólmfríður Jóhannsdóttir, f. á Skógum í Þelamörk, og Jóel Sigurðsson, f. á Hraunbóli á Brunasandi.

Börn Kristjáns og Lilju eru:

Kristján Rögnvaldsson, þarna í brúarglugga á ELLIÐA SI 1

Kristján Rögnvaldsson, þarna í brúarglugga á ELLIÐA SI 1

1) Marteinn Þór Kristjánsson, f. 9. des. 1951, skipstjóri, sölumaður hjá Icedan, kona hans er Ásta Óla Halldórsdóttir, kjólameistari og leiðsögumaður, börn þeirra eru
  • Lilja,hennar dóttir
  • Elísa Mist,
  • Ólafur og
  • Ásta.

2) Páll Reynir Kristjánsson, f. 3. mars 1954, lést af slysförum 7. ágúst 1976.
3) Jóel Kristjánsson, f. 15. janúar 1956, sjávarútvegsfræðingur, framkvæmdastjóri Skagstrendings hf. á Skagastönd, kvæntur Helgu Sigurrósu Bergsdóttur leikskólastjóra, börn þeirra eru:
  • Bergdís,
  • Rebekka og
  • Sindri.

4) Bryndís Hrönn Kristjánsdóttir, f. 10. maí 1958, starfsmaður á dvalarheimili, gift Þórólfi Tómassyni, fulltrúa hjá skattstjóra.
Fósturdóttir þeirra er
  • Sandra.

5) Kristján Kristjánsson, f. 9. febr. 1960, rithöfundur og blaðamaður, sambýliskona Margrét Þorvaldsdóttir kennari, þau eiga þrjá syni:
  • Pál Óskar,
  • Kristján Jóel og
  • Þorvald.

6) Guðni, f. 7. okt. 1963, las sálfræði við Háskóla Íslands og starfar hjá Verkalýðsfélaginu Fram á Sauðárkróki, kvæntur Kristbjörgu Kemp.
Börn þeirra eru:
  • Rakel,
  • Kristján Rögnvaldur, og
  • Matthildur.

7) Jónína Hafdís, f. 30. maí 1965, skrifstofumaður. Sambýlismaður hennar er Guðmundur Magnússon bílasmiður,
dætur þeirra eru
Bára og
Sjöfn.
Dóttir Kristjáns;
Hildur María Pedersen, f. 20. febr. 1952, húsmóðir. Maður hennar er Guðmundur Ármann Sigurjónsson, listmálari.
Börn þeirra eru:
  • Elsa María, á tvö börn;
  • Hildi Þórbjörgu og
  • Kára, Björn,
  • Pétur Már, Ármann og
  • Þorbjörg.
    Fósturmóðir Hildar Maríu Pedersen er Rósa Rögnvaldsdóttir, systir Kristjáns.

Kristján lauk prófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1953 og hóf skipstjórnarferil sinn árið 1956. Hann var m.a. skipstjóri á síðutogurunum Elliða og Hafliða, og skuttogurunum Dagnýju og Sigurey frá Siglufirði. Hann var skipstjóri á b/v Elliða þegar hann fórst 10. febr. 1962.

Árið 1984 tók Kristján við starfi hafnarvarðar á Siglufirði og gegndi því starfi til dauðadags.

Útför Kristjáns fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.
_______________________________________________________________

30. apríl 1999 | Minningargreinar | 305 orð

Kristján Rögnvaldsson Mig langar til að minnast Kristjáns Rögnvaldssonar nokkrum orðum.

Hann var maður sem oft kemur upp í huga minn, sem einn af örlagavöldum í lífi mínu. Kristjáni kynntist ég sumarið 1980, er ég réðst sem háseti á Sigurey SI 71.

Ég vissi auðvitað eins og allir Siglfirðingar hver maðurinn var, en þekkti hann ekkert. Mér var strax ljóst að þar fór enginn meðalmaður. Áratuga reynsla hans sem báta- og togaraskipstjóra kom oft í ljós þann tíma sem ég var með honum á Sigurey og síðar á skipi Hafrannsóknastofnunar Hafþóri RE 40, en Hafþór var sem kunnugt er leigður Þormóði ramma á sínum tíma.

Ég minnist siglinga til Bretlands með bæði ferskan fisk og heilfrystan á Sigurey, þar var greinilegt að Kristján hafði komið áður, þekkti aðstæður og allt gekk fumlaust fyrir sig. Ég minnist þess að við fengum óvenju óklárt troll að nóttu til. Við vorum búnir að eyða drjúgum tíma í að leysa úr flækjunni, þegar Kristján kemur út á dekk og leysti úr málinu á augabragði. Þar kom reynsla hans að góðum notum.

Kristján barst á dögunum í tal milli mín og Gunnars Gunnarssonar, skipstjóra á Svani RE, en Gunnar var með Kristjáni á Von KE, fyrir margt löngu. Hann sagði mér frá því er þeir komu að Siglufirði næstum fullum af ís. Kristján bað um að slökkt yrði á dýptarmælinum og sigldi inn fjörðinn upp undir fjöru. Er þetta til marks um hve kunnugur Kristján var.

Eftir að Kristján hætti skipstjórn starfaði hann sem hafnarvörður á Siglufirði. Það var alltaf gaman að hitta Kristján. Hann var vel inni í flestum málum, kíminn og gefandi. Á mig virkaði hann sérfræðingur í knattspyrnu. Ég held hann hafi kunnað skil á flestum ef ekki öllum knattspyrnumönnum hérlendis sem erlendis sem eitthvað kvað að.

Ég votta þér Lilja, og öðrum aðstandendum samúð mína.

Árni Sverrisson.
______________________________________________________

MBL.IS 30. apríl 1999 | Minningargrenar

Bjarni á Júpiter vann það afrek að finna Elliða og komast að þeim og á síðustu stundu, bókstaflega, bjarga mönnunum sem biðu. Skipbrotsmenninrnir komu heim og sögðu frá og frásagnir þeirra öðluðust líf og lifðu áfram. Löngu síðar heyrði ég frá Siglfirðingum sagnir af þessum atburðum. Þær áttu allar sameiginlegan þráð: Aðdáun og virðingu þeirra manna sem áttu líf sitt undir því að skipstjórinn þeirra brygðist ekki á örlagastundu.

Unglingur kynntist ég Kristjáni í eigin persónu. Fyrst stóð mér ógn af þessum harðleita togarajaxli, frá honum geislaði kraftur og vald. Unglingurinn fann til vanmáttar síns og skildi ekki alveg hvers vegna kvenfólkið í fjölskyldunni talaði svona hlýlega um hann og til hans. Sá skilningur kom þó fljótt við nánari kynni af manni sem átti ríkar tilfinningar og var hlýr og mjúkur undir hrjúfu yfirborðinu. Hann var í rauninni rétt eins og amma mín og hin systkinin, markaður af erfiðri lífsbaráttu frá blautu barnsbeini, alinn upp í bjargfastri trú á hin æðstu gildi lífsins.

Kristján var ekki aðeins togarajaxl, hann var framfarasinnaður og lét sér ekki nægja að bíða þess að aðrir hrintu verkum í framkvæmd. Hann var einn forgöngumanna um að kaupa til landsins fyrsta skuttogarann Dagnýju SI, og var skipstjóri á því skipi. Þannig ruddi hann veginn ef þess þurfti.

Það var á því skipi sem harðasta áfallið reið yfir, Páll sonur hans féll fyrir borð og fórst. Harmur Kristjáns hefur verið stór þá, en hann tók þessu áfalli með reisn. Nú kvaddi Kristján sjálfur og þótt hann væri kominn í land fyrir mörgum árum, þá var fráfall hans óvænt eins og þegar menn farast á sjó. Við erum ekki undir það búin. Kallið kom fyrirvaralaust og snöggt. Eftir er minningin um mikinn mann. Kristján Rögnvaldsson gat sér góðan orðstír sem deyr aldrei.

Ég bið fjölskyldu hans blessunar í sorg sinni.

Þórhallur Jósepsson.
-------------------------------------------------------------

Kristján Rögnvaldsson Kristján Rögnvaldsson, hafnarstjóri á Siglufirði, er fallinn frá, aðeins 67 ára að aldri. Nú á dögum, á öld vísinda og tækni, telst það ekki hár aldur. Manni bregður við þegar góðvinur og skipstjóri til margra ára hverfur burtu svo óvænt. Um morguninn 19. apríl sagði kona hans Lilja, mér frá þessu símleiðis.

Kristján hafði ekki kennt sér meins á nokkurn hátt, en fyrir nokkrum árum gekkst hann undir höfuðaðgerð og hafði náð sér að fullu eftir það. Ég átti því láni að fagna, að kynnast Kristjáni á unga aldri á Siglufirði, þar sem við ólumst saman upp. Tel ég það hafi verið mikið happ fyrir mig að kynnast svo góðum dreng og dugnaðarforki sem Kristján var.

Eins og títt er í sjávarþorpum hneigðist hugur Kristjáns snemma til sjósóknar. Byrjaði hann ungur að árum í sinni starfsgrein, að sækja sjóinn. Á togurum og öðrum fiskiskipum var sóst eftir Kristjáni fyrir dugnað og útsjónarsemi. Hann hafði allt það til að bera sem klætt gat ungan manninn. Stór og myndarlegur, auk þess rammur að afli.

Fljótlega eftir að Kristján hafði lokið námi frá Sjómannaskólanum í Reykjavík var hann orðinn skipstjóri á togaranum "Elliða" ­ þá kornungur að aldri ­ en einmitt þar lágu leiðir okkar saman. Var ég stýrimaður hjá Kristjáni á Elliða þar til hann fórst 10. febr. 1962.

Þá fórum við saman yfir um á togarann "Hafliða" ­ það fellur mér ekki úr minni, þegar við stóðum saman á brúarvængnum á Elliða, hann hélt á línubyssunni, en ég hafði bundið endann af skotlínunni utan um úlnliðinn á mér, til þess að tryggja að við misstum ekki endann frá okkur. En nú reið á að vel tækist til, því þetta var síðasta skotlínan, og ekki til fleiri. Skotið geigaði ekki og lenti á framstagi "Júpiters", björgunarskips okkar.

Svo þar munaði mjóu. Þar skipaði Kristján fyrir af stakri hugprýði og æðruleysi á sökkvandi skipinu.

Okkur var bjargað að undanskildum tveimur félögum okkar, sem fórust þar. Nokkrum árum seinna lenti Kristján í annarri svaðilför. Hann hafði farið til Reykjavíkur til þess að sækja mótorskipið "Fanneyju" og var á heimleið. Voru þeir komnir NA frá Horni þar sem þeir lentu í ís, og leki kom að Fanneyju. Það var kannske kaldhæðnislegt að ég skyldi heyra fyrstur þegar Kristján kallaði út að Fanney væri að sökkva. Í það skiptið fór þannig, að Fanney sökk og allir björguðust af ísnum af tveimur skipum frá Dalvík.

Þá varð Kristján fyrir því sorglega slysi að missa son sinn fyrir borð á Dagnýju. Var það þeim hjónum mikill harmur. Þessi óhöpp í lífi eins manns gætu margir ætlað að væri nóg til að bugast, en það var eins og Kristján harðnaði við hverja raun.

Að starfa með Kristjáni var dálítið sérstakt. Hann var svo þrælkunnugur á fiskimiðum, sérstaklega fyrir Norðurlandi, að ég tel einsdæmi. Hann gat verið einstaklega hnitinn í tilsvörum. Sá sem hafði átt í útistöðum við Kristján út af fiskislóð eða þess háttar, þurfti ekki að kemba hærurnar. Kristján sló hann strax út af laginu og t.d. í netabætingum eða annarri sjóvinnu var hann forkur. Hann var altaf réttlátur og ákveðinn í fasi og kom fram við fólk af virðuleik. Ég held ég geti fullyrt, að þeir sem sigldu með Kristjáni hafi borið honum gott orð. Þá var Kristján einkar raungóður maður og reyndi ég það best sjálfur er ég átti í erfiðleikum.

Kristján var mjög músíkelskur maður, einkanlega hafði hann gaman af söng og þá helst hinna stóru meistara eins og Gigli og Caruso. Mér er það minnisstætt þegar Birgir bróðir minn og Kristján sungu svo hátt að undirtók í húsinu heima. Þá sagði faðir minn einu sinni, en hann var góður söngmaður: "Svei mér þá, ég held að strákarnir verði söngmenn einhvern tímann." Síðar var Kristján kosinn hafnarstjóri á Siglufirði og gegndi því starfi með prýði. Það er vandasamt verk og í mörg horn að líta þegar mörg skip ber að á sama tíma og allir vilja fá afgreiðslu sem fyrst.

Leiðir okkar lágu á mis, en aldrei komum við þannig til Siglufjarðar á skipum Eimskipafélagsins, að maður hefði ekki smátíma til að hittast á hafnarskrifstofunni og taka smáspjall um lífsins gagn og nauðsynjar.

Einu atviki gleymi ég ekki í bráð. En það var sólskinsfagran sunnudagsmorgun á Siglufirði og ekki var verið að vinna um borð, að Kristján kemur um borð til mín og segir: "Heyrðu, ég þarf að sýna þér svolítið, komdu með mér í bílnum." Við héldum síðan af stað, upp Hafnarhæðina, framhjá Steinarflötum, og inn fyrir Skarðdal, síðan upp að "Hansenkofa". Þar stigum við síðan út ­og í litlum ­ en undurfögrum skógarlundi fórum við í gönguferð.

Ég varð aldeilis steinhissa og sagðist hafa haldið að ekki væri til eitt einasta tré á Siglufirði. En þá svaraði Kristján: "Bæði þú og ég gróðursettum einmitt þessi tré sem ungir strákar, undir stjórn Jóhanns Þorvaldssonar skólastjóra." Og nú sást árangurinn. Við sátum síðan saman á bekk, spjölluðum saman um gamla daga allnokkra stund í Siglfirskum skrúðgarði.

Því næst var haldið heim til Kristjáns, þar sem hin mikla hannyrðakona Lilja, eiginkona Kristjáns, tók á móti okkur með góðgerðum. Þar létum við líða úr okkur um stund og ógleymanlegum degi var senn lokið.

Ég lýk svo þessum skrifum um vin minn Kristján Rögnvaldsson um leið og ég sendi eiginkonu hans og börnum og öðrum ættingjum innilegar samúðarkveðjur um góðan dreng. Ég ætla að láta Þórarin Hjálmarsson (Tóta Hjálmars) um síðustu orðin:

  • Und lífsins oki lengur enginn stynur,
  • sem leystur er frá sínum æviþrautum.
  • Svo bið ég Guð að vera hjá þér, vinur,
  • og vernda þig á nýjum ævibrautum.


Axel Schiöth.
_________________________________________________________________

Kristján Rögnvaldsson Fallinn er frá langt um aldur fram Kristján Rögnvaldsson, skipstjóri með stóru eSSi. Ég átti þess kost að vera honum samskipa um tveggja ára skeið um borð í Dagnýju SI 70. En löngu áður en það varð vissi ég að Kristján var pabbi þeirra Matta, Palla og Jóa sem bjuggu á Hverfisgötunni. Alltaf beið maður með eftirvæntingu á gamlárskvöld eftir því að Kristján fýrði upp skiparakettunum, en á þessum árum mátti sjá það á himninum yfir Siglufirði hvar skipstjórar stóru skipanna bjuggu.

Og við bjuggum svo vel að Kristján var í okkar hverfi og hann var líka brennustjóri fyrir okkar brennu. Á haustin bauð Lilja svo okkur strákunum úr hverfinu í sviðalappaveislu sem enn er í minnum höfð fyrir gleði og kátínu og ekki síst fyrir hvað límkenndar lappirnar festust við okkur strákana. Fjölskyldan stækkaði og fluttist svo upp úr 1960 á Laugarveginn en það var innan hverfisins svo ekki slitnuðu vináttuböndin.

Þarna bættust við Binna, Kristján, Guðni og Jónína. Sjö börn á þrettán árum og Kristján stundaði sjóinn af kappi meðan Lilja stjórnaði heimilinu af alkunnri röggsemi. Erfiðleikarnir eru til að yfirstíga þá, mun bóndinn hafa sagt við húsfreyju á ögurstundu og reyndist það allt saman rétt. Árið 1962 mátti Kristján horfa á eftir togaranum Elliða hverfa í djúpið og með honum tveir skipverjar.

Enn sekkur skip undir hans stjórn þegar Fanney SI sekkur úti fyrir Norðurlandi, en þá varð mannbjörg. Sárasta reynslan hefur samt verið að horfa á eftir syninum Páli hverfa fyrir borð án þess að nokkuð væri hægt að gera. Þessi svipmikli, stóri maður varð minn skipstjóri á Döggunni 1972. Þar endurnýjuðum við gamlan kunningsskap úr hverfinu forðum og mér fannst nærvera hans bera með sér óbilandi traust.

Orðum hans var aldrei mótmælt, þau voru lög. Ein mynd stendur upp úr í minningunni um Dagnýjar-veruna: Við erum á stími á spegilsléttum sjó á heimleið. Við erum tveir í brúnni. Það er eins mikil dauðakyrrð og getur orðið um borð í einu skipi. Hann er að flauta lagið um Dagnýju eftir Sigfús og Tómas.

Allar minningarnar um borð í Döggunni renna saman í þennan eina punkt er sumarið kom yfir sæinn/og sólskinið ljómaði um bæinn/og vafði sér heiminn að hjarta/ég hitti þig ástin mín bjarta. Þeir hittast nú fyrir hinum megin, feðgarnir, og taka saman eina skák eða tvær og verða þar fagnaðarfundir. Ég sendi Lilju og systkinunum sex samúðarkveðjur.

Gunnar Trausti.
_____________________________________________________________

Frá þessum tengli HÉR 

Má lesa um tvö dæmi sem lýsa Ktistjáni vel. Það er, þegar ég drullu sjóveikur, var hjáparkokkur á Elliða SI 1 og hann á þeim tíma 1. stýrimaður --
Í aprílmánuði, árið 1955.

Hann, Kristján Rögmnvaldsson, athugull og hjálpsamur og tillitssamur.

Steingrímur KristInsson