Pálína K. Guðjónsdóttir

Morgunblaðið - 22. júlí 1990

Pálína Guðjónsdóttir - Minning Fædd 29. desember 1925. Dáin 2. júlí 1990

Fædd í Reykjavík, 29. desember 1925.
Foreldrar: Magnúsína Jóhannsdóttir, húsmóðir, f. 22. ágúst 1904, d. 13. júní 1974, og Guðjón Helgi Kristjánsson, vélstjóri, Siglufirði. f. 22. mars 1901, d. 20. október 1962

(áður búsett á Siglufirði)

  • Hinn bjarti dagur dvínar,
  • en dimman þokast nær
  • Í hjálpar hendur þínar,
  • vor herra Jesú kær,
  • vér viljum fúsir falla,
  • í friði hvíld oss bú:
  • Vér felum oss þér alla
  • í elsku von og trú.
    (Þ-Þ.)
Pálína Guðjónsdóttir - ókunnur ljósmyndari

Pálína Guðjónsdóttir - ókunnur ljósmyndari

Með þessum orðum vil ég minnast elskulegrar vinkonu minnar, Pálínu, en hún var gift fóðurbróður mínum, Runólfi Elínussyni. Pálína var elst þriggja dætra hjónanna Magnúsínu Jóhannsdóttir og Guðjóns Helga Kristjánssonar. Systur Pálínu eru Rósa og Erla. Það er útilokað að skrifa um allar góðu minningar sem maður á um Pálínu, svo ég ætla bara að stikla á stóru í þessari grein.

Pálína giftist manni sínum, Runólfi Elínussyni, fyrir tæpum fjörutíu árum. Pálína kynntist honum á Vífílsstöðum, þar sem þau voru bæði sjúklingar.

Hjá þeim ólst upp

Sigurhanna Óladóttir,
dóttir Pálínu, einnig átti hún son,
Óla Inga, en hann var ættleiddur.
Sigurhanna giftist dönskum manni að nafni Max og áttu þau þrjú börn saman.
Elst þeirra er
  • Runólfur Hilmar, svo
  • Aníta og yngst er
  • Pálína Benedikta.

Sigurhanna hefur búið í Birkirod í Danmörku síðastliðin tuttugu ár og börn hennar búa einnig í Danmörku.

Síðasta sumar kom svo Pálína nafna hennar í heimsókn til Íslands ásamt unnusta sínum og bjuggu þau hjá Pálínu og Runólfi. Gladdi það Pálínu ákaflega mikið, en Aníta kom - núna í sumar ásamt sínum unnusta og bjuggu þau líka hjá Pálínu og Runólfi. Pálína starfaði mikið fyrir Sjálfsbjörg, fyrir hver jól unnu þau hjónin bæði mikið við að safna dóti á hinn árlega jólabasar Sjálfsbjargar, einnig vann hún á basarnum sjálfum.

Og alltaf er Sjálfsbjörg gaf út happdrættismiða þá voru þau hjónin bæði við að selja þessa miða. Hún var alla tíð boðin og búin að hjálpa þeim sem til hennar leituðu, enda mjög greiðvikin kona. Oft hef ég komið í matarveislu til þeirra hjóna og var maturinn alveg • frábær, enda var hún listagóður kokkur. Ég sendi Runólfi mínar innilegustu samúðarkveðjur. Ennfremur dóttur og syni hennar, barnabörnum, systrum og öðrum skyldmennum.

Ragna Kristin Guðmundsdóttir
------------------------------------------

Pálína K. Guðjónsdóttir -

Fædd 29. desember 1925 Dáin 3. júlí 1990 Elskuleg vinkona okkar, Pálína Kristjana, lést á miðju sumri, langt um aldur fram, en í dag, 29. desember, hefði hún orðið 65 ára. Hægt og hljótt kvaddi hún þennan heim, en í fjölmörg ár höfðu langvarandi veikindi dregið smátt og smátt úr þreki hennar uns yfir lauk. En aldrei minntist hún á, að hún gengi ekki heil til skógar.

Hún var borin og barnfædd í Reykjavík, 29. desember 1925, dóttir hjónanna Magnúsínu Jóhannsdóttur og Guðjóns Helga Kristjánssonar vélstjóra.

Ung að árum fluttist hún til ömmusystur sinnar, Jóhönnu Hallgrímsdóttur, og manns hennar, Júlíusar Þorsteinssonar á Bergstaðastræti 41, en þau tóku hana sér í dóttur stað, var sem augasteinn þeirra og ólst hún upp í skjóli þeirra til fullorðinsára. Pálínu verður lengi minnst fyrir störf í þágu þeirra sem hjálpar þörfnuðust og sannaðist það best í störfum hennar fyrir Sjálfsbjörg, félag fatlaðra. Voru ófáar þær vinnustundir sem hún varði til eflingar starfseminni.

Kom þar glögglega í ljós mannleg reisn hennar. Samúð í garð þeirra sem vegna fötlunar gátu ekki staðið jafnuppréttir sem aðrir var ekki í orði heldur á borði og taldi hún þá ekki eftir sér að dvelja langtímum saman í óupplituðum bílum við opinn gluggann í nepjunni á jólaföstunni og selja happdrættismiða til eflingar líknarstarfs þessara merku samtaka. Var hvergi slegið af þótt heilsan væri ekki alltaf upp á það besta. Pálína fylgdi Sjálfstæðisflokknum að málum og fór hvergi dult með.

En jafnframt því var Pálína í hjarta sínu mikill jafnaðarmaður í þess orðs bestu merkingu og þá voru það verkin sem töluðu, ekki bara orðin tóm, „res, non verba", eins og störf hennar að líknarmálum sönnuðu. Það fór því ekki hjá því að Pálína eignaðist fjölda vina, ekki síst meðal þeirra, sem hjálpar voru þurfi, og kom það enda berlega í ljós við útför Pálínu frá Dómkirkjunni, því hver bekkur var þéttsetinn þakklátum vinum. Málshátturinn „vinur er sá er til vamms segir" kemur fljótt upp í hugann þegar nafn Pálínu ber á góma. Hún kom jafnan til dyranna eins og hún var klædd, var hrein og bein og laus við allt fals og ætlaðist til þess af öðrum, að sá hin sami klæddi ekki orð sín dulargervi eða segði hálfan sannleikann.

Það gefur augaleið að slík persóna var ekki allra og er okkur ekki grunlaust um^ að sumir hverjir hafi allt að því óttast hana á stundum, því hún talaði hreint út og dró hvergi undan ef viðmælandi hennar hafði eitthvað óhreint í pokahorninu. Að geta komið svona hreint fram er engum öðrum kleift en miklum mannþekkjara, en það var hún svo sannarlega.

Sjaldan var Pálínu svo getið að ekki væri um leið minnst á eiginmann hennar, Runólf J. Elínusson frá Heydal, því svo samhent voru þau í einu og öllu alla þeirra hjúskapartíð. Hún giftist honum 28. Júní 1953. Bjuggu þau fyrstu hjúskaparárin á Bergstaðastrætinu, en allt frá 1970 var heimili þeirra í Skipasundi 6. Við bjuggum um hríð steinsnar þaðan og eignuðumst þá vináttu hennar, sem var gagnkvæm og án fölskva.

Fyrir það erum við afar þakklát. Pálína stendur okkur ljóslifandi fyrir hugskotssjónum og svo mun verða um langan aldur.

Blessuð sé minning hennar. Ólafía og Friðrik