Magnús Þorláksson vélstjóri

Morgunblaðið - 13. maí 1976

Magnús Þorláksson — Minning

Fæddur 2. apr. 1903. Dáinn 30. mars 1976.

Magnús Þorláksson er dáinn. Mig óraði ekki fyrir, að þetta yrði síðasti bíltúrinn okkar saman í þessu lífi, þegar ég og konan hans fórum með hann á flugvöllinn, þegar ferðinni var heitið á sjúkrahús í Reykjavík. Hann var glaður og reifur að vanda. Magnús var lífsglaður maður, hlýr og kátur i hópi vina sinna og félaga, umhyggjusamur og fórnfús heimilisfaðir og sérstaklega barngóður.

Magnús kvæntist eftirlifandi konu sinni Guðnýju Stefánsdóttur árið 1932. Hjónaband þeirra var mjög farsælt og þau mjög samrýmd alla tíð. Þetta ætti ég best að vita, sem dvaldi sem leigjandi í húsi þeirra um árabil.
Magnús og Guðný eignuðust einn son,

Magnús Þorláksson

Magnús Þorláksson

Viðar Magnússon rafvirkja, sem nú er búsettur í Alaska.
sonur hans:

Það var mikið áfall fyrir Magnús heitinn, þegar sonar-sonur hans, Magnús Sævar, lést af slysförum hinn 7. mars 1976.
Magnús Sævar dvaldi oft hjá afa sínum og ömmu á yngri árum, og eftir að hann stækkaði, leitaði hann ætíð þangað skjóls og aðhlynningar, enda kærkominn í heimsókn hvenær sem var.

Þessi sonarmissir var mikið áfall fyrir Viðar, sem kom um langan veg, til að fylgja honum til grafar.

Skömmu seinna fylgdi hann einnig föður sínum hin sömu spor. Guðný hefur þó misst allra mest. Eiginmanninn eftir 44 ára farsælt hjónaband. Sonarsoninn eftir 22 ára samveru, og svo að verða að sjá á bak þessu eina barni sem nú er farið til annarrar heimsálfu.

Magnús Þorláksson var vélstjóri að mennt og stundaði lengi sjómennsku framan af ævi. Mörg hin seinni ár var hann verkstjóri í ,,Dr. Paul" verksmiðjunni á Siglufirði, elstu síldarverksmiðju staðarins. Magnús var mjög laghentur maður, allt lék í höndum hans, hvort sem um var að ræða lagfæringu á bílum eða öðru sem viðkom vélum.

Oft var hann búinn að lagfæra bílinn minn og finnst mér vel viðeigandi að ég flytji honum kveðju þessa fararskjóta, sem við þremenningarnir vorum búin að ferðast svo oft í. Það og annað mun aldrei verða þakkað sem skyldi, en ef Guð lofar mun ég reyna að veita konu hans þann styrk og þá hjálp, sem ég get i té látið í hennar sára harmi. Ég, sem þessar línur rita, leit á Guðnýju og Magnús sem mína aðra foreldra.

Ég hefi dvalið hjá þeim i full 17 ár og hafa þau reynst mér sem einstakar manneskjur. Það var i ágúst í fyrra, að þau fóru til Danmerkur að heimsækja Jens Guðmundsson, sem er þar giftur og búsettur en hann er að nokkru leyti alinn upp hjá Magnúsi og Guðnýju og leit á þau sem foreldra sína. Þetta var mjög ánægjulegt ferðalag. Jens keyrði þau síðan til Bergen, því þar býr systir Magnúsar heit., Kristín að nafni, og er hún búin að búa þar lengi.

Þau Kristín og Magnús voru mjög samrýnd, þótt allt of fá tækifæri fengju þau til samfunda. önnur systir hans, Stefanía, er búsett á Sauðárkróki og hefir alla tíð átt við einstaka heimiliserfiðleika að stríða þar sem tvær dætur hennar hafa verið mikið fatlaðar frá unga aldri. Það var hennar mesti styrkur að f á bróður sinn og mágkonu í heimsókn, þá var nú slegið upp í bókinni „glaðværð og kátína" og hún lesin allan tímann, sem staðið var við.

Þessar stundir veittu Magnúsi heitnum ekki minni gleði en systrum hans og dætrunum. Ég vil að lokum flytja þeim Stellu Guðmundsdóttur frændkonu Magnúsar og manni hennar, Pálma Gíslasyni, innilegar kveðjur og þakkir fyrir allt sem þau gerðu fyrir hann á meðan hann dvaldi á Landspítalanum. Guðný biður fyrir kveðjur og þakkir til þeirra fyrir aðhlynningu við sig og son sinn i veikindum Magnúsar.

Guð blessi þau fyrir það. Svo sendi ég Guðnýju mínar innilegustu samúðarkveðjur, einnig Viðari, systkinum hins látna og öðrum vandamönnum. Ég þakka Magnúsi langa og trygga vináttu og alla hans ómetanlegu hjálpsemi. Við hittumst seinna handan móðunnar miklu. Drottinn gefi dánum ró, en hinum líkn sem lifa. Blessuð sé minning þessa góða manns.

Aðalheiður Rögnvaldsdóttir. Siglufirði.