Tengt Siglufirði
Friðrik Sveinsson - Vegir skiljast fyrr en varir. — Svo mun mörgum hafa fundist, þegar sú sorgarfregn barst, að Friðrik Sveinsson væri dáinn. — Hann var til grafar borinn frá Siglufjarðarkirkju þann 8. júní, að viðstöddu fjölmenni. Friðrik heitinn var Siglfirðingum að góðu kunnur, sakir drengskapar og prúðmennsku í sambúð og starfi.
Hingað fluttist hann ungur að árum, og hér starfaði hann sín þroska- og fullorðins ár, oft að ábyrgðarmiklum störfum. Síðustu 10 árin var hann fastur starfsmaður i lögreglunni hér, en hafði þrisvar áður starfað í lögreglunni um stundarsakir. Lögreglu þjónsstarfið er stundum erfitt og óvinsælt, og þurfa þeir sem því gegna að eiga lipurð og skýra dómgreind til að bera ef vel á að fara.
Kosti lögregluþjónsins átti Friðrik heitinn, því hann var sérstaklega vel liðinn í starfinu, og, naut fyllstu virðingar samborgaranna í því. Hjá honum fór saman drengskapur og prúð framkoma, er léttu honum störfin og öfluðu honum virðingar og vinsælda. Friðrik var fæddur 31. júlí 1901 að Hólakoti á Höfðaströnd. Hann var því á besta aldri, eða aðeins 49 ára, þegar hann féll frá. —
Hingað fluttist hann með foreldrum sínum, Gunnhildi Sigurðardóttur og Sveini Sveinssyni árið 1913. Voru systkinin 9, en eru nú ekki nema 4 á lífi. Gunnhildur er einnig látin.
Árið 1927 giftist Friðrik Guðrúnu Jónsdóttur frá Vestimannaeyjum, en missti hana 1937. Aftur kvæntist hann 1940, Jónu Þorbjarnardóttur frá Vestmannaeyjum, en hún lést 1950, eftir þunga vanheilsu. Börn hans eru 5, og eru börnin af seinna hjónabandinu enn mjög ung.
Af framansögðu sést því, að Friðrik heitinn fór ekki varhluta af sorg þessa lífs og ástvinamissi, þar sem hann missti báðar konur sinar, 4 systkini og móður á mjög skömmum tíma. Slíkt reynir á andlegt þrek hvers sem fyrir því verður, en Friðrik bar ekki tilfinningar sínar utan á sér til sýnis, en þó var hann sérstaklega tilfinningaríkur og skilningsgóður á hugarástand þeirra, sem báru sorg og erfiðleika þessa lífs.
Sínar eigin sorgir bar hann einn og karlmannlega fyrir augum heimsins. Nú er Friðrik Sveinsson dáinn, að okkar dómi allt of snemma, en vegir Drottins eru okkur mönnunum órannsakanlegir. Sár harmur er kveðinn að börnum hans og öðrum ástvinum, en við dauðann þýðir ekki að deila.
Minningarnar um góðan föður og bróður dagfarspúðann drengskaparmann, lifa í hugum ástvina og samferðamanna og lýsa fagurlega í húmi saknaðarins. Gróðrarmáttur júní-hlýindanna í byggðarlaginu, þar sem hann lifði og starfaði, breiðir rósahjúp sinn yfir sængina hans hljóðu, í hliðinni fyrir ofan bæinn, en trega klökkir hugir vina og vanda manna fylgja anda hans á leið til birtunnar fyrir handan hafið, sem við öll leggjum einhverntíma út á.
Blessuð sé minning hans. K.