Magnús Pálsson

Einherji - 1962 - KVEÐJUORÐ

Magnús Pálsson lést að heimili dætra sinna, Hvanneyrarbraut 34, þann 6. maí 1962, tæpra 79 ára.(f. 1883)  Þegar ég frétti lát þessa gamla sveitunga míns og vinar, kom í huga minn skýrar myndir frá bernskudögum mínum. Fyrir um það bil 45 árum síðan, er ég var sveinstauli í föður garði, voru roskin hjón í húsmennsku hjá foreldrum mínum.

Hjón þessi voru Guðrún Magnúsdóttir og Páll Björnsson, foreldrar Magnúsar. Bæði höfðu þau til að bera einhvern sérstakan persónuleika, hlýjan og fagran, sem ungum dreng gleymist aldrei. og er nú í hugskotinu sem sólbjört minning. — Þetta voru foreldrar Magnúsar, og frá þeim hlaut hann í vöggugjöf þessa góðu og fögru eiginleika, er gera manninn eftirminnilegan.

Magnús fór ungur í Hólaskóla og lauk þaðan prófi 1905. Hóf hann þá búskap ókvæntur og tók til sín foreldra sína. Þremur árum síðar fluttist hann að Grund í Svarfaðardal og tók þar við búsforráðum og gekk að eiga heimasætuna þar, Þórunn Sigurðardóttir. Bjuggu þau síðan á Grund í 18 ár.

Magnús Pálsson

Magnús Pálsson

Þá fluttust þau vestur í Brimnes í Skagafirði og bjuggu þar nokkur ár, en 1929 fluttist Magnús til Siglufjarðar með fjölskyldu sína og dvaldi hér til æviloka, nema hvað hann bjó nokkur ár, ég held 5, að Móskógum í Fljótum. Konu sína, Þórunni, missti Magnús 1951, og bjó síðan lengst af hjá dætrum sínum. —

Fyrst eftir að Magnús kom til Siglufjarðar, tók hann þátt í útgerð, en hvarf síðan frá því og gerðist starfsmaður S. R., og var það lengst af síðan, meðan heilsa entist.

Þau hjónin, Þórunn og Magnús, eignuðust 13 börn, er öll komust til fullorðinsára, og eru nú búsett hér í Siglufirði. Eina dóttur sína, Friðrikku, misstu þau uppkomna. Það er mikið dagsverk að koma til manns 13 börnum, (ath sk: Björn Magnússon einn af sonum hans) en það leystu þau hjón af hendi með prýði eins og annað. Og nú er hér í Siglufirði fjölmennur hópur afkomenda Magnúsar og Þórunnar frá Grund, stór hópur, sem hefur hlotið að erfðum hina hlýju fegurð, arfleifð úr Svarfaðardal.

Svarfaðardalur er vinaleg og fögur sveit. Þar ólust upp fyrir og um síðustu aldamót margir atorkusamir vormenn. Magnús var einn þeirra. Nú eru þeir óðum að týna tölunni. Og Magnús er horfinn. En minningin lifir, þótt maðurinn hverfi, og minningin um hina Svarfdælsku vormenn er björt og hlý.

Jóhann Þorvaldsson.