Salbjörg Jónína Jónsdóttir

Mjölnir - 09. desember 1966   - Minningarorð

Salbjörg Jónsdóttir -- Þann 18. október sl. lést í Sjúkrahúsi Siglufjarðar frú Salbjörg Jónsdóttir, Norðurgötu 17. Hafði hún átt við langa vanheilsu að búa tvö síðustu árin. Hún fæddist 16. sept. 1897 að Vémundarstöðum í Ólafsfirði.

Eins árs að aldri fluttist hún með foreldrum sínum að Bakka í Fljótum. Til Siglufjarðar kom hún er hún var á fermingaraldri og hefur verið búsett hér síðan. 22. desember 1923 giftist hún eftirlifandi manni sínum, Magnús Magnússon frá Gili í Öxndal.

Eignuðust þau þrjú börn,

  • Vigdís Magnúsdóttir, búsetta í Bolungarvík og
  • Jóhann Magnússon og
  • Kristín Magnússon, sem bæði eru búsett á Suðurlandi.
    Þá ólu þau upp dótturdóttur sína,
  • Magna Salbjörg Sigbjörnsdóttir og gengu henni í foreldrastað.
Magna Sigbjörnsdóttir og amma hennar, Salbjörg Jónsdóttir

Magna Sigbjörnsdóttir og amma hennar, Salbjörg Jónsdóttir

Maki Mögnu er Ómar Möller. Þau eru búsett hér á Siglufirði og hefur reynst þeim sönn stoð í ellinni.

Mig langar til að minnast þessarar ágætu konu og kveðja hana með örfáum orðum. Ég kynntist henni fyrst eftir að ég fór að starfa í Verkakvennafélaginu Brynju. Hún var ein þeirra kvenna sem aldrei lét sig vanta á félagsfundi þar, meðan heilsa hennar leyfði, og alltaf var hún reiðubúin, þegar til hennar var leitað, að leggja sitt lið í félagsins þágu.

Hún var ætíð glöð og létt í lund, og hógvær í allri framkomu, þannig að maður bar ósjálfrátt hlýhug í brjósti til hennar, og leið vel í návist hennar. Hún var ein af stofnendum Verkakvennafélagsins Brynju, og var áður félagskona í Verkakvennafélaginu Ósk, sem var hið róttækara af félögunum tveimur sem sameinuðust þegar Verkakvennafélagið Brynja var stofnað.

Í Sósíalistafélagi Siglufjarðar var hún frá byrjun og var þar ásamt manni sínum ein af þeim trausta stofni sem aldrei lét haggast í viðleitninni fyrir bættum kjörum alþýðunnar. Með henni er gengin ein af hetjum hversdagslífsins, ein alþýðukonan, sem barst lítt á, en vann störf sín í hljóði, í þágu heimilis og barna.

Mér er það ljóst, að ég þekkti Salbjörgu heitna ekki til fulls og því hlýtur með þessum fáu orðum mínum að vera margt ósagt um ævi hennar og mannkosti, enda tilgangurinn sá einn að votta henni látinni virðingu mína og þökk fyrir samstarf og góða viðkynningu.

Blessuð sé minning hennar. G.A.

Magnús Magnusson og Salbjörg Jónína Jónsdóttir

Magnús Magnusson og Salbjörg Jónína Jónsdóttir